#6791 Kynlíf frambjóðanda til stjórnlagaþings - er svona framboð í lagi?

Allar mest lesnu fréttir netmiðlanna þegar ég gáði áðan snúast um kynlíf, brjóst, áreitni, kynferðislega misnotkun, framhjáhald, vændiskonur og ásakanir þessu tengdar. Á morgun eru kosningar til stjórnlagaþings og augljóst að þær ná ekki sömu athygli, selja ekki eins vel, og kynlíf. Af 25 mest lesnu fréttunum á fretta.gattin.is núna áðan voru 4 fréttir sem voru ekki um kynferðismál, þær tengdust allar pólitískum tengslum og/eða spillingu eins og það er oft kallað. Engin af mest lesnu fréttunum tengist stjórnlagaþings kosningum á morgun.

Ég er í framboði til stjórnlagaþings og er í nokkrum greinum á DV, Svipunni, Vísi, facebook, blog.is o.fl. miðlum búinn að kynna mínar hugmyndir um nýja stjórnarskrá. Ég er meira að segja búinn að setja stefnu mína fram í bundnu máli, sennilega einn frambjóðenda. En ég er ekki að fá þá athygli sem ég vil og sýnist að nú séu önnur mál sem fólk er meira upptekið af en kosningar til stjórnlagaþings. Sem sé kynferðismál af ýmsum toga. Þess vegna geri ég nú kynferðismálin að lokapunkti kosningaundirbúnings hjá mér. Ég viðurkenni að mér finnst það sjálfum skringilegt að vera að skrifa svona í kosningabaráttu, en ég fer að vilja þjóðarinnar og reyni að tengja skrif mín við það sem hún vill lesa um og hefur greinilega mestan áhuga á. Auðvitað er ég um leið að plata ykkur með fyrirsögn sem er miklu meira spennandi en innihald greinarinnar.

Ég hef verið í fríi undanfarnar vikur og farið dálítið út að skemmta mér á kvöldin en ekki gert neitt sérstakt af mér sem hefur ratað í fréttirnar. Hef hitt nokkrar austur evrópskar gleðikonur þar sem ég hef verið að skemmta mér en ekki átt nein viðskipti við þær og ekki náðst neinar myndir af mér með þeim. Þannig að ég hef svo sem engar krassandi sögur að segja ykkur eða myndir að sýna og bara engar fréttir af kynlífi mínu. Það er spurning hvort svona bragðdauft framboð er í lagi, ég vona að svo sé.

Ég er ekki að gera lítið úr þeim kynferðistengdu málum sem eru svo vinsælt umfjöllunarefni í fjölmiðlum og heldur ekki úr þjóðinni þó ég reyni að nota þetta til að vekja á mér athygli vegna stjórnlagaþingskosninganna. Þvert á móti vil ég nota þetta til að vekja athygli á að "fjórða valdið" fjölmiðlarnir, nota kynlíf og kynferðismál af ýmsum toga til að afla sér fjár og vinsælda. Og lesendur miðlanna eru líka mjög áhugasamir um þessi mál. Það er misjafnt hve þessar fréttir eru trúverðugar en ljóst að þær geta haft óafturkallanleg áhrif á þá sem um er fjallað og því mikilvægt að þær séu sannar og vel unnar svo enginn sé að ósekju tekinn af lífi í fjölmiðlum. Þess vegna vil ég að í stjórnarskrá verði skýrar reglur um bæði tjáningarfrelsi í fjölmiðlum og líka um viðurlög við því að breiða út óhróður sem ekki er á rökum reistur. Ég hef kallað þetta frelsi til að segja satt og bann við lygum. Ég tel það mjög mikilvægt að um þessa hluti verði settar grunnreglur í stjórnarskrá til að tryggja bæði eðlilegt tjáningarfrelsi og eðlilega persónuvernd.

En það er líka annar flötur á þessu sem er líka rétt að hafa í huga við gerð nýrrar stjórnarskrár. Það er að bæta réttarumhverfi og málsmeðferð vegna kynferðisbrota svo þolendur þori og geti komið fram og fengið réttláta, fordómalausa og hlutlausa málsmeðferð vegna þeirra brota sem þeir hafa mátt þola. Allt of oft virðist tekið rangt á slíkum málum, gert lítið úr þeim og jafnvel þolandanum, málin þögguð niður og jafnvel eitthvað enn verra. Þetta þurfum við að reyna að laga í nýrri stjórnarskrá. Ég vil beita mér fyrir því og tel það alveg jafn nauðsynlegt að tryggja fórnarlömbum réttlæti gagnvart raunverulegum brotum eins og að vernda saklaust fólk fyrir óhróðri.

Ég hvet kjósendur til að mæta á kjörstað á morgun.

Að lokum er hér stefnuskrá mín í bundnu máli. – Góða helgi!!
Jón P. Líndal, #6791

Jón Pétur Líndal á Stjórnlagaþing

Ég er alltaf sæll og glaður,
stundum jafnvel gæfumaður.
Í gleði minni nú ég syng,
sjálfan mig á stjórnlagaþing.

Ef þér líkar þetta vel,
þú þarft ekki að muna neinn,
nema sex – sjö – níu – einn

Ég vil núna gera gagn,
meira en bara bölv og ragn.
Að fara á þingið er mín þrá,
að gera nýja stjórnarskrá.

Ef þér líkar þetta vel,
þú þarft ekki að muna neinn,
nema sex – sjö – níu – einn

Lýðræðisumbætur, eignarréttur,
svo að þú sér betur settur.
Fólk en ekki flokka á þing,
það er best fyrir almenning.

Ef þér líkar þetta vel,
þú þarft ekki að muna neinn,
nema sex – sjö – níu – einn

Mannréttindi og velferð allra,
á minnimáttar má ei halla.
Verum góð og höldum friðinn,
og pössum upp á fiskimiðin.

Ef þér líkar þetta vel,
þú þarft ekki að muna neinn,
nema sex – sjö – níu – einn

Með auðlindirnar má ei braska,
og náttúrunni lítið raska.
Bankakerfið standi sig
en ræni ekki þig og mig.

Ef þér líkar þetta vel,
þú þarft ekki að muna neinn,
nema sex – sjö – níu – einn

Viltu gefa frá þér valdið?
Finnst þér betra sleppt en haldið?
Ég vil leggja á þjóðarsál,
atkvæðagreiðslur um helstu mál.

Ef þér líkar þetta vel,
þú þarft ekki að muna neinn,
nema sex – sjö – níu – einn

Ef taka á mark á stjórnarskrá,
refsiákvæði vil ég sjá,
svo að dóm sinn muni fá,
þeir sem henni brjóta á.

Ef þér líkar þetta vel,
þú þarft ekki að muna neinn,
nema sex – sjö – níu – einn

Þetta er það sem ég vil gera,
svona finnst mér hún eigi að vera,
okkar nýja stjórnarskrá,
sem við byggjum framtíð á.

Ef þér líkar þetta vel,
þú þarft ekki að muna neinn,
nema sex – sjö – níu – einn

www.facebook.com/stjornarskra


mbl.is Rúmlega 10 þúsund kusu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Fín færsla. Takk fyrir!

Björn Birgisson, 26.11.2010 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband