Saklaus þar til sekt er sönnuð er lögfræðinga lygi.

Það kom berlega í ljós í Kastljósi í kvöld þar sem fjallað var um fyrri yfirheyrslur og vitnisburði vegna Milestone fjármálagerninganna að menn geta verið sekir þó engin sekt sé sönnuð. Þar með er búið að hrekja það sem skinhelgir og skælbrosandi lögfræðingar eru margbúnir að ljúga framan í alþjóð, að menn séu saklausir þar til sekt sé sönnuð.

Það kom nefnilega fram í þættinum að Steingrímur Wernersson gaf sig fram til skýrslutöku hjá saksóknara og óskaði eftir að hafa stöðu vitnis en ekki sakbornings. Svo fór hann að tala. Með þessu þá gat hann játað aðild sína að ýmsu vafasömu og saknæmu athæfi án þess að nokkur sekt verði sönnuð á hann, þar sem menn geta komist hjá því að lenda í því að verða ákærðir og dæmdir fyrir brot með því að bera vitni gegn öðrum mönnum. Þá verða engar sakir sannaðar eða dæmdar á menn þó þeir séu sekir og játi það jafnvel. Skv. lygi lögfræðinganna teljast þeir því saklausir. En geta þó ekki verið það í raun úr því þeir hafa játað brot eða aðild að þeim. Þar með er komið gat á þá fullyrðingu fjölmargra lögfræðinga að menn teljist saklausir þar til sekt er sönnuð. Sú fullyrðing eða alhæfing er því lygi.

Það er því vissara að trúa ekki öllu sem skælbrosandi lögfræðingar mata í þjóðina í ræðu eða riti.


mbl.is Yfirheyrslur vegna Milestone
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jamm, og þá get ég ásakað þig um að hafa stundað fjárdrátt í stórum stíl. Nú er það væntanlega þitt að afsanna það samkvæmt þínum rökum ekki satt?

Jamm (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 06:08

2 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Jamm og takk fyrir athugasemdina. Það er auðvitað hægt að ásaka hvern sem er um hvað sem er. Það er ekki málið. En þú ert greinilega ekki að skilja rökin fyrir minni fullyrðingu. Ég er bara að benda á að menn geta augljóslega verið sekir þó engin sekt verði sönnuð eða dæmt út af henni, ef menn játa sakir eða viðurkenna aðild að brotum sem vitni í því skyni að sakfella aðra og fría sjálfa sig um leið. Þess vegna er fullyrðing um sakleysi uns sekt er sönnuð alls ekki óhagganleg staðreynd.

Reyndar held ég að undir þessu nafni getir þú ekki sakað nokkurn mann um nokkurn glæp, því nafn þitt finnst hvergi og þú telst varla marktækur ef þú þarft að byrja á að fela sjálfan þig.

Það er auðvelt að saka þig um lygi eða blekkingu þegar þú þykist heita Jamm. Ég er viss um að það er ekki þitt rétta nafn. En kannski ertu að nota þetta dulnefni í umræðunni þegar þú ert að koma á framfæri upplýsingum um aðra sem þér finnst þurfa að sakfella. Kannski notar þú þetta nafn á blogginu í svipuðum tilgangi og þeir sem gefa sig fram sem vitni, til að geta bent á brot annarra án þess að klekkt verði á þér sjálfum fyrir aðild að þeim.

Eða kannski ertu bara lögfræðingur að verja slæman málstað félaga þinna.

Jón Pétur Líndal, 23.2.2010 kl. 08:48

3 Smámynd: Páll Jónsson

Þetta hlýtur að vera augljósasta og á sama tíma marklausasta staðhæfing sem nokkurn tímann hefur verið færð fram á bloggi.

Grundvallarprinsippið gildir eftir sem áður þó þjóðfélagið sé tilbúið að beygja það á stundum til að landa stærri fiskum fremur en smáum.

Mér finnst þetta heldur vafasamt hér á landi þar sem ég veit ekki um lagagrundvöll til að bjóða svona samninga... en ef hann vantar þá er það galli. Er ekki meirihluti Íslendinga, lögfræðingar sem skúringamenn, sammála því að þetta eigi að vera hægt?

Páll Jónsson, 23.2.2010 kl. 09:33

4 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Páll og takk fyrir athugasemdina. Það er gott að hafa smá umræðu um þetta. Vona að fleiri láti skoðanir sínar í ljós.

Jón Pétur Líndal, 23.2.2010 kl. 10:13

5 identicon

Ég er 19 ára gamall, ég setti ekki ísland á hausinn og nei ég er ekki lögfræðingur. Gott að vera paranoid samt. Ennfremur skil ég ekki hvað fólk hefur á móti nafnleynd og virðist sjálfkrafa telja það rýra málstað þess sem kýs að verja nafn sitt. Ég get vel heitið mikki mús en þó haft rétt fyrir mér ekki satt. Ég skil líka alveg hvað þú ert að segja, þú segir að menn geti verið sekir uns sekt er sönnuð. Það er augljóst, annars væru annað hvort engir glæpir framdir á Íslandi eða að allir þeir sem réttað væru yfir væru í rauninni saklausir. Meginreglan er samt hin sama, dómstólar skulu líta á menn sem saklausa uns sönnunargögnin eru komin upp á borðið.

Jamm (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 20:00

6 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll aftur Jamm. Gaman að heyra frá þér aftur. Ég er sammála þér, þú hefur örugglega ekki sett landið á hausinn en ert kannski í þeim hópi manna sem átt saklaus eftir að líða fyrir þetta klúður mest alla ævina með margvíslegum hætti. Ég get alveg skilið það að þú viljir taka þátt í umræðunni án þess að koma fram undir réttu nafni, en ef allir væru nafnlausir þá væri þessi umræða dáldið skrítin og merkingarlaus, ekki satt? Þá gætu 2-3 menn komið fram undir þúsund dulnefnum bara til að reka einhvern áróður án þess að nokkur vissi hvort fáir eða margir eða hverjir væru að taka þátt í umræðunni. Það væri auðvitað mjög villandi. Þess vegna er það auðvitað betra ef menn treysta sér til að koma fram í eigin nafni og standa fyrir máli sínu. Ég velti því fyrir mér þegar ég byrjaði á þessu bloggi í haust hvort ég ætti að þora að koma fram undir réttu nafni eða vera undir einhverju dulnefni. Ákvað að vera ekki í neinum feluleik, taka því frekar þó einhverjir séu mikið ósammála og láti mann heyra það. Það hefur satt að segja bara gengið ágætlega.

En varðandi upphaflega tilefnið af þessu spjalli okkar, bloggið um sekan eða saklausan. Þá er það dáldið merkilegt hvernig lögum er beitt eftir hentugleikum þegar metið er hvort menn skuli sekir eða saklausir. Eins og ég nefndi þá kom fram í Kastljósinu að Steingrímur W. fékk stöðu vitnis gegn því að leggja spilin á borðið og fékk þar með fríun frá stöðu sakbornings og hugsanlegum ákærum og dómum. Þetta fékk hann beinlínis út á að segja satt og rétt frá þó að til þess þyrfti hann að viðurkenna aðild að ýmsum brotum og þar með sekt sína.

En í svipuðu máli fyrir nokkrum árum síðan þegar Jón Sullenberger viðurkenndi sem vitni í Baugsmálum að hafa gefið út rangan reikning til að hjálpa Jóni Ásgeiri að fela einhverjar greiðslur út af skemmtibát þá snerist málið þannig að Jón Sullenberger var ákærður og fékk dóm fyrir reikninginn. Þar var vitnið gert að sakborningi en upphaflegi sakborningurinn slapp við dóm fyrir sína aðild að brotinu.

Og í því máli var ákært í fjölmörgum atriðum, 40 að mig minnir, en aðalsakborningurinn slapp við sakfellingu vegna flestra atriðanna, ekki endilega vegna þess að sekt væri ekki sönnuð, heldur líka vegna þess að langt var um liðið í sumum tilvikum og í öðrum var deilt og þvælt um hver innan fyrirtækisins hefði borið ábyrgð á þeim atriðum sem ákært var fyrir. Þannig tókst einhvern veginn að má út slóðina að hinni endanlegu ábyrgð sem fram að þessu var talið að lægi alltaf hjá æðstu stjórnendum fyrirtækja.

Nú er spurning hvort það dugir líka Þór Sigfússyni fyrrv. forstjóra Sjóvár, til að fría sig ábyrgð á töpuðum bótasjóðum, að hafa skrifað undir milljarða lánasamninga án þess að hafa lesið þá yfir. Getur hann þar með kennt öðrum um? Nú er ljóst að hann skrifaði undir samninga sem í raun settu fyrirtækið á hausinn á einni viku. Hann er ótvírætt sekur um það með undirskrift sinni. En verður hann kannski dæmdur saklaus af því aðrir báru ábyrgð á samningsgerðinni, hann skrifaði bara undir án þess að lesa þetta almennilega?

Það er auðvitað ljóst að þó hann verði hugsanlega dæmdur saklaus, komi á annað borð til ákæru, þá er hann þó búinn að skrifa undir pappírana og því óhjákvæmilega sekur líka.

Þess vegna ítreka ég bara ennþá það sem ég bloggaði um í upphafi.

Það getur vel verið að meginreglan sé sú á tyllidögum að menn séu saklausir þar til sekt er sönnuð. En í praksís er það svo að ef grunur er um brot eru menn sekir þar til sekt er afsönnuð.

Það gerðist t.d. fyrir um einu og hálfu ári síðan að rænt var hraðbanka í Hveragerði. Þetta var talið hafa gerst á aðfararnótt laugardags að mig minni. Á mánudegi var búið að setja nokkra menn í varðhald vegna gruns um að þeir hefðu rænt bankanum. Þeir voru bara settir inn eins og sakmenn og ekkert beðið eftir að sekt yrði sönnuð áður en þeir yrðu læstir inni. Svo voru þeir yfirheyrðir sitt á hvað í nokkra daga þar til þeir höfðu játað og málið var upplýst. Svo fór þetta sína leið í dómskerfinu. Ég veit ekkert um hvar þessir menn eru staddir í dag. En þetta er hin raunverulega meginregla. Og þetta er það sem átti að gera strax í árslok 2008 við þetta útrásarlið. Stinga því í varðhald sem seku fólki og yfirheyra það þar til sakir voru játaðar og málin upplýst. E.t.v. hefðu einhverjir talist saklausir að yfirheyrslum loknum og þá hefði þeim einfaldlega verið sleppt eins og venja er.

Það er því alls ekki rétt að meginreglan sé sú að menn séu saklausir þar til sekt er sönnuð. Þessi regla er undantekning sem er einungis notuð þegar um stórfelld afbrot hvítflibbaglæpamanna er að ræða.

Jón Pétur Líndal, 23.2.2010 kl. 23:04

7 Smámynd: Páll Jónsson

Meginreglan er vitanlega ekki sú í praxís að menn séu sekir þar til annað er sannað, en ef lögreglan fengi ekki ofurlítið svigrúm til að vinna eftir rökstuddum grun þá færu fáir í fangelsi... og dómstólar hafa oftar en einu sinni dæmt fólki skaðabætur ef lögreglan fer offari.

En þó þetta geti hjálpað þegar verið er að leita bankaræningja eða ofbeldismanna þá gæti þetta hreinlega ekki verið tilgangslausara varðandi þessa bankakalla. Hvaða ofurlögreglu/hagfræðing/bókhalda hefur þú í huga sem hefði næga innsýn í mál þessara kalla til að geta þjarmað eitthvað að þeim yfir eina helgi? 

Þegar það hlægilega vonlausa verkefni hefði verið yfirstaðið þá hefði þurft að fara fyrir dómstóla til að fara fram á gæsluvarðhald ef halda ætti þeim áfram inni. Á lögreglan nú að vera búinn að vinda nægilega ofan af þeirra gjörningum á þeim tíma til að sannfæra dómara um að rökstuddur grunur sé fyrir hendi? Varla.

Ef það á að landa þessum köllum þá þarf hópur sérfræðinga að leggjast í málið í langan tíma... sem er nákvæmlega það sem er verið að gera.

Þangað til er voðalega lítið hægt að gera nema fyrirlíta þá.

Páll Jónsson, 24.2.2010 kl. 16:28

8 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Páll og takk fyrir athugasemdina.

Það má auðvitað rökræða þetta með ýmsum hætti fram og til baka. Ég hef t.d. litið svo á að það sé ekki til auðveldara verkefni fyrir lögguna eða hvern sem er ef því er að skipta en að sannfæra dómara um að vel rökstuddur grunur sé um alvarleg afbrot stjórnenda og eigenda bankanna. Allar innistæður tapaðar og 17 þúsund milljarða skuldaslóði eru aðal rökin. Svo er fullt af smáatriðum eins og markaðmisnotkun, fjársvik, blekkingar af ýmsu tagi, röng upplýsingagjöf, óeðlileg afskipti af eftirlitsaðilum með flugferðum og boðsferðum af ýmsu tagi (mútur öðru nafni), óeðlilegar og ótryggar lánveitingar til eigenda, stjórnenda og starfsmanna og svona má endalaust halda áfram. Ef það er ekki nógu stór glæpur og nógu góð rök til að skynsamur dómari fallist á gæsluvarðhald yfir þessu liði svo lengi sem þörf krefur vegna rannsóknarhagsmuna, þá er einfaldlega leyfilegt að gera hvað sem er þegar fjármál og viðskipti eru annars vegar og engin lög til sem setja neinar hömlur í þessum málum.

Jón Pétur Líndal, 24.2.2010 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband