Stokkhólmseinkenni ríkisstjórnarinnar

Það er alveg sama hvar maður skoðar viðtöl og viðhorf fólks um vanda Íslands, sem hlaust af útrásarvíkingunum og vinum þeirra í íslenskri pólitík. Sami rauði þráðurinn liggur orðið í gegn um alla þessa umfjöllun. Við erum fórnarlömb glæpamanna. Svo einfalt er það. Þetta má lesa úr grein um Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði í Mbl í dag þar sem hann fjallar um nútímahagfræði. Þetta má lesa úr þjóðaratkvæðagreiðslu Íslendinga um síðustu helgi. Þetta hafa fjölmargir hæfir menn, innlendir og erlendir, sagt okkur í sjónvarpi, t.d. í viðtölum Egils Helgasonar í Silfri Egils og svo má lengi halda áfram.

En það er líka þekkt að fórnarlömb glæpamanna bera stundum blak af glæpamönnunum, þetta tengist víst sérstaklega gíslatökum og er kennt við Stokkhólm, kallað "Stockholms syndrome". Og þetta virðist vera það sem kom fyrir ríkisstjórn okkar. Við Íslendingar erum sannarlega í efnahagslegri gíslingu AGS af völdum útrásarglæpamannanna og gjörða þeirra. Ríkisstjórnin hefur gert allt sem henni er mögulegt til að þóknast AGS og til að hrófla alls ekki við útrásarliðinu. Hún hefur varið heilu ári í að koma í gegn samningum vegna Icesave sem eru í þessum anda, til að gera rausnarlega upp sumar skuldir glæpamannanna, þó öllum megi vera ljóst að engar forsendur séu fyrir slíkum samningi og engin geta til að standa við hann heldur. Þá hefur verið haldið hér uppi himinháum okurvöxtum til að gera það fýsilegt fyrir önnur glæpagengi að lána okkur fé og til að verjast því að krónan veikist svo við getum aftur orðið samkeppnishæf og aflað okkur tekna með raunverulegri verðmætasköpun. Þetta er gert að skipun AGS sem eru vel þekktir fyrir að vera handrukkarar fjármálaglæpasamtaka. Ríkisstjórn okkar hefur sýnt þeim mikla samúð og vorkunnsemi og viljað láta allt eftir þeim fram að þessu.

Í ljósi þessa þá gladdi það mig mikið að heyra í útvarpi í morgun að Pétur Blöndal og Atli Gíslason eru farnir að átta sig þessu hættulega hugarfari ríkisstjórnarinnar. Þeir eru farnir að sjá að kannski er best að við förum að hugsa um okkar hagsmuni, hættum að hugsa um hagsmuni gíslatökumannanna.
Þetta viðhorf hefur lítið heyrst frá því fyrir síðustu alþingiskosningar, þegar ég talaði sjálfur fyrir því á framboðsfundum í sjónvarpi og víðar að við tækjum á útrásarvíkingum og afþökkuðum samstarf við AGS.

Þessi síðbúna uppgötvun Péturs og Atla gefur vísbendingu um að kannski verði loksins farið að taka skynsamlega á efnahagsmálunum hér, að útrásarvíkingar verði teknir á beinið, að vextir lækki, að verðtrygging verði afnumin, að ríkisstjórnin setji skjaldborgina aftur á dagskrá, að hætt verði að aðstoða illa rekin fyrirtæki til að drepa þau sem betur eru rekin. Vonandi eru ráðamenn okkar að átta sig á stöðunni sem við erum í.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband