Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Helga Valborg Pétursdóttir.

Ég sá það í Morgunblaðinu í morgun að í dag verður jarðsett Helga Valborg Pétursdóttir.

Helga Valborg var fyrsta manneskjan sem ég hitti og kynntist í Mývatnssveit 1986 þegar ég flutti þangað. Ég man það enn þegar ég kom í hlað við Hótel Reynihlíð og hitti Helgu Valborgu í fyrsta sinn. Hún var jákvæð og glaðvær kona, vel gift. Þegar ég kynntist henni var hún oddviti Skútustaðahrepps og rak með manni sínum Hótel Reynihlíð. Síðar þegar þau hjónin hættu hótelrekstrinum fluttu þau til Akureyrar þar sem þau hafa búið síðan.

Það var gaman og jákvætt að vinna með Helgu Valborgu og margs að minnast sem af kynnum okkar leiddi. Þegar við kynntumst hafði hún m.a. uppi áform sem ég vissi ekkert um en urðu afdrifarík varðandi það hverjir afkomendur mínir eru í dag.

Ég þakka Helgu Valborgu kærlega kynnin og kveð hana hér í dag.
Votta Arnþóri og börnum þeirra og barnabörnum samúð mína.

Jón P. Líndal.


Villandi fjölmiðlar - villuráfandi þjóð.

Ólafur Ragnar vakti víst athygli þeirra er hlustuðu á hann í morgun á Bylgjunni. Ég var ekki einn af þeim, en er búinn að sjá margar fréttir um ummæli hans í þættinum og komment lesenda sumra netmiðlana um þau.

Ég er ekki einn af þeim sem ætla að kjósa Ólaf í sumar. Hann er búinn að vera nógu lengi og aðrir frambjóðendur í boði sem virðast vel hæfir í embættið. Auk þess er kominn tími til að þjóðin fari að horfa fram á við einhvers staðar þar sem máli skiptir. Það er óþarfi að gera það sama með forsetaembættið eins og gert hefur verið með ríkisstjórnina og bankana, að vera áfram með sama gamla liðið og sömu aðferðirnar og komu landinu á hausinn.

En ummæli Ólafs þar sem hann gagnrýnir RÚV og mótframbjóðanda RÚV til forsetaembættis, Þóru Arnórsdóttur, eru mjög skiljanleg. Að mínu mati er hárrétt það sem Ólafur segir um þetta. Það skilur hver heilvita maður sem eitthvað fylgist með. Og hann verður að fá plús í kladdann fyrir það sem hann segir og gerir rétt. RÚV er í raun virk kosningamaskína fyrir frambjóðanda sem virðist enga stefnuskrá hafa aðra en þá að ætla ekki að skipta sér af neinu sem kemur frá ríkisstjórninni. Slíkur frambjóðandi er í raun að sýna kjósendum puttann fyrirfram. Slíkur frambjóðandi er að sækjast eftir embættinu sem fulltrúi ríkisstjórnar en ekki þjóðar. Samt gleypir vitlaus og villuráfandi þjóðin við þessum frambjóðanda.

Í umræðum um forsetaembættið og forsetakosningarnar 2012 er mér orðið ljóst að bæði þjóðin og fjölmiðlarnir eru á margan hátt á villigötum. Alls konar frasar og hugmyndir og innihaldslaus persónudýrkun staðfesta það. Hér eru nokkur dæmi:

Frasi 1. Forsetinn á að vera sameiningartákn þjóðarinnar.
Þetta er vitleysa, þó það sé auðvitað í góðu lagi ef hann getur samrýmt þetta starfi sínu að öðru leyti. Hlutverk forsetans er skilgreint í stjónarskrá. Í henni er hvergi minnst á neitt sameiningartákn.

Frasi 2. Ólafur Ragnar virkjaði málskotsréttinn.
Þetta er vitleysa. Hann var fyrstur til að nota hann, það er óumdeilt. En í stað þess að ræða um að hann hafi "virkjað" þennan rétt sem hefur verið virkur frá stofnun lýðveldisins væri rétt að spyrja hvort það hafi alltaf verið rétt af fyrri forsetum að líta fram hjá málskotsréttinum í mikilvægum málum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá sverja forsetar drengskaparheit að stjórnarskránni, þar með talið að 26. gr. þar sem kveðið er á um að forsetinn geti synjað lagafrumvarpi staðfestingar.

Hugmynd 1. Það þarf að taka málskotsréttinn af forsetanum eða setja þrengri reglur um hvernig hann má nota þennan rétt. Í stað þess að villast út í þessa umræðu væri nær að tala um hvernig má einfalda kosningakerfið þannig að ódýrt og skilvirkt geti verið að skjóta málum til þjóðarinnar. Við höfum stjórn og stjórnarandstöðu sem geta ekki komið sér saman um neitt, ekki einu sinni hvenær fólk fái að kjósa um hluti eins og nýja stjórnarskrá og við höfum embættismannakerfi ótal smákónga sem hafa hver sína hugmyndina um hvernig eigi að framkvæma einfaldar kosningar og gera stöðugt stórmál úr engu í þeim efnum.
Munum að málskotsrétturinn er fyrst og fremst réttur kjósenda til að afgreiða málin. Það eina sem forsetinn gerir með því að neita að skrifa undir lög er að hann leyfir þjóðinni að ákveða fyrir sig hvort hann á að skrifa undir þau eða ekki. Þetta er kallað lýðræði.

Persónudýrkunin er svo annar kapítuli með sína frasa:

Persónudýrkunarfrasi 1. Við viljum flottan forseta og börn á Bessastaði. Þetta er ótrúlega heimskulegur frasi. Eins og ég hef áður minnst á þá er hlutverk forseta skilgreint í stjórnarskrá og á Bessastaði þurfum við þann frambjóðanda sem er líklegastur til að valda því hlutverki sem stjórnarsrkáin ætlar honum. Það er líka réttur kjósenda skv. stjórnarskránni að fá að kjósa sér forseta. Þann rétt er heimskulegt af kjósendum að taka sem eitthvert grín og nota hann til að styðja við málefnalaus lýðskrumsframboð.

Persónudýrkunarfrasi 2. Ólafur stóð með þjóðinni í Iceasave, þess vegna eigum við að kjósa hann aftur núna.
Ólafur gerði fjölmargar gloríur og hefur vægast sagt verið mistækur og dýrkeyptur forseti fyrir þjóðina þegar allt er talið. Það er grunnhyggið fólk sem styður hann núna út á það að hann hafi einu sinni slampast á að gera rétt á 16 ára forsetaferli.

Persónudýrkunarfrasi 3. Þetta er kosningar milli Ólafs og Þóru.
Enn einn heimskulegi frasinn. Þetta eru nefnilega kosningar milli 8 frambjóðenda þar sem fólk ætti að vera að velja sér hæfasta einstaklinginn úr hópi frambjóðenda til að gegna forsetaembættinu. Í stað þess að líta til hæfileika og stefnumála gíra fjölmiðlar kosningarnar upp í eitthvað kapphlaup á milli þeirra frambjóðenda sem eru helst þóknanlegir stjórn og stjórnarandstöðu á Alþingi. Og villuráfandi þjóðin lætur teyma sig á asnaeyrum í þessu og gerir það sem DV og Mogginn segja í stað þess að meta sjálfstætt og rökrétt hvað frambjóðendur hafa fram að færa og hver sé vænlegastur út frá málefnum og eigin verðleikum.

Skv. stjórnarskránni getur forsetinn rofið þing. Það vantar alveg umræðu um hvort og hvernig hann ætti að nota það vald. Væri það þó þörf umræða.
Forsetinn getur líka lagt lagafrumvörp fyrir Alþingi. Það væri þarft að ræða eitthvað um þá heimild.

Ég mæli með að fólk skoði þennan vef www.forsetakosningar.is


mbl.is Forseti gagnrýnir fréttir RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DV stöðvar birtingu eigin forsíðu!!! - Víðar skoðanakúgun en í Aserbaídsjan.

Í nýju myndbandi stuðningsmana Ástþórs Magnússonar sem birt var á Youtube í dag var m.a. mynd af forsíðu DV. Ekki liðu nema örfáar klukkustundir frá birtingu myndbandsins þar til starfsmaður DV sem telur sig eiga höfundarrétt að forsíðu blaðsins hafði látið stöðva birtingu myndbandsins á YouTube. Þetta er gert þrátt fyrir að Bernarsáttmálinn um höfundarrétt taki einungis til verndar bókmennta og listaverka og sérstaklega tilgreint að blaðafréttir séu ekki verndaðar höfundarrétti. Kannski er DV í raun bókmenntaverk! Ég vil allavega ekki fullyrða að svo sé ekki að teknu tilliti til alls þess ræsisskáldskapar sem þar hefur verið frumsaminn og birtur. Á meðan ekki er skilgreint hversu góður skáldskapur þarf að vera til að teljast til bókmenntaverka kann að vera að DV megi flokka sem bókmenntaverk! Það hlýtur að vera Íslandsmet í skoðanakúgun að DV fyrirmuni landsmönnum að sjá eigin forsíður! Skoðanakúgun er víðar en í Aserbaídsjan. Lítum okkur nær og skoðum hvert fjölmiðlar eru að fara með Ísland. Skoðanakúgun er nær okkur en halda mætti.

En hér er svo hið umdeilda myndband eftir breytingu þar sem forsíða DV hefur verið fjarlægð.


mbl.is Saka asersk stjórnvöld um skoðanakúgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákaflega gamaldags leið til að losna við 160 milljónir.

Það er ágætt að borgaryfirvöld hafa áhuga á göngu og hjólaleiðum. En að sama skapi gamaldags að hanna hjólaleiðir þannig að þær líti vel út á korti og loftmyndum en komi almenningi að litlu gagni nema á stöku góðviðrisdögum.

Fyrir 160 milljónir í 700 metra styttingu væri miklu hagstæðara fyrir borgina að gefa þeim fáu sem nota þessa göngu og hjólastíga sem samgönguleið frítt í strætó.

Hitt er svo annað mál að með því að gera þessa stíga af viti mætti gera þá að alvöru samgönguleið. En til þess þarf að byggja yfir þá svo þeir geti keppt við einkabílinn um þægindi og önnur gæði sem samgöngur þurfa að hafa.
Það er synd að menn skuli enn vera að fara af stað með göngu og hjólastíga út frá því hvernig þeir líta út á loftmyndum í stað þess að líta fremur til þátta eins og notagildis og fjárhagslegrar hagkvæmni.


mbl.is Djarfar göngubrýr yfir Elliðaárósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur að falla á eigin bragði.

Nú telur Ólafur Ragnar að innheimta beri afsökunarbeiðni hjá Gordon Brown fyrir óþægindin út af beytingu hryðjuverkalaga þegar vinir og kunningjar hans í bankarekstri urðu uppvísir að stórsvindli.

Það er auðvitað eðlilegt að Ólafur Ragnar vekji athygli á þessu núna, ég tel hann gera það vegna þess að skoðanakannanir og þjóðfélagsumræðan sýna að hann er ekki öruggur um endurkjör. Því er hann nú líklega að sýna þessi tilþrif til að auka vinsældir sínar í aðdraganda kosninga.

Það háðuglegasta við forsetatíð Ólafs Ragnars í dag er að nú kemur það honum í koll að hafa neitað að undirrita fjölmiðlalögin á sínum tíma. Þessi lög voru tímamótalög á Íslandi. Með þeim átti að setja takmörk á eignarhald fjölmiðla í þeim tilgangi m.a. að menn gætu ekki notað stórar fjölmiðlasamsteypur til að hafa of mikil áhrif á skoðanamyndun og lýðræðið. Það átti að setja hömlur á samþjöppun fjórða valdsins.

Annað sem var einstakt við þessa lagasetningu var að Ólafur Ragnar ákvað að skrifa ekki undir lögin og því voru þau dregin til baka. Margir hafa talið þessa afstöðu Ólafs tilkomna vegna hagsmuna vina hans í fjölmiðlum, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og hans undirsáta. Allavega voru fjölmiðlar hans með þeim hörðustu í að ýta undir andóf gegn lögunum. Síðar meir kom í ljós að þessir "vinir" voru engir vinir Ólafs Ragnars, heldur voru þeir bara að spila með hann og nota hann og embættið í grófu eiginhagsmunapoti og svindli.

Nú hafa skipast þannig mál að þeir sem taka við skipunum frá Jóni Ásgeiri hafa fengið fyrirmæli um að styðja ekki Ólaf Ragnar eftir að Ólafur sneri við honum baki þegar misnotkunin afhjúpaðist, heldur eiga þeir nú að taka stöðu með Þóru Arnórsdóttur. Nú fær hún góða athygli og jákvæða umfjöllun þessara miðla, m.a. heilsíðuviðtöl um eiginlega ekki neitt og hagstæðar skoðanakannanir. Greinilegt er að nú er veðjað á að hægt verði að taka snúning á Þóru eftir að henni verður komið í embætti. Á sama tíma er Ólafur nánast settur út í horn með Ástþóri og öðrum frambjóðendum sem ekki eru þóknanlegir þessum fjölmiðlum í dag. Í ofanálag er flokkurinn sem Jón Ásgeir hefur átt svo góða samleið með á undanförnum árum, Samfylkingin, samstíga honum í þessu vali á forsetaframbjóðanda þannig að þar er tryggt mikið grunnfylgi. Nú stefnir því allt í að Jón Ásgeir og Samfylkingin muni koma sínum frambjóðanda á Bessastaði og "sameina" þannig þjóðina um að velja sér þægan forseta.

Það er hlálegt að lögin sem Ólafur notaði til að sýna vald forsetaembættisins verða nú til þess að andstæðingar hans eru miklu öflugri en annars hefði orðið. Nú er hann að falla á eigin bragði.


mbl.is Brown skuldar þjóðinni afsökun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er einhver annar en Ástþór með stefnuskrá?

Það er gott að frambjóðendum fjölgar dag frá degi.  Sá eini sem enn hefur komið fram með markaða stefnu sýnist mér vera Ástþór Magnússon, sjá www.forsetakosningar.is.  Nú verður spennandi að sjá hvort fleiri frambjóðendur hafa eitthvað málefnalegt fram að færa eða hvort þetta verður bara fegurðarsamkeppni með bikini, samkvæmiskjólum og tárum.

Astthor


mbl.is Þóra ætlar í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15000 vinnandi hendur farnar.

Með því að renna lauslega í gegn um tölur Hagstofunnar má sjá að af þeim hluta landsmanna sem var á aldursbilinu 20-63 ára í ársbyrjun 2009 vantar nú 7.471 einstakling, þegar frá þessum hópi hefur verið dreginn sá fjöldi sem hefur dáið frá 1. janúar 2009.  Þessir 7.471 hafa flutt burt af landinu.  Hér er þetta sundurliðað í fjölda og prósentur til frekari útskýringar.

brottfluttir.png

Er þetta landflótti eða ekki?  Það er stór spurning.  Kannski er best að skoða prósentutölur til að meta það.  Skv. prósentureikningi þá eru nokkrir árgangar þar sem 7-8% árgangsins hafa flutt burt. 

Það er merkilegt að í hverjum einasta árgangi á þessu aldursbili 20-63 ára hefur landsmönnum fækkað umfram eðlilegar skýringar, þ.e. umfram þá sem hafa dáið.

Augljóslega er öll fjölgun landsmanna bundin í fólki undir 20 ára aldri.  Það er gott að því leyti að nóg er af efniviði til að styrkja landsbúskapinn á komandi árum.  En það er líka slæmt að framfærsla og menntun þessara ungu Íslendinga hvílir á herðum færri vinnandi manna en áður.  Og svo veit enginn hvað við tekur hjá þessu fólki á næstu árum þegar það lýkur námi og fer á vinnumarkað.  Fer það að stórum hluta úr landi eins og fólk hefur verið að gera undanfarin ár?  Það þarf að laga margt á Íslandi ef þetta fólk á að haldast í landinu.


mbl.is Margir flytja áfram frá landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15% ársverðbólga í mars og fer hækkandi!

Skv. þessu er ársverðbólgan um 15% reiknað út frá marsmánuði einum og sér. En hvernig sem þetta er reiknað þá er allavega ljóst að verðbólgan er vaxandi, 3 mánaða verðabólgan er skv. síðustu mælingu 9,8% og hækkandi, ársverðbólgan er 6,3% og hækkandi. Það þarf mikið að breytast til að verðbólgan á árinu 2012 verði undir 10%.

Svona verður nú eignatilfærslum í þjóðfélaginu haldið áfram með verðtryggingartilfærslum þangað til flestir eiga ekki neitt og örfáir eiga allt fémætt í þessu landi. Nema einhverjum detti nú óvænt í hug að spyrna við fótum með því að hætta að uppreikna fjárskuldbindingar með neysluvísitölu og taka frekar upp einn gjaldmiðil í landinu fyrir bæði laun og lán.


mbl.is Spá 6,6% verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Stefán Jón frambjóðandi ríkisstjórnarinnar?

Það er augljóst mál að fjölmiðlasamsteypa Jóns Ásgeirs hefur hug á að endurtaka leikinn frá því hún kom Ólafi Ragnari Grímssyni til valda 1996. Nú styður samsteypan hins vegar ekki Ólaf Ragnar lengur. Í gær mátti sjá augljós merki um leit fjölmiðlanna að nýjum frambjóðanda. Á Bylgjunni var skoðanakönnun þar sem fólk var spurt um hvern það vildi sjá sem forseta. Þóra Arnórsdóttir var þar í boði ásamt Stefáni Jóni og Elínu Hirst. Einnig var Ólafur Ragnar hafður með í könnuninni, væntanlega til að meta hvaða möguleika hugsanlegir mótframbjóðendur hafa gegn honum.

Núna áðan var búið að breyta könnuninni þannig að nú er spurt um stuðning við annars vegar Rögnu Árnadóttur og hins vegar Ólaf Ragnar. Það bendir til að enginn af þeim sem fyrst voru hafðir í könnuninni hafi komið nógu sterkt út í samanburði við Ólaf Ragnar. Því virðist nú sem svo að Jón Ásgeir ætli að gera Rögnu Árnadóttur tilboð sem hún geti ekki hafnað hafi hún talsverðan stuðning kjósenda í skoðanakönnunum. Jón Ásgeir getur að sjálfsögðu boðið sínum frambjóðanda öflugan auglýsinga og umfjöllunarstuðning auk þess sem hann getur beitt fjölmiðlunum af afli gegn öðrum frambjóðendum.

En líklega verður ekki af framboði Stefáns Jóns, nema stjórnarflokkarnir sameinist um hann sem sinn frambjóðanda. Hann er auðvitað samfylkingarmaður og það væri ekkert nýtt þó VG gegni samstarfsflokknum og kjósi frambjóðanda hans í komandi kosningum.


mbl.is Stefán Jón: Auðvitað vil ég gera gagn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórfrelsið á útleið úr ESB?

Það er komið upp smá vandamál í ESB. Frakklandsforseti er óánægður með grundvallarþátt nr. 1. í fjórfrelsinu. Hann vill hefta frjálsa för fólks til Frakklands. Nú er það baráttumál hans að losa Frakka undir fyrsta atriði fjórfrelsins.

Þetta virðist vera nýjasti naglinn í líkkistu ESB, rekinn í kistuna af forseta Frakklands. Þó svo að þetta sé kosningamál hjá honum núna og hann ætli sér kannski að gleyma þessu eftir kosningar þá er þetta þess eðlis að ef hann kemur því inn hjá þjóðinni að höft á straum útlendinga til landsins muni koma innfæddum til góða í efnagslegu og atvinnulegu tilliti, þá munu kjósendur ekki verða til í að gleyma þessu eftir kosningar. Nú harðnar á dalnum í Frakklandi eins og annars staðar og kjósendur gera kröfur um úrbætur. Því mun þessi hugmynd nokkuð örugglega marka nýja stefnu Frakklands í þessum málum innan ESB fremur en að setja einungis mark á kosningabaráttu Sarkozy.


mbl.is Sarkozy: „Of margir útlendingar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband