Þarf líka að samræma lánshlutfall og veðhlutfall hjá almenningi.

Það er ágætt að banna lán með veði í eigin hlutabréfum og önnur sambærileg lán. Enda er þetta ekkert nema svindl eins og hefur margsannast undanfarið. Auðvitað á að banna svindl. Það segir sig sjálft. En þetta skiptir samt engu máli, því það standa enn opnar ótal leiðir til svipaðra gjörninga.

En það væri þarft að gera fleira, t.d. að samræma veðhlutfall og lánshlutfall í íbúðum.

Þetta gæti t.d. virkað þannig að ef banki lánar 50% af kaupverði íbúðar á móti framlagi kaupandans fái bankinn sem tryggingu, eða veð eins og það heitir, 50% af verðmæti íbúðarinnar á hverjum tíma. Þetta er ósköp sanngjarnt og í samræmi við framlag lántaka og lánveitanda. Þannig má segja að báðir hafi tryggingu fyrir sínu framlagi vegna íbúðarkaupanna og báðir taka jafna áhættu vegna verðbreytinga. Bankinn ber þá einn áhættu vegna einhliða hringls með lánskjörin og báðir vita að ef vel gengur verður lánið greitt að fullu og að ef illa fer tapa báðir jafnt. Slíkt ýtir undir ábyrga útlánastefnu hjá bönkunum, og ekki er nú vanþörf á því.

Vandinn í dag er sá að ef einhver kaupir eða byggir hús og fær 50% verðsins að láni, er það lánveitandinn sem hefur forgang að allri eigninni þurfi að selja hana eða ráðstafa. Sá sem er skráður eigandi mætir hins vegar afgangi og fær bara það sem eftir er þegar bankinn hefur fengið það sem hann telur sig eiga. Þetta ýtir undir óábyrg útlán í bönkunum og kostar nú fjölmarga algjöra upptöku á eignum sínum. Þessu þarf að breyta, enda hafa bankarnir og munu gera út á þetta. Þeirra áhætta byrjar fyrst þegar 100% eign dugar ekki á móti 50% láni. Þess vegna er það þeirra hagur að okra á lánunum þannig að þau hækki sem fyrst í þessi 100% sem veðin standa fyrir og svo bjóða þeir eignirnar bara upp þegar þessu marki er náð. Þetta er nú bara einfaldur þjófnaður sem nú er stundaður í ríkum mæli, allt í skjóla laga og reglu eins og það er kallað þegar einfeldningarnir á Alþingi skrifa upp á eitthvað um verðbætur og vexti og veð o.s.frv. sem bankarnir heimta og er svo kallað lög.

Svei þessu rugli og megi ævarandi bölvun leggjast á allt það lið sem stendur fyrir þessu þjóðarráni.


mbl.is Bann við láni með veði í eigin bréfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Detox eða Botox, hver er munurinn?

Ég horfði á Hrafnaþing á ÍNN áðan, enda ekkert nema fótbolti á hinni stöðinni hjá mér núna.

Á Hrafnaþingi var Ingva og konunum sem hann var með í þættinum tíðrætt um eitthvað stórkostlegt samsæri Landlæknis gegn Jónínu Ben út af einhverju detoxi sem hún stendur víst fyrir og er í tísku hjá landsmönnum núna í kreppunni.

Eftir því sem mér skildist er víst deilt um það hvort þetta detox telst til lækninga eða ekki, eitthvað var rætt um að fólk verði bráðhresst af þessari meðferð og skili inn lyfjum sem eru niðurgreidd af Tryggingastofnun. En það þykir víst ekki góð pilla að éta ekki lyfin sín. Sjálfsagt vilja yfirvöld róa þjóðina niður og koma henni allri á lyf svo hægt sé að halda áfram landráðum og hústökum yfirvalda og yfirmanna þeirra í bönkum landsins og AGS bankanum.

Ef þetta detox gerir einhverjum svo gott að hann getur lifað af öðru en pilluáti er það auðvitað bara mjög gott. Pillurnar verða hvort eða er teknar af fólki þegar ríkið eflir fjársöfnun sína fyrir AGS með niðurskurði á ríkisútgjöldum.

Svo er bara spurning hvað er með hina tox meðferðina, Botox meðferðina. Er það ekki annað tískufyrirbrigði? Kannski skottulækningar eins og þeir kalla það hjá landlækni. Hvað er gert í því? Er einhver munur þannig lagað séð á Detox og Botox?


mbl.is Detox ekki heilbrigðisþjónusta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymdi 300 milljörðum í óþarfa vexti og verðbætur.

Það er leiðinlegt að Íslendingar skuli vera með forsætisráðherra sem er svona hraðlyginn og veruleikafirrtur eins og Jóhanna Sigurðardóttir er. Ef hún hefði verið bankastjóri og hagað sér svona á útrásartímanum væri hún nú búin að stinga sjálfri sér í varðhald og hefja rannsókn á svínaríinu.

Þegar hún segir að það sé búið að laga stöðu skuldara um 45-50 milljarða, sem er eflaust í besta falli ýkjur, þá sleppir hún líka alveg að nefna að með tveim gerðum af krónu í landinu, verðtryggðum krónum á okurvöxtum og óverðtryggðum vaxtalausum launakrónum, er búið að færa um 300 milljarða frá skuldurum til lánastofnana frá hruni skv. upplýsingum sem komu fram fyrir nokkrum dögum. Ef við drögum þessa 45-50 milljarða sem Jóhanna heldur á lofti, frá þessu, þá hefur staða skuldara versnað um ca. 250 milljarða frá hruni, eða ca. 15 milljarða á mánuði. Þetta er það sem Jóhanna hefur áorkað í stjórnartíð sinni.

Svo verður nú að láta þess getið að inni í þessum 45-50 milljörðum er m.a. um það að ræða að fólki hefur verið leyft að nota séreignasparnað sinn til að greiða skuldir. Er það nú ekki eins og að míga í skó sinn? Þessi sparnaður verður allavega ekki nýttur í það sem hann átti upphaflega að fara í úr því ríkið er að hirða hann upp í skuldir.

Það hefur sem sagt ekkert breyst ennþá á Íslandi. Íslensk stjórnvöld hafa ekkert lært. Næsta hrun er að bresta á í landinu þegar þúsundir eigna fara á uppboð núna eftir sumarfrí og fram að jólum. Hvað skyldu margir búa í tjöldum í Öskjuhlíðinni í vetur? Ætli það verði skemmtilegur vetur þar?


mbl.is Hafa komið til móts við skuldavandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt nafn á meirihlutann.

Nýtt nafn á þennan meirihluta gæti verið ÖskuDagur. Þetta vísar í að meirihlutinn varð til á degi þegar borgin var undir öskuskýi frá Eyjafjallajökli. Þetta vísar í að Dagur B. er annar aðalmaðurinn í þessum meirihluta. Þetta vísar í það sem sumum finnst, að Reykvíkingar séu að fara úr öskunni í eldinn með þessari nýju borgarstjórn og þetta vísar í að Reykvíkingar eiga sér draum í líkingu við söguna um Öskubusku, að í baslinu og eymdinni sem vondu útrásarvíkingarnir og vitlausu pólitíkusarnir hafa valdið borgarbúum þá hafi borgarbúar fengið glerskóinn sinn, Jón Gnarr, sem passar fyrir borgina og laðar að henni prinsa sem vilja hefja hana til vegs og virðingar, upp úr öskustónni. Að þannig verði aftur kátt í borginni og borgarbúarnir sem er búið að fara illa með fái aftur að njóta sín og hafa gaman eins og hjá Öskubusku í ævintýrinu.
mbl.is „Besti Sam“ óskar eftir betra nafni á meirihlutann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr borgarstjóri í Gnarrvík á öskudegi.

Til hamingju Reykvíkingar með nýja borgarstjórann. Ég vil leggja til að nafni borgarinnar verði á næstunni breytt í Gnarrvík. Ástæðan fyrir Reykjavíkurnafninu er hvort eð er ekki fyrir hendi lengur. Hún var sú að þegar Ingólfur, fyrsti borgarbúinn, nam hér landi ásamt konu sinni Hallveigu Fróðadóttur, og áhöfn sinni, þá steig stöðugur reykur upp úr landinu skammt frá vík nokkurri sem hann nefndi þá Reykjavík. Síðar reis borgin Reykjavík við þessa vík.

Nú eru breyttir tímar og búið að tæma heita vatnið undan borginni sem olli þessum reyk, eða gufu, og enginn reykur lengur í Reykjavík nema sá sem kemur úr púströrum og þess háttar tólum.

Þar sem Jón Gnarr er nokkurs konar landnámsmaður í stjórnmálum Reykjavíkur, með sinni skemmtilegu og nýju nálgun á málin. Þá held ég að það sé tími til kominn að huga að nafnabreytingu á borginni. Það hjálpar líka til við að þurrka endanlega út spillingarstimpilinn og leiðindin sem eru tengd nafninu Reykjavík.

Við nýtt landnám hefur alltaf í sögunni verið stokkað upp í nafnamálum. Rétt eins og þegar Ingólfur kom til Íslands og hóf hér landnám norrænna manna. Þá hrökkluðust Írarnir sem voru hér úr landi, þeir voru víst kallaðir Papar. Og fá örnefni eru til frá þeirra tíma hér. Þeir voru í raun hreinsaðir af landinu og að mestu þurrkaðir út úr Íslandssögunni.
Ef einhvern tíma er ástæða til að endurtaka þetta þá er það núna, nú þarf að hreinsa út andrúmsloft hrunsins og spillingarinnar. Hluti af þessari hreinsun og endurreisninni er að endurnýja nafn Reykjavíkur. Víða um heim er Ísland illa kynnt eftir víkingana sem komu frá Reykjavík og settu svo marga á hausinn eða stálu allavega peningunum þeirra. Kippum þessu í lag með nýju nafni á Reykjavík. Kannski er Gnarrvík ekki endilega rétta nafnið en þið skiljið hvað ég meina. Ég legg til samkeppni um nýtt nafn á borgina.

Þetta er nokkuð sem hefur oft gefist vel, t.d. þegar Búnaðarbankinn varð að KB banka, KB banki að Kaupthing, Kaupthing að nýja Kaupthing og í staðinn fyrir alla hina kom svo Arion banki. Samt allt sami bankinn. En með þessum nafnabreytingum kom alltaf nýtt og skemmtilegt yfirbragð ásamt því sem gamlar syndir eru að verulegu leyti afmáðar. Sama má gera með Reykjavík sem gæti nú orðið að Gnarrvíkurborg eða einhverri annarri góðri borg.


mbl.is Jón Gnarr verður borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Internetveiðar.

Net hafa lengi verið notuð við veiðiskap. Það er ekki ný aðferð við veiðar að veiða í allskonar net. Meira að segja tókst að landa stórum hluta af borgarbúum með grínnetaveiðum um síðustu helgi. En ég skil ekki þessa enskuslettunotkun hjá hreintunguelskandi Íslendingum, að enn skuli vera notað orðið internet í opinberri umræðu á Íslandi.

Fyrir ca. 15 árum ákvað Morgunblaðið að nota orðið alnet um það sem þá og enn í dag var kallað internet að enskri fyrirmynd.

Hér er t.d. ágætis grein frá þessum tíma sem skýrir nauðsyn þess að hætta að tala um internet þegar fólk er að ræða um internetið.

http://www.betriakvordun.is/index.php?categoryid=18&p2_articleid=7

Hvað gerðist eiginlega? Hvernig náði þessi hræðilega enskusletta að festast svona í máli okkar?

Annars má segja um þessa stuttu frétt um þessar netaveiðar að hún sýnir okkur ágætlega að íslenskan er gagnslaust mál. Kynningarátakið er að sjálfsögðu með ensku heiti, og eflaust allt í því á ensku. Emiliana Torrini er nefnd þarna með eitthvað lag með ensku heiti og miðilinn sem notaður er í átakið, internetið, nefum við internet í þessari frétt sem annari umræðu þó íslenskt orð sé til yfir þetta.

Þetta er svona vegna þess að íslenskan er úrkynjað tungumál. Tungumál sem eitt sinn var alþjóðlegt en hefur staðnað og er nú talað af sárafáum sérvitringum sem finnst það svaka merkilegt að tala mál sem enginn skilur.


mbl.is Nota netið til að veiða ferðamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar uppteknir af gríni en ekki alvöru?

Það hefur lengið legið fyrir að það þarf að hækka allt sem hægt er hjá borginni og fyrirtækjum hennar. Ég benti t.d. á það rétt fyrir kosningar í þessar færslu hér:

http://jonlindal.blog.is/blog/jonlindal/entry/1058051/

En auðvitað var mjög einfalt fyrir borgarfulltrúa að þegja um þetta fyrir kosningar. Fjölmiðlamenn eru almennt svo áhugalausir að þeir spyrja ekki margra spurninga sem máli skipta fyrir kosningar. En finnst þetta kannski mikið mál núna. Þeir höfðu meiri áhuga á því hvort Jón Gnarr væri að grínast eða ekki og hvað hann ætlaði að grínast lengi. Þeir viðurkenna ekki ennþá að þeir komu honum til valda með því að spekúlera svona mikið í framboði hans og Besta flokksins. Jón Gnarr spilaði skemmtilega með fjölmiðlamenn. Það var út af fyrir sig ágætt, en kannski dró það athyglina frá málum sem hefði mátt velta upp fyrir kosningar. En þeir hafa þá allavega skemmtilega afsökun fyrir að hafa ekki staðið sig í stykkinu.


mbl.is „Gjaldskráin verður að hækka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tek heilshugar undir þetta.

Jón Steinsson er greinilega mjög skynsamur maður. Það þurfa allir að éta mat og þess vegna er það snilldarleið til að safna 150 milljörðum að kröfu AGS að hækka virðisaukaskatt á mat. Þannig taka allir þátt í þessum greiðslum til AGS, meira að segja líka þeir sem eiga ekki pening fyrir neinu nema mat.

En þó mér þyki nafni minn mjög skynsamur maður þá finnst mér vanta hjá honum ítarlegri útfærslur á þessu. Það er hætt við að mikið verði svikið undan skatti í þessu kerfi því fólk gæti freistast til að fara að éta krækiber í stórum stíl á haustin og frysta rabbarbara til að éta allt árið. Njóli, hundasúrur, fjallagrös og hvönn eru líka allt þjóðlegar og góðar matjurtir. Þetta gæti jafnvel gengið svo langt að við förum að sjá kartöflugrös og rifsber í stórum stíl í görðum landsmanna og þessu yrði örugglega mestmegnis skolað niður með vatni og heimabruggi. Þetta yrði sem sagt auðvitað allt étið fram hjá skatti.

Það væri auðvitað hægt að fyrirbyggja þessi skattsvik að nokkru leiti með því að banna alla nytjaræktun í görðum og brenna allt krækiberjalyng og fjallagrös til að enginn svindli á matarskattinum.

Líklega væri þó best að útfæra þennan skatt á allt annan máta en að leggja hann á í búðunum. Lang hagkvæmasta leiðin í þessu er auðvitað sú að skattleggja útborguð laun í landinu með 100% flötum matarskatti. Þannig næst hérumbil sú fjárhæð sem vantar í ríkiskassann. Þá væri hægt að loka öllum matvörubúðum og senda fólki bara heim þann mat sem það má éta. Þessi leið hefur ótrúlega marga kosti í för með sér. Það verður ekkert hægt að svíkja undan þessum matarskatti, fólk þarf minna að éta af því það brennir engu við að kaupa í matinn, það fær enga peninga í vasann og getur þess vegna ekki farið út að mótmæla nema rétt við húsdyrnar þannig að þessi aðferð veldur litlum óróa í þjóðfélaginu og til að fá jákvæða ímynd á þetta væri hægt að kynna þetta sem þjóðarmegrun í boði ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Leggur til hærri skatta á mat og auðlindagjald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hissa þó löggubílnum hafi verið stolið.

Það er aldrei friður með nokkurn hlut á Akranesi, þarna er sífellt verið að stela öllu steini léttara og stundum þyngri hlutum líka. Það er einkenni á Skagamönnum að það fær enginn hlutur að vera í friði hjá þeim. Ef hlutir eru of ómerkilegir eða óhentugt að stela þeim þá er allavega reynt að skemma þá. Og það hefur hingað til ekkert gagn verið í að tilkynna lögreglunni á Akranesi um það sem stolið er. Hún finnur aldrei neitt. Þannig að ég er ekki hissa þó löggubílnum hafi verið stolið, það er frekar að ég furði mig á að þeir hafi fundið hann aftur.
mbl.is Viðamiklar aðgerðir lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leynilegir leynifundir.

Heyrði áðan mjög lélegan kveðskap um leynifundahöld Besta og Samfylkingar. Læt þetta vaða hér.

Liggur Dagur í leyni,
hangir eins og hundur á beini.
Horfir á Wire,
og Earth, wind and fire.

Leynifundir alla daga,
Leynistundir manninn plaga,
Þetta er nú skondin saga,
Höldum henni vel til haga.


mbl.is „Víraðar“ viðræður í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var hann ekki nýbyrjaður á Kananum?

Tollir þessi maður hvergi í vinnu? Ég hélt hann væri nýbyrjaður á Kananum að flytja fréttir þar. Af hverju er hann að hætta þar þegar hann er rétt nýbyrjaður? Það er kannski full langt að keyra til Keflavíkur í vinnu. Ég vona að honum falli Útvarp Saga vel. Það er ágæt stöð á margan hátt, en þarf þó að fríska aðeins uppá. Haukur er fínn fréttamaður og ætti að geta gert margt gott á Útvarpi Sögu ef hann tollir eitthvað þar.
mbl.is Haukur Holm til liðs við Útvarp Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum að hafa sama gjaldmiðil fyrir laun og lán - Hættum að borga þangað til þetta er komið í lag!

Það er einföld ástæða fyrir slæmri stöðu heimilanna. Hún er sú að á Íslandi er ekki í boði að taka lán í sama gjaldmiðli og notaður er til að greiða laun.

Oft hefur verið bent á að fólk eigi að hafa lánin sín í sama gjaldmiðli og tekjurnar, en á Íslandi er samt ekki boðið upp á þetta. Þú getur valið að taka gengistryggð lán eða verðtryggð lán. En gengistryggð laun eða verðtryggð laun eru hvergi í boði. Með því að hafa einn gjaldmiðil fyrir laun og aðra gjaldmiðla fyrir lán er nú verið að taka eignir þeirra sem tekið hafa lán af þeim. Það er verið að taka þessar eignir og færa þær inn í bankana.

Frá hruninu 2008 hafa laun almennt farið lækkandi, sumir eiga þó því láni að fagna að laun þeirra hafa staðið í stað en ekki lækkað og örfáir hafa séð launin hækka dálítið. En engir hafa séð launin hreyfast neitt í takti við lánin. Þau hafa hækkað gríðarlega, hvort sem þau eru gengistryggð eða verðtryggð. Það er í raun sáralítill munur á gengistryggingu og verðtryggingu því verðtryggingin endurspeglar gengisbreytingar eins og þær síast inn í verðlag innfluttra vara en gengistryggingin miðast beint við gengi gjaldmiðla á hverjum tíma. Munurinn er því ekki svo mikill á þessu tvennu. Og hvort tveggja er ekki í neinum tengslum við launin í landinu. Þau eru alltaf greidd í óverðtryggðum og ógengistryggðum krónum. Þau eru sem sagt greidd í öðrum gjaldmiðli en notaður er við útreikning lánanna.

Vegna þessa eru heimili sem skulda og aðrir skuldarar að fara í þrot hratt og örugglega. Ríkisstjórnin virðist halda að þetta stafi af almennum aumingjaskap og skilur ekki að það að bankarnir nota sérstakan gjaldmiðil þegar lán eru innheimt er það sem skapar vandann.

Það sem skuldarar ættu að gera allir sem einn er að hætta strax að borga af lánum sínum. Það hefur hvort sem er engan tilgang í þessari stöðu. Og það ætti ekki nokkur maður að vera svo vitlaus að greiða krónu af lánum fyrr en búið er að taka upp einn gjaldmiðil í landinu fyrir laun og lán og leiðrétta misvægið sem hefur verið að skapast undanfarið.


mbl.is Staða heimilanna afar slæm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr er sá eini sem getur bjargað Samfylkingunni.

Heyrði illa saminn kveðskap sem mér finnst við hæfi að setja hér úr því forystukreppa Samfylkingarinnar er í sviðsljósinu ennþá.

Samfylkingin stjórnlaus er,
forystan ekki ber sitt barr.
Hver á nú að ráða hér,
Auðvitað Jón Gnarr.

Dagur honum gekk í lið,
Besta flokksins tók upp sið.
Þetta þolir enga bið,
sjáum til og bíðum við.

Sætti sig við grín og háð,
Besti tók hann upp á náð.
Engin eru betri ráð,
ef bjarga á þessum flokki í bráð.

Trúðaflokkur samfó er,
trúðslætin öll stundum vér,
foringja við þurfum hér,
svo betur getum þjónað þér.

Sætti sig við grín og háð,
Besti tók hann upp á náð,
Engin eru betri ráð,
ef bjarga á þessum flokki í bráð.

Formaðurinn núna er Jóka,
hendum henni og förum að djóka.


mbl.is Samfylking finni nýja forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það besta sem við getum gert er að líta í eigin barm og .......

Við getum öll verið sammála um að þetta er ógeðsleg mannvonska og klikkun og glæpamennska og illgirni og stríðsglæpir o.s.frv.

Og okkur langar til að mótmæla og gera eitthvað í þessu til að friða samviskuna. Kannski langar suma líka til að gera eitthvað fyrir Palestínumenn og Íraka og Afgana og aðra í heiminum sem eru fórnarlömb stríðsbrjálæðis.

En hvað getum við gert? Hvað er best að gera? Er ekki nóg að láta móðan mása í 1-2 daga, skammast dálítið eða heilmikið og senda nokkur mótmælabréf. Reynum jafnvel að komast í einhvern útlendan fjölmiðil til að láta heiminn heyra hvað þetta er ljótt. Við göngum nú samt ekki svo langt að siga Dorrit á Ísraelsmenn til að skamma þá, hún er víst Ísraeli og fengi kannski á baukinn ef hún færi að skipta sér af. Þeir taka kannski af henni vegabréfið og segja henni að koma aldrei aftur. Ég veit ekki hvort þetta er nóg, en þetta er samt nokkurn veginn það sem við erum vön að gera.

Nokkrir menn, ekki margir, hafa þó sýnt vilja sinn í góðverki. Einn þeirra a.m.k., hefur gengið svo langt að standa fyrir söfnun á lyfjum og gjöfum til barna og koma því alla leið á áfangastað til að sýna í góðverki að hægt sé að gera meira en að kjafta um þetta við eldhúsborðin. Hann hefur gengið lengra en flestir hinir því hann skilur að kjaftæði og sjálfsvorkunn þeirra sem horfa upp á þetta gerir nú lítið gagn. En þetta er Ástþór Magnússon sem á auðvitað ekki upp á pallborðið hjá flestum því hann hefur þá óþægilegu áráttu að fylgja stundum orðum sínum eftir í verki. Það er álitinn slæmur galli á Íslandi, sérstaklega hjá alþingismönnum og öðrum ráðamönnum þjóðarinnar, hvað þá einhverjum almúgamönnum að gerast svo frakkir.

Þessi leið Ástþórs er nú að mínu mati ein sú besta sem hefur verið farin á Íslandi, en ekki sú eina sem hann hefur fundið upp á. Hann hefur líka stofnað alþjóðlegu friðarsamtökin Frið 2000 til að vinna að friði í heiminum. En þegar hann beindi sjónum almennings að ógeðfelldri stríðsþáttöku Íslands í Íraksstríðinu, ásamt því að vara við að íslenskar farþegaflugvélar kynnu að verða skotmark vegna þessarar stríðsþáttöku, þá ruku stjórnvöld til og sóttu Ástþór og stungu í steininn í gæsluvarðhald, hreinsuðu út af skrifstofum Friðar 2000 tölvur og önnur gögn og rústuðu starfsemi friðarsamtakanna. Ástþór var svo dreginn fyrir dóm sem hryðjuverkamaður vegna þessara viðvarana sinna. Svona vinna stjórnvöld á Íslandi í raun. Þau eru alls ekki friðarsinnuð. Ef þau finna alvöru friðarsinna í landinu þá er hann talinn hryðjuverkamaður. Það sannaðist líka á Ögmundi og félögum í samtökum herstöðvaandstæðinga, sem á sínum tíma görguðu árum saman, "Ísland úr Nató, herinn burt!!!" Svo þegar herinn vildi burt breyttist þessi söngur snögglega í "Ísland í Nató, herinn kjurt!!!" Þegar velja þurfti her og pening eða engan her og engan pening vildu allir peninginn þó svo herinn yrði að fylgja með. Svona vinna íslensk stjórnvöld. Svona er veruleikinn. En herinn fór samt burt því Bandaríkjamenn völdu líka peninginn og ákváðu að spara herinn á Íslandi. En vilji Íslendinga skipti þar engu máli.

Það er fleira sem Ástþór vildi gera. Hann vildi virkja Bessastaði. Gera forsetaembættið að friðarstóli og Ísland að friðelskandi og alheimsfriðandi þjóð. Hann vildi verða þannig forseti. En það var annar í boði sem vildi verða senditík fyrir alla bankastjóra Íslands og hjálpa þeim að gera Íslendinga svo ógeðslega ríka að þeir gætu keypt restina af heiminum sem er eitthvað vit í og flogið svo til tunglsins og búið þar og horft þaðan niður á eignir sínar á jörðinni og dáðst að þeim fjarri öllu stríðsbrölti og vitleysisgangi í hinum hálfvitunum sem hafa ekkert peningavit og eru alltaf að skjóta á hvern annan. Íslendingar völdu auðvitað þennan mann en ekki Ástþór því þetta var miklu skemmtilegra og raunhæfara markmið en að vera til friðs og virkja forsetaembættið til að láta gott af sér leiða. Svona eru Íslendingar. Þeir hafna alltaf friði ef eitthvað annað skemmtilegra er í boði.

Það besta sem við gerum núna og eftirleiðis er að líta í eigin barm og skoða hvernig við sjálf erum. Við skulum ekkert vera að æsa okkur yfir manndrápum hjá öðrum ef við tökum alltaf þátt í stríðsbrölti sjálf þegar það býðst. Við skulum ekkert vera að fárast yfir stríðsbrölti annarra og afleiðingum þess ef við stingum þeim í steininn sem gera eitthvað af viti til að andmæla okkar eigin stríðsþáttöku. Við skulum ekkert vera að finna að því að aðrar þjóðir standi í ógeðslegu stríðsbrölti úr því við veljum sjálf að sýna þjóðhöfðingja okkar sem andlit fégráðugra sjálfselskupúka og glæpamanna frekar en fulltrúa friðelskandi og góðgjarnrar þjóðar.

Ef við viljum virkilega hafa áhrif skulum við ekkert vera að eyða tíma í venjulegt sýndarmennskukjaftæði til að friða eigin samvisku. Notum frekar tímann til að líta í eigin barm. Ef okkur finnst virkilega að við eigum að stuðla að friðsamlegri og betri heimi skulum við velja okkur leið til þess í anda Ástþórs Magnússonar og fara hana svo af alvöru.


mbl.is Hrikalegir atburðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengi hvaða krónu er að styrkjast?

Við erum með þrjú afbrigði af íslenskri krónu í umferð og þegar fluttar eru fréttir um styrkingu krónunnar þá væri gott að vita hvaða afbrigði eru að styrkjast?
Er það gengistryggða krónan?
Er það verðtryggða krónan?
Er það óverðtryggða og ógengistryggða krónan sem eingöngu er notuð til að greiða laun í landinu?

Það er lífsnauðsynlegt að einfalda gjaldeyrismál í landinu og hafa bara eina krónu fyrir alla hluti. Þar sem nú þegar er verið að snúa af braut gengistryggingar er augljóst að næsta skref er að leggja niður verðtrygginguna eða verðtryggja launin. Þá erum við komin með einn gjaldmiðil í landinu.


mbl.is Gengi krónunnar styrktist umtalsvert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband