Gestur Jónsson er orðinn þjóðinni dýr, en þó ekki honum einum að kenna.

Gestur var nú einn þeirra sem leiddi vörnina í Baugsmálinu svokallaða og stóð sig þar vel fyrir hönd síns skjólstæðings. Það var sennilega eitt mesta óhapp íslenskrar réttarfarssögu þegar ekki tókst að koma lögum yfir menn í því máli.

Nú er ljóst að margir þeir sem þar voru dregnir fyrir dóm, héldu áfram brotastarfsemi af fullum krafti allan tímann sem það mál var í gangi og áfram eftir það, sennilega allt til dagsins í dag. Það má með góðum rökum segja að þar hafi sterk vörn Gests orðið þjóðinni dýr. Fyrir hans tilstuðlan náði glæpastarfsemin í landinu nýjum og áður óþekktum hæðum og olli þjóðfélaginu áður óþekktum fjárhæðum í tjóni. En þetta er auðvitað í sjálfu sér ekki Gesti að kenna, honum tókst einfaldlega að sannfæra dómarana um að sá sem hann varði í málinu væri saklaus af flestu því sem hann var ákærður fyrir. En þessi góða frammistaða Gests á engu að síður drjúgan þátt í því að glæpastarfsemi hefur elfst í landinu á undanförnum árum, með því að glæpamennirnir fengu að ganga lausir og halda brotastarfsemi sinni áfram.

Þetta vekur upp spurningar um réttarkerfið í landinu. Það getur varla verið í lagi með réttarkerfi og lagaumhverfi sem er þannig að góð frammistaða lögmanna eflir brotastarfsemi og auðveldi glæpamönnum að stela flestu því sem þá langar í.

Nú er Gestur að verja Sigurð Einarsson og fyrir vörn Gests virðist Sigurður að sinni sleppa undan réttvísinni. Aftur er góð frammistaða Gests að bæta hag meintra glæpona, það svo mjög að þeir þurfa ekki einu sinni að mæta í yfirheyrslu hjá saksóknara. Og eins og áður er þetta auðvitað ekki Gesti beinlínis að kenna, hann hefur einfaldlega fundið út að stjórnvöld hafa ekki staðið sig í stykkinu með undirritun á sína samninga við önnur lönd um framsal á grunuðum eða dæmdum glæpamönnum.

Og aftur má reikna með að þessi góða frammistaða Gests verði þjóðinni dýr. Nú hefur Sigurður örugglega ekkert fyrir stafni þar sem hann heldur sig, annað en að grafa holur og fela allt það verðmæti sem hann hefur komist yfir.
Og eins og annað er það ekki beinlínis Gesti að kenna, þarna klikkaði sérstakur saksóknari á að láta frysta eigur Sigurðar áður en hann var boðaður í yfirheyrsluna.

Aftur hljóta að vakna spurningar um réttarkerfið í landinu og yfirvöld almennt. Er það ásættanlegt að lenda í svona uppákomum, að stjórnvöld hafi ekki fullgilt samninga um frekar einfalda og eðlilega hluti eins og framsal glæpamanna? Hvers konar trassaskapur er þetta eiginlega, og það í þessari glæpaöldu sem riðið hefur yfir þjóðfélagið?

Þarf ekki að fara að vega þjóðréttindi eitthvað á móti mannréttindum í okkar lagaumhverfi? Þarf ekki að fara að vega rétt á móti röngu? Þarf ekki að hugsa eitthvað um að lögin í landinu vinni með þjóðarhag, en ekki á móti? Hver er tilgangur lagasetningar? Eru lög bara sett til að brotamenn geti talist saklausir af brotum sínum og sloppið við refsingar? Eiga lögin ekki að ramma inn það þjóðfélag sem við viljum hafa? Viljum við það þjóðfélag sem við höfum í dag eins og lögin afmarka það?


mbl.is Ekki búið að handtaka Sigurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Tryggvason

Verður hann ekki linari að verja þá þegar þeir ekki hafa næga aura handa honum ?

Aðalsteinn Tryggvason, 13.5.2010 kl. 00:51

2 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

O.J.Simpson hafði líka góða lögmenn

Ólafur Ingi Hrólfsson, 13.5.2010 kl. 04:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband