Það besta sem við getum gert er að líta í eigin barm og .......
1.6.2010 | 21:30
Við getum öll verið sammála um að þetta er ógeðsleg mannvonska og klikkun og glæpamennska og illgirni og stríðsglæpir o.s.frv.
Og okkur langar til að mótmæla og gera eitthvað í þessu til að friða samviskuna. Kannski langar suma líka til að gera eitthvað fyrir Palestínumenn og Íraka og Afgana og aðra í heiminum sem eru fórnarlömb stríðsbrjálæðis.
En hvað getum við gert? Hvað er best að gera? Er ekki nóg að láta móðan mása í 1-2 daga, skammast dálítið eða heilmikið og senda nokkur mótmælabréf. Reynum jafnvel að komast í einhvern útlendan fjölmiðil til að láta heiminn heyra hvað þetta er ljótt. Við göngum nú samt ekki svo langt að siga Dorrit á Ísraelsmenn til að skamma þá, hún er víst Ísraeli og fengi kannski á baukinn ef hún færi að skipta sér af. Þeir taka kannski af henni vegabréfið og segja henni að koma aldrei aftur. Ég veit ekki hvort þetta er nóg, en þetta er samt nokkurn veginn það sem við erum vön að gera.
Nokkrir menn, ekki margir, hafa þó sýnt vilja sinn í góðverki. Einn þeirra a.m.k., hefur gengið svo langt að standa fyrir söfnun á lyfjum og gjöfum til barna og koma því alla leið á áfangastað til að sýna í góðverki að hægt sé að gera meira en að kjafta um þetta við eldhúsborðin. Hann hefur gengið lengra en flestir hinir því hann skilur að kjaftæði og sjálfsvorkunn þeirra sem horfa upp á þetta gerir nú lítið gagn. En þetta er Ástþór Magnússon sem á auðvitað ekki upp á pallborðið hjá flestum því hann hefur þá óþægilegu áráttu að fylgja stundum orðum sínum eftir í verki. Það er álitinn slæmur galli á Íslandi, sérstaklega hjá alþingismönnum og öðrum ráðamönnum þjóðarinnar, hvað þá einhverjum almúgamönnum að gerast svo frakkir.
Þessi leið Ástþórs er nú að mínu mati ein sú besta sem hefur verið farin á Íslandi, en ekki sú eina sem hann hefur fundið upp á. Hann hefur líka stofnað alþjóðlegu friðarsamtökin Frið 2000 til að vinna að friði í heiminum. En þegar hann beindi sjónum almennings að ógeðfelldri stríðsþáttöku Íslands í Íraksstríðinu, ásamt því að vara við að íslenskar farþegaflugvélar kynnu að verða skotmark vegna þessarar stríðsþáttöku, þá ruku stjórnvöld til og sóttu Ástþór og stungu í steininn í gæsluvarðhald, hreinsuðu út af skrifstofum Friðar 2000 tölvur og önnur gögn og rústuðu starfsemi friðarsamtakanna. Ástþór var svo dreginn fyrir dóm sem hryðjuverkamaður vegna þessara viðvarana sinna. Svona vinna stjórnvöld á Íslandi í raun. Þau eru alls ekki friðarsinnuð. Ef þau finna alvöru friðarsinna í landinu þá er hann talinn hryðjuverkamaður. Það sannaðist líka á Ögmundi og félögum í samtökum herstöðvaandstæðinga, sem á sínum tíma görguðu árum saman, "Ísland úr Nató, herinn burt!!!" Svo þegar herinn vildi burt breyttist þessi söngur snögglega í "Ísland í Nató, herinn kjurt!!!" Þegar velja þurfti her og pening eða engan her og engan pening vildu allir peninginn þó svo herinn yrði að fylgja með. Svona vinna íslensk stjórnvöld. Svona er veruleikinn. En herinn fór samt burt því Bandaríkjamenn völdu líka peninginn og ákváðu að spara herinn á Íslandi. En vilji Íslendinga skipti þar engu máli.
Það er fleira sem Ástþór vildi gera. Hann vildi virkja Bessastaði. Gera forsetaembættið að friðarstóli og Ísland að friðelskandi og alheimsfriðandi þjóð. Hann vildi verða þannig forseti. En það var annar í boði sem vildi verða senditík fyrir alla bankastjóra Íslands og hjálpa þeim að gera Íslendinga svo ógeðslega ríka að þeir gætu keypt restina af heiminum sem er eitthvað vit í og flogið svo til tunglsins og búið þar og horft þaðan niður á eignir sínar á jörðinni og dáðst að þeim fjarri öllu stríðsbrölti og vitleysisgangi í hinum hálfvitunum sem hafa ekkert peningavit og eru alltaf að skjóta á hvern annan. Íslendingar völdu auðvitað þennan mann en ekki Ástþór því þetta var miklu skemmtilegra og raunhæfara markmið en að vera til friðs og virkja forsetaembættið til að láta gott af sér leiða. Svona eru Íslendingar. Þeir hafna alltaf friði ef eitthvað annað skemmtilegra er í boði.
Það besta sem við gerum núna og eftirleiðis er að líta í eigin barm og skoða hvernig við sjálf erum. Við skulum ekkert vera að æsa okkur yfir manndrápum hjá öðrum ef við tökum alltaf þátt í stríðsbrölti sjálf þegar það býðst. Við skulum ekkert vera að fárast yfir stríðsbrölti annarra og afleiðingum þess ef við stingum þeim í steininn sem gera eitthvað af viti til að andmæla okkar eigin stríðsþáttöku. Við skulum ekkert vera að finna að því að aðrar þjóðir standi í ógeðslegu stríðsbrölti úr því við veljum sjálf að sýna þjóðhöfðingja okkar sem andlit fégráðugra sjálfselskupúka og glæpamanna frekar en fulltrúa friðelskandi og góðgjarnrar þjóðar.
Ef við viljum virkilega hafa áhrif skulum við ekkert vera að eyða tíma í venjulegt sýndarmennskukjaftæði til að friða eigin samvisku. Notum frekar tímann til að líta í eigin barm. Ef okkur finnst virkilega að við eigum að stuðla að friðsamlegri og betri heimi skulum við velja okkur leið til þess í anda Ástþórs Magnússonar og fara hana svo af alvöru.
Hrikalegir atburðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rétt er það fyrst og fremst við sjálf svo að við getum hjálpað öðrum en það á ekki við um ríkisstjórn vors lands fyrst að níðast á þeim sem minna mega sín og færa svo auðvaldinu alt upp í hendurnar. Já við ættum að byggja upp umburðarsemi gagnvart hvor öðrum og að sína að við séum friðelskendur Þá er hægt að sega og sýna þjóðum heims að við stöndum saman sem þjóð, Firr getum við ekki sett okkur í spor annarra.
Jón Sveinsson, 1.6.2010 kl. 22:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.