Færsluflokkur: Bloggar

Ekkert að óttast þó svo færi að Hera ynni keppnina.

Þetta eru óskiljanlegar áhyggjur sem fólk er að hafa af því að Ísland þurfi að óttast að vinna keppnina. Hvað er að óttast? Er ekki að verða tilbúið nýtt tónlistarhús sem kostar 10 sinnum meira en svona keppni? Það ætti að vera vandalaust að halda eina söngvakeppni í þessari peningahít ef á þarf að halda.
Og svo er örugglega hægt að sýna aðhald og skynsemi í framkvæmd svona keppni ef svo færi að hún endaði hér. Það er engin skylda að hver keppni verði dýrari og flottari en sú næsta á undan. Það ætti að vera hægt að gera þetta sómasamlega og með góðu móti fyrir nokkur hundruð milljónir auk þess sem keppnin gefur af sér í tekjur, ef skynsamlega er á haldið. Það þarf bara að halda pólitík, bankaræningjum, spillingaröflum og einkahagsmunapoti frá keppninni ef svo fer að hún endi hér. Það er það eina sem getur orðið til þess að kostnaður fari úr böndum.
mbl.is „Óttast að vinna keppina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gangi þér vel Hera.

Ég sendi góðar kveðjur til Heru og félaga og foreldra og vona að henni gangi vel í keppninni. Tel að lagið sé gott og verði örugglega vel flutt í keppninni. Þetta framlag Íslands að þessu sinni á vel að geta skorað mjög hátt í keppninni.
Það verður svekkjandi ef hún nær ekki upp í topp 5 í kvöld með þessu lagi hún Hera, þessi vel gerða kjarnakona sem er fulltrúi Íslands í Evrovision keppninni í kvöld.


mbl.is Hera Björk á svið upp úr kl. 20
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr þarf aðhald og hjálp í borgarstjórn - Ræningjar oss vilja ráðast á.

Ég er nú búinn að vera duglegur að blogga með Besta flokks framboði Jóns Gnarr til borgarstjórnar. Nú er kosningin byrjuð og styttist í að í ljós komi hve mörgum mönnum framboðið nær inn í borgarstjórn Reykjavík.

En nú er komið smá babb í bátinn.
Það eru farnar að heyrast sögur um að einhverjir aðilar sem eru ekki allir grínistar séu að bakka upp þetta framboð í eiginhagsmunatilgangi. Þar má nefna að Heimir Fjeldsted fullyrðir á sínu bloggi að Björk Guðmundsdóttir standi á bak við framboðið með 30 milljóna stuðningi. Það er nú umhugsunarefni. Önnur saga segir að Jón Ásgeir og glæpaklíka hans eigi góð ítök í einhverjum frambjóðendum flokksins og hafi hug á að nýta sér velgengni þess til að komast í það kjöt sem eftir er á beinum Orkuveitu Reykjavíkur. Sem sagt að komast yfir orkuauðlindir þjóðarinnar í gegn um Besta flokkinn.

Nú veit ég ekkert hvort þessar sögur eru dagsannar, helber lygi eða eitthvað til í þeim kannski. Einhverjir segja auðvitað að þær séu bara komnar frá pólitískum andstæðingum til að skemma framboðið og skamma mig svo fyrir að hafa þær eftir. En það hefur svo sem vakið athygli mína, og ég nefnt það fyrr hér á blogginu, að fjölmiðlar hafa verið ósköp þægir og góðir við þetta framboð, þveröfugt við það sem venja er með ný framboð. Og víst eru flestir fjölmiðlar landsins vel tengdir glæpagengi Jóns Ásgeirs, þannig að vissulega má greina mögulega tengingu þarna á milli.

Hvort sem þetta er nú satt eða ekki þá er ljóst að framboð nýgræðinga Besta flokksins sem nær að líkindum góðum árangri í borgarstjórnarkosningum í dag verður eflaust efst á fórnarlambalista þessara ræningjagengja sem vilja sölsa undir sig allt fémæti sem finnst á Íslandi. Ef þeim tekst að misnota þennan hóp eins og svo marga aðra hingað til er til lítils að fá þetta ferska blóð í borgina.
Og þar sem ég óttast að eitthvað kunni að vera til í þessu, sérstaklega varðandi áhuga Jóns Ásgeirs sem enn hefur ránsfeng sinn grafinn í holum um allan heim vil ég vara við þessu og brýna Jón Gnarr til að láta ekki Félag íslenskra bankaræningja narra sig út í allskonar sukk og svínarí og spillingu komast hann til valda í Reykjavík.

Einu sinni nefndi ég í bloggi mínu að ég sæi nýjan Davíð í Jóni Gnarr. En kannski er það alls ekki svo, kannski verður hann ný Ingibjörg Sólrún, sem var besti vinur Jóns Ásgeirs og félaga úr stjórnmálalífinu, að forsetanum undanskildum. Ég vil ekki að Jón Gnarr komist í svo slæman félagsskap að honum verði líkt við hana.

Það versta sem getur komið fyrir mig er að stuðla að enn frekari yfirgangi og ribbaldahætti ræningagengis Jóns Ásgeirs á Íslandi. Ég er búinn að krefjast þess síðan í október 2008 að þessi gengi verði sett í steininn og eignir þeirra frystar á meðan glæpamálin eru rannsökuð eins og gert er í alvöru réttarríkjum. Ég hef sko ekki áhuga á að púkka undir þessi gengi, hvorki viljandi né óviljandi. Þess vegna er það svo að þó Jón Gnarr komist hugsanlega að í borginni og ætli að stunda spillinguna fyrir opnum tjöldum en ekki bak við luktar dyr eins og aðrir gera, þá er það ekki nóg. Það þarf að passa að hann sjálfur og flokkur hans verði ekki strengjabrúður ræningja sem vilja halda áfram að ræna Íslandi og ætla að stjórna honum í þeim tilgangi, líklega frá fangelsi í Bandaríkjunum, en ekki Arnarholti. Hjálpum Jóni og félögum að fóta sig fram hjá þessu ræningjagengi ef Besti flokkurinn kemst til áhrifa í borginni.


mbl.is Gleymdi persónuskilríkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

X-Æ Kjósum Besta flokkinn - Gefum ruglaða liðinu frí.

Það er tvennt sem er mjög athyglisvert eftir daginn í dag, síðasta dag fyrir kosningar ársins.

Annað er það að skv. fréttum í hádeginu eru flokkarnir ekki að eyða nema frá nokkur hundruð þúsundum króna og upp í ca. 2,5 milljónir í kostnað vegna framboðs í Reykjavík. Nú er hægt að gera út heila kosningabaráttu á svona upphæðum, fyrir nokkrum árum voru einstakir frambjóðendur að þiggja margfaldar þessar fjárhæðir í styrki og framlög vegna sveitarstjórnarkosninga, alþingiskosninga og prófkjara. En það hvað allt í einu er hægt að fara í kosningabaráttu nú fyrir lítið fé styður bara það álit margra að þessir háu styrkir á árum áður hafi einfaldlega verið mútur, eða kaup á stjórnmálamönnum. Þess vegna þarf að gefa þessum flokkum og stjórnmálamönnum sem gerðu út á þennan hátt, frí, svo hægt sé að uppræta þessa spillingu. Það er ekki nóg að einn og einn segi af sér einhvers staðar eða taki sér tímabundið leyfi o.s.frv.

Hitt er það að á framboðsfundum á sjónvarpsstöðvunum í kvöld voru nokkrir frambjóðendur, þar á meðal núverandi borgarstjóri, sem töluðu mikið um að starfa saman óháð flokkum, þverpólitískt og eitthvað á þá leið að sveitarstjórnarmálin eigi að vera hafin yfir flokkspólitík o.s.frv. Samt er þetta fólk að bjóða fram í sitthvorum flokkunum. Væri ekki fyrsta skrefið fyrir þá sem hugsa svona að sameina flokka sína úr því þau eru sammála um að vilja ekki skipa sér í flokka í borgarmálunum? Næsta skrefið væri svo auðvitað að leggja bara alveg niður flokka í Reykjavík og hafa þetta bara þannig eins og lög leyfa að menn kjósi bara þá einstaklinga sem hver vill sjá í borgarstjórn. Það er ekkert sem hamlar því að hafa þann hátt á ef ekki eru boðnir fram framboðslistar. En kannski er þetta bara lýðskrum hjá þeim sem engin meining er á bak við, bara sett fram af því það er talið hljóma vel í eyrum kjósenda.

En reyndar eru svo nokkrir einstaklingar eins og t.d. Dagur B. Eggertsson og VG leiðtoginn sem vilja ekki vinna með hverjum sem er. Flokkakerfið hentar þeim vel því þau geta þannig flokkað út þá sem þau vilja ekki starfa með. En ég skil samt ekki hvað þetta fólk er að gera í pólitík. Fólk sem á í erfiðleikum með að starfa með öðrum á ekkert heima í svoleiðs störfum. Pólitíkus er alla daga í samstarfi og sambandi og samvinnu og samtölum við annað fólk. Hann er að vinna fyrir annað fólk og þarf af bestu getu að gæta jafnræðis og réttlætis gagnvart öllum borgarbúum í störfum sínum. Fólk sem vill vera í skotgrafahernaði og pólitískri mismunun er alveg úrelt í stjórnmálum. Það getur ekki gert neitt gagn í dag, á tímum þegar nóg annað er að gera en að þrasa um hver vill vinna með hverjum.

Og svo er það auðvitað ánægjulegt hvað Jón Gnarr kemur vel og skynsamlega fram í framboðsþáttunum. Það er mikið búið að gera grín að þessu grínframboði, en tilfellið er að þó boðið sé fram í gríni þá er meiri skynsemi í þessu framboði en flestum eða öllum hinum framboðunum til samans.
Það sýnir okkur að grín er ekki = heimska. Frammistaða hinna reyndu stjórnmálamanna sýnir líka að reynsla er ekki endilega = skynsemi.

X-Æ, Bæ.


mbl.is Horfast þarf í augu við ruglið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

X-Æ Jón Gnarr lang gáfulegastur í þættinum.

Það var gaman að horfa á þennan framboðsþátt á Stöð 2 áðan.
Athyglisvert var að Jón Gnarr talað af mikilli skynsemi í þættinum og skar sig þar verulega úr hópnum. Þetta kom mér á óvart því hann hefur verið böggaður mikið fyrir að tala bara allskonar grín.

X-Æ Jón Gnarr var með hugmyndir um alþjóðlegt hvítflibbafangelsi í Arnarholti. Þetta skapar mörg störf, sennilega 1-200 fyrir sérfræðimenntað fólk, skapar gjaldeyristekjur og getur jafnvel verið alveg sjálfbær starfsemi. Þessi hugmynd er bara mjög skynsamleg.
Þá vill hann skilja á milli stjórnmála og stjórnsýslu og taka upp faglegar ráðningar í stað pólitískra ráðninga í ýmis embætti og nefndir. Varla er hægt að snúa út úr þessu sem vitlausu gríni.

X-D Hanna Birna var jákvæð og drífandi í þættinum en talaði stundum í mótsögn við sjálfa sig. Talaði m.a. um að allt væri í lagi í borginni, borgarbúar ánægðari en nokkru sinni en svo kom alltaf annað slagið hjá henni að hún vilji að allir vinni saman í að koma fólki út úr þessum vandræðum og í gegn um þetta ástand o.s.frv. Þetta var svoldið mótsagnakennt og ekki trúverðugt tal í mínum huga.

X-S Dagur B. Eggertsson gleymdi að lita hárið, þannig að gráu hárin sýndu það glögglega hvað hann er stressaður fyrir þessar kosningar. Svo er hann með miklar áherslur á atvinnuuppbyggingu og talaði um að flest störf verði til í borgum. Vísaði þar sjálfsagt til virkjana og álvera og annarrar stóriðju. Sennilega hefur hann áttað sig á að í Vatnsmýri er alveg pláss fyrir stórt álver, en samt nefndi hann það ekki beinlínis.

Svo voru einhver önnur framboð í þættinum sem náðu sér ekkert á strik þannig að ég man ekki hvað þeir sögðu sem mættu fyrir þau. Og það voru líka nokkur framboð sem voru ekki í þættinum en var samt talað við fyrir þáttinn og viðtölin send út í þættinum. En það gerir auðvitað ekkert gagn fyrir þau á morgun.

Það var gaman að heyra í þættinum að Jón Gnarr er eini maðurinn sem hugsar sem svo að af því hann hefur ekki flutt flugvöll áður þá er betra að ráðfæra sig við menn sem hafa gert það áður en hann tekur afstöðu til þess máls. Hinir voru flestir á því að þegar þeir eru búnir að heimsækja gamla fólkið og börnin og athuga hvort ekki er allt í lagi hjá þeim og greiða úr brýnum vandamálum í borginni þar sem allt er í fína lagi, að þá er hægt að hlaupa til og færa flugvöllinn. Ég skildi Dag og fleiri sem svo að ef ekki verður kominn nýr jafn góður staður fyrir flugvöllinn þá verði hann samt fluttur og bara settur í geymslu þangað til góður staður finnst fyrir hann. Það fór ekki milli mála að Jón Gnarr var eini maðurinn sem svaraði spurningum um flugvöllinn af einhverju viti og alvöru.

Þeim á Stöð 2 fannst sniðugt í lok þáttarins að spyrja þá sem voru ekki í þættinum hvort þeir vildu frekar sjá ísbjörn í Reykjavík eða snjóframleiðslu í Bláfjöllum ef velja mætti á milli. Þetta var ferlega vitlaus spurning. Það er ekkert vit í snjóframleiðslu í Bláfjöllum. Það á að vera með snjóframleiðslu í Skálafelli, þar eru miklu betri aðstæður og framtíðarmöguleikar. Og í hagræðingarskyni fyrir borgina og íbúa Reykjavíkur ætti næsta borgarstjórn að sjá sóma sinn í að leggja niður skíðasvæðið í Bláfjöllum og reka eitt almennilegt skíðasvæði í Skálafelli og vera kannski með smá snjóframleiðslu þar til að hægt sé að nýta svæðið sem lengst á hverju ári fyrir borgarbúa. Ef skíðasvæðið í Bláfjöllum er lagt niður og reksturinn í staðinn bættur í Skálafelli má spara nóga peninga fyrir ísbirni, eða bara til að kaupa ís handa börnunum á 17. júni eða í eitthvað annað skemmtilegt eða nauðsynlegt.

Áfram X-Æ


mbl.is Vill hvítflibbafangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarskuldir Haíti svipaðar og íbúðaskuldir Jóns Ásgeirs.

Kostuðu ekki íbúðirnar hans Jóns Ásgeirs í New York eitthvað ca. 25 milljónir dollara. Svo er hann með eitthvað húsnæði í London, kannski á konan það, og einhvern skíðaskála einhvers staðar. Ég hugsa að skuldirnar vegna þessara eigna séu svipaðar og þjóðarskuldir Haíti við Alþjóðabankann, sem sagðar eru hafa verið um 36 milljónir dala skv. fréttinni.

Það að fella þessar skuldir niður er nú ekki stórt framlag í samanburði við þessara húsnæðisskuldir Jóns Ásgeirs sem ég tiltók hér. Svona geta sumir menn verið með persónulegar lántökur út af einkaneyslu, ekki rekstri, sem jafnast á við þjóðarskuldir milljónaþjóða. Svo er til fólk sem er að vorkenna þessu liði og verja það, segja að gagnrýni og lögsóknir séu bara ofsóknir. Þvílík veruleikafyrring. Það ætti að íhuga alvarlega að dæma Jón Ásgeir í útlegð til Haíti. Þar er það vel stæður maður sem getur keypt sér diet kók. Ég óttast bara að þó fátæktin á Haíti sé mikil og aðstaða almennings hörmuleg eftir jarðskjálfta og fellibylji ofan á almenna fátækt og stjórnleysi, þá muni menn eins og Jón Ásgeir gera almenningi þarna lífið enn verra. Og það er auðvitað ekki það sem ég vil. En hvað á að gera við þessa skúrka okkar??


mbl.is Skuldir ei meir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

X-Æ Jón Gnarr vonsvikinn með aðeins 7 menn vísa í borgarstjórn.

Ég sá í auglýsingablaði sem kom með póstinum í morgun að Jón Gnarr er svekktur ef Besti flokkurinn fær bara 7 menn í Reykjavík á morgun. Hann vonast þó til að kjósendur átti sig á lokasprettinum og tryggi áttunda mann Besta flokksins inn í Borgarstjórn. Ég heyrði kveðskap um þetta sem ég læt fylgja hér með.

Atkvæðin virðast heldur fá,
kosningu betri vill hann fá.
Meirihluti er markmiðið,
svo við fáum vinnufrið.

Áfram x,y,z,þ.æ,ö,
við þurfum fleiri menn en 7.
Svo höfuðborgin verði fín,
kjósum Besta flokkinn og meira grín.

X-Æ, X-Æ, hó og hæ,
gleðjumst út um allan bæ.
á laugardegi í ljúfum maí,
kjósum bara X-Æ, X-Æ.


mbl.is Mun færri greiða atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

X-Æ Danska lagið BEST í kvöld.

Mér fannst Danska lagið best í Eurovision í kvöld þannig að ég var ekki hissa þó það færi áfram. Þetta var eitthvað svo kunnuglegt lag og notalegt að hlusta á það. Kannski var það stolið eða stælt að einhverju leiti. Ég yrði ekki hissa þó það skoraði mjög hátt í lokakeppninni. Þetta var allavega miklu betra lag en sum lögin sem spáð er góðu gengi í keppninni og líka betra en þau sem ekki er spáð góðu gengi. En þetta er auðvitað smekksatriði og þjóðernispólitískt mál líka. Þess vegna er þetta svo spennandi keppni. Úrslitin ráðast af svo mörgu öðru en laginu sjálfu.

Alveg eins og í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi sem bera upp á sama dag. Það er svo margt fleira sem ræður úrslitum í þeim en bara kosningastefnuskrá flokkanna. Líka spillingarstuðullinn og mútuþægni og almenn vanfærni frambjóðenda til pólitískra starfa, flokksóhollusta og undirlægjuháttur o.fl.

Nema auðvitað hjá Besta flokknum í Reykjavík. Þar eru færri þættir sem þarf að meta. Það er bara stefnuskráin og hvort það verði ekki aðeins skemmtilegra að hafa þann flokk og Jón Gnarr við stjórnvölinn.


mbl.is Danir áfram en ekki Svíar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hélt að þetta væri vegna væntinga um að draga muni úr spillingu á Íslandi?

Ég trúi ekki að hlutabréf í New York hækki bara af því að Kínverjar séu ekki svo blankir að þeir þurfi ekki að selja Evrur. Það er bara plat og engar nýjar fréttir í þeirri frétt. Svo er Evran svo sterkur gjaldmiðill að það á ekkert að valda sveiflum á hlutabréfamörkuðum þó Kínverjar selji nokkrar Evrur til að halda uppi nokkrum sendiráðum í ESB löndunum. Og hvenær fóru Bandaríkjamenn að spurja Kínverja hvernig þeir eigi að verðleggja hlutabréf sín frá degi til dags? Alvöru Kani mundi aldrei viðurkenna að einhverjir Kínverjar ráði verðinu á hlutabréfunum hans. Það eru allt aðrar ástæður fyrir þessum hækkunum í dag. Ástæðurnar má allar rekja til Íslands.

1. Gosið er hætt í Eyjafjallajökli, í bili allavega og þar af leiðandi stöðugar horfur hjá flugfélögum.
2. Steinunn Valdís sagði af sér þingmennsku fyrir samspillingarflokkinn.
3. Góðar horfur Besta flokksins í Reykjavík í kosningum á laugardaginn.
4. Nýjar upplýsingar um styrki til Gísla Marteins.
5. Klókindaleg stefna skilastjórnar Glitnis þegar þeir stefndu Glitnisgengi Jóns Ásgeirs í New York og London.
6. Hera komst í úrslitakeppnina í Evrovision.
7. Vikan sem er að líða er án markverðra skammarstrika íslensku ríkisstjórnarinnar fyrir heimsbyggðina ef frá er talið að Bláa lónið týndist einhvers staðar í Kanada eða Svíþjóð og finnst ekki aftur fyrr en eftir 60 ár.


mbl.is Bandarísk hlutabréf hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sennilega hafa þeir rétt fyrir sér - ýmis rök styðja það.

Það eru mjög sterkar vísbendingar um að Katla gjósi innan 2-3 ára. Sterkasta vísbendingin er sú að Eyjafjallajökull er í gosstöðu núna. Eftir því sem sagan segir okkur er eins líklegt að Katla gjósi á eftir Eyjafjallajökli eins og að nótt komi á eftir degi.

Önnur sterk vísbending um Kötlugos innan tíðar er sú staðreynd að Katla hefur ekki gosið neitt af viti síðan 1918. Það er því kominn tími á hana eins og sagt er m.v. tíðni þekktra Kötlugosa.

Þriðja sterka vísbendingin er það álit íslenskra jarðvísindamanna að nú sé hafið tímabil þar sem búast má við mikilli gosvirkni í eldstöðvum landsins næstu áratugina. Sé þetta rétt mat verða þessi eldgos sem þeir búast við einhvers staðar að finna sér farveg. Það er viðbúið að Katla verði einn farvegurinn.

Að mínu mati eru því allar líkur á að Katla fari að gjósa, kannski ekki í þessari viku eða næsta mánuði, en örugglega innan mjög fárra ára. Þetta er eitthvað sem við ættum frekar að búa okkur undir en að afneita. Það er svo mikið 2007 að þvertaka fyrir að eitthvað neikvætt geti gerst. En þó við höfum talið okkur trú um slíkt í peningamálum sem eru alfarið mannanna verk og sýnt þar fádæma heimsku þá er enn heimskulegra að stinga hausnum í sandinn þegar náttúruöflin eru annars vegar. Þar getur verið beinlínis stórhættulegt að afneita aðsteðjandi hættu þegar menn ættu að undirbúa viðbrögð við henni.


mbl.is Telja líklegt að Katla gjósi bráðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband