Er Össur tekinn alvarlega?

Ég hef nú miklar efasemdir um að Össur Skarphéðinsson sé nokkurs staðar tekinn alvarlega á erlendum vettvangi. Það er kannski ástæðan fyrir því að margir útlendingar botna ekkert í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hlýtur að vera sá sem ber mesta ábyrgð á að okkar málstaður sé vel kynntur erlendis. En Össur er líka fulltrúi þeirra sem heima sátu og vildu ekki taka þátt af hvaða ástæðum sem það var nú. Hann er því kannski ekki tekinn mjög trúanlegur í útskýringum sínum. Og ekki þekki ég nokkurn mann á Íslandi sem tekur Össur alvarlega, en ég þekki auðvitað ekki alla hér.

Mikið vildi ég að við gætum haft menn eins og t.d. Örn Árnason í stað Össurar. Honum hefur tekist vel að túlka Össur og einnig að setja fram á einfaldan og skiljanlegan hátt um hvað hrunið hér snýst og flest allt því tengt. Þegar Örn og félagar lýsa hlutunum eins og þeim er lagið verða þeir auðskildir. Þessir menn eru teknir alvarlega. Mikið væri gott ef utanríkisráðherran væri svona auðskilinn og trúverðugur.


mbl.is Gagnrýnir harðlega sænskan ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta hefur legið fyrir lengi.

Þetta eru engar nýjar fréttir. Skynsamir menn eru löngu búnir að sjá þetta. En ýmsir málsmetandi menn, t.d. ríkisstjórn íslands, er í afneitun og telur sig vita betur. Það er bara spurning hve langt við þurfum að sökkva áður en ríkisstjórnin og áhangendur hennar átta sig. Sem betur far taka efnahagsleg morð og sjálfsmorð talsverðan tíma og ýmsar lækningar sem hægt er að nota til að afstýra slíkum hlutum, þannig að vonandi er enn ekki of seint að snúa til baka af þessari braut.

En af hverju er ekkert gert í að koma lögum yfir þá sem komu okkur í þessa stöðu? Af hverju eru þeir ekki í gæsluvarðhaldi og eignir frystar á meðan málin eru rannsökuð? Það hefur aldrei fyrr gerst í siðuðu ríki að svo alvarlegir og víðtækir fjármálaglæpir hafi verið framdir eins og hér án þess að nokkuð sé gert í því.


mbl.is Sérfræðingar segja að ríkið þurfi að leita til Parísarklúbbsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stokkhólmseinkenni ríkisstjórnarinnar

Það er alveg sama hvar maður skoðar viðtöl og viðhorf fólks um vanda Íslands, sem hlaust af útrásarvíkingunum og vinum þeirra í íslenskri pólitík. Sami rauði þráðurinn liggur orðið í gegn um alla þessa umfjöllun. Við erum fórnarlömb glæpamanna. Svo einfalt er það. Þetta má lesa úr grein um Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði í Mbl í dag þar sem hann fjallar um nútímahagfræði. Þetta má lesa úr þjóðaratkvæðagreiðslu Íslendinga um síðustu helgi. Þetta hafa fjölmargir hæfir menn, innlendir og erlendir, sagt okkur í sjónvarpi, t.d. í viðtölum Egils Helgasonar í Silfri Egils og svo má lengi halda áfram.

En það er líka þekkt að fórnarlömb glæpamanna bera stundum blak af glæpamönnunum, þetta tengist víst sérstaklega gíslatökum og er kennt við Stokkhólm, kallað "Stockholms syndrome". Og þetta virðist vera það sem kom fyrir ríkisstjórn okkar. Við Íslendingar erum sannarlega í efnahagslegri gíslingu AGS af völdum útrásarglæpamannanna og gjörða þeirra. Ríkisstjórnin hefur gert allt sem henni er mögulegt til að þóknast AGS og til að hrófla alls ekki við útrásarliðinu. Hún hefur varið heilu ári í að koma í gegn samningum vegna Icesave sem eru í þessum anda, til að gera rausnarlega upp sumar skuldir glæpamannanna, þó öllum megi vera ljóst að engar forsendur séu fyrir slíkum samningi og engin geta til að standa við hann heldur. Þá hefur verið haldið hér uppi himinháum okurvöxtum til að gera það fýsilegt fyrir önnur glæpagengi að lána okkur fé og til að verjast því að krónan veikist svo við getum aftur orðið samkeppnishæf og aflað okkur tekna með raunverulegri verðmætasköpun. Þetta er gert að skipun AGS sem eru vel þekktir fyrir að vera handrukkarar fjármálaglæpasamtaka. Ríkisstjórn okkar hefur sýnt þeim mikla samúð og vorkunnsemi og viljað láta allt eftir þeim fram að þessu.

Í ljósi þessa þá gladdi það mig mikið að heyra í útvarpi í morgun að Pétur Blöndal og Atli Gíslason eru farnir að átta sig þessu hættulega hugarfari ríkisstjórnarinnar. Þeir eru farnir að sjá að kannski er best að við förum að hugsa um okkar hagsmuni, hættum að hugsa um hagsmuni gíslatökumannanna.
Þetta viðhorf hefur lítið heyrst frá því fyrir síðustu alþingiskosningar, þegar ég talaði sjálfur fyrir því á framboðsfundum í sjónvarpi og víðar að við tækjum á útrásarvíkingum og afþökkuðum samstarf við AGS.

Þessi síðbúna uppgötvun Péturs og Atla gefur vísbendingu um að kannski verði loksins farið að taka skynsamlega á efnahagsmálunum hér, að útrásarvíkingar verði teknir á beinið, að vextir lækki, að verðtrygging verði afnumin, að ríkisstjórnin setji skjaldborgina aftur á dagskrá, að hætt verði að aðstoða illa rekin fyrirtæki til að drepa þau sem betur eru rekin. Vonandi eru ráðamenn okkar að átta sig á stöðunni sem við erum í.


Bestu fréttir í langan tíma.

Þessi ummæli Alistair Darling eru bara bestu fréttir af Icesave sem maður hefur séð lengi. Hann er farinn að skilja að það verður að semja um þetta í bróðerni og af sanngirni. Ég get ekki lesið út úr ummælum hans neina fýlu eða reiði út af niðurstöðu þjóðaratvæðagreiðslunnar. Það væri gaman ef Jóhanna og Steingrímur væru eins jákvæð og Darling.

Og það eru líka mjög góðar fréttir ef Hollendingar eru að herðast í afstöðu sinni til málsins upp að því marki að neita okkur um aðildarviðræður vegna ESB inngöngu. Með því eru þeir nú að fylgja meirihluta Íslendinga að málum og hafa vit fyrir okkar eigin ríkisstjórn. Það eru líka góðar fréttir. Þannig að það er ljóst að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla hefur bara komið góðu til leiðar. Hún er ekki marklaus eins og Jóhanna og Steingrímur héldu fram.


mbl.is Bretar vilja sýna sveigjanleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin á ennþá eitt tromp eftir.

Þetta er nú ekki alveg búið spil fyrir ríkisstjórnina. Þó vissulega sé búið að rassskella hana vandlega. Augljósast er að hún fari frá fljótlega og ef þau ætla bara að hjakka í sama farinu áfram er best að þau fari frá strax.

En þau hafa samt eina góða leið til að bjarga sér. Leið sem kemur þjóðinni að gagni, hjálpar upp á fjármálin og vekur traust á ný.

Það er að grípa til alvöru aðgerða.

Ef þeim tækist nú í vikunni að koma sér saman um neyðarlög til að kyrrsetja eignir útrásarvíkinga og aðrar aðgerðir með það að markmiði að endurheimta horfið fé. Þá vinna þau strax mikið traust hjá þjóðinni, um leið og farin er rétt leið til að gera upp við sparifjáreigendur.
Hluti af þessu er krafa á Bresk stjórnvöld og stjórnvöld fleiri ríkja um sameiginlegar aðgerðir til að rekja horfið fé og endurheimta það. Þetta styrkir stjórnina og landið líka mikið út á við í því áróðursstríði sem geisar um það hvort Íslendingar eigi að borga eða ætli að borga o.s.frv.

Svo þarf samhliða þessu að koma fram með alvöru aðgerðaráætlun um endurreisn Íslands fyrir almenning og skjaldborgina frægu sem beðið hefur verið eftir í 13 mánuði. Ísland kemst aldrei á snúning aftur ef hagsmunum fjöldans er fórnað fyrir hagsmuni örfárra.

Einnig þarf að lækka vexti strax niður í 0% og afnema verðtryggingu. Ekki í áföngum heldur með einni kerfisbreytingu, strax.

Að lokum þarf að endurskoða og lagfæra það sem búið er að gera undanfarið ár í fjármálakerfinu og fyrirtækjum útrásarinnar. Eitt af því sem mun koma okkur illa í framtíðinni er ef þessi fyrirtæki fá ekki að fara á hausinn vegna einhverra hagsmunatengsla eigenda þeirra og stjórnmálamanna. Illa rekin fyrirtæki methafa í gjaldþrotum eiga ekki að fá að vaða uppi á markaði áfram til þess eins að eyðileggja rekstrarumhverfi þeirra sem hafa staðið sig sæmilega eða vel.

Þessi þjóðaratkvæðagreiðsla setur stjórnina upp að vegg. Nú ætla ég bara að vona að hún sé nógu þaulsetin og valdasjúk, eins og ummæli Þórunnar benda til, til að gera það sem þarf til að verma ráðherrastólana áfram. Ef ekki verður farið í þessar aðgerðir sem ég legg hér til er augljóst að stjórnin gefst alveg upp á næstu vikum. Það eru engir aðrir kostir en þessir í stöðunni.

Þau þurfa að snúa sér að því að gera það sem rétt er að gera, hætta að gera það sem Bretar og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn segja þeim að gera.


mbl.is Staðan breytt frá því í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinn meirihluti kosningabærra manna sagði - NEI! -

Ef þær tölur sem koma fram í fréttinni að a.m.k. 55% kjörsókn hafi verið í dag og um 93,6% af þeim sem kusu hafi sagt nei. Þá sagði hreinn meirihluti kosningabærra manna (um 51%) NEI við lögum ríkisstjórnarinnar.

Það er alveg einstakt að þjóðin sýni svona samstöðu. Þetta gerðist þrátt fyrir að málið væri löngu orðið farsi, veðrið leiðinlegt, ríkisstjórnarforystan gerði lítið úr kosningunni og tæki ekki þátt í kosningunni því þau vissu ekki hvernig þau ætluðu að kjósa og þó þáttakan í kosningum væri aðeins 55-60% af kjósendum á kjörskrá. Þetta er því stórmerkileg niðurstaða. JÁ sögðu aðeins 1-2% af þeim sem kusu sem bendir til að landsmenn séu mun greindari en sumir þingmenn álíta. Eða þá að mjög hár hluti af þessum 1-2% þjóðarinnar starfar á Alþingi, það gæti skýrt þetta mikla frávik frá ætluðum greindarskorti landsmanna.

Nú er næsta spurning á greindarprófi alþingismanna sú, hvort ríkisstjórnin hefur vit á að segja af sér eftir þennan rassskell og boða til kosninga í maí n.k. samhliða sveitarstjórnarkosningum. Ég er algjörlega ósammála þeim sem finnst allt í lagi að þessi ríkisstjórn starfi áfram þegar þjóðin er búin að senda henni til baka með skömm eina málið sem hún hefur lagt einhverja vinnu í á því ári sem hún hefur verið við völd. Þessi ríkisstjórn hefur ekkert gagn gert á sinni valdatíð og gerir ekkert gagn fyrir okkur í framtíðinni heldur. Forystusveit ríkisstjórnarinnar ber heldur ekki með sér að þar sé nægilega öflugt fólk til að búast við einhverjum viðsnúningi í betri átt af þeirra hálfu. Það er algjörlega tilgangslaust að þetta fólk spóli áfram í sama farinu. Við höfum engan tíma fyrir svona ríkisstjórn og ekkert gagn af henni. Við verðum því að losna við þessa ríkisstjórn og boða til kosninga aftur.


mbl.is Úrslit ekki fyrr en á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærum af þessu.

Skrípaleikurinn er auðvitað allur ríkisstjórnarinnar, sem gat nú dregið þess lög til baka fyrir löngu síðan, og sem hefði auðvitað aldrei átt að samþykkja þau heldur. Það er líka skrípaleikur á vissan hátt að meirihluti þjóðarinnar kjósi sér ríkisstjórn sem þjóðin þarf svo sjálf að bæði hysja upp um og rassskella með þessari kosningu.

Vonandi verður þetta heljarklúður nú til þess að kjósendur fari að horfa aðeins út fyrir fjórflokkinn í næstu kosningum. Við í Lýðræðishreyfingunni verðum væntanlega með í næstu alþingiskosningum og vonandi einhverjir fleiri sem hafa fengið nóg af afskriftaflokkunum fjórum. Við höfum ekki gefið upp von um að einhvern daginn kvikni á perunni hjá fólki og það verði til í að kjósa yfir sig nýtt stjórnarfar og meira af alvöru lýðræði. Fólk sem hefur önnur markmið en bara að slá skjaldborg um stjórnmálamenn og fjármálakerfið. Nú er búið að prófa alla gíra á fjórflokknum á stuttum tíma og þetta eru allt bakkgírar. Allavega hefur okkur ekkert þokað fram á við í langan tíma núna undanfarið.


mbl.is Skrítin þjóðaratkvæðagreiðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er á réttri leið - Förum næst til London.

Samtökin Nýtt Ísland standa sig vel. Þau mótmæla af krafti og hógværð í senn. Mótmælin virðast bæði markviss og friðsamleg. Ég vona að þessi samtök eigi eftir að halda áfram á þessari leið og finna upp á fleiri aðferðum í þessum dúr til að koma sínum sanngjörnu sjónarmiðum á framfæri.

Ég hef séð að sumir eru að kvarta undan því að ekki sé verið að virða friðhelgi heimilanna þegar þar er bankað upp á af Nýju Íslandi til að bjóða upp. Þetta eru nú léttvæg rök, þarna er bara verið að kynna áhrifavöldum hrunsins afleiðingar þess fyrir almenning. Eini munurinn er sá að þetta var í plati hjá Björgólfi, en almenningur lendir í þessu á hverjum degi í fúlustu alvöru.

Og það er verið að hafa áhyggjur af börnum á þessum heimilum sem Nýtt Ísland er að bjóða upp í plati. Auðvitað bitnar allt ástandið á börnum. Og það er ekki gott, en ég hef samt meiri áhyggjur af þeim börnum sem eru rekin út af heimilum sínum í alvöru af uppboðshöldurum, en þeim sem fá þessa sviðsetningu á húströppurnar hjá sér. En hefðu þessir útrásarvíkingar svokallaðir hugsað málið til enda hefðu þeir etv. velt því fyrir sér hvernig það bitnaði á börnum þeirra þegar svikin og prettirnir kæmust upp. Nú er alveg ljóst að starfsemin var með þeim hætti að hún hlaut að hrynja að lokum. En heimskreppan flýtti fyrir endalokunum. Ósvífnin og græðgin virðist bara hafa verið slík að þeim var alveg saman á hverjum þetta bitnaði, þeirra börnum eða öðrum. En þó vont sé að vandamálin bitni á börnum, þá hafna ég því alveg sem rökum fyrir því að hlífa þessum mönnum við mótmælum. Ef menn eru ekki kjarklausir aumingjar þá koma þeir bara sjálfir út á tröppurnar til að svara fyrir sínar syndir og hlífa þannig sjálfir börnum sínum.

Að mínu mati þarf að þróa þetta starf Nýja Íslands lengra. Það þarf að koma á laggirnar hópi sem getur mætt fyrir utan hjá þessu útrásarliði í London og farið að bjóða upp eða mótmæla þar. Það hefði miklu meiri áhrif að taka til aðgerða í hverfum efnafólks í London. Það mundi vekja heimsathygli og gera miklu meira gagn en að mótmæla hér á höfuðborgarsvæðinu. Það mætti líka mótmæla í fyrirtækjum sem þeir starfrækja í Bretlandi og annars staðar. Það þarf að vinna að því að þessir menn sem allir vita hverjir eru, séu teknir úr umferð í viðskiptalífinu, þar til þeir hafa bætt fyrir tjónið sem þeir hafa valdið og skilað illa fengnu fé. Slæmt umtal á réttum stöðum er vel til þess fallið að ná því markmiði.


mbl.is Fóru að heimili Björgólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðan í hringleikahúsinu. Eru vampírur í ríkisstjórn? Kjósum aftur í vor.

Ný stefna FL group felldi bankann með Lárus Welding í bankastjórastóli.
Þá er það komið fram. Af hverju ganga þeir allir lausir þessir? Hvað er búið að setja mikið almannfé í að bjarga innistæðum í þessum banka og endurreisa hann. Af hverju ganga þeir allir lausir sem bera ábyrgð á þessu.

Fjárhagstjónið af falli Glitnis og annarra fyrirtækja sem Jón Ásgeir tengist er talið álíka mikið og tjónið í Chile af völdum jarðskálftans um daginn, upp á 8,8 á Richter. Það er kannski erfitt að hemja þau náttúrufyrirbæri sem valda jarðskálftum, þó eru gerðar ákveðnar ráðstafnir á þekktum jarðskjálftasvæðum, fólk fær leiðbeiningar um hvernig það skuli bregðast við þegar skjálftar verða og það er sett upp einhver áætlun um hvernig brugðist er við skjálfta. Reglur um mannvirkjagerð taka mið af að mannvirki geti staðist skjálfta af tiltekinni stærðargráðu o.s.frv. Og eftir skjálfta er brugðist við og reynt að veita öfluga aðstoð og hjálpa þeim sem verða fyrir tjóni í jarðskjálfta.

En hér er tjón þessara örfáu manna sem sagt eins og eftir þennan risaskjálfta í Chile. En það er engu reynt að bjarga nema þeim sem ollu tjóninu. Hér er allt gert öfugt við það sem eðlilegt væri. Efnahagsskemmdarvargarnir ganga lausir, þeim er hjálpað á lappirnar aftur á meðan aðrir eru látnir bíða atvinnulausir og jafnvel sveltandi. Hér virðist vera talið sjálfsagt að auka enn á tjónið með óskiljanlegum aðgerðum ríkisstjórnarinar.

Og í dag nær hálfvitahátturinn á vissan hátt nýjum hæðum. Nú er þjóðin eins og Rómverjar forðum í hringleikahúsinu. Kolrugluð ríkisstjórnin varin í stúku sinni er búin að ákveða að sleppa ljónunum upp á áhorfendapallana og leyfa þeim að éta þjóðina sem horfir á leikana. En þjóðin sagði ríkisstjórninni að hún vildi ekki fá ljónin upp á pallana til að éta sig. Til að leysa deiluna var ákveðið að þjóðin skyldi kjósa um hvort ljónin mættu koma og éta hana. Og í dag fara þessar kosningar fram. Auðvitað segir þjóðin nei, við viljum ekki láta ljónin éta okkur. En það leysir ekki allan vanda. Eitursnákar og kyrkislöngur og krókódílar og reiðir fílar og háhyrningar eru úti um allt á pöllunum. Þeir eru búnir að éta marga og eyðileggja margt. En ríkisstjórnin lætur eins og þetta séu saklaus gæludýr og fóðrar kvikindin úr lófa sér með almenningi á pöllunum. Hún skilur greinilega ekki að þessi kvikindi eiga eftir að éta ríkisstjórnina og þjóðina með húð og hári ef heldur fram sem horfir.

Ríkisstjórnin minnir reyndar helst á uppvakninga eða vampírur sem þola hvorki silfur né krossa. Forystumenn hennar ætla allavega ekki að mæta á kjörstað til að setja kross á atkvæðaseðil í dag. Það er eins og í því felist einhvern óhugnaður fyrir þau. Þau sjást líka lítið í Silfri Egils en eru mikið gagnrýnd þar. Silfrið virðist stundum vera önnur ógn við þau. Og það eru greinilega einhver myrk öfl sem stjórna þessari ríkisstjórn. Því hún hefur margsinnis haft hamskipti og skoðanasnúning á hinum ýmsu ófarnaðarmálum.

Þetta mál sem kosið er um í dag er síðasta sönnun þess. Steingrímur vildi áður en hann komst í ríkisstjórn koma öllum rándýrunum í búr svo hægt væri að verja þjóðina fyrir þeim. Hann ætlaði ekki að láta þjóðinni blæða meira út af þessum rándýrum en þá var orðið. Þegar hann komst svo í ríkisstjórn passaði hann að öll rándýrin fengju að ganga laus og héldu áfram að murka lífið úr þjóðinni. Hann er náttúruverndarmaður og það kemur rándýrunum til góða. Hann hefur verið duglegur að veita þeim aðstoð á allan hátt svo þau geti brýnt tennur og klær og haldið til veiða á ný. Þegar að Icesave uppgjöri kom í þinginu var það forgangsatriði hjá Steingrími að málið gengi hratt í gegn, no matter what, eins og sagt er. Engu skiptu skuldaklyfjarnar sem frumvörpum hans um þetta mál fylgdu. Það var bara sagt, við getum alveg borgað 100% af landsframleiðslu, svo var sagt við getum alveg borgað 140% af landsframleiðslu, svo var sagt við getum alveg borgað 200% og 300% og jafnvel hátt í 400%. Alltaf treysti Steingrímur sér til að bæta meiri skuldum á þjóðina. Á sama tíma er hann að hækka skuldir ríkisins um milljarð á hverjum vinnudegi, bara út af hallrekstri á ríkissjóði.

Þetta er allt svo mikill fáránleiki.

Og undanfarna daga hafa vampírurnar unnið ötullega að því að telja sjálfum sér og þjóðinni trú um að vampíruríkisstjórnin skaðist ekki þó þjóðin berji á henni í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og reki hana til baka í bili með krossmörkum sínum á kjörseðlana. Ástandið er að verða eins og barátta á milli góðs og ills, milli rándýranna og vampýruríkisstjórnarinnar annars vegar og almennings hins vegar.

Það hefur aldrei áður í íslensku stjórnarfari verið gripið til eins öflugra mótmæla við nokkra ríkisstjórn í landinu eins og í dag, þegar þjóðin mætir á kjörstaði til að fella lög sem ríkisstjórnin lagði fram og stjórnarflokkarnir samþykktu á þingi. Hvernig er hægt að lýsa vantrausti betur á nokkra ríkisstjórn? Allar ríkisstjórnir á Íslandi sem hafa fallið hingað til áður en að reglubundnum kjördegi var komið, féllu af minni ástæðum en þessi stjórn hefur núna til að viðurkenna ósigra sína og mistök. Auðvitað á ríkisstjórnin að skakklappast til Bessastaða í fyrramálið og tilkynna afsögn sína. Og svo á að kjósa aftur í maí, þá eru hvort eð er almennar kosningar í landinu og hægt um vik og hentugt að nota það tækifæri til að reyna einu sinni enn að finna eitthvað brúklegt fólk á Alþingi.


mbl.is Ný stefna felldi Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í tilefni af því að eitt ár er frá birtingu greiningar minnar á íslenska ráninu.

Ég stalst inn á Silfur Egils (Helgasonar) á eyjunni.is og sótti þangað pistil um Enron og íslensku útrásina sem ég sendi honum og hann var svo vinsamlegur að birta á vefsvæði sínu.

Í tilefni af því að eitt ár og einn dagur er frá því að þetta birtist og að í dag sóttu nokkrir útrásarvíkingar og stórskuldarar fyrirtæki sín úr skuldahreinsun ríkisstjórnarinnar og forkólfa fjármálalífsins á Íslandi þá ákvað ég að birta þetta hér aftur. Þetta er ágæt upprifjun. Það sem er skrifað "virðist" í þessum pistli má í dag lesa sem var eða er. Að öðru leyti er þetta ógnvekjandi satt. Og það sem verra er, á þessu ári hefur ekkert breyst, nema að aukið hefur verið við svínaríið.

03.03 2009 - 42 ummæli »
Enron, Enn Rán

Jón P. Líndal sendi þessa athyglisverðu samantekt.

— — —

Til alþingismanna.

ENRON – ENN RÁN.

Eftir að horfa á fróðlegan þátt um uppgang og fall bandaríska orkufyrirtækisins ENRON um s.l. helgi skilur maður enn síður en áður aðgerðir og aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda eftir útrásar- og bankahrunið hér. Þetta segi ég nú vegna þess að ENRON hrunið og íslenska útrásar- og bankaævintýrið virðast vera náskyld fyrirbæri, nánast eins og eineggja tvíburar. Við nánari skoðun virðast eftirtalin gen líka vera þau sömu í báðum fyrirbærum.

1. ENRON fór í útrás vítt um heiminn allt til Indlands. Íslenska ævintýrið fór líka í útrás vítt um Evrópu og til fleiri landa.
2. ENRON stækkaði langtum hraðar en önnur fyrirtæki í sínu umhverfi. Íslenska ævintýrið gerði það líka.
3. Stjórnendur ENRON könnuðust ekkert við neitt óeðlilegt í starfsemi fyrirtækisins. Sama með stjórnendur íslenska ævintýrisins.
4. ENRON beitti blekkingum til að hækka gengi hlutabréfa fyrirtækisins. Íslenska ævintýrið líka.
5. ENRON hafði á sínum snærum endurskoðendur sem skrifuðu upp á allt sem lagt var fyrir þá. Svo virðist líka hafa verið hér.
6. ENRON fann upp á alls konar nýungum til að stækka spilapottinn. Íslenska ævintýrið virðist hafa gert það líka.
7. ENRON notaði fjölda gervifyrirtækja og gervigerninga til að hagræða hagnaði og afkomutölum og fela slóðir og peninga. Íslenska ævintýrið virðist hafa gert það líka.
8. ENRON hæddi , rak og rakkaði niður aðila sem leyfðu sér að hafa uppi efasemdir og óþægilegar spurningar um fjárhag fyrirtækisins. Þetta virðist nú hafa gerst hér líka.
9. ENRON stal ævisparnaði margra starfsmanna og óskyldra aðila með aðgerðum sínum. Þetta gerðist líka hér.
10. ENRON féfletti viðskiptavinina með því að neyða upp á þá margföldu verði á orku frá fyrirtækinu. Hér hafa líka verið notaðar svipaðar féflettingar í skjóli fákeppni á markaði.
11. ENRON reiknaði út framtíðarhagnað af ýmsum samningum og nýungum í rekstri fyrirtækisins og greiddi strax út til tiltekinna eigenda hagnað af þessum samningum. Þetta var víst líka gert hér.
12. Helstu eigendur og stjórnendur ENRON greiddu sér himinhá laun og bónusa þó allt væri í raun á hvínandi hausnum. Sama hér.
13. ENRON stýrði stjórnmálamönnum með því ýmist að kúga þá eða styrkja þá. Sama hér.
14. ENRON var skítsama um alla og allt nema að ná til sín öllum þeim peningum sem mögulegt var. Sama hér virðist mér.
15. Stjórnendur og eigendur ENRON lugu blákalt árum saman um það sem þeir voru að gera. Sama hér.
16. ENRON hrundi mjög skyndilega. Sama hér.

Það má halda eitthvað áfram með þessa upptalningu, en fyrir venjulegt fólk er það óþarfi, það skilur eins og 2 plús 2 eru fjórir að ENRON og íslenska banka- og útrásarævintýrið (hér eftir skammstafað ENN RÁN) eru náskyld fyrirbæri. Helsti munurinn að annað fyrirbærið er „Made in USA“, hitt er „Íslensk framleiðsla“.

Það er þó eitt sem skilur á milli. ENRON fjársvikunum lauk með hruni fyrirtækisins fyrir nokkrum árum síðan en Íslenska ENN RÁN hrundi fyrir aðeins fáum mánuðum síðan. Að ýmsu leiti virðist ENN RÁN að sama skapi vera dálítið endurbætt útgáfa af ENRON og koma hér nokkrar staðreyndir því til stuðnings.

1. Við fall ENRON voru helstu eigendur og stjórnendur handteknir og í framhaldinu leiddir fyrir rétt vegna stjórnunarhátta sinna. Í hinu endurbætta ENN RÁN hefur öllum eigendum og stjórnendum tekist að komast hjá þessum leiðindum.
2. ENRON var tiltölulega smátt í sniðum á hlutabréfamarkaði, var einungis eitt fyrirtæki af mörgum á bandarískum hlutabréfamarkaði. Hér var hið endurbætta ENN RÁN nánast allur markaðurinn.
3. ENRON skaðinn náði til aðeins nokkurra tuga milljóna manna í heimalandinu, sem telur um 300 milljónir íbúa. Hið endurbætta ENN RÁN hefur steypt heilli þjóð í fjárhagslega glötun auk tjóns hjá enn fleiri íbúum annarra landa.
4. Það datt engum í hug að vera svo vitlaus að setja meira peninga í ENRON til að endurreisa það eftir hrunið. Hér er lögð megináhersla á að endurreisa hið endurbætta ENN RÁN, að hluta að minnsta kosti, með verulegum fjárframlögum frá skattgreiðendum.
5. Eftir að ENRON hrundi fengu þeir sem helst höfðu gagnrýnt fyrirtækið og verið taldir illkvittnir úrtölumenn, uppreisn æru og viðurkenningu á að þeir höfðu eftir allt saman haft rétt fyrir sér. Hér er enn haldið áfram að kúga menn sem hafa reynt að halda aftur af hinu endurbætta ENN RÁNi.

Ég verð að óska ykkur og sérstaklega ríkisstjórninni til hamingju með þessi einstaklega jákvæðu viðhorf til ENN RÁN. Það væri gaman að vera Íslendingur í dag ef passað væri svona vel upp á hag almennings.

Reykjavík 2. mars 2009.

Jón P. Líndal.


mbl.is Nauðasamningar Bakkavarar samþykktir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir að reyna að gera lítið úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave lögin óstaðfestu er svo sannarlega stórmerkileg. Að vísu reyna allir sem vildu troða þessum pakka upp á þjóðina að gera lítið úr atkvæðagreiðslunni. En þar eru nú hagsmunatengslin oft þannig að það er álíka marktækt eins og þegar Jón Ásgeir Jóhannesson lýsir eigin ágæti og viðskiptasnilli.

Fyrir það fyrsta er t.d. ekkert að marka Steingrím og Jóhönnu þegar þau segja að þessi atkvæðagreiðsla skipti ekki máli. Gagnvart þeirra stöðu skiptir atkvæðagreiðslan miklu máli. Með þessu er verið að stíga á tærnar á þeim og þeim finnst það verulega vont. Það er m.a. verið að segja þeim að þeim sé ekki treystandi fyrir stórmálum. Og í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar hefur það meira að segja sannast að það er rétt mat hjá almenningi, því Bretar t.d. hafa verið til viðræðu um betri samning en þann sem þau eru búin að samþykkja en fengu ekki að undirrita þegar stigið var á tærnar á þeim með því að vísa Icesavelögunum til þjóðarinnar til staðfestingar.
Nú er það því ljóst að þjóðin getur ekki treyst Steingrími og Jóhönnu fyrir stórmálum og það er ákaflega mikilvægt að það er komið fram, því annað risastórt mál er í lúkunum á þeim. Það er umsóknin um aðild að ESB. Um það verð ég að taka til orða með líkum hætti og þegar Steingrímur J. sagði á sínum tíma að Icesave málið væri ekki tækt í þjóðaratkvæðagreiðslu, að ESB umsóknin er alls ekki tæk fyrir þessa ríkisstjórn. Þetta er einfaldlega mál sem þessi stjórn ræður ekkert við. Á nokkurn hátt. Stærðargráða þess máls, hagsmunir og flækjustig og mikilvægi er þess eðils að óhæf viðvaningastjórn er alveg ótæk til að fjalla um það. Bara taktleysið að sækja um þessa aðild á síðasta ári þegar fjölmörg mjög brýn og alvarleg mál biðu úrlausnar stjórnarinnar segir sína sögu. Enda hefur lítið gengið að leysa þau mál. Hér bíða orðið allir eftir að eitthvað gerist einhvers staðar í stjórnkerfinu sem kemur almenningi til gagns. Á meðan er bullandi atvinnuleysi, verðhækkanir og ört vaxandi skuldir heimilanna með tilheyrandi uppboðsbólu sem blæs nú út þar til leyft verður að sprengja hana. Hjá fyrirtækjum er unnið að því með beinum hætti að skekkja samkeppnisstöðu og eyðileggja þau fyrirtæki sem ekki skuldsettu sig yfir haus. Þetta er gert mað atbeina ríkisstjórnarinnar sem finnst nauðsynlegt að bjarga öllum fyrirtækju sem eru tugi milljarða í mínus og höfðu vonlausa stjórnendur þó það kosti dauða fyrir hin sem voru sæmilega stödd.
Ef þetta blessaða fólk, Jóhanna og Steingrímur, hefðu einhverja smá glóru í sínum haus, þá myndu þau nú fara að undirbúa stjórnarslit. Þau hljóta að fara að skilja að þau eiga ekkert erindi í þau embætti sem þau hafa tekið að sér.

Í öðru lagi þá eru Bretar og AGS farnir að segja að atkvæðagreiðslan skipti litlu. Láta í veðri vaka að við verðum bara að borga hvort eð er. En fyrir þessa aðila skiptir hún samt miklu máli af því að hún er nýtt leynivopn í deilunni sem enginn átti von á. Það er lýðræðið, að lýðurinn fái að skipta sér af þessu. Lýðræðið er vopn sem alls staðar var búið að leggja til hliðar, en nú erum við Íslendingar að draga þetta vopn fram aftur. Og ég sé ekki annað en það sé að reynast ágætlega. Fyrir Breta og AGS þýðir beiting lýðræðis í þessari deilu að athygli almennings í öðrum löndum kann að vakna með svipuðum hætti og hér gerðist. Og þó aðstæður eða bakgrunnur fjárhagsvandræða sé ekki alveg sá sami allsstaðar þá er það nú svo að hjá öllum ríkisstjórnum hins vestræna heims er óhreint mjöl í pokahorni einhvers staðar þegar kemur að opinberum skuldum og aðstoð við fjármálakerfið. Þannig óttast þessir aðilar greinilega að þegar saman fer botnlaus skuldsetning vegna aðstoðar við bankaglæpamenn og lýðræðishugsun íbúanna sem á að láta borga sukkið, þá endi lýðræðið ofaná og stjórnmálmenn og bankamenn verði undir. Það er hættan, þess vegna skiptir þetta þessa aðila miklu máli. Í stuttu máli þá er lýðræðið gott vopn gegn spillingu. Þessi atkvæðagreiðsla sýnir að það er ekki alveg búið að aflýðræða Ísland.

En þetta skiptir engu um Icesave samninginn sjálfan lengur. Þegar Bretar gáfu til kynna að betri samningur væri í boði af þeirra hálfu, þá hætti þessi atkvæðagreiðsla að skipta máli um Icesave. Út frá því máli einu og sér var þá einfaldast að draga síðustu lög til baka. Raunar hefur verið ljóst frá því Ólafur Ragnar ákvað vísa þeim í þjóðaratkvæði að þau yrðu ekki samþykkt.


mbl.is Þjóðaratkvæðagreiðslan hefur ekki áhrif á aðstoð AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um neikvæða viðskiptavild í bókhaldi.

Nú er sú staða hjá ýmsum stórfyrirtækjum landsins eins og t.d. bönkunum, að þau eru nýlega gjaldþrota með ný nöfn og kenntölur, flest alla forsvarsmenn væntanlega á svörtum listum Lánstraust ehf. sem er gjaldþrota matsfyrirtæki í eigu gjaldþrota fjármálafyrirtækja. Himinhátt skuldatryggingarálag og slæm viðskiptasaga erlendis sem innanlands eru staðalbúnaður þessara fyrirtækja. Einungis um 5% landsmanna (sama hlutfall og þingmaður telur að séu fábjánar í landinu) treysta bönkunum skv. nýrri athugun.

Þegar maður veltir þessu fyrir sér þá vaknar spurningin um það hvernig viðskiptavildin er nú færð í bókhaldinu. Á góðæristímanum var hún yfirleitt ein stærsta eign margra fyrirtækja, allt að helmingur af heildareignum hjá þeim fyrirtækjum sem mest höfðu lagt upp úr traustum viðskiptum og góðri fjárfestingu í traustum eignum eins og viðskiptavild.

Nú er öldin önnur sem sagt. Og þá veltir maður fyrir sér hvort viðskiptavildin er ekki færð rétt í bókhaldi fyrirtækjanna. Ef endurskoðendafyrirtæki og grandvarir eigendur bankanna og annarra stórfyrirtækja gæta þess nú að halda rétt utan um verðmæti viðskiptavildar fyrirtækja sinna, þá er hún væntanlega færð sem stór mínustala í bókhaldinu. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu þegar ársreikningar fara að koma frá hinum ýmsu stórfyrirtækjum með vorinu.

Í Bandaríkjunum eru menn farnir að gera sér grein fyrir þeim vanda sem neikvæð ímynd veldur í bókhaldinu. T.d. er þetta "badwill" eins og það heitir á enskunni orðið að næsta vandamáli í bókhaldi Goldman Sachs.
Þeir fara reyndar langa leið að þessu og kalla þetta "bad press". Kenna sem sagt neikvæðum fjölmiðlum um slæma ímynd og tala ekki beinlínis um að færa badwill í bókhaldinu, en segja engu að síður hiklaust að þetta hafi neikvæð áhrif á fyrirtækið.

Sjá nánar hér:
http://finance.yahoo.com/banking-budgeting/article/108948/goldman-lists-new-risk-bad-press;_ylt=AjbSnfNGL_08eaXIgF_pO6u7YWsA;_ylu=X3oDMT FhanNtaW4zBHBvcwMyBHNlYwNzcGVjaWFsRmVhdHVyZXMEc2xr A2dvbGRtYW5zbmV3cg--


Tilraun Deutsche bank til að minnka tap af lánveitingum til Actavis.

Þetta kauptilboð í Ratiopharm virðist vera úrslitatilraun Deutsche bank til að bjarga því sem bjargað verður vegna lánveitinga til Actavis. Skv. erlendum fréttum er það a.m.k. tilgangurinn með þessu tilboði. Það verður fróðlegt að vita hve miklu bankinn nær upp í himinháar skuldir Actavis ef ekki verður af kaupunum á þessu fyrirtæki. Það er líka hættuspil að kaupa Ratiopharm dýru verði. Ekki er sjálfgefið að samruni eða samlegðaráhrif Actavis og Ratiopharm réttlæti um 3 milljarða evra kaupverð ofan á allar skuldirnar sem fyrir eru í Actavis.

Því miður er þetta enn eitt klúðrið hjá Björgólfi Thor. Actavis varð til upp úr íslenskum lyfjafyrirtækjum sem duglegir og klárir menn byggðu upp með dugnaði og útsjónarsemi. Nú er Björgólfur búinn að missa þetta út úr höndunum og landinu hvernig sem allt fer. Deutsche bank er nú hinn raunverulegi eigandi að þessu fyrirtæki. Búast má við að dregið verði úr starfsemi fyrirtækisins á Íslandi verði af samruna við Ratiopharm. Það hlýtur að vera hentugra fyrir bankann og væntanlega kaupendur að hinu nýja fyrirtæki að hagræða með því að draga úr starfsemi á Íslandi frekar en í Þýskalandi.

Ég vona að spillingarríkisstjórn Íslands fari að hægja á sér í viðskiptum og velgjörðum fyrir Björólf Thor. Það gerir engum gott að dekra meira við hann.

Meira um málið hér:
http://dealbook.blogs.nytimes.com/2010/02/18/actavis-relies-on-deutsche-for-ratiopharm-bid/


mbl.is Pfizer ætlar að bjóða 3 milljarða evra í Ratiopharm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært hvernig þetta Icesave mál hefur þróast. Mesta þróun í lýðræðismálum Evrópu í langan tíma.

Ég verð að segja að ég er ánægður með hvernig þetta Icesave mál hefur þróast, þó langur tími hafi farið í það.

Nú er þetta orðið að alvarlegri ógn fyrir fjármálakerfi heimsins og spillta stjórnmálamenn. Þetta er ógn við þessa aðila vegna þess að ef þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram er verið að taka upp beint lýðræði í þessu mikilvæga máli. Beint lýðræði er ógn við spillta stjórnmálamenn, því með beinu lýðræði er tekið fram fyrir hendurnar á þeim. Baktjaldmakk spillingaraflanna er þá ekki það eina sem ræður úrslitum mála. Og þess vegna er þetta líka ógn við fjármálakerfi heimsins. En það virðist að verulegu leyti byggja á leynd og tengslum við spillta stjórnmálamenn sem stöðugt gefa út nýjar gerðir veiðileyfa á almenning fyrir þetta fjármálakerfi.

Þjóðaratkvæðagreiðslan hefur að sjálfsögðu ekkert að segja lengur fyrir Icesave deiluna í sjálfu sér. Þar hafa nú staðið yfir viðræður undanfarið um betri samning en þann sem á að kjósa um. Þess vegna segir það sig sjálft að allir sem eru ekki algjörir fábjánar eins og sumir þingmenn myndu segja, fella þann samning sem nú er kosið um. Það fer enginn heilvita maður að samþykkja mjög vondan samning þegar viðsemjandinn er búinn að lýsa því yfir að hann vilji gera við okkur samning sem er mun skárri en sá sem kjósa á um.

Þjóðaratkvæðagreiðslan getur því bara snúist um tvennt.

Annars vegar er hún mæling á því hve margir íbúar landsins eru fábjánar sem segja já við samningnum sem kosið er um og hve margir eru ekki fjábjánar og segja nei við þessum samningi. Þá kemur í ljós hvort mat ónefnds þingmanns á því hve hátt hlutfall þjóðarinnar sé fábjánar, er rétt eða ekki.

Hins vegar er þjóðaratkvæðagreiðslan staðfesting á því að stjórnmálamenn fari ekki einir með völdin í landinu. Að þjóðin eigi síðasta orðið í mikilvægum málum þegar hún krefst þess. Að hér sé gripið til beins lýðræðis, raunverulegs lýðræðis, þegar mikið liggur við. En gjörspillt fulltrúalýðræðí sé ekki eina stjórnunarformið í landinu.

Og það er þetta síðasta atriði sem nú virðist standa í Bretum. Þeim er meinilla við að einvers staðar skuli það geta gerst í vestrænu samfélagi að íbúar lands fái sjálfir að ráða einhverju sem máli skiptir. Þetta má helst ekki gerast, það gæti verið mjög slæmt fordæmi. Það gæti orðið til þess að spilltir stjórnmálamenn og bankamafíur missi þau heljartök sem þessir aðilar hafa á fjármálakerfi Evrópu og skattgreiðendum og launþegum.
Þetta gæti orðið til þess að íbúar Grikklands verði enn harðari á sínu þegar þeir mótmæla þvi að þurfa að borga fyrir bankasukkið. Þetta gæti meira að segja orðið til þess að íbúar Bretlands rísi einn daginn upp á móti sínum stjórnvöldum og setji þeim stólinn fyrir dyrnar.

Vegna þessa er það nú orðið nauðsynlegt að Icesave kosning fari fram, ekki vegna Icesave málsins, heldur vegna lýðræðisins. Þessi kosning er orðin nauðsynleg til að sýna hvar hið endanlega vald þjóða liggur. Hún er nauðsynleg til að sýna að það er hægt að svara kúgun og yfirgangi með lýðræði. Hún minnir stjórnvöld á hvaðan þau fá valdið.

Ég er nú ekki alveg frá því að eftir allt saman þá hafi Icesave reikningarnir á sínum tíma verið tær snilld, þó með öðrum hætti sé en Sigurjón Þ. Árnason átti að líkindum við þegar hann mælti þessi fleygu orð.

En þrátt fyrir þessa hrifningu mína af þróun málsins og áhrifum þess á þróun lýðræðis o.fl. þá má ekki gleyma því að eðlileg niðurstaða Icesave verður alltaf sú að Bretar verða að fá greiðslur úr þrotabúinu eða hluta þess fyrir Icesave og svo verða yfirvöld Íslands og Bretlands að sameinast um að rekja slóð peninganna, sækja þá peninga sem útrásarvíkingar og glæpamennirnir í bönkunum sólunduðu og stálu. Þetta er hin eina eðlilega niðurstaða Icesave málsins.

En það er afar ánægjuleg hliðarverkun þessa máls að það sé að stuðla að lýðræðisumbótum í Evrópu.

Ég vil sérstaklega þakka InDefense hópnum fyrir að hafa haft frumkvæði að þessari þróun málsins með undirskriftalista sínum. Og minni alla lesendur á að það eru InDefense og almenningur á Íslandi sem hafa komið málinu í þessa ánægjulegu stöðu. Það eru því miður ekki stjórnmálamennirnir, þeir hafa á flestum stigum verið til trafala og vandræða, sérstaklega þó stjórnarflokkarnir. Það er þó lán í óláni að stjórnin er svo vonlaus að hún hefur ekki einu sinni getað snúið á almenning í landinu til að koma sínu fram. Það er alveg nýtt hjá íslenskri ríkisstjórn. Þetta mál sýnir frábærlega hve mikilvægt og gagnlegt beint lýðræði getur verið og hve gallað og spillt fulltrúalýðræðið er.


mbl.is Bretar vilja ræða málin áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dregið úr launaforskoti afskriftamiðlanna.

Með þessum samningum er verið að jafna kjör félagsmanna Blaðamannafélagsins, óháð því hvort þeir starfa fyrir afskriftamiðlana eða ríkismiðlana eða aðra miðla.

Það hefur svo sem lengi verið vitað að afskriftamiðlarnir hafa greitt sumum starfsmönnum sínum betur en almennir kjarasamningar kveða á um. En nú virðist greiðslugeta þessara miðla vera að minnka þrátt fyrir metafskriftir undanfarið.
En gamalgrónir talsmenn afskriftamiðlanna sem hafa starfað vel og lengi fyrir eigendur sína, fá þó að halda sínum gömlu kjörum þar til þeir hætta störfum af sjálfsdáðum eða verða reknir. Þannig gera nú afskriftamiðlarnir enn vel við sína þægustu karla og konur, þó nýju fólki verði eftir fréttinni að dæma ekki boðin betri kjör en almennt tíðkast.

Nú er atvinnuleysi í blaðamannastéttinni og líklega ekki lengur þörf á extra góðum samningum til að fá hæfileikaríkt fólk til starfa á afskriftamiðlana.


mbl.is Samið vegna 365 miðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband