Færsluflokkur: Bloggar

Made in USA.

Ég sá í einhverri annarri frétt um þetta að Kádiljákurinn sem Tiger klessti í bak og fyrir þegar hann var að ryðja burt brunahönum og trjám heima hjá sér, hafi ekki blásið út loftpúðana. Þess vegna m.a. er maðurinn sagður talsvert slasaður. Það er kannski svona sem GM hefur tekist að rétta við reksturinn, með því að nota fullt af drasli sem virkar ekki í bílana. En það hefur verið í fréttum að fyrirtækinu vegni orðið svo vel að það sé farið að endurgreiða neyðarlán frá ríkinu.
En vonandi hefur Tiger vit á því að ráða sér einkabílstjóra þegar hann verður ferðafær aftur eftir þetta brambolt. Hann hlýtur að hafa efni á því. Hann á greinilega að láta duga að sinna því sem hann kann best, en láta aðra um dagleg störf almúgans. Það hentar honum greinilega ekki vel að keyra bíl.
mbl.is Tiger Woods slasast í árekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af Dubai.

Það þarf ekki að óttast efnahag Dubai. Erlendar skuldir þjóðarinnar (Sameinuðu arabísku furstadæmanna, UAE) voru í árslok 2008 litlu hærri en erlendar skuldir Íslands. En í UAE búa um 4,8 milljónir manna og erlendar skuldir landsins eru satt að segja litlar í hlutfalli við íbúafjölda eða landsframleiðslu. Þær eru t.d. um 63% af landsframleiðslu á móti um 883% á Íslandi. Þeir eru eitthvað að bralla arabarnir þarna sem hefur með annað og meira en bara skuldir að gera. Það getur samt auðvitað hugsast að lausafjárstaðan sé eitthvað þröng, en þarna standa byggingar og tryggingar á bak við lánin sem eftir er að greiða. Þannig að jafnvel þó þeir færu á hausinn eins og Ísland, þá yrði tapið í því gjaldþroti í versta falli óverulegt.  Í bönkunum sem hrundu hér voru nú útlánin mikið til án trygginga og í verkefni sem ekkert sést eftir, þannig að þessu er ekki hægt að jafna saman á nokkurn hátt.Hins vegar eru það eftirtalin lönd sem eru í verulegri hættu vegna erlendrar skuldastöðu sinnar:  Það vekur kannski athygli að þau eru öll nema tvö í ríkjasambandi sem Íslenska ríkisstjórnin vill gerast aðili að.

Land                             Erl. skuldir sem hlutfall af GDP

Belgía                                            347%

Írland                                          1232%

Luxemburg                                  5059%

Monaco                                       1820% 

Holland                                         365%

Swiss                                            409%

Bretland                                        403% 

Portugal                                        204%

Hong Kong                                    213%

Frakkland                                      231%

Danmörk                                       287%

Austurríki                                      251%

Til samanburðar eru svo sambærilegar tölur fyrir Ísland og UAE.

Ísland                                           883% 

UAE                                                63% 

 

Ef við fáum fréttir af verulegum vandræðum í ofangreindum löndum, þá er ástæða til að búast við nýjum kafla í kreppunni.  En þessi lönd eru í raun í hættulegri stöðu.  Í þeim má lítið eða ekkert út af bera til að efnahagslífið hrynji.  Og auðvitað eru mörg önnur lönd skuldug sem þurfa að standa sig svo ekki fari illa.  En þessi standa verst m.v. þessa skilgreiningu. 


mbl.is Skuldatryggingaálag Dubai hærra en Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankarnir sjálfir besta dæmið.

Ég er sammála forstjóra Nýherja um að vonlaus fyrirtæki eigi að fara í þrot. Og stóru bankarnir eru besta dæmið um svona fyrirtæki. En það var ákveðið að dæla í þá ómældu fé til að láta vitleysuna halda áfram á kostnað ríkis og skattborgarar sem ráða ekkert við slíkt. Sérstkalega þegar það er af þeirri stærðargráðu sem nú. En úr því ákveðið var að endurreisa vonlaust bankakerfi þá er varla við því að búast að menn hiki við að gera það sama við minni fyrirtæki.

Þess vegna er ólíklegt að nokkuð vit verði í ákvörðunum bankanna í málum skuldugra og illa rekinna fyrirtækja á næstunni.


mbl.is Gagnrýndi bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið fyrir skattpíningunni haft.

Það er gott að það er drifið í að koma þessum skattafrumvörpum fram. Það væri munur ef það gengi svona vel með skuldir heimilanna og að snúa við skjaldborginni sem var sett upp um ríkisstjórnina til að verja hana fyrir kröfum almennings.

Hér er smá pæling í tilefni dagsins.

Tekjuskattur, útsvar og
virðisaukaskattur.
Orku- umhverfis- auðlindagjald og
fjármagnstekjuskattur.
Steingrímur átti góðan dag,
mikið var hann brattur.

Barnabætur lækka bara,
mikið á að spara, spara.
Peningarnir fara, fara.
Étum bráðum þara, þara.


mbl.is Ríkisstjórnin afgreiddi skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sanngirni og velvilji, þekkir Ólafur Ragnar þessa eiginleika?

Auðvitað hefur lítið breyst undanfarið í þessu máli, nema að nú treystir Jóhanna á sanngirni og velvilja Breta og InDefense hópurinn virðist vera að höfða til sanngirni og velvilja Ólafs Ragnars með undirskriftasöfnun sinni. Hvernig sem þeim dettur nú í hug að Ólafur hafi þessa eiginleika. En hvað um það, ég er svo sem sammála því að það er eðlilegt að þjóðin fái að kjósa um þetta mál. Á samt ekki von á að það verði samþykkt, fæ ekki séð að þjóðin fái neitt að skipta sér af þessu þjóðargjaldþroti yfirleitt.

En allavega er hér smá kveðskapur í tilefni af undirskriftasöfnun þessari. Ólafur Ragnar sérstaklega beðinn um að taka þetta til sín.

Ef Icesave frumvarp óbreytt fer,
þetta land á ekki sjens.
Gerðu nú það sem þér ber,
stattu nú með InDefense.

Ríkisstjórnin ráðalaus,
veðjar á góðan vilja.
Jóhanna sem hristir haus,
virðist ekkert skilja.

Fyrirvarar fóru burt,
Icesave frumvarp annars kjurt.
Fyrst borga á fyrir þetta pakk,
þjóðin á að kjósa, takk.


mbl.is Forseti synji Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög einfaldar ástæður fyrir falli bankanna - einfalt að laga kerfið.

Ég hef aðeins verið að skoða hvað veldur því að fjármálakerfi heimsins og íslensku bankarnir hafa farið eins flatt og raun ber vitni. Og ástæðurnar virðast vera alveg hreint ákaflega einfaldar og fáar. Fyrir utan þann mannlega breyskleika sem er kallaður græðgi þá er það bara tvennt sem skýrir þetta að mestu.

Annars vegar eru það of háir útlánavextir.
Vaxtakjör eru með ýmsum hætti en það virðist hafa verið ansi algengt undanfarin ár að lána út peninga á miklu hærri vöxtum en lántakendur geta staðið undir. Og fjármálastofnanir virðast engan veginn hafa þau tök á tölum og tölfræði að þær geti gert sér grein fyrir því hvort kúnninn ber þá vexti sem hann er látinn borga. Þegar því er svo bætt við að vextir eru oftar en ekki breytilegir, og ævinlega lágir fyrst, en hærri eftir nokkra mánuði eða 1 ár og alla tíð eftir það er ósköp eðlilegt að fjármálafyrirtækin fái heilu útlánasöfnin í hausinn eins og gerst hefur í flestum löndum. Þekktast er dæmið um undirmálslánin í Bandaríkjunum. Mér sýnist ef grannt er skoðað að í raun séu þessi lán ekki nema að hluta undirmálslán. Vandinn við þau stafar fyrst og fremst af of háum og hækkandi vöxtum. Það er því alrangt að vorkenna fjármálafyrirtækjum og að dæla í þau endalausu fé úr ríkssjóðum til að endurreisa þau. Þetta er það vitlausasta sem hægt var að gera. Það eina eðlilega er að leyfa "markaðnum" að finna út réttu vextina. En það þýðir líka að þegar það tekst ekki þá verða fyrirtækin bara að fá að fara á hausinn. Annars tekst aldrei að finna rétta vexti, og engin þörf á því ef það er alltaf einhver ríkissjóður til í að borga það sem upp á vantar.

Hitt sem úrskeiðis fór er það að fjármálamenn fundu upp aðferð til að búa til gull, ef svo má segja. Þ.e. að búa til verðmæti úr engu, nema e.t.v. fölsuðum pappírum. Þetta er víst kallað á fagmáli, fjármálaafurðir.
En þegar þessar svokölluðu fjármálaafurðir eru skoðaðar nánar sést að bak við flestar þeirra, ef ekki allar, er ekki neitt nema hugarburður. Gott dæmi er hlutabréfamarkaðurinn, þar sem alls konar félög sýna á stundum gríðarlegan hagnað af öllu mögulegu nema raunverulegum rekstri. Þetta var t.d. á íslenska markaðnum gert með því að nokkur félög keyptu hvert í öðru til skiptis á síhækkandi verði og bjuggu þannig til verðmæti, gróða, sem ekkert var á bak við nema ímyndun ein og falsaðir pappírar. Þá á ég við að virtir endurskoðendur voru látnir skrifa undir allt skítabakaríð til að búa til trúverðuga pappíra svo hægt væri að taka fleiri og fleiri snúninga með sömu félögin ár eftir ár. En hlutabréfamarkaðurinn er ekki eina dæmið um hvernig reynt var að búa til peninga úr engu. Annað dæmi eru skuldabréfavafningar þar sem einmitt húsnæðislán sem ég nefndi hér að ofan voru seld sitt á hvað þar til nánast allar fjármálastofnanir í heiminum áttu eitthvað af þessum vafningum. Eflaust er það þetta síendurtekna söluferli sem er að hluta ástæðan fyrir því að vextir á þessum bréfum þurftu að vera breytilegir og hækkandi. Þannig var hægt að "græða" nóg á þessu til að selja bréfin út um allt og hafa hagnað til skiptanna fyrir marga aðila. En í raun snérist þetta bara um að ein bankastofnun plataði aðra og svo koll af kolli. Og þarna voru einhver matsfyrirtæki og slíkir aðilar sem mátu þessa pappíra nógu góða, sem þeir voru þó alls ekki, fyrst og fremst vegna vaxtakjaranna. Sem sagt aftur falsaðir pappírar með til að þetta gangi upp. Flest það sem kallað er fjármálaafurðir er því miður af þessu tagi. Og því er það aftur jafn óskiljanlegt að ríkissjóðir séu að dæla peningum í þetta svindl. Það er svo ótrúlega heimskulegt og glæpsamlegt.

En þar sem vandamálið er ekki flókið eða margþætt ætti líka að vera auðvelt að bæta úr því ef áhugi er á því svo þetta endurtaki sig ekki bráðum aftur.

Það þarf að gera fjármálaheiminum grein fyrir því að mistök hans verði ekki bætt af ríkissjóðum og opinberum seðlabönkum.

Það þarf að taka á fölsunum og herða bókhaldsreglur þannig að ekki sé leyfilegt að búa til verðmæti sem enginn grundvöllur er fyrir nema löngun einstakra aðila í meiri pening.

Það þarf að banna breytilega vexti. Enda þekkist ekki í neinum viðskiptum, nema viðskiptum með peninga að annar samningsaðilinn geti að eigin geðþótta breytt sinni verðlagningu eftir á án þess að hinn aðilinn hafi nokkuð um það að segja.

Það þarf að setja á stofn bankakerfi sem eingöngu tekur við peningum og lánar þá út aftur til einstaklinga og fyrirtækja út á raunveruleg veð eða vegna raunverulegrar verðmætasköpunar. Það má kalla þetta sjálfbæra banka, þ.e. þeir mega ekki og þurfa ekki að búa til fjármálaafurðir sem eru bara tómar umbúðir og falsaðir pappírar. Svona bankakerfi samhliða þeim aðgerðum sem að ofan er lýst ætti að plumma sig vel og vera einfalt og ódýrt í rekstri og mjög öruggt. Gamla systemið má hökta með ef það getur á eigin forsendum.

Í grunninn snúast þessar hugmyndir bara um að banna plat og svindl og koma bankarekstri aftur í rekstrarhæft og sjálfbært ástand. Aðstæður og markaðurinn koma svo á eðlilegu jafnvægi milli innláns og útlánsvaxta án þess að þeir séu sífellt sveigðir til með plati og ríkisábyrgðum.

Og við þurfum að hafa í huga að það gekk ekki upp sem sagt var í bönkunum, "Láttu peningana vinna fyrir þig". Þannig var það sjaldnast, þó sumir hafi verið heppnir og sloppið vel frá slíkum tilraunum. En hitt er í fullu gildi enn að "Maður þarf að vinna fyrir peningunum"


mbl.is 368 milljarða kröfum lýst í þrotabú Icebank
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var þetta sanngirni og góðvilji gagnvart Saddam Hussein og Írak?

Ég bara spyr, var það sanngirni og góðvilji Breta sem réði því að þeir réðust inn í Írak og drápu Saddam Hussein og tugi eða hundruð þúsunda óbreyttra borgara í landinu? Vitandi að þarna voru engin nothæf efnavopn, kjarnavopn eða hryðjuverkamenn.

Þessu stóðu nú Bretar fyrir ásamt Bandaríkjamönnum. Jóhanna Sigurðardóttir ætlar að treysta á sanngirni og góðvilja þeirra varðandi Icesave. Kannski eru þeir búnir að hóta innrás í Ísland, hver veit. Eitthvað er það sem Steingrímur og Jóhanna þora ekki að segja frá, fyrst þau láta kúga sig svona. Hin ástæðan getur að vísu verið að þau séu bara svona voðalega vitlaus. En mér sýnist að Ísland sé nú í svipaðri stöðu gagnvart Bretum og Írak var fyrir innrás þeirra í það land. Sett hafa verið hryðjuverkalög á Ísland í Bretlandi, landið telst óvinveitt, íslenskum stjórnvöldum er ekki treyst og við skulum bara vona að það sé engin olía á Öxarfirði eða annars staðar í lögsögu okkar. Því þá koma þeir örugglega "og hreinsa hér til og koma á lýðræðisumbótum" með valdi. Olían er það eina sem vantar til að allt sé hér eins og í Írak fyrir innrásina þar.


mbl.is Vissu að Saddam ætti líklega ekki nothæf efnavopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi fer að koma að þeim stóru, heyrirðu það!!

Það er ágætt að það er verið að leita og taka á málum. En stærðargráða þeirra mála sem hafa orðið fjölmiðlaefni vegna aðgerða undanfarið gefa manni ástæðu til að óttast að það eigi ekki að taka á neinu stærra en þessu. Að það sé verið að búa til litlar dúsur til að friða þjóðina með. Að það verði enginn tekinn á beinið út af stærstu málunum, hruni stórbankanna þriggja og nokkurra stórfyrirtækja. En ef þetta er rétt tilgáta, sem ég vona reyndar að sé ekki, þá er víst örugglega hægt að tilkynna það hverjum sem heyra vill að þessar dúsur duga ekki, þær verða sem olía á eld og munu kynda undir enn frekari reiði í þjóðfélaginu fylgi ekki miklu stærri mál í kjölfarið, eða helst kjölsogið.

Jóhanna, það þýðir ekkert að hlífa þeim sem borguðu undir Samfylkinguna, heyrirðu það! Þeir þurfa að skila illa fengnu fé til þjóðarinnar, heyrirðu það! Þeir þurfa líka að skila illa fengnum fyrirtækjum til þjóðarinnar, heyrirðu það! Neyðarlögin eru að fara í vaskinn, heyrirðu það! Þú ert að fá Icesave í hausinn, heyrirðu það! Þú færð kannski sparifjárinnlán landsmanna í hausinn líka, heyrirðu það! Hvernig geturðu verið forsætisráðherra og þóst ekkert sjá að eitthvað ólöglegt hafi gerst í bönkunum, heyrirðu það? Þeir töpuðu Íslandi eins og það leggur sig, skilurðu það ekki!! Var það enginn glæpur, heyrirðu það!! Verstu skúrkarnir eru að flýja land, heyrirðu það! Heldurðu að það sé betra að fást við þá seinna í Langtburtistan, heyrirðu það!! Jóhanna, farðu að taka til hendinni, heyrirðu það!! Þinn tími er kominn, ertu ekki búin að skilja það??


mbl.is Húsleit hjá Byr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldu nú vinirnir vera vinir í raun.

Jón Ásgeir er að biðja vini sína um hjálp við að ná aftur Högum og fleiri fyrirtækjum sem 1998 eru móðurfélag að. Nú kemur í ljós hvort þetta eru góðir vinir hans í raun, eða hvort þeir skulda honum greiða, eða hvort hann á einhverjar þumalskrúfur á þá eða hvort um ekkert af þessu er að ræða og þeir yfirgefa hann. Ef hann fær ekki hjálp við að ná þessu aftur þá hrynur örugglega til grunna allt sem eftir er af hans viðskiptaveldi. Það eru varla bitastæðari einingar til í því heldur en fyrirtæki eins og Bónus.

Smá vísa um þetta kemur hér. Hún er illa kveðin eins og venjulega.

Nú færa á þeim Haga,
eftir mikið tjón.
Haltir leiða blinda,
Walker leiðir Jón.


mbl.is Segja ákvörðun Arion ráðgátu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski hún hafi bjargað peningum??

Ég veit svo sem ekkert um málið annað en það sem ég las hér á síðunni. En ef maður gerist bjartsýnn, þá er kannski möguleiki á að eftir allt saman hafi konan bjargað einhverjum peningum. Hafi hún dregið sér fé eins og grunur leikur á er líklegt að hún hafi annaðhvort tekið það út í seðlum eða millifært það á aðgengilega reikninga. Og þá eru talsverðar líkur á að hún hafi varðveitt peningana betur en ef hún hefði braskað með þá eins og fyrir hana var lagt. Þannig er vel mögulegt að þessi fjárdráttur, sé það tilfellið, hafi komið sér betur fyrir eigendur þessa fjár heldur en hin eðlilega bankastarfsemi og fyrirhugaða meðferð peninganna. Svo illa var nú farið með peninga í bönkunum að það kann að reynast lukkupottur fyrir fjármagnseigendur eftir allt saman að einhver venjulegur "ræningi" hafi stolið peningum þeirra úr bankanum áður eigendur bankanna læstu í þá klónum.
mbl.is Fjárdráttur hjá Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband