Færsluflokkur: Bloggar
Þjóðfundurinn búinn og Kostur opnaður.
14.11.2009 | 20:32
Þá er þjóðfundurinn búinn, og búið að opna Kost. Og nú er spurningin, breytir þessi fundur einhverju? Eða heldur allt áfram afturábak eins og áður, með þessari eins dags tilbreytingu fyrir þá sem þátt tóku. Og af því að þjóðfundinn ber upp á sama dag og annan viðburð, opnun nýrrar matvöruverslunar, Kosts, verður líka gaman að sjá hvor þessara viðburða skiptir almenning meira máli þegar frá líður. Eða hvort hvorugur viðburðurinn skiptir nokkru máli. Mig langar nú reyndar til að vera dálítið jákvæður og bjartsýnn og vona að báðir þessir viðburðir dagsins skipti máli þegar frá líður. En ég ætla nú samt hvað sem allri jákvæðni og bjartsýni líður að vera raunsær og gera mér grein fyrir því að góðir hlutir gerast hægt ef þeir gerast á annað borð. Þannig að tíminn mun leiða þetta í ljós. En það er samt engin ástæða til að slaka á.
Ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum með þjóðfundinn og helstu niðurstöðu hans, ég átti að vísu von á þessari niðurstöðu eins og ég spáði í bloggi í gær, en átti líka von á að á fundinum rynni upp fyrir fólki hvað það er mikilvægt að læra af reynslunni, læra af mistökunum. Það eru mér vonbrigði að þjóðfundarfulltrúar skuli ekki hafa áttað sig betur á þessu. Að mínu mati gjaldfellir þessi yfirsjón þjóðfundarfulltrúa samkomuna dálítið. En annars virðist þetta hafa verið skemmtileg samkoma og gott mál í sjálfu sér. Og svo er víst heilmikil úrvinnsla eftir og eftirfylgni.
En Kostur hefur opnað og fékk góða aðsókn og viðtökur hjá þeim sem mættu fyrsta daginn. Þar kemur fljótt í ljós hvort viðtökurnar verða góðar til frambúðar eða ekki. Áhrif Kosts munu verða ljós miklu fyrr en áhrif þjóðfundarins, það er kostur. Ég held hins vegar að það sem ræður framtíð Kosts nánast alfarið sé verðlagning verslunarinnar, að vörurnar kosti sem minnst. Nú er skuldastaða Haga sem á marga samkeppnisaðila Kosts þannig að þeir eiga þess varla kost að undirbjóða Kost, það er kostur fyrir Kost, þannig á Kostur kost á að plumma sig í samkeppninni án þess að keppinautarnir eigi kost á að beita Kost bellibrögðum. Hins vegar er það ókostur fyrir keppinautana ef Kostur getur hreiðrað um sig á þessum markaði vegna erfiðrar skuldastöðu keppinautanna þannig að kannski velja þeir samt hinn kostinn að reyna kostnaðarsamt verðstríð við Kost. En það mun þá kosta neytendur helling því nú eru keppinautar Kosts margir fjármagnaðir af skattfé og útlit fyrir að móðurfyrirtækið Hagar þurfi að fá verulegar afskriftir á kostnað skattgreiðenda. Fyrir keppinauta Kosts er því enginn góður kostur í samkeppnisstöðunni við Kost.
En nóg um þetta allt saman. Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu.
![]() |
Fólk logandi af áhuga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Easy money er vont mál.
14.11.2009 | 19:35
![]() |
Sviknir um peningagjafir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fall er fararheill.
14.11.2009 | 16:59
![]() |
Tekið á móti viðskiptavinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vatn á tunglinu - og hvað svo?
14.11.2009 | 11:19
![]() |
Vatn finnst á tunglinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur til lukku.
14.11.2009 | 10:47
![]() |
Opnun Kosts seinkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Þetta á eftir að skila sér margfalt til baka síðar.
14.11.2009 | 10:37
Þessi fyrirsögn er nú nokkurn veginn orðréttur frasinn sem Alfreð Þorsteinsson notaði alltaf til að afsaka öll ævintýrin sem hann stóð fyrir hjá OR. Á vissan hátt reyndist þetta rétt hjá honum, eða næstum því rétt, þetta er allavega að koma OR í koll núna af miklum þunga.
En það eru þó jákvæð tíðindi að núverandi forstjóri OR gerir sér grein fyrir vandanum og viðurkennir hann. Það er allavega ekki sami gorgeirinn þar eins og hjá viðskiptaráðherra sem sagði einhvern tíma á þá leið að meiri skuldir fyrir ríkið séu ekkert mál, þær séu alveg viðráðanlegar. Og sá maður sagði líka að hrunið væru bara tölur á blaði, ekkert mál.
