Skortur á nýjungum á stjórnmálamarkaði er alvarlegt mál.

Það er mjög alvarlegt mál í dag að það hefur ekkert tekist að hrófla við gamla flokkakerfinu. Það hafa komið fram hugmyndir um ný framboð og þær hafa stundum verið framkvæmdar. En alltaf detta ný framboð að lokum í sama hjólfarið og gömlu framboðin. Þess vegna hafa engar raunverulegar breytingar fylgt nýjum framboðum í íslenskum stjórnmálum í áratugi. Stökum sinnum hefur verið gerð smá andlitslyfting á kerfinu, eins og t.d. þegar Samfylkingin var stofnuð um hluta Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins. Sama gerðist við stofnun Vinstri grænna þegar kommúnisminn fékk umhverfisvæna ásýnd. Kvennalistinn hafði engan tilgang á sínum tíma annan en að fjölga konum á þingi. Það framboð hafði t.d. ekki þann tilgang að komast til valda, þær höfnuðu ætíð stjórnarsamstarfi, aðeins að sýna fleiri konur í þingsal og kannski nota flokkinn sem þjálfunarbúðir fyrir konur í stjórnmálum. Það var ekki fyrr en Kvennalistinn lagði sig niður sem konur úr honum fóru að hafa áhrif þegar þær fóru að starfa með gömlu flokkunum aftur.

Svo má skoða árangur Borgarahreyfingarinnar sem tvístraðist fljótlega eftir síðustu kosningar og er að öðru leyti bara lítill stjórnarandstöðuflokkur sem hefur engin áhrif á þeim stjórnmálamarkaði sem hér er.

Nú er algjör upplausn í þjóðfélaginu, ríkisstjórnin er andþjóðfélagsleg og Alþingi allt á kafi í pólitískri drullu eftir að pólitísk kjarnorkusprengja sprakk í þinginu nú í vikunni. Almenningur er að komast á algjöran vonarvöl í stórum stíl og fólk orgar á stjórnmálamenn sem eru tilbúnir til að setja almannahag ofar öðrum hagsmunum. Það verða mótmæli á morgun og fólk er búið að vera býsna duglegt að mótmæla.

En það er alvarlegur skortur á nýjungum á stjórnmálamarkaði. Þó ástandið sé eins og það er eru ekki að koma fram ný framboð sem lofa góðu. Besti flokkurinn sló vissulega í gegn í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum í vor. En það er ekki að sjá að frammistaða þess flokks eftir kosningar verði honum til framdráttar í þingkosningum, færi svo að hann tæki þátt í þeim.

Ég og fleiri höfum talað um ónýtt flokkadrasl á þingi. Stjórnmálamarkaðurinn hefur ekki upp á annað að bjóða en ónýtt drasl. Um það eru margir sammála. Ég hef talað fyrir beinu lýðræði, að koma á kerfi sem byggir á virkri almennri þáttöku í stjórnmálum í stað þess að láta ónýtt flokkadrasl einrátt á stjórnmálamarkaði. Andstæðingarnir voru auðvitað nógu skynsamir til að kveða þessa tilraun í kútinn, bæði með því að halda þessari hugmynd frá fjölmiðlum og almennri umfjöllun eftir besta megni og með því að útmála hugmyndina sem eitthvað skrípó uppátæki frá Ástþóri Magnússyni. Andstæðingarnir þorðu aldrei að tala málefnalega gegn beinu lýðræði, þannig að sjálfsagt er hugmyndin nokkuð góð.

Beint lýðræði er ennþá að mínu mati besta hugmyndin sem hefur komið fram um nýjungar á stjórnmálamarkaði. Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave sannaði það m.a. En þjóðaratkvæðagreiðslur af því tagi eru hins vegar allt of torfær leið til daglegra nota þannig að það þarf að finna betri útfærslu. En nú er þörf á að styðja við þessa hugmynd enn frekar en áður því þörfin á nýjungum er svo mikil. Það verður að bjóða fram eitthvað nýtt í stað þeirra flokka og stjórnarfars sem nú er í landinu. Þess vegna skora ég líka á aðra sem hafa hugmyndir um ný framboð að gera grein fyrir þeim. Það þyrfti að setja upp nokkurs konar markaðstorg fyrir stjórnmálamarkaðinn, þar sem ný framboð og nýjar leiðir í stjórnmálum eru útfærðar og græjaðar strax fyrir næstu kosningar sem verða væntanlega mjög fljótlega ef Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn leyfir.


mbl.is „Fólk bíður eftir nýju afli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband