Það kemur okkur í koll núna að vera friðsöm þjóð um margar aldir.
1.10.2010 | 20:56
Það er búið að mótmæla nánast linnulaust á Íslandi í 2 ár núna. Mótmælin hafa verið miskraftmikil eins og búast má við, en reiði almennings er vaxandi og það er stanslaust mótmælt á ýmsum vígstöðvum. Ekki bara við Alþingishúsið og Dómkirkjuna eins og í dag, heldur líka í ræðu og riti, í bloggfærslum og spjallþáttum.
Frá fyrsta degi hafa mótmælin beinst að ríkisstjórn Íslands á hverjum tíma, það var fyrst ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem hrökklaðist frá völdum í mótmælaöldunni. Svo tók við bráðabirgðastjórn Samfylkingar og VG með stuðningi Framsóknar. Sú stjórn átti svo stuttan líftíma að henni var hóflega mótmælt. En nú hefur setið í rúmt ár hreinræktuð vinstristjórn sem ræður hér ríkjum fyrir Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Þessari ríkisstjórn er nú mótmælt af krafti, enda allir búnir að átta sig á að hún er að vinna fyrir aðra en íbúa Íslands.
En það hefur alla tíð lítið verið hlustað á þessi mótmæli. Ástæða þess að fyrri ríkisstjórn hrökklaðist frá var nú ekki mótmælaaldan, heldur það að Samfylkingin sá tækifæri til áframhaldandi stjórnarsamstarfs með VG með því að skammast út í sjálfstæðisflokkinn um leið og stjórnarsamstarfið var sprengt. Þetta var hin raunverulega ástæða, ekki mótmælin.
Og enn er ekki farið að hlusta á mótmælendur. Fólk er bara minnt á að meiða engan, á meðan það passar sig á því má það æpa og öskra og kasta nokkrum eggjum til að fá útrás. Á meðan enginn meiðist er heldur ekki verið að hlusta á mótmælendur. Það sagði mér maður í gær að friðsemi Íslendinga um aldir komi þeim nú í koll. Það kemur okkur í koll vegna þess að mótmæli eru ekki tekin alvarlega, það stafar engin ógn af slíku. Ef menn væru eins blóðheitir hér og víðast hjá öðrum þjóðum að láta hendur skipta þegar þeim hitnar í hamsi þá myndi mótmælaalda eins og hér hefur risið kannski verða til þess að þeir sem mótmælin beinast að tækju starf sitt alvarlega og hlustuðu á mótmælendur.
En á Íslandi trúa stjórnmálamenn því að Íslendingar séu svo linir, svo miklir aumingjar, að ekkert sé að óttast og engu þurfi að breyta þó mótmælt sé af krafti. Þeirra vegna vona ég að þeir hafi rétt fyrir sér. Þjóðarinnar vegna vona ég að þeir hafi rangt fyrir sér.
Margir voru mjög reiðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kannski er þetta rétt. En, taktu eftir að fólk var aðeins fljótara að hitna núna en seinast. Seinast leið nokkur tími áður en menn fóru að kasta eggjum og brjóta rúður.
Kannski verður farið að krauma betur á morgun.
Ásgrímur Hartmannsson, 1.10.2010 kl. 21:14
Sæll Ásgrímur og takk fyrir athugasemdina. Kannski er að hitna í fólki, það er alveg rétt. Það var vissulega slatti af eggjum sem var kastað í dag. En ég óttast að þetta endi með einhverjum ósköpum, því þingmenn eru alveg taktlausir og virðast ekki átta sig á stöðunni, treysta bara á að mótmælendur verði til friðs í stað þess að taka mark á mótmælunum áður en eitthvað alvarlegt gerist. Það er mikið ábyrgðarleysi þingmanna ef þeir verða valdir að því að fólk fer illilega yfir strikið vegna þess að þeir hlusta ekki á mótmælendur á meðan mótmælin eru á tiltölulega friðsömum nótum.
Jón Pétur Líndal, 1.10.2010 kl. 21:53
Þarna hittirðu naglann alveg lóðbeint á höfuðið, á Íslandi varð aldrei nein bylting eins og víðast annars staðar í Evrópu fyrir 200 árum. Þannig gerðist það aldrei að ráðamenn landsins fyndu nasaþefinn af því hvað gerist ef þeir vaða uppi eins og þeim sýnist. Því þekkja ríkjandi öfl á Íslandi ekki, fyrr sem nú, að þau séu til þess að vinna í þágu fólksins en ekki hinnar ríkustu stéttar hverju sinni. Eða hverra annarra sem þeim þykir best að þóknast.
Læt fylgja með til gamans að vitur maður mér kunnugur vill meina að það sem Íslendinga vanti helst sé AK-47...
Þór Kárason (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 22:00
Sammála ýmsu, en ekki öllu. Ofbeldi hefur aldrei leyst neitt, eggjakast er ofbeldi. Þegar fólk æpir og gólar hætta hinir að hlusta. Best hefði verið ef íbúar þessa fagra lands hefðu staðið þúsundum saman á Austurvelli og steinþagað. Sú þögn hefði verið ærandi hávær og ógnandi.
lesandi (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 22:04
Múgsefjunin er búin að vera aðal kúgunnarmeðalið okkar frá Landnámi og okkar eina vopn gegn henni hefur alltaf verið grjót eða eitthvað lauslegt sem hægt er að henda.
Fyrstu 2-300 árin í sögu landsins voru kanski ágæt hér á Íslandi, eða allt þangað til að Noregskonungur vildi okkur kristna vor með góðu eða illu (helst nátturulega illu) og ránið hófst þá með innheimtu 10undar af öllum eignum landsmanna og hefur ekki linnt ennþá, það er gengið bara gengið á framtíðina líka. Það eru bara komnar öflugri vélar en kirkjan eins og bankarnir td. sem hirða allt með múgsefjunina, lögregluna og öll dómstig að vopni! ALLSKONAR LYGUM OG ÆFÐUM LEIKRITUM. ÞESSI ÞINGSETNIG ER EKKERT ANNAÐ EN ÆFT LEIKRIT! 16 September var bara æft leikrit frá a-ö.
Það er gott fyrir okkur að eiga öll þessi handrit frá landnámi, sérstaklega til að geta þá dregið lærdóm af því og séð alla sögu múgsefjunnarinnar og kúgunnar sem hefur aldrei verið meiri en nú og leyfi ég mér að halda að við gerð handritanna hafi verið reynt að fegra raunveruleikann eins og hægt var.
Jónas Jónasson, 1.10.2010 kl. 22:08
Sælir og takk fyrir athugasemdir. Vissulega leysir ofbeldi ekki neitt og er í sjálfu sér einungis af hinu vonda, en staðreynd er engu að síður að það kemur hreyfingu á hlutina. Og menn beita ekki ofbeldi að ástæðulausu, það væru ekki gerðar vopnaðar byltingar ef mönnum tækist að ná svipuðum árangri með öðrum leiðum. Þess vegna er það stórhættulegt ástand sem ríkir hér núna, þegar mótmælin eru að ná endimörkum þess sem hægt er að mótmæla með friðsamlegum hætti, en ríkisstjórnin fæst samt ekki til að hlusta og taka sönsum. Hún eflir bara lögregluna og sigar henni að líkindum á mótmælendur einhvern daginn til að tuska þá til. Mest ofbeldið hingað til í þessari mótmælaöldu hefur nú eftir allt saman komið frá yfirvöldum sem skirrast ekki við að taka á mótmælendum og að reyna að fá þá dæmda í fangelsi fyrir að mótmæla óréttlæti og aumingjaskap ráðamanna.
Jón Pétur Líndal, 1.10.2010 kl. 22:15
Ja er það ekki ofbeldi af ríkinu og dómstigum að halda borgurum niðri á meðan bankarnir nauðga þeim?
Jónas Jónasson, 1.10.2010 kl. 22:44
sæll Jónas, ég mundi halda að það væri ofbeldi að taka þátt í slíkri nauðgun.
Jón Pétur Líndal, 1.10.2010 kl. 22:49
sem hefur viðgengst frá kristnitöku.
Jónas Jónasson, 1.10.2010 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.