Það er nú alltaf fyrsta skrefið að viðurkenna vandamálin. Þeir sem gera það eru tvímælalaust mun hæfari í sínum störfum en þeir sem stöðugt berja hausnum við steininn og tala út og suður eins og ekkert sé að. Fyrr en vandamál hafa verið viðurkennd eru engar líkur á að tekið verði á þeim. Ég veit að staða OR til að taka á þessu er ansi þröng. Þeir hafa sjálfsagt bara um þrennt að velja, að hætta að eyða út og suður, að hagræða í rekstri og að hækka gjaldskrána. Það er ljóst af orðum Hjörleifs að hann vill hætta að eyða út og suður. Það þykir mér benda til að Hjörleifur hafi yfirsýn yfir málið og ég ætla því bara að vona hans og okkar allra vegna að hann geri það sem hann getur til að OR standi í lappirnar áfram, þó það verði erfitt.
Það væri svo gaman að fá meiri upplýsingar um afstöðu forstjórans til ýmissa útrásartengdra mála sem hafa verið í umræðunni varðandi OR upp á síðkastið.
Og af því mér finnst ég skrifa frekar jákvætt um forstjóra OR, Hjörleif Kvaran, sem er á skjön við skammirnar sem ég er vanur að senda fólki, þá vil ég taka fram að ég er ekki á nokkurn hátt hagsmuna-, ættar-, vina- eða flokkstengdur honum. Bara virði það að hann virðist taka sitt starf alvarlega.
![]() |
Hætta á greiðslufalli OR |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skuldir heimilanna - Fara sýslumenn að lögum? - Ég á nú eftir að sjá það.
14.11.2009 | 09:33
Skyldi nú ríkið hafa í sér manndóm til að fara að lögum og endurgreiða ólöglega innheimt og oftekin gjöld? Ég á nú eftir að sjá að það verði. Þarna hefur verið staðfest fyrir hæstarétti að sýslumenn landsins hafa brotið lög samfellt í um 30 ár. Af greininni má skilja að það sé strax farið að þvæla málið á þann hátt að láta fyrnast yfir sem mest af þessu svo menn komist upp með lögbrotið. Þannig er nú tekið á þeim sem lenda í fjárhagsvanda, ríkið stelur af þeim og snýr svo út úr þegar upp um þjófnaðinn kemst. Og nú er búið að berja lengi á skuldurum og auka þeirra vanda með ólöglegri gjaldtöku sýslumanna. Verða ekki heimilin og smáfyrirtækin meðhöndluð akkúrat svona í þeirra viðamikla vanda núna? Eru ekki lausnirnar sem eru boðnar meira og minna plat og svindl sem þjóna frekar hagsmunum bankanna og ríkisins en íbúum heimilanna? Svei þessu kerfi.
Og er þetta ekki einn stærsti vandi Íslands í hnotskurn? Það vill enginn fara að lögum, bara fara sínu fram. Ekki einu sinni sýslumenn sem maður hélt þó að væru til þess að framfylgja lögum í öllum sínum verkum. Hvernig geta menn verið sýslumenn og borið höfuðið hátt, verið undir stjórn Dómsmálaráðherra og brotið lög áratugum saman og svo er bara snúið út úr og reynt að sleppa með glæpinn þegar upp kemst. Ef þetta gengur eftir eins og útlit er fyrir, hver er þá munurinn á sýslumönnum og búðarþjófum, innbrotsþjófum, og öðrum afbrotamönnum. Munurinn er þá enginn, þetta eru allt þjófar og bófar. Ég skora nú á sýslumenn, sem margir eru vandaðir menn og skynsamir, að rísa nú upp og krefjast þess við yfirmann sinn, Dómsmálaráðherra, að fá að skila öllu þýfinu. Þetta ber þeim að gera virðingar sinnar, starfs og metnaðar vegna.
![]() |
Þarf að endurgreiða hundruð milljóna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við þurfum að hjálpa Evu Joly og Ólafi Haukssyni.
13.11.2009 | 22:18
Það var ágætt að fá fréttir af Evu Joly. Það eru yfirleitt einu jákvæðu fréttirnar sem maður fær úr hruninu, þ.e. einu fréttirnar um að einhver sé að gera eitthvað gagnlegt í málum sem skipta máli.
En ég hef líka áhyggjur, þó ég treysti Evu fullkomlega, af því að jafnvel hún ráði ekki við að stýra þessari rannsókn svo að málalyktir verði eins og tilefni er til.
Í viðtalinu við Financial Times segir hún skýrlega að hér sé að líkindum um að ræða stærsta hvítflibbaglæpamál sögunnar, í öllum heiminum!!. Hún greinir líka frá því að í svona málum eru stjórnmálamenn á kafi í súpunni. Og hún segir að allur sannleikurinn verði að koma í ljós, öðruvísi getur þjóðin aldrei orðið sátt aftur eftir þetta hrun. Og þegar það er haft í huga að allir þeir sem hún beinir spjótum sínum að reyna auðvitað að bjarga eigin skinni og forða sér frá því að verða dregnir fyrir dóm, þá er augljóst að við ramman reip verður að draga þegar farið verður að höggva óþægilega nærri stjórnmálamönnum. Þeim er í lófa lagið að skrúfa fyrir þessa rannsókn með ýmsum hætti ef það forðar þeim frá verulegum óþægindum. Núna er þeim sama þó Eva og Ólafur finni og dragi fram eitt og annað misjafnt, svo lengi sem ekki er gengið of nærri þeim sem hafa áhrif og getu til að stoppa rannsóknina. Það er bara ágætt að sinni að beina rannsókninni og athygli almennings að útrásarvíkingum einum, enda þeir flestir hættir að halda skemmtileg partý og fallnir í ónáð hjá næturlífselítunni. Og svo eru það öll hagsmunatengslin, vinatengslin, flokkstengslin og ættartengslin. Hún Eva hefur áhyggjur af þessu líka.
Eva segir ennfremur í lok viðtalsins að það verði að vera Íslendingar sem stýra þessu máli til enda, þetta er þrátt fyrir allt okkar mál, þó það teygi anga sína víða og fjölmargir komi við sögu vítt um heiminn. Hún, ESB þingmaðurinn, er ekki að bjóða upp á að ESB klári þetta mál fyrir okkur.
Ég held að Eva og Ólafur þurfi hjálp almennings við sitt starf innan tíðar. Þau munu aldrei ná verulegum árangri hjálparlaust. Við þurfum að hjálpa þeim svo þau geti hjálpað okkur. Margt af því sem Eva talar um í þessu viðtali má vart skilja öðruvísi en svo að hún sé að biðja okkur um hjálp og um leið að segja okkur að hysja upp um okkur og taka almennilega á þessu sjálf.
Og þá veltir maður fyrir sér hvernig við getum hjálpað Evu og Ólafi. Hvernig við komumst í buxurnar aftur og leggjum sjálf af mörkum til að gera upp þetta mál svo við getum bráðum horft til betri tíðar og öðlast dálitla virðingu á ný.
Það vantar svo sem ekki að það er fullt af fólki sem hamast á útrásarliðinu og þessari ónýtu ríkisstjórn og þeim ónýtu ríkisstjórnum sem voru á undan henni. Ég er sjálfur í þessu ati flesta daga. Ég þarf að fá útrás og veita aðhald. En ég veit líka innst inni eins og sjálfsagt allir hinir að þetta skiptir engu máli. Stjórnmálamenn hafa ekki eyru, þeir hafa bara kjaft, þeir hlusta ekki, þeir kjafta bara. Þess vegna veit ég að það er enginn stjórnmálamaður sem hefur áhyggjur af því sem ég er að blogga og æsa mig. Þeir hafa heldur engar áhyggjur af öllum hinum. Menn reyna bara að halda völdum sem lengst og fara sínar einstefnuleiðir eins og þeir hafa verið kostaðir til. Flautið og púið í almúganum nær ekki þeirra eyrum.
Við þurfum í raunum okkar að koma okkur saman um stjórnmálaafl, framboð, sem snýnst ekkert um hefðbundin stjórnmál, heldur um að rjúfa skarð í hefðbundin stjórnmál svo hægt verði að hleypa sannleikanum í gegn og endurstilla kerfið. Það þarf framboð fólks sem er ekki hagsmunatengt, ættartengt, vinatengt og flokkstengt á hefðbundna vísu. Það þarf svona framboð til að rannsóknir vegna hrunsins geti klárast óhindrað og að allt verði dregið fram í dagsljósið. Það þarf svona framboð til að við getum allavega um stund stungið hausnum upp úr spillingarforaðinu sem við erum umvafin alla daga. Það þarf svona framboð til að ryðja burtu hindrunum sem Eva og Ólafur munu að lokum mæta. Það þarf svona framboð til að endurreisa Ísland.
Ég hef áður bloggað stuttlega um gæðakerfi fyrir frambjóðendur. Í svona framboði þarf samviskusamlega að flokka inn frambjóðendur eftir gæðakerfi sem tekur mið af þörfum okkar núna og í náinni framtíð og af baklandi frambjóðenda, frambjóðendur sem eru ekki vandlega hnýttir við mistök fortíðar. Mér er alveg sama hvort fólk er hægri sinnað eða vinstri sinnað, bara að það vilji gera upp fortíðina og endurreisa Ísland án þess að setja alltaf eigin hagsmuni ofar þjóðarhag.
Kannski er engin leið að finna nóg af svona fólki í framboð. Kannski mun þjóðin ekki kjósa svona framboð þó það byðist. Annað eins hefur gerst verulega oft eins og að Íslendingar kjósi aftur yfir sig þá sem þeir hafa vonda reynslu af þó eitthvað annað sé í boði. En ég álít að Eva Joly sé að biðja okkur um að hjálpa sér við að hjálpa okkur. Og þrátt fyrir allt er leiðin til þess helst með því að bjóða eitthvað gagnlegt fram í kosningum og kjósa svo af viti. Og svo þarf auðvitað að knýja fram kosningar um leið og val er um eitthvað betra til að kjósa. Og við megum ekki láta gömlu pólitíkusana og flokkana þvælast fyrir okkur og rakka niður allt nýtt sem dinglar ekki í þeirra spotta. Þetta fólk hefur ekki traust almennings í dag og þess vegna vitum við að með dálitlum samtakamætti og jákvæðni og vilja til að hjálpa öðrum við að hjálpa okkur sjálfum þá er hægt að gera það sem til þess þarf.
![]() |
Vonaðist til að hitta Björk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðfundur á morgun.
13.11.2009 | 20:09
Það var umfjöllun um þjóðfund sem hefst á morgun í Kastljósinu áðan. Þar kom fram að fyrsta verkefnið á fundinum er að koma með tillögur að nýjum gildum fyrir Ísland til að byggja framtíðina á. Ég ætla nú bara að koma með mitt innlegg í þessa umræðu hér, því ég held það verði nú auðvelt að svara því hver þessi nýju gildi verða í meginatriðum, þ.e. grunnatriðin sem annað byggir svo á. Að mínu mati verða þau þessi:
1. Að hefja gömul og góð gildi til vegs og virðingar á ný, heiðarleika, dugnað, hófsemi, samhjálp og svoleiðis gildi.
2. Að læra af reynslunni.
Ég tel allavega að framtíð Íslands þurfi ekki á mikið flóknari grunni að halda. Verði byggt á þessum atriðum ætti að takast vel til. Og það sem fór nú helst úrskeiðis hjá okkur á undanförnum árum var að mínu mati að menn gáfu akkúrat þessum gildum langt nef og þóttust vita betur.
Svo koma eflaust alls konar önnur gildi líka, langanir, draumar og áherslur, en það verða líklega mest tæknileg atriði og útfærslur sem verða að vera í samræmi við þetta tvennt sem ég tiltók hér að ofan.
Og þar með hef ég afgreitt fyrir mitt leyti þessa fyrstu spurningu sem leggja á fyrir þjóðfundinn. En það væri gaman ef fleiri hafa skoðun á þessu, að fá að heyra hvað menn hafa til málsins að leggja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þetta er nú ekkert, sjáiði Landsvirkjun!
13.11.2009 | 10:02
Orkuveita Reykjavíkur skuldar 19 faldan hagnað segir í fréttinni. Skuldirnar alls um 227 milljarðar króna. Ég kíkti aðeins í ársreikning Landsvirkjunar 2008 áðan, þar fann ég eftir að hafa skoðað um 20 blaðsíður af náttúru- og dýralífsmyndum í ársskýrslunni að skuldir Landsvirkjunar eru rúmlega nífalt tap ársins! ... Athugið TAP ekki hagnaður.... Tap ársins 2008 nam 344,5 milljónum USD eða um 43 milljörðum króna á núverandi gengi. Og heildarskuldirnar eru 3,242 milljarðar dala eða sem svarar rúmlega 400 milljörðum króna á núverandi gengi. Er þetta ekki frétt?? Og skyldi nokkurn furða þó svona fyrirtæki skori ekki hátt hjá matsfyrirtækjum út á backup frá gjaldþrota ríkissjóði Íslands.
Tekið skal fram að Landsvirkjun hefur ekki enn birt 6 mánaða uppgjör ársins 2009 á vefsíðu sinni svo mér er ekki ljóst hvað þeir geta kroppað upp í skuldirnar nú þegar öll stóriðjan er loksins keyrð á fullum afköstum á kaplinum frá LV.
![]() |
Skuldastaða OR erfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)