Ekki sama Thor og Björgólfur Thor.

Á maður að hlæja eða gráta þegar maður les þessa frétt og ber þetta saman við margumtalað fyrirhugað betligagnver Björgólfs Thors í Reykjanesbæ.

Hvers konar aumingi er Björgólfur Thor eiginlega og samstarfsmenn hans að þurfa skattaafslætti ofan á skítbillega aðstöðu í gömlum kofa frá hernum til að hafa gagnaverið í. Og kannski þurfa þeir eitthvað fleira, allavega var heilmikil pólitísk fyrirgreiðsla komin í gang út af þessu fyrir ekki löngu síðan. Og þeir stöðva framkvæmdir í miðjum klíðum og eru með alls konar skringilegheit og væl til að mjólka peninga og afslætti í þetta frá öðrum. Rétt eins og þegar Landsbankinn var keyptur.

Svo eru einhver eða einhverjir sem enginn þekkir og eru bara byrjaðir með gagnaver í nýju flottu húsi í Hafnarfirði. Og þeir virðist komast í gang með þetta án þess að betla nokkuð af skattgreiðendum. Kaupa sér bara gám með töludóti og tryggja sér rafmagn og nettengingu fyrir gáminn og Bingó!, 1,5 milljarðar í tekjur framundan árlega af einum gámi. Og það er ekkert verið að búa til leikrit um það að það verði að styrkja þetta með öllum ráðum til að tryggja einhver störf og orkusölu. Þetta er bara gert, væntanlega vegna þess að þetta er hagkvæmt rekstrardæmi. Það er með svona mönnum sem hægt er að hressa upp á efnahagslífið á Íslandi aftur, þ.e. ef ríkisstjórnin kemur sér frá völdum og hættir að gera illt verra, hvar sem hún getur. Eins og t.d. í þessu máli þar sem ríkisstjórnin ætlar að styðja við rekstur gjaldþrota betlaranna sem landsmenn þurfa að líða fyrir næstu áratugi en sýnir sjálfbjarga mönnum engan áhuga, virðir þá ekki viðlits þegar þeir mæta til að sýna ráðamönnum hvað þeir eru að gera.

Ég held að Björgólfur Thor og þeir sem hafa raðað sér í kring um hann agndofa yfir viðskiptasnilld hans ættu að fara að vinna fyrir sér og hætti þessum betlibisniss. Það er á útleið núna að bisnissmenn betli, enda ekkert eftir handa þeim að betla lengur. Þeir eru búnir að eyðileggja allt sem þeir hafa getað með hraða engisprettufaraldurs. Þeir eru búnir að fá meira en nóg. Þeir eru búnir að fara svo illa með það sem þeir hafa fengið að það er bara algjört hámark heimskunnar hjá ráðamönnum að gefa þeim meira. Enda er þetta betl bara svikamylla, vel skipulögð fjársvik. Það er búið að kroppa dáldið í toppinn á þeim ísjakanum, í þeim skilningi að það er komið í ljós smávegis af þeim viðskiptaháttum sem þessir menn hafa stundað. Ég vona sannarlega að menn skoði allan jakann. Eftir því sem ég heyri þá er enn eftir að afhjúpa flest verstu málin, þannig að það á margt eftir að koma í ljós, verði á annað borð reynt að upplýsa fleiri mál.

En að lokum, til hamingju aðstandendur Thor Data Center og gangi ykkur vel.

Og ef ríkisstjórnin er svo vitlaus að ætla að fara púkka upp á gagnver Björgólfs Thors og félaga með sértækum aðgerðum og stuðningi þá er það þvílík heimska að ég vona að hver einasti ráðherra sem að slíku stendur muni að lokum komast á sakaskrá fyrir það svínarí.


mbl.is Thor Data Center gerir raforkusamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Loksins, loksins! Þar kom að því að eitthvað heyrðist annað en djöfuls mjálmið um hvort ríkisstjórnin ætli ekki að fara að gera eitthvað.

Og alveg er þetta dæmigert fyrir hægri ræflana að nú þarf litli Bjöggi að byrja á sníkjum frá samfélaginu áður en hann leggur á brattann.

Hægri menn vilja græða á daginn og grilla á kvöldin. En til að allt gangi upp þá þarf þjóðin að útvega einhvern til að kveikja upp í grillinu og snúa steikinni.

Og svo auðvitað að bera steikina á borð og þrífa eftir veisluna.

En, vel á minnst, hvernig ber að skilja þessa frétt um orkuþörfina og gámana? Hversu mikla orku þarf til að framleiða einn gám?

Geturðu svarað því?

Árni Gunnarsson, 8.4.2010 kl. 21:30

2 identicon

Já það þarf að koma atvinnupólitíkusum frá og það er bæði átakanlegt og ég fæ hroll þegar ég hlusta á iðnaðarráðherran sem ekkert getur ekkert kann og ekkert man tala fyrir því að vinir hennar og drykkjufélagar af barnum þurfi að fá skattaafslætti til að græða líkast til  svo þeir getis splæst meir af barnum því ekki hef ég trú á að hún kosti meira

En Árni þú talar um hægri menn. Hvar eru vinstrimennirnir eru þeir bara alltaf til í að spila með auðvaldinu og halda þeir að það sé ákjósanlegt að kúga fólk með peningavaldi og lánaoki.

Ég held að Steingrímur sé fullgildur meðreiðarsveinn íhaldsins og það eru einhverjir aðrir hagsmunir sem hann er að verja en almugans.  Líkast til sínir eigin eins og maður fyrirgaf honum nú yfirsjónin í málafylgju hans við eftirlauanfrumvarp stríðsglæpamannanna.S

Sigurður Haraldsson

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 9.4.2010 kl. 11:43

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sigurður. Ég tala um hægri menn vegna þess að þeir sem telja að lífið hafi þann tilgang einan að græða kalla sig gjarnan hægri menn. Þess vegna talaði ég um hægri menn. Hinu er ég svo hjartanlega sammála að þegar til kastanna kemur þá þarf stundum að leggja sig fram við að þekkja þessa hægri menn frá hinum sem- eins og þú réttilega segir spila með.

Sjálfur er ég svo einfaldur að halda því fram að best sé ævinlega að taka þá ákvörðun sem réttust virðist vera án þess að velta fyrir sér hvort hún teljist vera hægra eða vinstra megin við einhverja kennisetningu.

Árni Gunnarsson, 9.4.2010 kl. 14:32

4 Smámynd: Árni Viðar Björgvinsson

Ég held það Jón Pétur að þú ættir kannski að kynna þér málin örlítið áður en þú tjáir þig um þau. Þó ég sé vel sammála allri gagnrýni á Björgúlfsfeðga, þá eru hér nokkrar staðreyndir handa þér:

Björgúlfur og Novator eru aðeins minnihlutaeigandi í Verne Global. Að mestu leyti eru þetta góðir menn sem hafa ekkert átt skylt við útrás eða bankahrun. Það að drulla yfir Verne Global í heild sinni og dæma það eingöngu byggt á því að Novator á í þessu, er bara ekki sanngjarnt.

Verne Data Center er 30.000 fermetra byggingasvæði og er ætlað í að hýsa vinnslutölvur, ekki geymslu á gögnum. Tölvur sem vinna viðstöðulaust þarf að kæla mun meira en gagnageymslur. Því þarf tugi gríðarstórra loftræsisamstæða til þess að blása lofti út/inn í húsið hjá Verne, en á Thor gámunum eru aðeins litlar viftur í þakinu sem viðhalda hringrás lofts.

Að sama skapi er krafa um hámarks uppitíma... 99.98% uppitíma reyndar, og til þess að ná því eru samtals margra tuga megawatta diesel varaaflstöðvar byggðar á svæðinu.

Öllu þessu fylgir auðvitað alveg gríðarlegt magn af stjórnbúnaði, olíutankar sem myndu sóma sér ágætlega sem móttökugeymar í uppskipun og öryggiskröfur á heimsmælikvarða (anti-terrorism vesen).

Það að reyna að bera saman Thor og Verne er eins og að reyna að bera saman útgjöld mín og útgjöld íslenska ríkisins eftir hrun. Stærðarmunurinn er svo svakalegur að það er varla hægt að ímynda sér það, og það er alveg eðlilegt að það sé miklu auðveldara að fara af stað með svona smáfyrirtæki eins og Thor Data Center er og að sú aðgerð þarfnist minna betls. :)

Árni Viðar Björgvinsson, 10.4.2010 kl. 04:30

5 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sælir og takk fyrir athugasemdirnar. Árni Viðar, það er ágætt að fá hjá þér þessa krítík á skoðanir mínar á þessu gagnaveri. Það er auðvitað alveg rétt hjá þér að ég er kannski að drulla full mikið yfir þá menn sem ekkert hafa af sér gert hingað til, en eru nú að undirbúa stórfyrirtæki með Björgólfi Thor.

En hins vegar bakka ég ekkert með það að það er algjör óþarfi að styðja sérstaklega við þennan rekstur með styrkjum eða afsláttum frá því sem almennt gildir. Annaðhvort er þetta arðbært fyrirtæki eða ekki. Það er meira en nóg komið af góðgerðastarfsemi fyrir stórfyrirtæki. Í mínum huga skiptir engu máli hver á þau í því tilliti.

Jón Pétur Líndal, 12.4.2010 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband