Færsluflokkur: Bloggar

Hvað skyldi nú koma út úr þessu hjá Össuri?

Það var nú gott að Össur fór í þessa heimsókn. Hann veit þá væntanlega núna að Spánn er stærsta fiskveiðiþjóð Evrópu og að Vigo er stærsta fiskihöfn Evrópu. Samt eiga Spánverjar lítið land að sjó, ef frá er talið Miðjarðarhafið og smá blettur að Biscayaflóa.

Það hvað Spánverjar eru öflug fiskveiðiþjóð byggist alfarið á því að þeir hafa stundað fiskveiðar í annarra landa sjó og utan landhelgi. Helstu mið þeirra hafa verið langt úti á Reykjaneshrygg, austur af Boston í Bandaríkjunum, vestur af Írlandi, vestur af Sahara, undan ströndum Suður Afríku og undan ströndum Argentínu og við sjöundu heimsálfuna, suðurskautslandið.

Eftir að Íslendingar unnu þorskastríðin við Englendinga og þjóðir heims færðu út fiskveiðilögsögu í 200 mílur, hvert á fætur öðru, þrengdi mjög að fiskveiðum Spánverja, og kenna þeir Íslendingum um, því Íslendingar voru nú fyrstir og framsýnastir í þessum efnum.

Síðan hefur legið við bryggjur í Vigo og víðar fjöldi togara sem fá ekki næg verkefni og bíða nú m.a. færis á að íslenska landhelgin opnist fyrir þeim á nýjan leik. Eflaust er það það sem Össur ætlar að gera, að opna fyrir spænska flotann. Í september s.l. lágu þannig um 60 togarar við bryggju í Vigo, aðgerðalausir, og biðu þess að Össur opni fyrir þeim.

Ég var sjálfur á ferð í Vigo í september og kynnti mér einmitt þessi sömu mál og Össur. Það verður gaman að sjá hvaða mynd hann dregur upp eftir þessa heimsókn. Vonandi hefur hann heimsótt sjóminjasafnið í Vigo sem er vel útfært og þar er sagt vel og greinilega frá fiskveiðisögu Spánverja.

Þá hefur hann vonandi kynnt sér þau vandamál sem sjávarútvegsyfirvöld á Spáni eru að fást við að eigin sögn, eins og (uncontrolled landings) stjórnlausar landanir fram hjá vigt og eftirlit með veiðum sem er í algjörri mýflugumynd.

Það var líka gaman að sjá í greininni að Össur heimsótti þarna fyrirmenn sem eru svo óöruggir um sig í sínu heimalandi að þeir hafa ævinlega með sér 2 vopnaða lífverði, eins og mér er kunnugt um að á við um a.m.k. einn af þeim sem Össur hitti þarna, svo þeirra eigin starfsmenn, viðskiptafélagar og viðskiptavinir stytti ekki lífdaga þeirra af einhverjum ástæðum. Kannski það verði þannig að spænskir fiskveiðiforstjórar taki bara fiskimiðin hér með vopnavaldi. Félegur félagsskapur sem Össur valdi sér í þessari ferð!

Það er spurning hvort Össur sér tækifæri í að innleiða þetta fiskveiðikerfi Spánverja á Íslandi þegar hann er búinn að koma okkur í ESB. Og það er spurning hvaða hann ætlar að fá hjá Spánverjum í stað aðgangs að landhelgi okkar? Varla verða það gagnkvæmar fiskveiðiheimildir hjá þjóð sem á ekki land að neinum fiskimiðum sem máli skipta.


mbl.is Össur í höfuðborg spænsks sjávarútvegs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjálæði að nota hálkuvarnarpeninga í útlenda braskara.

Ég var sjálfur á ferðinni á norður og vesturlandi í nótt. Það var hitastig rétt við eða undir frostmarki og þónokkur ísing á vegum á nokkrum stöðum og hefði nú verið lítið mál að sand- eða saltbera vegina til að hafa þá örugga. En brjálaði forsætisráðherrann okkar hefur víst ákveðð að nota alla peninga sem hægt er að skrapa saman til að borga skuldir alls konar braskara sem koma okkur ekki við. Icesave og hvað þetta allt heitir. Stjórnvöldum virðist vera alveg sama þó vegakerfið verið stórhættulegt af þessum ástæðum. Að bjarga bröskurum um allan heim er forgangsverkefni nr. 1,2,3,4,5,6,7,8,9 og 10 hjá þessari brjáluðu ríkisstjórn. Prívattjón og limlestingar eigin þjóðar á illa þjónustuðum þjóðvegum vegna vitlausrar forgangsraðar og trassaskapar brjálaðs forsætisráðherra eru afleiðingar af þessari stefnu.
mbl.is Bílvelta við Borgarnes í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skringileg auglýsing í Fréttablaðinu í dag.

Ég sá skringilega auglýsingu á bls. 43 í Fréttablaðinu áðan. Las hana tvisvar og ákvað svo að birta hana hér. En hef endursagt hana eins og ég skildi hana við þennan tvöfalda lestur minn á henni.

Varst þú svo vitlaus að kaupa hlutabréf í Glitni eftir að hann fór á hausinn?

Eftir að tilkynnt hafði verið um björgunartilraun Ríkssjóðs Íslands með kaupum á 75% alls hlutafjár í Glitni banka hf. mánudaginn 29. september 2008, þá leyfðu stjórnvöld (FME) í framhaldinu, eða frá og með þriðjudeginum 30. september, að opnað væri fyrir viðskipti með hlutabréf bankans í Kauphöll Íslands, svo bláeygðir bjánar gætu keypt það sem eftir væri af hlut útrásarvíkinga í bankanum og þannig dregið úr tapi þeirra. Stjórnvöld létu þess jafnframt getið í platloforði reyndra stjórnmálamanna sem ég hef oft kosið áður þó þeir plati mig alltaf að bankanum væri ætlað að lifa til framtíðar og þannig myndi ríkið græða vel á að henda þessum peningum í bankann. Ekkert væri gróðavænlegra.

Í ljósi alls þessa og annarra platloforða ráðamanna þjóðarinnar, voru fjölmargir einstaklingar og lögaðilar nógu vitlausir til að kaupa hlutabréf í Glitni af ræningjum bankans á tímabilinu 30. september til lokunar FME á viðskipti með bréf í félaginu 6. október. Og hefðum við gjarnan haldið áfram að kaupa hluti í þessum gjaldþrota banka hefði FME ekki lokað fyrir viðskiptin. Á þessum dögum áttu sér stað 878 viðskipti með hlutabréf fyrir um 3,9 milljarða. Allt er þetta tapað fé eins og búast mátti við og eiga svona vitlausir viðskiptahættir sér ekki fordæmi í vestrænu siðmenntuðu samfélagi, en kannski tilheyrðu stjórnvöld heldur ekki þeim flokknum hér á landi, enda ekki við því að búast í landi þar sem finnast 878 aðilar sem halda að þeir muni græða á að kaupa hlutafé í gjaldþrota banka manna sem segjast vera búir að ræna bankann.

Hópur fólks sem var svo vitlaus að kaupa þessi hlutabréf og heldur að stjórnvöld hafi rænt það verulegum upphæðum og jafnvel öllu sínu sparifé, hefur bundist samtökum um að ná peningunum til baka, þó það sé tilgangslaust því það kann ekki með peninga að fara, og ætlar að gera kröfur á gjaldþrota ríkissjóð Íslands og íslenska skattgreiðendur, með atbeina mannréttindadómstóls Evrópu ef með þarf. Til að málareksturinn hafi þann styrk og þunga sem til þarf þurfum við allir 878 vitleysingarnir að gefa okkur fram og leggjast á eitt í þessu máli. Hinir vitleysingarnir eru því beðnir um að gefa sig fram á netfangið vitlaus@vitleysingar.is


Hvers eiga Íslendingar að gjalda?

Ég hitti talsvert af fólki á hverjum degi. Í vinnunni og á förnum vegi. Ég á kunningja úti um allt land og nokkra erlendis. Það tala allir um þessa ónýtu landsforystu sem við höfum, forsetann og ríkisstjórina.

Annaðhvort þegir þessi forysta eins og t.d. forsetinn gerir, eða mælir tóma vitleysu eins og Steingrímur og Jóhanna. Verst er þó að flest sem gert er gerir illt verra, er eins og olía á eld. Enda virðist megin stefna landsforystunnar vera sú að reyna að draga peninga frá vinnandi fólki, úr alvöru verðmætasköpun, til að afhenda þá bröskurum sem hafa rækilega sannað að þeir kunna ekkert með þá að fara og skiptir þá engu máli hvort þeir eru innlendir eða erlendir. Þetta á að gera með skattahækkunum og niðurskurði og með því að ríkið fari að bæta útlendum bröskurum tapið af misheppnuðu Icesave gróðabralli með íslensku bönkunum. Á meðan er ekkert gert til að ná einseyringi eða meiru af genginu sem rændi þjóðina, það er ekki einu sinni búið að samræma lög svo að það sé hægt að stefna mönnum ef einhverjum dytti það nú í hug.
Þessi ríkisstjórn er sannkölluð ránsstjórn. Þegar búið er að ræna Íslandi, eins og hægt er að fullyrða í bókstaflegri merkingu, því tapið af útrásinni er um þrefalt verðmæti Íslands eins og það leggur sig skv. fasteignamati, þá stendur ríkisstjórn yfirleitt álengdar og horfir á ræningjana smjatta á leyfum og naga beinin og leita að fleiru til að ræna. Hvernig getur ein ríkisstjórn verið svona slöpp? Og af hverju heyrist ekki lengur tíst frá forsetanum. Ef hann hefur misst málið og heyrnina þá verður auðvitað að skipta honum út. Við verðum að hafa forseta með lífsmarki, jafnvel þó hann sé bölvaður auli og aldrei í takti við þjóðina.

Á meðan góðærið stóð sem hæst söng í Ólafi Ragnari, Steingrími J. og Jóhönnu eins og sveitasímalínum og góðu ráðin, skrúðmælgin og hátíðlegheitin drupu af hverju strái. Það voru samt ekki eintómar stuðningsyfirlýsingar við bankana og útrásina af hálfu Steingríms allavega. Þá virtist hann gera sér grein fyrir að glansmyndin endurspeglaði ekki innihaldið.

En nú er þetta fólk allt saman álíka traust og gagnlegt og gamlir grautfúnir girðingastaurar. Það horfa allir á þau og hugsa um hvernig hægt er að losna við þessi lýti í pólitíska landslaginu og laga hlutina. Enginn sker sig úr núna. Nú er Steingrímur stekkur.

Það eina sem kemur að gagni núna er að þeim hefur ekki ennþá tekist að losa okkur við krónuna þó unnið sé að því hörðum höndum og dýrum dómum. Fyrir vikið er ennþá hægt að reka alvöru atvinnuvegi og afla þjóðinni tekna. Sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta skila góðum tekjum núna. Stóriðjan er meira álitamál í efnahagslegu tilliti, enda mikil skuldsetning á bak við fá störf þar. Fjármálastarfsemi og annað brask og iðjuleysi er hins vegar ekki gróðavænlegt lengur. En þessa landsforystu langar mikið að eyðileggja það sem enn stendur uppi í þjóðfélaginu. Það er eins og þeirra helsta markmið sé að taka upp þráðinn þar sem útrásarliðið stoppaði og eyðileggja það sem ennþá gengur vel.

Hvers eiga Íslendingar að gjalda að hafa svona lið í æðstu stöðum?


Alls ekki stærstu mistök Íslandssögunnar, en stór mistök samt, sjá meðf. lista.

Þessi Icesave samningur er að sjálfsögðu mistök frá upphafi til enda. Í honum hafa stjórnvöld á Íslandi, í Bretlandi og Hollandi, öll sameinast um að gera samning sem stangast á við reglur ESB sem öll þessi ríki hafa skuldbundið sig til að fara eftir. Það er kannski smá vonarglæta fólgin í því að samningurinn er ólöglegur því sennilega verður alltaf hægt að krefjast ógildingar á honum kæmi fram meirihlutavilji þjóðarinnar um slíkt. Líklegt er að stjórnvöld yrðu við nákvæma athugun á þessum samningi úrskurðuð óhæf og samningurinn ógiltur. En auðvitað yrðum við að sýna þá skynsemi að losa okkur ekki bara undan þessum samningi, heldur að losa okkur líka við þessi arfavitlausu stjórnvöld sem ekki er treystandi fyrir hagsmunum þjóðarinnar upp á 5 aura eða meira.

En þessi samningur er örugglega ekki stærstu mistök Íslandssögunnar eins og Höskuldur Þórhallsson óttast að geti verið tilfellið. Þetta er örugglega rangt ályktað hjá Höskuldi þó hann geri sér réttilega grein fyrir að þessi samningur sé mikil mistök.

Ég hef verið að taka saman lista yfir stærstu mistök Íslandssögunnar og hef birt hluta af honum hér á bloggi mínu áður, en nú hef ég lítillega aukið við hann og kemur hér nýjasta útgáfan.

Nr. 1. á listanum yfir mistök Íslendinga að mínu mati var þegar við týndum Ameríku eftir að hafa fundið hana.
Nr. 2. á þessum lista er útrásin sem við erum að súpa seiðið af núna.
Nr. 3. á listanum er svo að við skulum þráast við að tala íslensku með öllum þeim ókostum og kostnaði sem því fylgir.
Nr. 4. á listanum var þegar við bökkuðum Jörund hundadagakonung ekki upp í að losa okkur undan einokun Dana, sem var erindi hans til Íslands á sínum tíma.
Nr. 5. á listanum er núverandi ríkisstjórn og þær byrðar sem hún ætlar að leggja á þjóðina vegna útrásarhrunsins, þ.m.t. Icesave.


mbl.is Stærstu mistök Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástþór og Styrmir sammála.

Það var afar fróðlegt að hlusta á Styrmi Gunnarsson í Kastljósinu áðan. Hans pólitíska sannfæring er sú að það þurfi að færa valdið til fólksins og draga úr leynd í þjóðfélaginu, eða öllu heldur að hafa allt uppi á borðum.

Þetta eru akkúrat áherslur Ástþórs Magnússonar og Lýðræðishreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar. Þá var þjóðin auðvitað of merkileg með sig til að hlusta á Ástþór en nú er spurning hvort þetta þykir gáfulegra þegar það er Styrmir Gunnarsson sem hefur þessa skoðun. Eða hvort hann fellur bara í ónáð hjá Íslendingum fyrir að hafa þá sannfæringu að þessara breytinga sé þörf.

En fyrir okkur í Lýðræðishreyfingunni er þetta ánægjulegur liðsauki við okkar málstað sem hingað til hefur ekki átt upp á pallborðið hjá nema rétt um 1000 Íslendingum.

Það var raunar fleira sem Styrmir var okkur sammála um. Hann fullyrðir að Íslendingar eigi ekki að borga Icesave sé farið eftir regluverki ESB sem við höfum löngu samþykkt að fara eftir. Þetta var nú annað sem við lögðum áherslu á í kosningabaráttunni. En niðurstaðan varð sú að þjóðin valdi sér leiðtoga sem vilja ekki fara eftir reglum ESB sem við höfum undirgengist. ESB vill reyndar ekki fara eftir þessum reglum heldur. Þessir aðilar eru allir sammála um að brjóta regluverkið svo kúga megi Íslendinga til að borga það sem þeim ber ekki að borga.

Og þá var fróðleg umræða Þóru og Styrmis um hvernig hann var í tengslum við fjölda áhrifamanna í þjóðfélaginu til að Mbl. gæti skrifað um þjóðmálin og ritstjórar blaðsins myndað sér skoðanir á þeim. Þóru þykja það greinilega undarleg vinnubrögð Styrmis að vera í miklu sambandi við þá sem hann er að fjalla um. En ef Styrmir og Mbl. voru eini fjölmiðillinn sem vann svona þá skýrir það auðvitað af hverju hinir fjölmiðlarnir meta oft léttvægt það sem er í gangi í hverju sinni. Hvernig er hægt að flytja fréttir ef það er almenn stefna fjölmiðla að vera ekki í sambandi við fólk í þjóðfélaginu? Þessi óvænta afhjúpun Þóru á verklagi fjölmiðlanna skýrir líklega að verulegu leyti af hverju útrásarvíkingar hafa alla tíð skautað létt með sín "einkamál" framhjá flestum fjölmiðlum. Enda virðast ýmsir fjölmiðlar hafa meiri áhuga á að dekra við sína vini á ýmsum sviðum en að kafa í þjóðfélagsmálin á gagnrýninn hátt.


Saga film, gefið þetta út og seljið í Bónus eða sýnið í sjónvarpi.

Það er nú margt bölvað ruslið sem selt er í Bónus meðfram matvöru og öðrum nauðsynjum. T.d. allskonar tónlist og myndir á DVD. Ég held að þetta You Tube myndskeið hafi nú verið það áhugavert að ef myndin öll væri gefin út þá myndi hún seljast vel í Bónus og jafnvel víðar. Þarna voru heimsfrægir skemmtikraftar, góð tónlist, flott umgjörð, gellur í stuði og kaldir kallar, svo James Bond og fláráðu konurnar hans blikna í samanburði. Því megum við ekki bara sjá þetta og hafa gaman af? Til hvers var verið að taka þetta partý upp á videó ef það má ekki sýna það? Hættið nú að sýna okkur einhverjar þurrar fræðslumyndir og leiðinlega undirfjármagnaða þætti af ýmsum toga. Leyfið þjóðinni nú að sjá þegar þið hafið loksins búið til almennilegt sjónvarpsefni. Hvers konar bisniss er það hjá ykkur að geyma allt besta efnið oní skúffu og leyfa engum að sjá??

mbl.is Snýst um lítinn bút í Baugs myndbandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heildarskuldir þá ca. 2667 milljarðar.

Skv. þeim upplýsingum sem fram koma í fréttinni eru heildarskuldir gamla Glitnis hátt í 2.700 milljarðar króna og fara hækkandi. Skyldu nú vera einhverjar eignir sem eitthvað munar um upp í þetta í þrotabúinu? Eða verður þetta tapið af Glitni? Það verður fróðlegt að fá nýjar tölur þegar kröfulýsingarfrestur er liðinn.
Þessu tapi stjórnuðu Jón Ásgeir, Bjarni Ármannsson og Lárus Welding. Snjallir menn þessir kappar. Skyldi einhver þeirra vera búsettur á Íslandi ennþá?
mbl.is Veruleg skuldaaukning Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskiljanlegir viðskiptahættir símafyrirtækja.

Ég hef oft furðað mig á því hvað gjaldskrár símafyrirtækja eru flóknar og furðulegar. Viðskiptavinir geta t.d. hringt "frítt" í hina og þessa. En þessa þjónustu þarf að kaupa. Og hvað er þá "frítt" ef þú þarft fyrst að kaupa það.

Svo eru aðrar útgáfur af þjónustunni þannig að þú hringir á mismunandi taxta eftir því hvort það er virkur dagur eða helgi eða kvöld eða nótt eða hvort símafyrirtækinu dettur í hug að hafa þjónustuna fría einhvern daginn upp úr þurru.

Alkunna er einnig að það er mjög misdýrt að hringja í síma sem eru skráðir hjá öðru símafyrirtæki en því sem þú skiptir sjálfur við, ég tala nú ekki um ef það á að hringja milli mismunandi kerfa, t.d. fastlína og farsími eða ef hringt er milli mismunandi kerfa og fyrirtækja. Þá rjúka reikningar upp. Og ef menn nota nú símann í útlöndum þá er hægt að eyða mánaðarlaunum í símakostnað á nokkrum mínútum. Og enn versnar þetta ef verið er að nota símann til að vafra um netið eða senda myndir, þá hækkar flækjustig gjaldskránna enn. Samt er það alltaf þannig að þú færð aldrei viðvörun þegar þú velur eitthvað númer eða þjónustu, um að þetta kosti t.d. x krónur mínútan. Öll þessi þjónusta er þannig óverðmerkt, þó takmarkaðir verðlistar séu kannski einhver staðar á lítt áberandi stað á vefsíðu. Það eru engar upplýsingar um hjá hvaða símafyrirtæki númerin eru sem þú ert að hringja í og því getur þú aldrei vitað fyrirfram hvaða taxta þú þarft að borga fyrir símtalið. Þetta er fáránlegt.

Það þyrfti að skikka þessi fyrirtæki til að taka upp betri viðskiptahætti, einfalda gjaldskrár og verðmerkja þjónustuna þannig að fólk geti vitað fyrirfram hvað það kostar að hringja í tiltekið númer eða nota ákveðna þjónustu. Símafyrirtæki eru alveg aðhaldslaus fyrirbæri í dag. Verst er að markaðssetningin gengur mikið út á að plokka fé af börnum og unglingum sem fá smá útrás fyrir tækjadellu með því að eiga og nota flottan farsíma.

Alflottast væri auðvitað ef þessi fyrirtæki hefðu sjálf manndóm í sér til að stunda sanngjörn viðskipti með eðlilegum viðskiptaháttum. En þetta eru nú allt fyrirtæki tengd útrásinni, hlekkur í þeirri keðju sem skrapar botninn í sparibaukum barnanna og annarra landsmanna. Þannig að það er kannski bið á breytingum þarna.


mbl.is Vefsíðum lokað vegna hringitónasvindls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er jafnrétti alltaf til bóta?

Þegar maður les þessa grein vaknar þessi spurning, er jafnrétti alltaf til bóta? Það er nefnilega ljóst að þau norðurlönd sem fara verst í þessari kreppu sem nú gengur yfir eru Ísland og Finnland og það eru einmitt sömu löndin og hafa náð lengst í jafnrétti kvenna í stjórnmálum. Í þessum löndum einum er hlutur kvenna í ríksstjórn 50% eða meiri. Og það norðurlandanna sem sleppur best frá kreppunni er einmitt sama land og er styst komið varðandi jafnrétti í stjórnmálum, Noregur.

Og af þessum sökum veltir maður fyrir sér hvort þetta sé tilviljun eða hvort eitthvert samhengi sé þarna á milli.

Getur t.d. verið að konurnar í ríkisstjórnum forðist að taka á peningamálum en einbeiti sér frekar að velferðarmálum og menntamálum. Ef svo er þá eru einfaldlega færri sem eru að ráðskast með fjármálin og færri sjónarmið vegin í þeirri umræðu. Það væri eðlilegt að slíkt leiddi oftar til verri niðurstöðu.

Eða gæti verið að hin margumtalaða hagsýni kvenna sé fremur kreppukvetjandi en hitt og auki því fremur vandann en að leysa hann.

Eða gæti kannski verið að það að finna bara einhverjar konur til stjórnmálaþáttöku hafi leitt til þess að kvennakvótar hafi verið uppfylltir án þess að horft sé til gæða eða mannkosta viðkomandi einstaklinga og því séu kvenmargar ríkisstjórnir einfaldlega með of litla reynslu og of lága greindarvísitölu til að ráða vel við verkefnin.

Þetta eru kannski vangaveltur sem eiga ekki upp á pallborðið hjá mörgum þannig að ég ætla að stoppa hér. Geri ráð fyrir að eðlilegasta skýringin á þessu sé bara eintóm tilviljun. Tilviljanir geta verið svo skemmtilegar og undarlegar.


mbl.is Atvinnulífið eftirbátur þegar kemur að jafnrétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband