Færsluflokkur: Bloggar
Fáránleg og villandi frétt.
7.5.2010 | 18:52
Það er nú ljóta ruglið sem kemur stundum frá fjölmiðlum eins og þessi frétt um 290 þús. ný störf í Bandaríkjunum í Apríl. Það er engin frétt, það verða alltaf til einhver ný störf þar í hverjum mánuði.
Það sem er helsta fréttin úr atvinnulífi Bandaríkjanna er sú staðreynd að atvinnuleysið fór í 9,9% í apríl sem er nýtt met. Atvinnuástandið í landinu hefur ekki verið verra það sem af er þessari öld allavega. Kreppan er því enn á fullu í Bandaríkjunum ef marka má atvinnuástandið.
Tölur um smásöluverslun undanfarið valda líka vonbrigðum. Eyðslusemi kanans er full lítil. Þá er olíuvesenið á Mexíkóflóa að eyðileggja afkomu fjölda fólks við flóann. Það er því ekkert sem bendir til annars en versnandi efnahags í Bandaríkjunum rétt eins og Evrópu á næstunni.
![]() |
Störfum fjölgar í Bandaríkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verður greitt fyrir Tal með stolnu fé?
7.5.2010 | 13:34
Það verður spennandi að sjá hver kaupir Tal. Yfirgnæfandi líkur eru á að það verði keypt fyrir stolið fé. Eftir að það var loksins formlega tekið til umfjöllunar í fjölmiðlum í gær að allir sem eiga meira en nokkrar milljónir á bankareikningi á Íslandi eru með þýfi á reikningum sínum er vandséð annað en að Tal og önnur félög sem seld verða á næstunni verði greidd með stolnu fé nema erlendir fjárfestar kaupi þau. Og þá skiptir reyndar máli hvort það eru fjárfestar sem tengjast útrásinni gömlu eða ekki.
Allavega er alveg ljóst að það er engin áhersla lögð á að menn standi sig við rekstur félaga á nýja Íslandi. Þegar ríkið stal 1500-2000 milljörðum af skattgreiðendum til að gefa fólki sem hafði ekki meira vit á peningum en svo að það geymdi þá í íslensku bönkunum hjá glæpamönnunum þar þá var sett í framkvæmd sú stefna að laga ekki neitt, heldur halda bara áfram á sömu braut og áður. Spilling og glæpir heitir hún. Ríkið passar upp á sína líka, þar er óráðsían óendanleg og það óráðsíurekstrarform vilja ráðamenn greinilega hafa líka í einkageiranum.
![]() |
Tal auglýst til sölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18 mánaða bið. - Er þetta upphafið að endinum á biðinni?
7.5.2010 | 13:16
Ef dugur væri í yfirvöldum landsins þá hefði verið byrjað að stinga mönnum úr útrásinni í gæsluvarðhald fyrir 18 mánuðum síðan, í október 2008. Kannski er þetta loksins að gerast núna. Þá á ég við að vonandi er þetta bara byrjunin, það þarf að sækja miklu fleiri. Ekki svo að skilja að það sé mér neitt gleðiefni að þessir menn séu læstir bak við rimla, síður en svo. Ég hálf vorkenni þeim og sérstaklega þeirra aðstandendum. En miðað við afleiðingar af veru þessara manna í bönkunum og viðskiptalífinu sem hafa verið kallaðir útrásarvíkingar þá er bara bráðnauðsynlegt að vista þá bak við lás og slá á kostnaði ríkisins. Það er öllum læsum og hugsandi mönnum ljóst að bankarnir og mörg fleiri fyrirtæki voru rekin eins og hver önnur glæpamafía og bankarnir svo að lokum rændir innanfrá. Þetta vitum við öll að er ekki eðlilegt sama hvaða lögfræðibulli er beitt til að verja þetta. Þess vegna verða eigendur og stjórnendur að sæta ábyrgð bak við lás og slá.
Það sem maður óttast mest núna er að þessi silagangur stjórnvalda við að taka á málinu sé búinn að kosta gríðarlegar fjárhæðir í nýjum fléttum og undanskoti fjármuna á þessum 18 mánuðum sem fóru til spillingar. (Eða til spillis eins og það var víst yfirleitt kallað hér áður fyrr)
Ljósi punkturinn í þessu er þó sá að vonandi kemur fleira í ljós þegar þessir eru yfirheyrðir þannig að hægt verði að rekja slóðina áfram.
Svo eru það undanbragðafléttur annarra, stjórmálamanna og embættismanna, sem þarf að hafa áhyggjur af. Nú koma þeir allir til með að reyna að skýla sér á bak við fjaðrafokið út af þessum handtökum. Láta eins og nú sé búið að nappa sökudólgana og allir aðrir séu saklausir. En þeir mega heldur ekki sleppa, tjónið er allt of mikið til stjórnsýslan sleppi við að sæta ábyrgð. Við verðum að halda pressu á þetta vanhæfa og spillta lið á Alþingi og í embættismannakerfinu. Það má ekki linna látunum fyrr en búið er að taka á þeirra hlut í hruninu líka.
Eitt það áhrifamesta í spillingunni á Alþingi frá hruni er það sem m.a. ég hef bloggað um nokkrum sinnum og loksins komst í fréttaumfjöllun í gær, að stjórnmálamenn stálu 1500-2000 milljörðum af skattgreiðendum til að gefa þeim sem höfðu tapað peningum sínum í viðskiptum við glæpamennina í bönkunum. Þetta er risastór ríkisþjófnaður sem þarf að taka á. Þarna fengu örfá prósent landsmanna gefna 1500-2000 milljarða frá ríkinu. Okkur hinum er sagt að þegja bara og borga okkar skuldir með 20-30% vöxtum og verðtryggingu ofan á stórhækkaða skatta og aðra rányrkju ríkisstjórnarinnar. Svei þessu auma liði og megi bölvun fylgja því út yfir gröf og dauða verði þetta ekki leiðrétt.
Sé það vilji ríkisins að gefa 2000 milljarða er best að það dreyfist jafnt á alla. Sé það vilji ríkisins að bæta eignarýrnun út af hruninu er best að það eigi við um allar eignir. En það er ekki í anda Hróa hattar eða nokkurrar skynsemi að ríkið geri ræningjaflokka út á þá efnaminni til að bæta hag þeirra alríkustu eins og hér hefur verið gert.
![]() |
Kaupþingsmenn í gæsluvarðhald |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fáum William Black til að fást við spillinguna og glæpamennina.
5.5.2010 | 21:49
Hér að neðan set ég tengingu á Facebook síðu fólks sem vill fá William Black til að hjóla í spillta pólitíkusa og glæpamenn sem hafa farið ránshendi um Ísland. Þessi maður er talinn hæfur til að reyta illgresið úr fjármálalífi og stjórnmálum Íslands. Sjáum hvað hann getur, fáum hann í verkið.
Það er greinilegt að Ísland er svo spillt að ekki er einu sinni hægt til málamynda að fara að tilmælum um lágmarksaðgerðir gegn spillingu.
Þetta skýrir kannski ágætlega af hverju ekkert er að gerast hér heimafyrir í að taka á þessu hruni og þeim sem bera ábyrgð á því og peningunum sem hurfu úr fjármálakerfi landsins.
Við náum aldrei neinum árangri í að uppræta þetta spillingar illgresi í okkar þjóðfélagi nema fá til þess utanaðkomandi illgresiseyði. Ég hvet fólk því til að leita allra ráða til að komast yfir svoleiðis illgresiseyði. Styðjið þá sem vilja nýta sér þekkingu og krafta William Black til að takast á við vandann.
http://www.facebook.com/group.php?gid=119325251419779&v=wall&ref=search
![]() |
Eftirfylgni Íslands óviðunandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég held að Jón Ásgeir og frú hafi lagt línurnar fyrir lánveitingar ársins þegar þau tóku sín 440 milljóna kúlulán vegna skuldauppgjörs við Landsbankann, eftir því sem fjölmiðlar höfðu eftir frúnni.
Þau lán voru óverðtryggð kúlulán til um 10 ára tryggð með veðum langt fyrir ofan raunverulegt verðmæti þeirra eigna sem til tryggingar eru.
Er þetta ekki bara málið. Að breyta öllum lánum í óverðtryggð kúlulán til 10 ára með engu veði? Vonandi verður þessi fjármálaafurð í boði í Bónus fyrir almenning á næstu dögum. Bónus býður best, er það ekki?
![]() |
Verðtrygging heimil ef skuldbreytt er |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Yfirvöld með slæma samvisku. - Hvar eru ákærur sérstaks saksóknara?
30.4.2010 | 12:19
Lögregluviðbúnaður og ólæti í dómhúsinu sýna vel hve íslensk stjórnvöld hafa slæma samvisku. Þau draga nokkra mótmælendur fyrir dóm fyrir það eitt að hafa mótmælt óréttlæti stjórnvalda í alþingishúsinu.
Íslensk stjórnvöld þurfa að fara að skilja að alþingi er engin prívatsamkoma sem þingmenn geta haft fyrir sig eina.
Íslensk stjórnvöld þurfa að fara að skilja að það er enginn glæpur að mótmæla fjársvikum, bankaránum, spillingu og dugleysi. Það er hins vegar glæpur þegar stjórnvöld standa sig ekki í stykkinu. Það er glæpur þegar mest öllu sparifé landsmanna hefur verið stolið af þeim. Það er glæpur þegar stjórnvöld aðhafast ekki gagnvart hinum raunverulegu glæpamönnum.
Ég legg til að stjórnvöld í þessu landi fari nú að vinna vinnuna sína og dragi raunverulega glæpamenn fyrir dóm í stað þess eins að vilja dæma þá sem mótmæla spillingu og dugleysi. Hættið að siga lögreglunni á fólkið í landinu. Þið hafið ennþá tækifæri til að snúa við blaðinu áður en lögreglan og almenningur taka höndum saman um að stinga ykkur sjálfum bak við læstar dyr.
Var ekki sérstakur saksóknari að boða einhverjar ákærur í þessum mánuði? Nú er síðasti virkur dagur mánaðarins langt liðinn og ekki frést af neinni kæru frá honum? Hvað er í gangi í þessu gjörspillta landi?
![]() |
Viðbúnaður í héraðsdómi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hverjir eiga þessa banka og lyklana að ríkiskassanum??
29.4.2010 | 12:40
Bankarnir eru að hirða upp allt sem þeir geta af Íslendingum. Ríkið er búið að hlaupa heldur betur undir bagga með þessum glæpafyrirtækjum og nú heldur glæpastarfsemin áfram með stuðningi ríkisstjórnarinnar.
Í staðinn fyrir að það er verið að hirða mest allar eigur landsmanna af bönkunum, og búið að ráðstafa mest öllum tekjum landsmanna næstu árin í að borga fyrir bankana óreiðuna frá undanförnum árum, fáum við ekki einu sinni að vita hverjir eiga bankana, og þar með landið og tekjur fólksins í því á næstu árum. Viðskiptaráðherrann bráðgreindi telur það engu skipta hver á þrælabúðirnar. Hann ætlar bara að vona að krónan styrkist sem fyrst svo þjóðin komist alls ekki nokkurn tíma út úr skuldunum. Það er ágætt að hafa krónuna svo sterka að ekkert sé hægt að framleiða eða selja í þessu landi og þjóðin þurfi sem lengst að treysta á erlend lán fyrir sem flestu sem neytt er í landinu.
Það eina sem maður hefur heyrt um þetta bankaeignarhald er að glæpamaðurinn afskandi, Jón Ásgeir Jóhannesson og bankamaðurinn gamalreyndi, Sigurður Einarsson séu að eignast Arion banka aftur að stórum hluta í gegn um einhverja sjóði í póstkössum erlendis. Ég veit auðvitað ekkert hvort þessi orðrómur er sannur, en honum hefur allavega ekki verið neitað eða sýnt fram á að hann sé rangur.
Þetta er nýja Ísland. Það er ekkert líkt gamla Íslandi. Gamla Ísland var bara gráðugt, rotið og gjörspillt. Nýja Ísland er miklu rotnara, spilltara, gráðugra, glæpsamlegra og verra en það gamla.
Árni Johnsen, sá stórgóði og flekklitli maður í skrautlegri flóru gjörspilltra alþingismanna, tók til máls um þetta á Alþingi í dag og líst greinilega ekki vel á starfsemi bankanna um þessar mundir.
Mér fannst nú Árni samt misskilja hlutina þegar hann sagði sem svo að bankarnir væru "ríki í ríkinu." Miklu réttara væri að segja að ríkið sé "ríki í bönkunum". Ég get allavega ekki annað séð en að ríkið sé bara einhverskonar styrktaraðili bankanna og glæpanautur í ófyrirleitnum kúgunarðagerðum þeirra í skjóli ríkisverndar og laga um verðtryggingu og vaxtaokur.
![]() |
Verið að fremja níðingsverk í bönkunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vitlausasta lausnin endurtekin.
28.4.2010 | 15:24
Það er ekkert vitlausara en að lána Grikkjum fyrir lánum sem þeir geta ekki borgað af. Alveg jafn vitlaust og fyrir íslensk stjórnvöld að grenja út sambærileg lán fyrir skuldum sem íslensk fyrirtæki gátu ekki borgað.
Það er ekkert verið að bjarga neinum ríkjum með þessum lánum. Það er bara lygi. Það er verið að bjarga lánveitendum. Og það er ekki bara verið að bjarga þeim, það er líka verið að tvöfalda eða jafnvel þrefalda gróða þeirra. Í þessu fjármálaumhverfi er nefnilega gróðavænlegast af öllu að veita lán til ríkja sem geta ekki borgað þau. Um leið og ljóst er að ríki getur ekki borgað af lánum sínum hækkar skuldatryggingarálagið og kostnaðurinn við lánin vex upp úr öllu valdi. Á sama tíma er verið að láta önnur ríki, eins og t.d. Þýskaland, sem kemur vandamálið ekkert við veita sjálfskuldarábyrgð fyrir þessum okurgróða. Þannig er það gert að gróðavænlegustu fjármálastarfsemi í heimi að lána til ríkja sem geta ekki borgað til baka. Þetta er svo ótrúlega vitlaust að ég legg til að orðinu "Hálfviti" verði bætt í titla allra þeirra sem standa fyrir þessu.
Þannig yrði Dominique Strauss-Kahn ávarpaður "Herra hálfviti Framkvæmdastjóri AGS, Dominique Strauss-Kahn." eða á sambærilegan hátt á erlendum málum.
Málið er nefnilega það að titlar manna eiga að endurspegla stöðu þeirra en ekki gefa uppskrúfaða og afbakaða mynd af þeim.
Og að sjálfsögðu verða lánveitendur og skuldarar að semja sín á milli um skuldirnar og vaxtakjörin þegar skuldarar geta ekki lengur greitt af skuldunum. Hvaða glóra er í því að búa til sjálfskuldarábyrgðir óviðkomandi aðila eftirá? Ef menn hafa verið of brattir að lána peninga geta þeir búist við að tapa einhverju af þeim. Ef menn hækka stöðugt vexti til ríkja í erfiðleikum eykur það auðvitað á vandann. Þessum fíflagangi á ekki að bjarga með opinberu fé óviðkomandi aðila. Þessi fáránlega leið sem m.a. íslensk stjórnvöld hafa valið og á nú að troða upp á Grikkina getur aldrei gert nema illt verra, frestað vanda og aukið á hann. Dregið fleiri í svaðið. Og að lokum munu lánveitendur hvort eð er tapa fé sínu. Þeir tryggja það best sjálfir með óráðsíu sinni og okri og ófyrirleitni.
![]() |
Gætu þurft 120 milljarða evra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Var mamma hans að skamma hann?
22.4.2010 | 10:51
Þó það sé virðingarvert þegar menn sjá að sér og viðurkenna mistök sín þá held ég að í tilfelli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar verði nú fleira að koma til. Hann þarf að leggja öll spilin á borðið og upplýsa þau mál sem að honum snúa. Það er heldur ekki tímabært að gefa út loforð til þjóðarinnar um að gera allt sem í hans valdi stendur til að bæta fyrir mistökin. Kannski verður slíkt helst gert með því að hann komi ekki framar nálægt viðskiptum. Og varla er hægt að taka mark á þessu fyrr en hann hefur lagt fram allar nauðsynlegar upplýsingar til að rekja megi allt fjárstreymi í kringum hann og félög hans undanfarin ár. Hann minnist ekkert á milljarðinn frá Pálma í Fons, hann minnist ekkert á 300 milljarða prívatskuldir fjölskyldunnar eða í hvað þær hafa farið. Hann skýrir ekki hvers vegna yfir 50% af eigin fé allra stóru bankanna var bundið í lánveitingum til félaga hans.
Við fyrstu sýn dettur mér í hug að mamma hans hafi sagt honum að skammast sín og biðja þjóðina afsökunar í staðinn fyrir að halda áfram að vera harður og hortugur. Hún hefur ærna ástæðu til að siða drenginn, hann plataði hana í 64,5 milljarða skuldir eftir því sem marka má af skýrslunni frægu frá rannsóknarnefnd Alþingis.
![]() |
Missti iðulega sjónar á góðum gildum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hefur jafnvel áhrif á kosningar í Bretlandi - Verkamannaflokkurinn að dragast afturúr.
17.4.2010 | 08:53
Eins og flestir sjálfsagt vita þá eru það venjulega 2 flokkar sem berjast um völdin í Bretlandi. Nú ber svo við að Verkamannaflokkurinn er að síga verulega afturúr og vafamál að hann verði annar þessara tveggja flokka sem muni berjast um kjósendur á lokasprettinum. Skv. nýrri könnun er flokkur forsætisráðherrans að dragast langt aftur úr bæði Íhaldsflokkum og Frjálslyndum. Ný skoðankönnun sýnir að fylgi verkamannaflokksins er nú um 28% á meðan hinir eru með 30% og 33% fylgi.
Og það er nokkuð víst að áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á flugsamgöngur o.fl. í Bretlandi eru ekki til þess fallin að hjálpa forsætisráðherranum og flokki hans. Það er sama hvaðan vont kemur, það er alltaf látið bitna á ráðamönnum.
http://www.thesun.co.uk/sol/homepage/news/election2010/2936232/Labour-now-in-third-place-shock-Sun-poll-reveals.html
![]() |
Tapa 25 milljörðum á dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)