Færsluflokkur: Bloggar

Líklega bara byrjunin fyrir þetta gengi.

Þetta er nú líklega bara byrjunin. Skilanefndin að höfða einkamál gegn ræningjunum í New York.

Sérstakur saksóknari hlýtur að fylgja í kjölfarið og sjá ástæðu til að hafast að úr því búið er að stefna þessu fólki út af 258 milljarða fjársvikum.

En enn og aftur verður maður að bölsótast yfir þessum ótrúlega seinagangi yfirvalda. Þau eru enn ekki búin að handtaka neinn úr þessum hópi og svo lengi var beðið með frystingu eigna að þær eru að mestu horfnar, nema 2 skikar í Skagafirði fyrir útigangshross og nokkrar bíldruslur eftir því sem mér skilst.

Samt verður spennandi að sjá hvernig mál þróast hjá þessu gengi. Mæta þau þegar kallið kemur frá sérstökum saksóknara? Mæta þau fyrir dómi í New York? Fara þau á lista Interpol? Hvar eru milljarðarnir sem skilanefndin telur að þau hafi svikið út úr bankanum? Finnast þeir einhvern tíma? Hefur Jón Ásgeir keypt yfirgefna hvalveiðistöð á Suðurskautslandinu og innréttað hana í 101 stíl sem felustað fyrir sérstökum saksóknara? Keypti hann sér gullstangir og gróf þær við Meðalfellsvatn?

Svo er það lokaspurningin í kvöld. Hvað er að gerast með Björgólfsgengið og Landsbankaránið? M.v. fréttir kvöldsins í sjónvarpi allra landsmanna er Björgólfur Thor enn að plata landann. Vill fá ríkisstyrki í gagnver sitt og skattaafslátt út á fjölmörg störf fyrir vel menntað fólk þegar staðreyndin er sú að hann ætlar sjálfur að reyna að fá að afplána þarna samfélagsþjónustu við að opna pappakassa þegar starfræksla versins hefst. Hann er enn á fullu að reyna að plata okkur, og tekst það nokkuð vel, stjórnmálamenn trúa honum ágætlega. Bæði á Suðurnesjum og Alþingi. En það styttist í að þetta fari að skýrast eins og annað.


mbl.is Höfða mál gegn Jóni Ásgeiri og tengdum aðilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið framtíðarvirði sögu Sigurðar.

Þetta er auðvitað orðið leiðinda klúður hjá Sigurði að vera kominn á skrá hjá Interpol. Þó ég sé búinn að marghnýta í hann út af þessum viðbrögðum hans við boðun sérstaks saksóknara í yfirheyrslu þá get ég ekki annað en vorkennt honum núna að vera svo vitlaus að koma sér í þessa stöðu að vera orðinn eftirlýstur af Interpol.

En ljósi punkturinn er að þegar skrifaðar verða bækur um þetta bankarán fljótlega og síðar meir, og kvikmyndir gerðar, þá verður sagan auðvitað miklu meira spennandi út af þessum feluleik Sigurðar og þætti Interpol, sem eflaust er að ráði lögmanns hans Gests Jónssonar.
Með þessu auka þeir verulega verðmæti sögunnar og dómsskjalanna þegar Hollywood fer að moða úr þessu. Nú sé ég fram á óvænta tekjuöflun út á þetta upp í klúðrið þeirra, þannig að ríkissjóður tryggi sér tekjur af bókum og kvikmyndum og afli þannig tekna af þessari sögu.

Svo mætti líka afla tekna síðar meir með því að draga ferðmenn að merkum byggingum þessara manna og höfuðstöðvum glæpasamtakanna. Þetta yrði nokkurs konar nútíma Njáluslóð, kannski hægt að leika svallveislurnar og orðuveitingarnar og útrásartónleikana og að lokum kynna Litla Hraun til að sýna ferðamönnum ágrip af lifnaðarháttum nútíma bankaræningja. Ég er viss um að svona sýningar yrðu vel sóttar, ekki síður en fornmenningin okkar. Reynum nú að gera gott úr þessu öllu eins og hægt er.


mbl.is Interpol lýsir eftir Sigurði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og Sigurður fæst líklega ekki framseldur út af sleifarlagi stjórnvalda hér?

Þetta er nú alveg kosturlegur aumingaskapur stjórnvalda á Íslandi að undirrita ekki einu sinni alþjóðlega samninga um framsal á stórglæpamönnum milli landa. Þessar síðustu ríkisstjórnir okkar eru nú algjör lágkúra. Er hægt að bjóða þjóðinni upp á það að þeir menn sem eru trúlega stærstu fjársvikarar Íslandssögunnar geti ullað á okkur frá Bretlandi af því að nokkrar ríkisstjórnir í röð hafa verið uppteknar við að moka eigin skít undir teppin í staðinn fyrir að taka á útrásarglæponum. Menn hafa ekki einu sinni haft fyrir því að krota nafnið sitt á einfalda og sjálfsagða samninga milli landa um framsal. Eða eru íslenskir ráðherrar kannski ekki skrifandi? Svo er verið að segja að við séum svo langt komin í alþjóðasamstarfi að það sé betra að koma sér alla leið inn í ESB en að standa fyrir utan. Á þessu sviði erum við greinilega ekki komin langt inn í eitt eða neitt. Annað hvort þarf að væla utan í Bretunum til að fá Sigurð framseldan eða þá að gera eins og Bretar, Bandaríkjamenn og Ísraelar gera stundum, að senda eitthvað lið út til að ræna honum. Er ekki einhvers staðar einkaþota á lausu og nokkrir Mossad menn sem geta sótt þessa górillu til Bretlands?

Eða kannski dómsmálaráðherra geti æft sig í að skrifa nafnið sitt í kvöld og krotað á samninginn á morgun svo Bretarnir geti sent okkur Sigurð collect á næstu dögum.

Og ég var rétt búinn að vista þessa færslu þegar ég heyri í útvarpinu að búið er að gefa út handtökuskipun á Sigurð Einarsson og að hann er nú eftirlýstur af Interpol. Það er greinilega rétt sem ég skrifaði í gær að Sigurður er á flótta og að hann er enginn sakleysingi. Og það er komið á daginn að betur hefði honum verið stungið inn fyrir löngu síðan. Nú þarf að eltast við hann úti í heimi af því hann fékk tíma til að koma sér í hæfilega fjarlægð frá réttvísinni. Og ekki efast ég um að hann er búinn að nota tímann vel til að forða því fé sem hann hefur getað á þessum tíma.

Þessi hægagangur stjórnvalda við að taka á svikamyllunni er nú að koma okkur í koll.


mbl.is „Skipulögð glæpastarfsemi“ Kaupþingsmanna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki Skrattinn sjálfur að taka til núna?

Þetta gos er auðvitað bölvað ólán fyrir þá sem þurfa að búa við stöðugt öskufall og önnur myrkraverk sem þessu fylgja. M.v. síðasta gos á þessum stað má búast við að þetta gos eigi eftir að standa í eitt ár í viðbót ef það verður með svipuðum hætti. Það eru heimildir um síðasta gos í Eyjafjallajökli sem eru traustustu heimildir sem við höfum til að spá fyrir um framvindu þessa goss. Síðasta gosi í jöklinum hefur verið lýst vel í annálum þeirra tíma og það sem af er þessu gosi er það í fullu samræmi við lýsingar af því síðasta.

En svo maður slái á léttari strengi um þetta þá veit ég nú ekki hvað ábúandinn í neðra hefur verið að bjástra þegar hann lét gjósa síðast, en núna gæti ég trúað að hann væri að búa sig undir að taka á móti fjölda bankamanna og lögfræðinga sem hann sér fram á að verði ekki hleypt inn hjá lykla Pétri á næstu árum. Miðað við allt grjótið og gjóskuna sem hann sendir út er greinilega verið að rýma verulega til þarna niðri, þannig lagað séð eru greinilega uppgangstímar í vændum í neðra.


mbl.is Dökkur mökkur eftir skjálfta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng frétt, en Sigurður samt á flótta?

En samt hefur það frést af Sigurði Einarssyni að hann ætli að bíða með að svara heimboði sérstaks saksóknara þar til Hæstiréttur hefur úrskurðað um lögmæti gæsluvarðhalds yfir Hreiðari og Magnúsi. Þessi bið Sigurðar eftir afstöðu Hæstaréttar bendir til að hann telji sig í hættu með að fara sömu leið og þeir félagar hans úr bankanum. En sú leið er sem sagt gisting í boði sérstaks saksóknara á ríkisreknu gistiheimili fyrir austan fjall.

Ef við gefum okkur að hann vilji ekki gistingu þá er saksóknari býður honum væntanlega, þá sjálfsagt ætlar hann ekki að þiggja heimboð Ólafs og þá verður Ólafur sjálfsagt að fara með sína víkingasveit til að leita að Sigurði og sækja hann, hvar sem hann nú reynir að fela sig. Sennilega verður hann þá fluttur heim í búri eins og King Kong forðum daga í myndinni. Kannski var þessi vitlausa frétt látin "leka" til að Sigurður fái skilið að hann sleppur ekki auðveldlega þó hann hafni heimboði saksóknara.

Annars verð ég nú að fara að hæla sérstökum saksóknara dálítið þó ég sé líka oft að pönkast út í hann. Hann er á réttri leið, þó hægt fari og stundum sé klaufalega farið í málin. Það verður sjálfsagt að lokum að fyrirgefa það að mestu því maðurinn er góðgjarn og seinn að átta sig á hvílíka skúrka hann er að fást við. En vonandi er þetta að skýrast fyrir honum og þá ætti hann að spretta úr spori og fara að eignafrysta og handtaka hægri vinstri eins og sagt er.

Ég verð nú að uppfæra þessa færslu dálítið. Nú er Sigurður Einarsson búinn að setja það að skilyrði fyrir að þiggja heimboð sérstaks saksóknara, að hann verði ekki fangelsaður og settur á gistiheimili ríkisins. Hvað meinar hann með að vera að setja skilyrði af þessu tagi fyrir viðtölum? Það er bara til eitt rétt svar við þessu, það er að Ólafur karpi ekkert við Sigurð um þetta, heldur fari bara með víkingasveitina og sæki hann. Sigurður er bölvaður dóni gagnvart sínum fyrrverandi samstarfsmönnum sem sitja í gæsluvarðhaldi að setja svona skilyrði. Þessi frekja getur orðið til þess að tefja yfirheyrslur og upplýsingu málsins, sem aftur getur orðið til að hinir tveir þurfi að sæta lengingu á sínu gæsluvarðhaldi. Það verður þá Sigurði að kenna. Spurning hvernig þeir þakka honum fyrir það.


mbl.is Röng frétt um ferðir Ólafs Þórs í DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hárrétt afstaða hjá Bretum en þetta er að fara til fjandans engu að síður - lærum af Kínverjum..

Ég verð nú að vera Alister Darling alveg hjartanlega sammála þegar hann lýsir því yfir að Bretar ætli ekki að borga í sjóð til að styrkja Evruna. Þetta er skynsamleg afstaða, enda eru Bretar búnir að brenna sig talsvert á peningamálum og hafa greinilega lært eitthvað af því. Það er líka ánægulegt að hinn stóri flokkurinn í Bretlandi hefur það á stefnuskrá sinni að halda Bretlandi í hæfilegri fjarlægð frá fjárhagslegu svartholi ESB.

Það eru raunar ekki bara Bretar sem sjá hvert stefnir. Kjósendur í Þýskalandi lýstu óánægju sinni með fyrirhuguð framlög til að bjarga lánardrottnum Grikkja með því að kjósa gegn flokki Merkel í sambandsþingskosningum um helgina.

Allir sæmilega skynsamir menn, sama í hvaða landi þeir búa, sjá og skilja að mesti veikleiki sterks gjaldmiðils er að menn leggja allt í sölurnar til að halda honum sterkum. Það er auðvitað furðuleg afstaða, því gjaldmiðill getur því aðeins verið sterkur að hann geti veikst svo efnahagslífið á gjaldmiðilssvæðinu geti styrkts.

En þessi viðtekni kjánaskapur stjórnmálamanna virðist byggjast á því að fjármálaheimurinn ráði efnahagsmálunum. Ef einhvers staðar þarf að velja um hvort það eru lánardrottnar sem tapa fé á gáleysislegum lánveitingum og okri eða hvort skattgreiðendur eru látnir borga fyrir þá tapið, þá er alltaf valið að láta skattgreiðendur borga, amk. það sem hægt er að plokka af þeim. Meira að segja þó að fjármálastarfsemin sé að stórum hluta byggð á okri og bruðli annars vegar, og því að búa til peninga úr engu hins vegar (sem auðvitað er ekki hægt), þá er alltaf hlaupið upp til handa og fóta að bjarga þessum spilaborgum þegar þær hrynja.

Nú er vandinn hins vegar orðinn svo viðamikill að þetta getur ekki haldið áfram mikið lengur. Endalokin eru fyrirsjáanleg. Það er samt ekki hægt að tímsetja þau nákvæmlega, því enn er verið að reyna að draga fleiri þjóðir í svaðið með því að láta þær blæða fyrir hinar sem geta ekki meir. Það eru ennþá til einhverjir sjóðir sem á að reyna að tæma í dauðteygjum þessa fjármálakerfis sem stjórnar heiminum. En það er alveg ljóst að það dugir skammt. Efnaminni þjóðir heims hafa enga peninga sem máli skipta í þessa hít, og af efnameiri þjóðunum eru fáar eftir til að mjólka. Nú er fjármálasvartholið að ryksuga upp úr síðustu ríkiskössum Evrópu. Það stefnir í að innan skamms verði þeir tómir, rétt eins og Japan og USA og fleiri mikilsmetandi ríkissjóðir.

Þá er ekkert eftir nema sjóðir Kínaveldis, en þeir hafa ekki verið aðgengilegir þessu fjárþyrsta fjármálakerfi hins vestræna heims sökum "skringilegra" stjórnarhátta Kínverja sem greinilega eiga miklu betri hagfræðinga en vestrænar þjóðir. Þeim hefur meira að segja tekist að búa til sannkallað efnahagsundur í landi sínu með fárveikum og handónýtum gjaldmiðli, eins og vestrænir fræðingar skilgreina gjaldmiðil Kínverja.

Sennilega hafa Kínverjar ekki verið nógu duglegir að mennta hagfræðinga sína í háskólum sem haga kennslunni í samræmi við óskir styrktaraðila úr fjármálaheiminum eins og alsiða er á vesturlöndum. Það er líklega ástæðan fyrir því að þeir kunna að hagnýta sér ónýtan gjaldmiðil til góðs fyrir efnahag landsins.

Það stefnir því hratt og örugglega í að ónýtt og úrkynjað fjármálakerfi á vesturlöndum leggja efnahag þess heimshluta í rúst og Kína taki við sem aðal efnahagsstórveldi heimsins. Ég ætla ekkert að leggja mat á hvort það er gott eða ekki, en það stefnir óneitanlega þráðbeint í þessa átt.

Eitt ættu nú Íslendingar að gera sem tengist þessu, það er að ráða hingað Kínverskan fjármálaráðherra og Kínverskan efnahags- og viðskiptaráðherra. Þessir kallar sem við höfum í þessum embættum skilja ekkert hvað þeir eru að gera og valda tómu tjóni á hverju degi. Steingrímur með því að reka ríkissjóð með metfjárlagahalla, 275 milljónum á dag. Og Gylfi með því að taka lán og gera það sem hann getur til að styrkja krónuna svo efnahagslífið í landinu rétti helst aldrei úr kútnum.
Losum okkur við þessa kallaula og ráðum vel menntaða Kínverja í þessi embætti. Ég er að meina þetta í fullri alvöru.


mbl.is Bretar styrkja ekki evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarleg framför í samskiptum?

Það að taka upp alþjóðleg rótarlén eins og það heitir á góðri íslensku skv. fréttinni sem fylgir hér með, er að mínu mati gríðarlega vafasöm framför í netmálum heimsins.

Einn aðalkosturinn við netið hefur fram að þessu verið sá að það hefur í grunninn notað frekar fá tungumál og enn færri leturgerðir. Þannig hefur það ýtt undir skilning milli notenda þess. Þeir hafa tileinkað sér það sem netið hefur boðið upp á. En nú fer þetta að breytast, nú er að koma að því með alþjóðlegu rótarlénunum að sérhæfing netsins verði meiri og menn fara aftur að híma hver í sínu horni letur- og tungumálalega séð eins og gert var fyrir daga netsins. Nú fer netið að verða svo fullkomið að menn þurfa ekkert að vera að tileinka sér það sem það hefur getað boðið í letri og tungumálum. Nú er netið að verða svo gott að það getur verið á öllum tungumálum og notað fleiri og fleiri leturgerðir. Þá geta menn farið að láta sér duga að nota þær vefsíður sem eru á þeirra tungumáli, með þeirra leturgerð, og þar með losnum við við einn kostinn við netið hingað til. Það hefur einfaldað svo marga hluti með fábreytileika sínum og neytt okkur til að nota færri leturgerðir og tungumál. Þetta hefur verið einn stóri kosturinn við netið. En nú á að takmarka þessa jákvæðu hlið tækninnar með því að gera hana fullkomnari.

Öll þessi tungumál og letur sem við jarðarbúar notum er okkar heimskulegasta og dýrasta sérviska. En svo sterk er þessi sérviskukennd í okkkur að frekar en að fækka tungumálum svo við getum talað betur saman þá leggjum við okkur í líma við að laga allt í kring um okkur að þessari óskiljanlegu sérvisku, að vilja ekki tala sama tungumál, eða nota sama ritmál.


mbl.is Tímamót í sögu netsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru nokkur þúsund milljarðar ekki góð rök?

Það vantar engin rök til að grípa til aðgerða eins og frelsissviptinga í þessum málum. Rökin eru ómældar fjárhæðir sem hafa horfið úr bankanum eða verið ráðstafað með óeðlilegum hætti undir stjórn þessara manna. Rökin eru svindl og blekkingar til að láta líta út sem allt væri í besta lagi á sama tíma og bankinn var nánast að verða fokheldur að innan. Rökin eru misnotkun á stjórnvöldum og lánstrausti Íslands. Rökin eru misnotkun á íslenskum almenningi. Rökin eru þjóðhagslega hættulegt tjón sem forsvarsmenn bankanna bökuðu Íslandi með háttsemi sinni. Rökin eru ábyrgðarlaus bankastarfsemi. Rökin eru að stjórnendur greiða sjálfum sér himinhá laun og bónusa vegna góðrar frammistöðu í störfum sínum þegar frammistaðan er í raun hörmuleg. Rökin eru landráð. Rökin eru ótalmörg.

En ég skil ekki hvaða rök eru fyrir því að gera ekkert í að klófesta þýfið. Af hverju eru ekki allar eignir þessara manna frystar? Ég vil fá rök fyrir því aðgerðaleysi.


mbl.is „Þarf að færa fram sterk rök“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fádæma klaufaskapur sérstaks saksóknara.

Mér finnst þurfa að staldra aðeins við í þessum glæpamálum bankamannanna. Sérstakur saksóknari hefur hagað sér með alveg hreint fádæma klaufalegum hætti með því að frysta ekki allar eignir þeirra manna sem hann er að láta handtaka eða boða í skýrslutökur.

Nú er staða Sigurðar Einarssonar t.d. sú að hann virðist vera kominn með Gest Jónsson í vinnu fyrir sig á hæsta taxta til að ráðleggja sér um hvernig hann sleppi sem best frá glæpum sínum og væntanlega í framhaldinu að halda uppi vörnum fyrir ómælda fjármuni til forða Sigurði frá sektum og tukthúsvist með öllum tiltækum brögðum. Og þessar varnir á allar að borga með illa fengnu fé úr bankasvindlinu sýnist mér. Það virðist þykja alveg sjálfsagt að þeir sem hafa komist yfir ómælda peninga með glæpum sínum fái að kaupa sér ofurlögfræðinga eins og síldir í tunnu til að verja sig. Varnir Jóns Ásgeirs og félaga í Baugsmálinu kostuðu víst mörg hundruð milljónir, eða kring um milljarð eftir því sem sumir sögðu. Enda sluppu þeir frá flest öllu sem þeir voru kærðir fyrir sem voru sóttir til saka í því máli.

Ef skynsamlega væri nú haldið á málum af hálfu sérstaks saksóknara þá væru auðvitað allar eignir þessara glæpona frystar svo þeir séu ekki að kaupa sér ofurvarnir fyrir stolið fé. Svo fengju þeir bara sinn skipaða verjanda eins og aðrir bankaræningjar. Jafnt á yfir alla bankaræningja að ganga.

Það gengur ekki að nota illa fengið fé úr bankaráninu til að borga Gesti Jónssyni fyrir að halda uppi vörnum fyrir Sigurð Einarsson. Gestur er ágætis náungi á margan hátt og það hlýtur að vera honum erfitt að þurfa að taka við málsvarnarlaunum úr hendi Sigurðar þegar öllum má ljóst vera að féð er allt illa fengið. Alveg eins gæti Sigurður reynt að borga Gesti með stolnum bíl eða fölsuðum hlutabréfum. Með því að taka við slíkum greiðslum myndi Gestur gera sig að glæpanaut Sigurðar. Með því að taka við illa fengnu fé yrði uppi sama staða. Gestur hlýtur því að ætla að veita Sigurði ókeypis varnir ætli hann að hafa hreinan skjöld sjálfur vegna þessara starfa.

En þessum vandræðum getur sérstakur saksóknari afstýrt með því að frysta allar eigur Sigurðar í hvelli. Þá er engin hætta á því lengur að Gestur fái greitt með illa fengnu fé. Sama átti auðvitað að gera við Hreiðar og Magnús.
Og svo átti að skipa þeim öllum opinbera verjendur. Þetta er eina leiðin til að keyptir prívatverjendur þessara manna verði ekki að lokum sökunautar þeirra með því að taka við þýfi úr bankaráninu í málsvarnarlaun. Og nóg eru nú vandræðin þó það bætist ekki við.


mbl.is Ætlun Kaupþings var að hafa áhrif á markaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of dýr maður til að hafa hann í steininum.

Það var nú varla annað í stöðunni en að leysa Magnús frá störfum. Hann mætir hvort eð er ekki í vinnuna lengur þannig að þetta hefur varla verið flókin ákvörðun hjá stjórn bankans. Og nú er svo mikil kreppa í fjármálaheiminum að það er ekki hægt að hafa svona dýran mann í vinnu ef hann mætir ekki.

Og svo er það Sigurður Einarsson sem mætir ekki hjá sérstökum saksóknara. Hvað á að gera við hann? Sækja hann? Er hann flúinn frá landinu fyrir fullt og allt?

Gráleitum augunum trúi ég hann gjóti,
aumingja Siggi hann þorir ekki heim.


mbl.is Magnús leystur frá störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband