Við þurfum að hjálpa Evu Joly og Ólafi Haukssyni.

Það var ágætt að fá fréttir af Evu Joly. Það eru yfirleitt einu jákvæðu fréttirnar sem maður fær úr hruninu, þ.e. einu fréttirnar um að einhver sé að gera eitthvað gagnlegt í málum sem skipta máli.

En ég hef líka áhyggjur, þó ég treysti Evu fullkomlega, af því að jafnvel hún ráði ekki við að stýra þessari rannsókn svo að málalyktir verði eins og tilefni er til.

Í viðtalinu við Financial Times segir hún skýrlega að hér sé að líkindum um að ræða stærsta hvítflibbaglæpamál sögunnar, í öllum heiminum!!. Hún greinir líka frá því að í svona málum eru stjórnmálamenn á kafi í súpunni. Og hún segir að allur sannleikurinn verði að koma í ljós, öðruvísi getur þjóðin aldrei orðið sátt aftur eftir þetta hrun. Og þegar það er haft í huga að allir þeir sem hún beinir spjótum sínum að reyna auðvitað að bjarga eigin skinni og forða sér frá því að verða dregnir fyrir dóm, þá er augljóst að við ramman reip verður að draga þegar farið verður að höggva óþægilega nærri stjórnmálamönnum. Þeim er í lófa lagið að skrúfa fyrir þessa rannsókn með ýmsum hætti ef það forðar þeim frá verulegum óþægindum. Núna er þeim sama þó Eva og Ólafur finni og dragi fram eitt og annað misjafnt, svo lengi sem ekki er gengið of nærri þeim sem hafa áhrif og getu til að stoppa rannsóknina. Það er bara ágætt að sinni að beina rannsókninni og athygli almennings að útrásarvíkingum einum, enda þeir flestir hættir að halda skemmtileg partý og fallnir í ónáð hjá næturlífselítunni. Og svo eru það öll hagsmunatengslin, vinatengslin, flokkstengslin og ættartengslin. Hún Eva hefur áhyggjur af þessu líka.
Eva segir ennfremur í lok viðtalsins að það verði að vera Íslendingar sem stýra þessu máli til enda, þetta er þrátt fyrir allt okkar mál, þó það teygi anga sína víða og fjölmargir komi við sögu vítt um heiminn. Hún, ESB þingmaðurinn, er ekki að bjóða upp á að ESB klári þetta mál fyrir okkur.

Ég held að Eva og Ólafur þurfi hjálp almennings við sitt starf innan tíðar. Þau munu aldrei ná verulegum árangri hjálparlaust. Við þurfum að hjálpa þeim svo þau geti hjálpað okkur. Margt af því sem Eva talar um í þessu viðtali má vart skilja öðruvísi en svo að hún sé að biðja okkur um hjálp og um leið að segja okkur að hysja upp um okkur og taka almennilega á þessu sjálf.

Og þá veltir maður fyrir sér hvernig við getum hjálpað Evu og Ólafi. Hvernig við komumst í buxurnar aftur og leggjum sjálf af mörkum til að gera upp þetta mál svo við getum bráðum horft til betri tíðar og öðlast dálitla virðingu á ný.

Það vantar svo sem ekki að það er fullt af fólki sem hamast á útrásarliðinu og þessari ónýtu ríkisstjórn og þeim ónýtu ríkisstjórnum sem voru á undan henni. Ég er sjálfur í þessu ati flesta daga. Ég þarf að fá útrás og veita aðhald. En ég veit líka innst inni eins og sjálfsagt allir hinir að þetta skiptir engu máli. Stjórnmálamenn hafa ekki eyru, þeir hafa bara kjaft, þeir hlusta ekki, þeir kjafta bara. Þess vegna veit ég að það er enginn stjórnmálamaður sem hefur áhyggjur af því sem ég er að blogga og æsa mig. Þeir hafa heldur engar áhyggjur af öllum hinum. Menn reyna bara að halda völdum sem lengst og fara sínar einstefnuleiðir eins og þeir hafa verið kostaðir til. Flautið og púið í almúganum nær ekki þeirra eyrum.

Við þurfum í raunum okkar að koma okkur saman um stjórnmálaafl, framboð, sem snýnst ekkert um hefðbundin stjórnmál, heldur um að rjúfa skarð í hefðbundin stjórnmál svo hægt verði að hleypa sannleikanum í gegn og endurstilla kerfið. Það þarf framboð fólks sem er ekki hagsmunatengt, ættartengt, vinatengt og flokkstengt á hefðbundna vísu. Það þarf svona framboð til að rannsóknir vegna hrunsins geti klárast óhindrað og að allt verði dregið fram í dagsljósið. Það þarf svona framboð til að við getum allavega um stund stungið hausnum upp úr spillingarforaðinu sem við erum umvafin alla daga. Það þarf svona framboð til að ryðja burtu hindrunum sem Eva og Ólafur munu að lokum mæta. Það þarf svona framboð til að endurreisa Ísland.

Ég hef áður bloggað stuttlega um gæðakerfi fyrir frambjóðendur. Í svona framboði þarf samviskusamlega að flokka inn frambjóðendur eftir gæðakerfi sem tekur mið af þörfum okkar núna og í náinni framtíð og af baklandi frambjóðenda, frambjóðendur sem eru ekki vandlega hnýttir við mistök fortíðar. Mér er alveg sama hvort fólk er hægri sinnað eða vinstri sinnað, bara að það vilji gera upp fortíðina og endurreisa Ísland án þess að setja alltaf eigin hagsmuni ofar þjóðarhag.

Kannski er engin leið að finna nóg af svona fólki í framboð. Kannski mun þjóðin ekki kjósa svona framboð þó það byðist. Annað eins hefur gerst verulega oft eins og að Íslendingar kjósi aftur yfir sig þá sem þeir hafa vonda reynslu af þó eitthvað annað sé í boði. En ég álít að Eva Joly sé að biðja okkur um að hjálpa sér við að hjálpa okkur. Og þrátt fyrir allt er leiðin til þess helst með því að bjóða eitthvað gagnlegt fram í kosningum og kjósa svo af viti. Og svo þarf auðvitað að knýja fram kosningar um leið og val er um eitthvað betra til að kjósa. Og við megum ekki láta gömlu pólitíkusana og flokkana þvælast fyrir okkur og rakka niður allt nýtt sem dinglar ekki í þeirra spotta. Þetta fólk hefur ekki traust almennings í dag og þess vegna vitum við að með dálitlum samtakamætti og jákvæðni og vilja til að hjálpa öðrum við að hjálpa okkur sjálfum þá er hægt að gera það sem til þess þarf.


mbl.is Vonaðist til að hitta Björk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband