Vonandi mun Besti flokkurinn taka upp alþjóðlegt tungumál á Íslandi aftur.

Eitt af því sem hefur stöðugt hrakað á Íslandi á undanförnum árhundruðum er tungumálið. Ég geri mér vonir um að Besti flokkurinn taki það á stefnuskrá sína að taka á ný upp alþjóðlegt tungumál á Íslandi. Það er nefnilega BEST fyrir okkur öll.

Þegar Ísland var numið af víkingum á árunum ca. 800-900 þá töluðu þessir fyrstu íbúar landsins tungumál sem allir skildu á norðurlöndunum og á Englandi. En þegar landnemar höfðu komið sér fyrir hér og sett lög og komið á þjóðfélagsskipulagi gleymdu menn sér. Það gleymdist að þróa tungumálið. Þetta gleymdist vissulega í fleiri löndum, en það afsakar ekki okkar mistök. Síðan þetta gleymdist fyrst hafa stjórnvöld alltaf gleymt þessu, nú síðustu 100 árin er það fjórflokkurinn sem hefur gleymt að þróa tungumálið. Nú erum við í þeirri stöðu að enginn talar lengur okkar tungumál nema við sjálf, Íslendingar. Þessi gleymska varðandi þróun tungumálsins er nú orðin að okkar mestu átthagafjötrum. Við erum föst í landinu, nánast eins og í fangelsi, vegna þess að erlendis erum við bara vitlausir útlendingar sem enginn skilur. Þess vegna þurfa flestir Íslendingar að ferðast í stórum hópum þegar þeir fara til útlanda með fararstjóra sem babblar eitthvað fyrir þá og hjálpar þeim að finna hótelið sitt og barinn og ströndina.

Það er löngu kominn tími til að þjóðin skilji það og játi það að tungumálið er okkur fjötur um fót. Að við þurfum að huga að tungumálalegri framtíð okkar. Ég hef bloggað um þetta áður og fæ stundum dálítil viðbrögð frá fólki sem finnst voða vitlaust að hugsa sér einhverja framför í þessu efni og vill að ég gleymi þessari hugmynd sem fyrst.

En nú er Besti flokkurinn kominn að í Reykjavík og nú er ég að vona að þetta mál fái byr undir báða vængi. Að Besti flokkurinn beiti sér fyrir tungumálaumbótum í borginni og hefji nú þegar með markvissum hætti vinnu við að tungumálavæða Reykvíkinga með alþjóðlegu tungumáli. Það má t.d. gera með því að draga úr íslenskukennslu, auka t.d. enskukennslu í staðinn. Hafa ókeypis enskunámskeið fyrir alla foreldra svo þeir geti talað ensku heima fyrir við börnin. Hafa enskuskyldu á vinnustöðum borgarinnar og jafnvel heimilum, rétt eins og aðrar þjóðir eru með herskyldu. Eða jafnvel að gera það sem getur ekki klikkað, að bjóða skattaafslátt til þeirra heimila sem ákveða að taka upp enskuna. Ef Besti flokkurinn tekur ekki á þessum vanda er hann lítið betri en fjórflokkurinn.


mbl.is Sigur Besta flokksins vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þvílík endaleysa. Borgarfulltrúar eru kjörnir til að stjórna starfsemi borgarinnar, ekki til að skipta sér af málfari fólks eða leggja stein í götu íslenzkrar menningar.

Jón Valur Jensson, 31.5.2010 kl. 00:10

2 identicon

Þetta er sennilega versta hugmynd sem ég hef heyrt.

Enska er ekki alþjóðlegt tungumál. Og þar að auki setur borgarstjórn ekki fasískar reglur sem gilda á landsvísu um hvaða tungumál er talað. Þar að auki eru ekki settar fasískar reglur sem skerða málfrelsi á Íslandi.

Af hverju ekki að taka frekar upp kínversku? Það eru fleiri sem tala hana.

Hvar varst þú þegar Babelsturninn var byggður?

Hreinn Sveinsson (IP-tala skráð) 31.5.2010 kl. 01:54

3 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sælir kæru vinir og takk fyrir athugasemdirnar. Jú, það eru einmitt fasískar reglur sem skikka okkur til að hafa íslensku að móðurmáli á Íslandi, það má ekkert annað en það.

Ég vil nú taka upp Enskuna af nokkrum ástæðum. Fyrir það fyrsta er hún það mál sem langflestir tala í dag á okkar upphaflega málsvæði, skandinavíu og Englandi.

Í öðru lagi er hún í dag töluð af álíka mörgum og Kínverskan.

Í þriðja lagi er hún í mestri sókn allra tungumála í heiminum, m.a. vegna þess að bæði Kínverjar og Indverjar eru að gera stórátak í að bæta enskukunnáttu þjóða sinna. Að um 10 árum liðnum eða fyrr má gera ráð fyrir að um 500 milljónum fleiri íbúar jarðarinnar tali ensku en nokkuð annað tungumál.

Og reyniði svo að hugsa aðeins út í hvort það er nú ekki heilmikið vit í þessu áður en þið svarið þessu bara eins og venjulega og án þess að velta fyrir ykkur kostum og göllum við að taka upp annað tungumál.

Jón Pétur Líndal, 31.5.2010 kl. 02:06

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú kannt greinilega ekki að meta gildi íslenzkrar tungu.

Það er lítið mál fyrir þá, sem meta hana lítils, að skipta henni út fyrir klaufska ensku þorra fólks næstu 50 árin.

En ff við höldum ekki uppi merki þessa ómetanlega tungumáls, hverjir gera það þá?

Svo er lífshamingjan ekki fengin með einu saman því, sem "hagkvæmt" þykir í hagrænum skilningi.

En þetta er sennilega bara í stíl við annað á þessari síðu þinni ...

Jón Valur Jensson, 31.5.2010 kl. 02:13

5 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll aftur og takk kærlega fyrir athugasemdina. Nú erum við að nálgast vitræna umræðu um málið þannig að ég spyr þig nokkurra spurninga út frá þinni eigin athugasemd.

1. Hvert er gildi íslenskrar tungu?

2. Af hverju er íslenskan ómetanlegt tungumál?

3. Af hverju þarf að halda uppi merki þessa tungumáls?

Jón Pétur Líndal, 31.5.2010 kl. 02:24

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Spyr sá sem ekki veit !

Jón Valur Jensson, 31.5.2010 kl. 02:30

7 identicon

Það tala ekki næstum jafn margir ensku og kínversku. Kínverskumælendur eru tvöfalt fleiri.

http://www.photius.com/rankings/languages2.html

En annars þá ætla ég bara að leyfa þér að smíða þínar útópíur sjálfur, veit ekkert hvað ég er að skipta mér af þessu. Þetta mun aldrei verða að veruleika og þú veist það.

Hreinn Sveinsson (IP-tala skráð) 31.5.2010 kl. 02:37

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég hef nokkrum sinnum lagst svo lágt að lesa þessa vitlausu pistla þína og ég held að það sé leitin að jafn stjarnfræðilegu fífli og þér. Þú verður að fyrirgefa, en ég finn bara ekki annað orð í okkar annars auðuga máli.

Þetta er í fullri einlægni sagt.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.5.2010 kl. 05:56

9 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sælir og takk fyrir athugasemdirnar. Maður verður bara auðmjúkur að finna að maður snertir fínar taugar með þessu bloggi.

Jón Valur, ég er nú eiginlega engu nær af þessu svari þínu þó það sé annars nokkuð sniðugt.

Hreinn, þessi síða sem þú bentir mér á er með ævagamlar upplýsingar. Ég fletti nýlega upp í gamalli alfræðibók um Ísland. Þar var mynd af húsakosti Íslendinga, sem var auðvitað torfbæir. Þó það standi í gamalli alfræðibók þá er ekki þar með sagt að svo sé enn í dag og rétt að nota þá bók til að lýsa núverandi húsakosti. Sama á við um þessa síðu sem þú vitnar til um útbreiðslu tungumála.

Hér er önnur vefsíða með nýrri upplýsingum til að skoða.

http://www.internetworldstats.com/stats7.htm

Eins og þú getur reiknað út frá þessum upplýsingum þá hefur útbreiðsla enskunnar verið gríðarlega hröð á undanförnum árum og fjölmennar þjóðir eru þar að auki með þá stefnu að íbúarnir læri þetta mál í enn meira mæli en hingað til. Það er því alls ekki fjarlæg útópía að við annaðhvort tökum sjálfviljug upp ensku sem móðurmál eða a.m.k. sem fullgilt mál samhliða íslenskunni. Annars eigum við það á hættu að verða innan nokkurra áratuga eina landið í heiminum þar sem íbúarnir tala ekki allir ensku.

Jón Steinar, ég þakka titilinn og áhuga þinn á blogginu hjá mér og vona að þú verðir duglegur að lesa pistlana mína héreftir sem hingað til.

Jón Pétur Líndal, 31.5.2010 kl. 10:23

10 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú, alltaf gott að kunna tungumál og alltaf hægt að efla tungumálakunnáttu.  Það er ekkert sem opnar einstaklingum eins marga glugga og málakunnátta.  Reyndar ætti einnig leggja áherslu á þýsku, frönsku og spænsku.

En staðreyndin er að stökkbreyting hefur orðið i enskukunnáttu á Íslandi.  Hafiði ekki hlustað á unglinga og krakka svo sem yngri en 15 ára tala ensku?   Stökkbreyting frá bara 20-30 árum síðan.

Náttúruleg uppaldir með ensku í eyrunum alla daga bæði í tonlist og ekki síður sjónvarpi sem er enn mikilvægara.  þessir krakkar eru flennifær í að tjá sig á ensku í aðalatriðum.

Hinsvegar má segja að talenska sé eitt en til að geta lesið eða fræðst um flóknari mál á ensku þurfi meira til. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.5.2010 kl. 18:36

11 identicon

Einu sinni þótti fínt að tala Dönsku á Sunnudögum, og þá helst í Stykkishólmi. Víða í Ameríku eru Indjánaflokkar að tapa sínu tungumáli og þar með sínum sérkennum, en það er að verða vakning meðal þeirra  og ungt fólk flykkist til að læra gamla málið. Ég vona að þetta muni aldrei gerast hér á landi. Íslenskan er svo fallegt mál.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 31.5.2010 kl. 20:51

12 identicon

Ég held að það væri mun nær að skikka nágrannaþjóðir okkar til að taka upp íslensku, eins og þú bentir á í upphafi pistils þíns töluðu þessar þjóðir allar tungumál sem voru skiljanleg innbyrðis í meira mæli en þau eru í dag og öll eru málin náskyld íslenskunni.

Ég held að það sé ekki okkar heldur nágrannaþjóðanna að breyta þessu þar sem það voru jú þau tungumál sem breyttust í mun ríkari mæli en íslenskan.

Sigvaldi Eggertsson (IP-tala skráð) 31.5.2010 kl. 21:36

13 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sælir og takk fyrir athugasemdirnar. Það er ágætt að fá svona hófstilltar athugasemdir og umræðu um málið.

Jón Pétur Líndal, 31.5.2010 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband