Færsluflokkur: Bloggar

Skjalafals, mútur, leynd, svik og skilanefndarmaður.

Í þessum sms skilaboðum er m.a. talað um falsað skjal. Þar er líka talað um hlutdeildarprósentu til að liðka fyrir upplýsingum. Eru það ekki mútur? Það er talað um að hægt sé að leysa málið án þess að gögn þurfi að koma fram. Hljómar eins og í þeim gögnum sem ekki þurfa að koma fram gæti verið eitthvað sem þolir ekki dagsljósið. Það er talað um meðferð málsins á þann veg að tekið hafi verið frá fyrir kröfunni á afskriftarreikningi og gefið til kynna að verið sé að snúa af þeirri leið, sem virðast vera svik við Þorstein. Svo er talað um að leysa málið með Knúti og koma viti fyrir Knút. Þar virðist vera átt við Knút Þórhallsson endurskoðanda bankans og skilanefndarmann í honum, allavega er farsímanúmerið hans með. Og af orðalagi sms skeytanna má vart annað skilja en að Finnur og Knútur séu taldir vita hvaða skjal er falsað. Þorsteinn sendir öll þessi skilaboð þannig að hann hefur vitneskju um þetta allt líka. Svo er rætt þarna um einhvern Helga, sem ég átta mig ekki á hver er, sem geti eyðilagt líf allra fyrrverandi stjórnarmanna Kaupþings með því að leggja fram þetta falsaða skjal sem þeir allir virðast vita um sem nefndir eru í þessum sms sendingum. Þessi Helgi virðist því hafa mikil tök á ákveðnum aðilum, spurning hvort og hvernig hann hefur nýtt sér það.

Í þessum sms sendingum sem alls eru um 16 línur og ná yfir 6 daga tímabil virðist vera nóg efni í glæpareyfara eða góða bíómynd þar sem allt er löðrandi í svikum og spillingu, en endar þó vel því allir skúrkarnir sleppa og aðrir taka á sig glæpinn. Hvað sæjum við eiginlega ef einhver alvöru gögn kæmu upp á yfirborðið?? Og af hverju er ekki búið að stinga neinum í steininn út af þessu??

Það væri gaman að sjá hvort ekki eru til einhver sms á milli stjórnmálamanna og útrásarvíkinga, þar gæti leynst fróðlegt efni.

En svo verður maður auðvitað að horfa á þetta með það í huga að auðvitað er ekki vitað hvort sms skilaboðin eru ekta eða ekki. Það veltur sjálfsagt á því hvort Þorsteinn Ingason getur staðfest að þau séu rétt eða ekki. En allavega er þetta ágætis reyfaraefni.


mbl.is SMS skilaboð til Finns birt á Wikileaks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB er á hausnum.

Nú í kreppunni hefur komið í ljós að ESB getur lítið sem ekkert gert fyrir aðildarríki í vandræðum.
Nýjasta dæmið er Grikkland, önnur dæmi eru Írland, Lettland og Finnland sem öll hafa farið illa í kreppunni.

Og eins og sjá má í alls konar samantektum um efnahag ýmissa ríkja heimsins er ESB fyrst og fremst klúbbur nokkurra skuldugustu þjóða heims. Það er mjög gáfulegt, eða hitt þó heldur, fyrir okkur að vera að stefna þarna inn.

Það er greinilegt af þessari frétt um að seðlabanki ESB ætli að draga úr fjárhagsaðstoð við evrópska banka sem hafa notað aðstoðina til að kaupa ríkisskuldabréf til að aðstoða bágstödd ríki ESB við öflun lausafjár, að það er að koma að skuldadögum í ESB. Þá fyrst skellur nú á alvöru kreppa ef það gerist.


mbl.is Ský við sjóndeildarhring Evrópusambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta dæmir sig nú sjálft. Steingrímur vill koma á einræði sýnist mér.

Ég var að klára aðra færslu hér rétt áðan um spillingu og sjálftöku stjórnmálamanna bæði varðandi völd og peninga. Og viti menn, þegar maður lítur á fréttayfirlitið þá sér maður haft eftir Steingrími að hann telji sum mál ekki "henta" í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þarna er nú sjálftaka valdsins rækilega staðfest. Það hentar ekki að þjóðin fái að skipta sér af máli sem kemur til með að ráða miklu um stöðu hennar næstu áratugi.

Er ekki bara kominn tími til að ákveða að koma bara á formlegu einveldi hér og hætta þessum draumórum um að hér sé lýðræði. Það er nú óljós munur á einræði annars vegar og lýðræði hins vegar sem er þannig að kjósendur fá bara að kjósa um það sem stjórnvöld ákveða að henti kjósendum að kjósa um. Og af reynslu undanfarinna ára er nú ekki margt sem hentar kjósendum að kjósa um. Það virðist helst vera það úr hvaða flokki einræðisherrann skuli koma á hverjum tíma.


mbl.is Sum mál henta ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálftaka í Bretlandi - rotið konungsríki sem þarf beint lýðræði.

Breska fjármálaráðuneytið segist hafa fengið heimild til þess að bjarga breskum bönkum með því að dæla í þá ótrúlegum fjárhæðum, eða sem svarar um 172.000 milljörðum króna. Þetta er rúmlega 10 sinnum hærri fjárhæð heldur en íslenska hrunið í heild sinni, sem er þó svo stjarnfræðilega dýrt að fæstir skilja almennilega tölurnar.

Það sem vekur mesta athygli í fréttinni er að ráðuneytið segist hafa fengið heimild til að gera þetta. Frá hverjum kom sú heimild? Var það frá þeim sem eiga að borga? Nei, það hefur ekki verið kosið um þetta í Bretlandi. Það er alveg eins hér eins og hjá Bretum. Stjórnvöld veita sjálfum sér heimild til að gera þetta og gera hitt og halda áfram sukki og spillingu. Þeir sem eiga að borga fyrir eru aldrei spurðir fyrr en í fyrsta lagi eftirá. Það er alltaf sagt að menn geti gert upp sakirnar í næstu kosningum. En þá er skaðinn líka alltaf skeður og um seinan að laga hlutina.

Svo er þetta þannig hjá Bretunum að bankamennirnir slást um að hirða allt sem frá ríkinu kemur í bónusa og annað svínarí.

Þetta er alveg það sama og hér. Hér er peningum dælt í bankana og allt í felum og leynimakki um það hvað verður svo gert við þá og hvar þessir peningar enda. Skattgreiðendur svo látnir borga án þess að fá nokkuð um þetta að segja.

Þetta er ein augljósasta ástæðan fyrir því að við og fleiri þjóðir þurfum beint lýðræði. Lýðræðið sem við höfum er bara blekking. Stjórnmálamennirnir eru bara strengjabrúður, kjarklausir og vitlausir margir hverjir, undir hælnum á sponsorum eigin flokka.

Eitt grunnatriði í endurreisn þjóðfélagsins er að endurreisa lýðræði og moka út spillingu og strengjabrúðum.


mbl.is 850 milljarðar punda í bresku bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

883% - óritskoðað af yfirvöldum.

Þetta var erlend skuldastaða Íslands sem hlutfall af landsframleiðslu um síðustu áramót. Ef eftir eru aðeins 350% af skuldunum er sem sagt búið að afskrifa um 533% sem er nú allnokkuð. En það er óskiljanlegt hvað menn tregðast við að hafa réttar tölur uppi á borðum í þessari umræðu. Maður þarf að leita að þessu í gögnum erlendra stofnana, það virðast allir sem vilja geta fengið góðar upplýsingar um skuldastöðu Íslands á hverjum tíma nema Íslendingar sjálfir. Hér virðist vera algjörlega bannað að leyfa þjóðinni að fá réttar upplýsingar um eigin stöðu. Yfirvöld keppast við að þvæla og fela allt í þoku svo enginn fái réttar upplýsingar. Hvers konar stjórnarfar er þetta hér?? Hvað er fólk að hugsa að kjósa þessa vitleysinga yfir sig aftur og aftur frá vöggu til grafar.

En þetta er sem sagt staðan um síðustu áramót. Svo er auðvitað spurning hvað þjóðarbúið ber miklar skuldir. Það fer nú alveg eftir því hvort á að greiða þær til baka eða bara velta þeim á undan sér og svo eftir því hvað vextirnir af þeim eru háir.

Mín tilfinning er sú að það þurfi að afskrifa um 200-250% af þeim 350% sem enn eru eftir svo hægt sé að standa undir því sem þá verður eftir. Þetta eru ca. 3.000 milljarðar. En þetta er bara tilfinning því allar opinberar upplýsingar eru ófullkomnar og þokukenndar. Við myndum segja ritskoðaðar eða falsaðar ef önnur ríki ættu í hlut.

Svo er auðvitað sá möguleiki fyrir hendi að sækja þessa peninga aftur og endurgreiða þá í stað þess að láta afskrifa þetta. En til þess þarf auðvitað einhver úr stjórnarráðinu að koma út úr þokumóðunni og sækja nokkra vel valda menn og taka af þeim illa fengið fé. Það gerist nú líklega ekki, aumingjaskapurinn er allt of mikill til þess.


mbl.is Skuldabyrðin enn meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OK, en ekki láta Ólaf Ragnar fikta neitt í þessu.

Það yrði líklega gaman ef stríðsherrarnir koma hingað til að undirrita samkomulag um fækkun kjarnavopna í næstu viku eða einhvern tíma fljótlega.

En ég er bara dauðhræddur um um að ef þeir hitta Ólaf Ragnar þá fari allt í bál og brand og það verði ekki skrifað undir neitt eða þeir ákveði bara að farga þessum kjarnavopnum hér. Er ekki hægt að senda Ólaf eitthvað burt á skíði eða í hestaferð á meðan þetta gengur yfir? Flest sem Ólafur Ragnar hefur komið nálægt eða gert undanfarin ár hefur orðið að hinu versta klúðri. Honum finnst hann meira að segja hafa verið misnotaður, að eigin sögn. Og Íslendingar mega ekki við fleiri skandölum. Hins vegur ætti ríksstjórnin að geta komist klakklaust í gegn um svona heimsókn. Steingrímur er að sjálfsögðu eðalkommi sem mun fagna Pútín vel og Össur segist vera einkavinur Hussein Obama síðan hann talaði við hann í nokkrar sekúndur í fyrravetur. Jóhönnu skilur enginn þannig að það er sama hvað hún segir, það verður aldrei vandamál.

En svo er nú athyglisvert við þetta að þegar svona stórviðburðir standa til þá er ESB eins og hver önnur hornreka, sem þykir engu máli skipta þegar fluttar eru fréttir af þessari fyrirhuguðu undirritun. Enda er það fyrirbæri fyrst og fremst samband nokkurra skuldugustu ríkja heims, sem voru þó að taka upp sameiginlega hernaðarstefnu 1.des. s.l. Og nokkur ESB lönd eiga svo sem slatta af kjarnavopnum, allavega Bretar og Frakkar sem eru sagðir eiga samanlagt um 485 kjarnorkusprengjur skv. nýlegri talningu. Þannig að líklega drattast Gordon Brown þá í heimsókn til hryðjuverkaríkisins Íslands til að undirrita þennan samning. Það er spurning hvernig ætti að taka á móti honum hér?? Sjálfsagt munu Íslendingar klappa fyrir honum og hneigja sig margfaldlega frekar en að púa á hann og ræða um ótilhlíðilega beitingu Breta á hryðjuverkalögum gegn óvopnuðu Íslandi.


mbl.is Skrifað undir í Reykjavík?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engar nýjar fréttir.

Þetta er bara það sem maður er búinn að blogga reglulega um lengi. Það er svo sem ágætt að allavega einn þingmaður er búinn að skilja þetta. Þá þurfa bara rúmlega 30 í viðbót að skilja stöðuna svo menn geti farið að vinna skv. raunhæfu mati á aðstæðum. Ég óttast bara að það taki þingheim allt of langan tíma að skilja alvarleika málsins, þannig að allt verði löngu farið til fjandans áður en menn skilja hvað þeir eru að gera.

En það sem þarf að gera er:
1. Að frysta allar eignir útrásarvíkinga, eigenda og æðstu stjórnenda bankanna.
2. Endurheimta alla peninga sem hægt er að ná sem "gufuðu upp" í fjármálakerfinu og útrásinni.
3. Neita að borga Icesave umfram það sem reglur tilgreina.
4. Taka til baka það sem lagt hefur verið í endurreisn bankanna og leyfa þeim bara að fara á hausinn.
5. Hætta samstarfi við AGS.
6. Hætta vinnu við umsókn að ESB.
7. Halda gengi krónunnar á því róli sem það er.
8. Vinna þjóðina út úr krísunni með raunverulegri verðmætasköpun, ekki lántökum og sýndarmennsku.
9. Kjósa okkur ráðamenn til að vinna fyrir almenning en ekki bara fjárstuðningsklíkur stjórnmálaflokkanna.


mbl.is Ísland stefnir í greiðsluþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherran sjálfur úr tengslum við veruleikann.

Ég sé nú ekki annað en að þessir bankamenn séu í góðum tengslum við veruleikann. Veruleikinn í bankaheiminum er einmitt sá að bankamenn eru allra manna duglegast við að skammta sjálfum sér sem mest af því fé sem inn í bankana kemur. Ég veit ekki hvernig þessi blessaður Breski ráðherra heldur eiginlega að veruleikinn sé. Ef hann virkilega trúir einhverju öðru hefur hann sennilega legið sofandi í 100 ár eins og Þyrnirós.

Og það að bankastjórnin hóti að segja af sér fái bankamenn ekki himinháa bónusa skerpir bara enn betur á raunveruleikanum. Þessir menn eru orðnir allt of góðir með sig til að nenna að "vinna" eitthvað þar sem ekki eru greiddir bónusar burtséð frá árangri. Auðvitað á ekkert að gagnrýna þessa bankamenn, bara láta þá fara umhugsunarlaust. Hvað er að þessum ráðherra að vera að býsnast yfir þessu. Lausnin er augljós, bara reka þá. Þessir menn í bankanum eru búnir að tapa svo miklum peningum að hann getur ekki fengið verri stjórnendur.


mbl.is Segir bankamenn úr tengslum við veruleikann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Losum okkur við íslenskuna svo heimurinn skilji okkur.

Þetta er eins og í svo mörgu, tungumálið er til trafala. Alveg vonlaust fyrir okkur að vera endalaust að staglast með þessa íslensku. Eini kosturinn við þetta blessaða úrelta tungumál okkar er að þó einhver þyki tala gáleysislega á Alþingi þá hefur það engin áhrif út fyrir landsteinana, því hvergi á byggðu bóli heimsins utan Íslands finnst fólk sem einhverju máli skiptir sem skilur tungumál okkar. Mín vegna er því í góðu lagi að þeir sem vilja tala umbúðalaust á Alþingi, geri það.

En eins og ég hef áður sagt þá þurfum við Íslendingar að fara að vinna í því fyrir alvöru að taka upp annað tungumál og leggja niður íslenskuna. Það er ótrúlegt að almenningur skuli ekki vera búinn að átta sig á þessu, þetta vandamál er nú búið að vera samfellt viðvarandi í nokkur hundruð ár. En tregðan til að viðurkenna íslenskuna sem vandamál skýrir kannski ýmislegt annað sem ekki er tekið á í þessu landi nú á tímum. Þjóðarsálin, þjóðstjórnin og forseti þjóðarinnar eiga það sameiginlegt að skríða fyrir öllum sem komast eitthvað áfram í lífinu, sama með hvaða hætti það gerist, og að kyssa á alla vendi, sama hve illa hefur verið lúskrað á mönnum með þeim.

Og ég held að það væri nú þarfara að verja einhverjum fjárhæðum í að snara okkar viðhorfum hér vegna Icesave nauðgunarinnar, yfir á ensku og fleiri evrópumál, heldur en að eyða mörg hundruð milljónum í að þýða umsóknareyðublöð fyrir ESB aðild yfir á íslensku svo Össur geti krossað við eins og hann heldur að sé rétt.


mbl.is Íslenskt mál en ekki heypokaloðmullu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er vit í þessu.

Mér líst vel á þessa fyrirætlun. Það er vit í að reisa verksmiðju sem er ein af undirstöðum nútíma matvælaframleiðslu. Þegar áburðarverksmiðjan í Gufunesi var seld og lögð niður var vissulega kominn tími á hana ef svo má segja. En eftir á að hyggja hefði nú verið gáfulegra að reisa nýja slíka verksmiðju um leið og sú í Gufunesi var lögð niður. Það er ómögulegt að matvælaframleiðsla á Íslandi skuli að miklu leyti stjórnast af áburðarverði erlendis. Ég er því feginn því ef farið verður í þessa uppbyggingu hér. Og svo eru auðvitað störf í þessu líka. En aðalkosturinn við þetta fyrirtæki er sá að með því má tryggja að hægt sé að framleiða matvæli á nútímalegan hátt á Íslandi. Og það þurfa allir mat, bæði Íslendingar og aðrir. Alveg sama hvað annað telst óþarfi og gengur yfir í bylgjum, það verður alltaf þörf fyrir mat. Þess vegna er þessi verksmiðja eitt það gáfulegast sem hægt er að byggja á Íslandi núna.
mbl.is Vilja reisa risaverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband