Færsluflokkur: Bloggar

Menn með fullar hendur fjár hvort sem eignir hafa verið frystar eða ekki.

Það vekur athygli að Sigurður Einarsson skuli hafa ráðið frægan verjanda fjársvikara til að annast sínar varnir í Bretlandi út af bankaráninu. Hann hefur greinilega efni á því. Nægu fé virðist hann hafa komið í skjól úr ráninu til að greiða þessum lögmanni.

Enn meiri athygli vekur að Jón Ásgeir, hvers eignir hafa allar verið kyrrsettar, ætlar að taka til varna og hefur ráðið þekkta lögfræðinga bæði í New York og London til þess að annast sína vörn. Maðurinn sem fyrir kyrrsetningu sagðist engu hafa skotið undan og eiga fyrir diet Kók hefur efni á þessu nú þegar búið er að frysta allar eignir hans. Er nú ekki eitthvað grunsamlegt við þetta? Hann sagði fyrir nokkrum dögum að það væri svo dýrt að verjast að hann gæti það ekki. Hann hefur kannski krafsað ofan af einhverri holu í garðinum hjá sér og fundið þar seðlabúnt sem hefur gleymst að frysta.

Og nú er það spurning hvað gerist þegar Landsbankinn fer formlega af stað með sín mál sem snúa að 250 milljarða kröfu á hendur stjórnendum þess banka. Skyldu þeir hafa komið nógu miklu undan til að kaupa þjónustu þeirra fjársvikalögfræðinga sem enn eru á lausu til að verja þá gegn vænni þóknum?

Það er alveg makalaust að horfa upp á það hvernig menn nota þýfið til að koma sér undan réttvísinni. Og nú sést vel hve vitlaust það var að taka ekki þýfið strax af mönnum með kyrrsetningum strax eftir hrun eins og margir vildu. Nú er búið að koma þessu fyrir í skálkaskjólum og skúmaskotum úti um allan heim þar sem enginn finnur það á næstunni. Fyrir vikið geta þessir ræningjar nú varist af krafti. Enginn fjárskortur virðist hrjá þá, hvort sem eignir hafa verið kyrrsettar eða ekki, enda nær kyrrsetningin varla til þeirra eigna sem búið er að fela vandlega nú þegar.

Það má reikna með að hver bankaræningi þurfi að greiða sem svarar ævitekjum venjulegs Íslendings eða meira fyrir varnir sínar á næstunni hjá þessum þekktu lögmönnum. Þó búið sé að frysta eignir sumra þessara ræningja munar þá líklega ekkert um það. Svo stórt var bankaránið að þetta er bara eins og dropi í hafið fyrir þessa menn.


mbl.is 250 milljarða bótakröfur hugsanlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Óskar Hrafn frystur inni á Stöð 2 ??

Mér dettur þetta nú í hug, því hann er enn titlaður fréttastjóri þar skv. upplýsingum frá stöðinni í lok fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld.

Ég hélt hann teldist hættur, sennilega eftir að hafa verið sparkað út af neikvæðri umfjöllun um bankaræningja.

En nú sem sagt er hann enn sagður vera fréttastjóri stöðvarinnar og þá dettur manni í hug að líklega hafi hann frosið þarna inni vegna kyrrsetningar stöðvarinnar sem eignar Jóns Ásgeir Jóhannessonar. En nú er það svo að stöðin er ekki hans eign á pappírunum, heldur er það Ingibjörg Pálmadóttir, kona hans sem er skráð fyrir stöðinni. Greinilega hafa þeir Stöðvar 2 menn gleymt því, enda Ingibjörg bara leppur bónda síns að því að talið er, og halda sem sagt að Óskar sé frosinn inni með þeim. Það er því hægt að upplýsa Stöðvar 2 menn um það núna að þeim er alveg óhætt að skjótast út, þeir voru ekki frystir inni fyrir dómi í London í vikunni.


mbl.is Jón Ásgeir í The Times
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætta ber leik þá hæst hann ber.

Ég heyrði smá kveðskap um þetta mál sem ég fæ að birta hér þó hann sé afspyrnu lélegur. Þetta hljómar svona.

Baugur, Hagar, Gaumur, glens,
Glitnir bank og FL group.
Allt er fallið, hvissbang, púff,
Jón Ásgeir á engan sjéns.

Kyrrsettur í kofa flottum,
sötrar diet kók.
Bíður eftir stefnuvottum,
er þetta ekki djók?

Steinunn góða stefnu hefur,
stefnir þeim í þrot.
Glitnisliði stefnur gefur,
skúrkinn slær í rot.

Hætta ber leik þá hæst hann ber,
annars gjarnan illa fer.
Það sést best á þessu hér.


mbl.is Stefnan í höndum lögmanna Jóns Ásgeirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar ætla að krefjast fullra og óskoraðra yfirráða yfir Rockall skv. BBC

Það er helst í heimspólitíkinni að frétta að nú eru uppi vangaveltur um að Gordon Brown ætli að taka að sér að stýra Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Þá er það orðið ljóst að hann er löngu kominn á spenann hjá fjármálaöflunum, enda verið duglegur að hysja buxurnar upp um breska banka sem hafa verið að klúðra sínum málum. En í siðuðum löndum gengur svona ekki upp. Það er bara á Íslandi sem stjórnmálamenn fara í bankana, annars staðar ráða fagleg sjónarmið við ráðningu bankastjóra, eða er það ekki? Þannig að afdankaður og kolfallin í kosningum, breskur fv. forsætisráðherra verður varla ráðinn yfir AGS? Nú kemur í ljós hversu faglegur sá sjóður er í mannaráðningum.

 

Annað sem athygli vekur í heimsfréttunum og skiptir máli hér er að Bretar ætla skv. frétt á BBC að krefjast fullra og óskiptra yfirráða yfir Rockall. Ég verð að nefna þetta hér og biðja menn að vekja ríkisstjórnina okkar, hana JóSteinu, svo að hún tapi ekki mögulegum ítökum okkar í klettinum fyrir sama sofandahátt og hún er að tapa Sigurði Einarssyni úr höndum sínum. Hér er fréttin á BBC.  http://news.bbc.co.uk/2/hi/uk_news/scotland/highlands_and_islands/8677045.stm


mbl.is Fer Brown til AGS?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki víst að það sé betra að sitja hræddur úti í London.

Ég held það skipti litlu hvort Siggi þorir heim eða ekki. Serious Fraud Office í London er að rannsaka hann líka og víða um heiminn eru kröfuhafar sem hafa tapað á svindlinu. Það má búast við einhverjum kærum og sakamálum út af þessu sem geta orðið til þess að Siggi fái lengri dóma og verri vist í erlendem tukthúsum en hann þarf að óttast hér. Afurðir dómstóla eru fjölbreyttar, ekki síður en fjármálakerfisins. Og aldrei að vita í hverju menn lenda þegar fjárfestar og yfirvöld í mörgum löndum eiga orðið sökótt við svona menn. Þannig að það er nú allt eins líklegt að Siggi sé að tefla sjálfum sér ansi djarft með þessari ákvörðun. Vilji hann komast undan tukthúsvist í Bretlandi sem ekki er ólíklegt að standi honum til boða innan skamms, þá þarf hann að leggja á alvöru flótta, þá tekur hann kannski þann kostinn að flýja í faðm íslenskra yfirvalda.
mbl.is Segir skilyrði sín vera alvanaleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn laaaaaannnnnnggggggi armur Davíðs vann á rothöggi.

Þetta er Davíð Oddsyni að kenna segir Jón Ásgeir og gefst upp. Bláa höndin hefur aldrei verið lengri og sterkari en eftir að hún kom sér fyrir í Hádegismóum skyldi maður ætla ef trúa skal þessum orðum Jóns Ásgeirs.

Eins og ummælin eru höfð eftir honum virðist Davíð hafa kýlt hann kaldan með vinstri krók bæði í New York og London og svo flengt hann með bláu höndinni sinni á beran bossann á meðan Jón lá í rotinu, þannig að nú svíður hann svo að hann treystir sér ekki til að fá sér sæti í dómhúsinu og verja sig. Gefst bara upp. Þarna hitti götustrákurinn ofjarl sinn að lokum, boxarann með bláu höndina. Sennilega hefur Davíð haft miklu meiri tíma til að æfa sig í boxi fyrir þessa lotu eftir að honum var ýtt út úr Seðlabankanum. En á sama tíma þreytti Jón sig bara á að drösla peningum út úr Glitni og sukka í partíum. Menn verða að halda sér í þjálfun, það má aldrei slaka á í svona keppni. Jón hefði betur lesið söguna um Davíð og Golíat. Nú hefur það sannast aftur að Davíð vinnur alltaf Golíat. Og alltaf með sömu aðferð. Í dæmisögunni þekktu var það með slöngvivað (teygjubyssu segja sumir). Núna slöngvaði Davíð bláu höndinni á kjamma Jóns Golíats Jóhannessonar og felldi þannig risann í íslenska viðskiptalífinu.

Eða svona má að mínu mati skilja þessa frétt sem fylgir hér með.
Til hamingju með sigurinn Davíð.


mbl.is Ætlar ekki að taka til varna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gestur Jónsson er orðinn þjóðinni dýr, en þó ekki honum einum að kenna.

Gestur var nú einn þeirra sem leiddi vörnina í Baugsmálinu svokallaða og stóð sig þar vel fyrir hönd síns skjólstæðings. Það var sennilega eitt mesta óhapp íslenskrar réttarfarssögu þegar ekki tókst að koma lögum yfir menn í því máli.

Nú er ljóst að margir þeir sem þar voru dregnir fyrir dóm, héldu áfram brotastarfsemi af fullum krafti allan tímann sem það mál var í gangi og áfram eftir það, sennilega allt til dagsins í dag. Það má með góðum rökum segja að þar hafi sterk vörn Gests orðið þjóðinni dýr. Fyrir hans tilstuðlan náði glæpastarfsemin í landinu nýjum og áður óþekktum hæðum og olli þjóðfélaginu áður óþekktum fjárhæðum í tjóni. En þetta er auðvitað í sjálfu sér ekki Gesti að kenna, honum tókst einfaldlega að sannfæra dómarana um að sá sem hann varði í málinu væri saklaus af flestu því sem hann var ákærður fyrir. En þessi góða frammistaða Gests á engu að síður drjúgan þátt í því að glæpastarfsemi hefur elfst í landinu á undanförnum árum, með því að glæpamennirnir fengu að ganga lausir og halda brotastarfsemi sinni áfram.

Þetta vekur upp spurningar um réttarkerfið í landinu. Það getur varla verið í lagi með réttarkerfi og lagaumhverfi sem er þannig að góð frammistaða lögmanna eflir brotastarfsemi og auðveldi glæpamönnum að stela flestu því sem þá langar í.

Nú er Gestur að verja Sigurð Einarsson og fyrir vörn Gests virðist Sigurður að sinni sleppa undan réttvísinni. Aftur er góð frammistaða Gests að bæta hag meintra glæpona, það svo mjög að þeir þurfa ekki einu sinni að mæta í yfirheyrslu hjá saksóknara. Og eins og áður er þetta auðvitað ekki Gesti beinlínis að kenna, hann hefur einfaldlega fundið út að stjórnvöld hafa ekki staðið sig í stykkinu með undirritun á sína samninga við önnur lönd um framsal á grunuðum eða dæmdum glæpamönnum.

Og aftur má reikna með að þessi góða frammistaða Gests verði þjóðinni dýr. Nú hefur Sigurður örugglega ekkert fyrir stafni þar sem hann heldur sig, annað en að grafa holur og fela allt það verðmæti sem hann hefur komist yfir.
Og eins og annað er það ekki beinlínis Gesti að kenna, þarna klikkaði sérstakur saksóknari á að láta frysta eigur Sigurðar áður en hann var boðaður í yfirheyrsluna.

Aftur hljóta að vakna spurningar um réttarkerfið í landinu og yfirvöld almennt. Er það ásættanlegt að lenda í svona uppákomum, að stjórnvöld hafi ekki fullgilt samninga um frekar einfalda og eðlilega hluti eins og framsal glæpamanna? Hvers konar trassaskapur er þetta eiginlega, og það í þessari glæpaöldu sem riðið hefur yfir þjóðfélagið?

Þarf ekki að fara að vega þjóðréttindi eitthvað á móti mannréttindum í okkar lagaumhverfi? Þarf ekki að fara að vega rétt á móti röngu? Þarf ekki að hugsa eitthvað um að lögin í landinu vinni með þjóðarhag, en ekki á móti? Hver er tilgangur lagasetningar? Eru lög bara sett til að brotamenn geti talist saklausir af brotum sínum og sloppið við refsingar? Eiga lögin ekki að ramma inn það þjóðfélag sem við viljum hafa? Viljum við það þjóðfélag sem við höfum í dag eins og lögin afmarka það?


mbl.is Ekki búið að handtaka Sigurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Jón Ásgeir forhertur eða ofsóttur ??

Það hefur enginn gert annað eins fyrir almenning í þessu landi og Bónusfeðgar, kvað oft við á Íslandi á uppgangstímum Bónusverslananna. Nú eru allar kellingar hættar að syngja þennan söng nema nokkrir lögmenn sem af veikum mætti reyna að telja þjóðinni trú um að Jón Ásgeir sé gæðadrengur sem sé orðinn fórnarlamb rannsóknarofsókna ofan á alheimskreppuna sem rústaði fyrirtækjum hans. Hann hefur aldrei gert neitt af sér, þó hann hafi að vísu fengið dóm í Baugsmálinu, en það var nú bara af því að dómararnir voru vondir við hann. Mér fannst þeir reyndar góðir við hann að dæma hann ekki fyrir fleiri brot. En ég er nú bara einn af þessum vitleysingum sem skilja ekki hvað þetta er góður maður, þannig að mín afstaða skiptir sjálfsagt engu máli, hann er jafn góður fyrir því.

Fjölmiðlarnir hans hafa verið duglegir að benda á hvað hann hafi gert margt gott, enda eru það líka bestu fjölmiðlarnir sem hann á. Það kemur m.a. fram í því að hann er duglegur að losa sig við lélaga fjölmiðlamenn og ráða aðra betri svo umfjöllun um hann sé alltaf af mestu gæðum. Þannig hefur fólkið í landinu fengið miklu sannari mynd af honum og kostum hans en flestum öðrum útrásarvíkingum.

Svo hafa stjórnmálamenn úr ýmsum flokkum verið duglegir að stilla sér upp með honum og passa hann fyrir vondu köllunum, eins og þegar Ingibjörg Sólrún tók iðulega til varna fyrir Jón Ásgeir þegar Davíð eineltisíhald var að bögga hann með skömmum og leiðindum.

En þrátt fyrir vinsældir Jóns Ásgeirs meðal ýmissa kellinga, hans eigin fjölmiðla og vina hans í stjórnmálum sem þegið hafa frá honum rausnarleg framlög fyrir vinskapinn, þá er hann samt dreginn fyrir dóm í New York og allar eignir hans kyrrsettar í London. Hann hefur löngum komið sínu fram á Íslandi með að siga löghundum sínum á óþæga ljái í þúfum. Það verður gaman að sjá hvernig honum gengur þessi aðferð við dómstóla í New York og London. Getur hann rekið einhvern þar til að menn hlýði? Getur hann kennt Davíð um þessar ofsóknir og fengið dómara á sitt band með þeim rökum?

Er hann virkilega ofsóttur eða er hann bara svona forhertur?


mbl.is Jón Ásgeir segir Steinunni misnota dómstóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kyrrsettu þeir líka Diet Kók flösku Jóns Ásgeirs?.

Loksins er farið að taka á þessum glæpagengjum. Nú er loksins farið að opna ormagryfjurnar eins og sumir kalla þetta. Þetta er mjög jákvætt, nú eru bankaránin að komast í lögformlegt ferli og dómstólar munu ákvarða hverjir eru saklausir og hverjir ekki af meintum bankaræningjum. Það gekk greiðlega að frysta eignir Jóns Ásgeirs þegar í það var gengið, en verst að frystingin nær kannski ekki til eigna sem hefur verið skotið undan úr hruninu og ekki enn verið rakið hvar eru niður komnar.

Nú er það spurning hvort Jón Ásgeir getur látið reka einhvern út af þessum aðgerðum. Það er hans vinsælasta gagnráðstöfun þegar fjallað er um hann með óviðeigandi hætti að hans mati að láta reka einhvern, sbr. nýlegan brottrekstur af fjölmiðli hans sem hlýtur nú að hafa verið kyrrsettur.

En kannski lætur Jón Ásgeir duga að snúa út úr aðgerðum yfirvalda með sama hætti og Sigurður Einarsson, að neita að taka þátt í þessu leikriti til að sefa reiði almennings, eins og Sigurður kallar það í fjölmiðlum í morgun. Kannski vill hann frekar fara í myndasafn Interpol en að mæta hjá sérstökum saksóknara þegar kallið kemur. Og kannski er hann svo blankur núna að hann á ekki fyrir farinu heim. Kannski á hann samt fyrir Diet kók eins og hann sagði forðum.

Við þá bankaræningja sem líta svona á málið get ég bara sagt að það sefar ekki reiði almennings að tekið sé á þeim með þessum hætti, en þær upplýsingar sem dómstólar hafa byggt ákvarðanir sínar á undanfarið eru miklu frekar til þess fallnar að auka á reiði almennings, því nú er það að verða skýrara með hverjum deginum sem líður að glæpastarfsemin hefur verið enn ósvífnari en nokkrum manni hafði dottið í hug, samanber það að stjórnendur Kaupþings skyldu hafa stungið neyðarláni Seðlabankans frá hrundögunum 2008 í eigin vasa í ofanálag við allt annað sem kvisast hafði út um þessa starfsemi þeirra.

En skilanefnd Glitnis óska ég til hamingju með árangursríkar aðgerðir gegn fyrrum aðalbankaræningja þess banka.


mbl.is Óska kyrrsetningar eigna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dag skal að kveldi lofa.

Það var talsverður fögnuður í gær og fram eftir degi í dag á fjármálamörkuðum með að 10.000 milljarða björgunarsjóður ESB sem átti að bjarga lánardrottnum Grikkja, myndi duga til að fjármálamarkaðir næðu stöðugleika og áframhaldandi vexti eftir mikla niðursveiflu í fyrradag. En staðreyndin er sú að þessi björgunarpakki kláraðist á einum degi. Svona fljótt er fjármálakerfið að þurrka upp fjármagnið. Og nú hungrar markaðinn í meiri björgun. En það gerir ekkert gagn að reyna að bjarga meiru. Þó allt yrði tínt til sem hægt er, þó öll sæmilega stæð ríki myndu skuldsetja sig í botn, dygði það í mesta lagi til að fæða svartholið í ca. 1. mánuð.

Nú eru því viðsjárverðir tímar framundan á fjármálamörkuðum heimsins eins og ýmsir hafa verið að spá undanfarið. Sennilega er gróðavænlegasta fjármálafurðin í dag veðbanki um hve mikið hlutabréfavísitölur muni falla á næstu dögum og vikum.


mbl.is Lækkun á Wall Street
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband