Færsluflokkur: Bloggar

Fjölgun í stjórnarliðinu - ekki alveg óvænt.

Nú virðist Þráinn Bertelsson hafa gengið til liðs við stjórnarflokkana. Maðurinn sem var hin nýja aldna vonarstjarna í íslenskri pólitík s.l. vor. Bauð sig fram á nýjum framboðslista Borgarahreyfingarinnar og komst á þing. Þráinn náði að komast á tveggja manna laun hjá ríkinu, bæði með því að þiggja laun sem rithöfundur og síðan sem þingmaður á sama tíma. Að þessu takmarki náðu virðist Þráinn láta duga að Össur vinur hans lyfti höndum Þráins í atkvæðagreiðslum. Hefur Þráinn bundið aðra hönd sína við atkvæðagreiðsluhönd Össurar og getur nú samið og flutt sögur í þinginu eða gert hvað annað sem hann langar til á meðan Össur greiðir atkvæði fyrir báða. Þannig hefur hann sameinað með grannri taug til Össurar bæði störfin og getur sinnt þeim báðum samtímis án þess að láta annað trufla hitt.

Svona koma nú krossvinataugar í íslenskri pólitík til hagræðis þegar sinna þarf mörgum störfum í einu.


Maður ársins 2009 er Björgólfur Thor.

madurarsins@ruv.is

Björgólfur Thor Björgólfsson hlýtur að vera maður ársins. Búinn að koma þjóðinni á hausinn með Icesave. Búinn að fá ríkisstjórnina til að koma skuldahalanum vegna þessa máls á þjóðina. Lúrir með Actavis og þúsund milljaraða skuld þess fyrirtækis í bakhöndinni. Búinn að leggja fram frumvarp um skattaafslátt til sín fyrir nýtt snilldarfyrirtæki. Lifir í vellystingum praktuglega og brosir framan í heiminn og flónin á Íslandi. Þetta er maður til að líta upp til. Þetta er maður ársins að mínu mati.

Jón P. Líndal.

Ég sendi þetta áðan inn í val á manni ársins hjá RÚV. Það er ótrúlegt hvað Björgólfur hefur áorkað á árinu sem er að líða. Enginn annar einstaklingur hefur haft viðlíka áhrif á þjóðina alla á árinu með athöfnum sínum. Þó afleiðingarnar af gerðum hans séu hörmulegar er ekki hægt annað en greiða honum atkvæði í vali á manni ársins að ótal mörgum öðrum ólöstuðum. Enginn annar hefur haft viðlíka áhrif á þjóðina alla á árinu með athöfnum sínum. Þið sem getið tekið undir þetta megið gjarna greiða honum atkvæði ykkar.


Ruglingslegar tölur og vanmetnar skuldir.

Ég fæ nú engan botn í þessar tölur, enda segir fréttin að Seðlabankinn segi þetta mat í sífelldri endurskoðun og háð mikilli óvissu.

Það er tvennt sem mætti vera skýrara í þessu. Annars vegar fjárlagahallinn, er hann með í skuldinni eða ekki??

Hins vegar Icesave. Það segir á einum stað í fréttinni að Icesave sé um 800 milljarðar en annars staðar að heildarskuldir hins opinbera séu um 2024 milljarðar með Icesave en 1794 milljarðar án Icesave. Í þessum hluta skýrslunnar er Icesave því metið á 230 milljarða. Þar skakkar um 570 milljörðum frá hinum hluta skýrslunnar um þetta atriði.

Svo væri gaman að fá í fréttirnar sundurliðun á þessum skuldum.

Hvað skuldar ríkissjóður.
Hvað skuldar seðlabankinn.
Hvað skulda sveitarfélögin.
Hvað skulda orkufyrirtækin sem eru í opinberri eigu.
Hvað skulda önnur opinber fyrirtæki.
Hvað skulda bankarnir.
Hvað skulda aðrir aðilar.

Ég hef nú vissar efasemdir um að 2024 milljarðar séu allar opinberar skuldir. En gott væri að það hugtak væri betur skilgreint svo hægt sé að sjá hvað er talið með í þessu og hvað ekki.
Eftir því sem fram hefur komið í fréttum skulda stærstu orkufyrirtækin líklega um 700 milljarða og flest sveitarfélög skulda orðið milljarða eða tugi milljarða hvert um sig.
Ríkissjóður skuldar sjálfur gríðarfjárhæðir og fjárlagahallinn er nærri hálfur milljarður á hverjum virkum degi ársins.
Svo er seðlabankinn búinn að taka fullt af lánum sem hann skuldar.
Icesave skuldbindingn er ein og sér 800 milljarðar ef maður tekur þá töluna sem raunhæfari virðist.
Ef maður leggur þá saman það sem er borðleggjandi í þessu þá eru skuldir orkufyrirtækja 700 milljarðar, Icesave 800 og aðrar skuldir sveitarfélaga og stofnana þeirra líklega 300 milljarðar. Þá eru komnir 1800 milljarðar og enn eftir að bæta við skuldum seðlabankans og ríkisins. Ég trúi ekki að þær séu bara rúmir 200 milljarðar til samans fyrir utan Icesave. Fjárlagahalli síðustu tveggja ára einn og sér er svo miklu meiri að þetta getur ekki staðist. Það er því vonandi að menn fari að leggja spilin á borðið og sýna hverjar réttar tölur eru. Þessi fegraða útgáfa af skuldunum er of fögur til að vera trúverðug.


mbl.is Skuldum 5150 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað ekki - Skoðið Verneglobal.com - Það er líka fleira gruggugt við þetta dæmi.

Kristinn sýnir það að hann hefði nú frekar átt að fara á þing núna en sumir sem þar sitja. Auðvitað er það rétt hjá Kristni sem hann segir um mörg hundruð milljóna stuðning við gagnaver Björgólfs Thors. Það er þvílíkur hálfvitagangur að nokkrum manni skuli detta í hug að ríkisstyrkja þetta dæmi.

Ég vil nú skora á alla áhugsama bloggara að skoða heimsíðuna Verneglobal.com, þar sem aðstandendur gagnaversins eru með opinbera kynningu á því og kostum Íslands fyrir gagnaversþjónustu. Þegar síðan er skoðuð er fljótséð að það er ekki bara verið að plata stjórnvöld á Íslandi heldur einnig væntanlega viðskiptavini. Það eru nokkrar staðhæfingar á síðunni sem eru alveg ótrúlegar og væru vart settar þar fram nema vegna þess að búið er að plata íslensk stjórnvöld og vegna þess að verið er að reyna að plata fyrirtæki í viðskipti við þetta gagnaver.

Fyrir það fyrsta þá er á síðunni væntanlegum viðskiptavinum lofað skítbillegum verðbólguvörðum rafmagnstaxta með séríslenskri skjaldborgarvörn gegn hækkandi heimsmarkaðsverði á rafmagni til næstu 20 ára.
Þetta er nú ekki hægt að gera nema búið sé að plata stjórnvöld og opinber orkufyrirtæki til að selja rafmagn til gagnaversins á undirverði til langs tíma.

Í öðru lagi er fullyrt að gagnaverið sé á stað þar sem rekstraröryggi sé meira en í Ameríku, Bretlandi og Indlandi. M.a. vísað í að Reykjanesið sé búið að vera óhreyft á sínum stað í 200 milljón ár. Þetta eru nú alveg nýjar fréttir fyrir mig og líklega jarðvísindamenn á Íslandi. Allavega segir Sigurður Steinþórsson, prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands á vísindavef Háskólans, að elsta berg á Íslandi sé um 16 milljón ára gamalt. Þá er auðvelt að sjá að hraun hafa nýlega runnið um Reykjanes, skv. rannsóknum síðast fyrir 8-900 árum síðan. Jarðskjálftavirkni er talsverð og veðurfar á Íslandi auk þess vel til þess fallið að trufla raforkuflutning eins og allir landsmenn þekkja í mismiklum mæli af eigin raun.
Þarna er vægt til orða tekið verið að blanda saman hreinum lygum og miklum ýkjum til að selja þessa hugmynd. Ekki góð blanda það. Það er því full ástæða til að fá fram hvað íslenska þjóðin á að bera mikla ábyrgð á þessu nýja ævintýri Björgólfs.

Og það er ekki allt búið.

"At Verne Global, we help your company untether itself from high data center rents, high power costs and massive carbon footprints. Iceland is an excellent place to locate your next data center because it eliminates all three. The country provides an optimized combination of locational, economic and ecological benefits for data center implementations. Our wholesale model allows us to pass the benefits of Iceland's low-cost, renewable power directly to you. Thanks to Iceland's climate, we also provide free ambient cooling, which immediately impacts your TCO."

Þessi klausa er tekin beint af heimasíðunni. Þar kemur fram að viðskiptavinir geta losnað við háa leigu, hátt orkuverð og mengun með því að koma í viðskipti við gagnaverið. Þar að auki fylgir frí kæling með.
Ef þetta er svona gott dæmi, búið að kaupa fasteignir fyrir þetta á spottprís af ríkinu, búið að semja um orku á spottprís fyrir orkufyrirtækjunum, kælingin ókeypis og engin mengun, af hverju þarf þá líka að veita þessu fyrirtæki skattaafslátt??? Ég spyr, alveg burtséð frá því hvort Björgólfur fær hlut í þessum skattaafslætti eða ekki. Ástæðan er væntanlega bara sú að það er verið að láta reyna á hvað hægt er að mjólka mikið af ríkinu og þjóðinni á meðan fárið út af hruninu stendur yfir. Nota tækifærið til að sparka aðeins meira og hirða eitthvað fleira, á meðan allt er hér á hnjánum eftir Björgólf og félaga. Þetta lýsir viðskiptasiðferði sem er algjörlega óþolandi og ég krefst þess að stjórnvöld fari að berja frá sér þegar svona óþverrabrögðum er beitt í stað þess að láta þetta yfir sig ganga.


mbl.is Kristinn H: Ekki krónu til Björgólfs Thors
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel skipulögð fjársvik - af hverju ganga allir lausir??

Þetta er víst ekkert annað en vel skipulögð fjársvik eftir því sem þeir segja sem vel hafa skoðað þetta. Á flestum stigum fléttunnar tekst að svíkja út peninga. Það eru sviknir út peningar með lánum út á léleg veð, það eru sviknir út peningar á hlutabréfamarkaði, það eru sviknir út peningar með tilbúinni viðskiptavild og það er svikið undan skatti. Svikna féð er oftar en ekki falið á leynireikningum og í skattaskjólum að einhverju eða jafnvel öllu leyti. Eitthvað af því þarf þó að nota áfram í fléttunni eða til að koma næstu fléttu í gang. Það kostar víst peninga að búa til peninga, líka þegar um vel skipulögð fjársvik er að ræða.

Einn þeirra sem er nú orðaður við þetta hjá Berlingske Tidende er glæpamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson, sem má víst fara að flokka sem einn af góðkunningjum lögreglunnar nú þegar dómum sem hann fær er smám saman að fjölga. En af hverju gengur hann laus?? Stundum er ekki annað að sjá en sérstakur saksóknari og Eva Joly séu bara dýrt grín. Það gerist ekkert markvert hjá þeim ennþá, og það sem verra er, það virðist vera búið að koma öllum málum yfir á þau. Aðrir laganna verðir horfa bara aulalega til glæpamannanna halda áfram á sömu braut og áður og virðast halda að ákveðin tegund glæpamanna á Íslandi hafi verið eyrnamerkt Evu Joly og sérstökum saksóknara. Þetta virkar nú í reynd eins og þessar glæpaklíkur séu nú undir vernd Evu Joly og Ólafs Haukssonar.
Allavega er ríkisstjórnin óhrædd við að vera í félagsskap við þá og rétta þeim upp í hendurnar ódýra orku og skattaafslætti á kostnað almennings. Að viðbættum endalausum afskriftum og skuldabyrði sem þjóðin á nú að bera fyrir þessa menn. Og ríkisstjórnin er svo dugleg að verja þetta að almenningur er farinn að trúa því aftur að þessir glæpamenn séu snillingar. Og samt eru þeir hættir að beita sínum eigin fjölmiðlum fyrir sig, allavega með áberandi hætti, til að sannfæra almenning. Enda þurfa þeir þess ekki. Þeir eru svo heppnir að hafa fengið hér þá allra bestu ríkisstjórn sem þeir gátu óskað sér, engin ríkisstjórn á Íslandi hefur nokkru sinni þjónað fámennum hagsmunahópi eins vel og núverandi ríkisstjórn gerir fyrir útrásarglæpamennina.


mbl.is Flett ofan af íslensku aðferðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókatíðindi - Monica Lewinsky og Bill Clinton aftur saman í sviðsljósið.

Nú er stutt í að út komi bók í Bandaríkjunum um framhjáhald og lygar Bills Clinton í forsetatíð hans. Þar kemur m.a. fram að hann hafi ekki bara verið í sambandi við Monicu, heldur einnig við Susan McDougal sem var ein af persónum í svokölluðu Whitewater máli. Í bókinni er víst ítarleg umfjöllun um þetta allt saman og einnig um lygar Clintons og yfirhylmingar hans og Ken Starr vegna þessara mála. Bókin er væntanleg í búðir í febrúar n.k. Þetta er eflaust fróðleg lesning um bull og bellibrögð valdamanna sem þurfa að snúa sig út úr erfiðum einkamálum.

Hér er tenging á nánari upplýsingar um þetta.

http://www.politico.com/news/stories/1209/30745.html


Grátleg samtök.

SI eru grátleg samtök. Lýsa hér yfir stuðningi við gagnaver í Reykjanesbæ og finnst það grátlegt að ég og fleiri skulum ekki vilja sjá fleiri af tærum snilldarhugmyndum Bjórgólfs Thors.

Þeir hafa greinilega gleymt því hvað þeir eru sjálfir oft búnir að kvarta yfir háum vöxtum sem eru allt að drepa á Íslandi. Þessum vöxtum er nú haldið himinháum ennþá og má alls ekki lækka þá sem neinu nemur eftir nokkurra ára bankabrellur Bjórgólfs Thors og fleiri manna. Fasteignamarkaðurinn er nánast alveg stopp eftir m.a. þáttöku Bjórgólfs Thors og gömlu bankanna í fjármögnun íbúðarhúsnæðis. SI vilja sjá opinberar framkvæmdir á næstu árum til að tryggja félagsmönnum sínum einhver verkefni. Opinberir aðilar eru flestir í erfiðri eða vonlausri fjárhagsstöðu sem Björgólfur Thor hefur lagt sitt af mörkum til að skapa með aðild sinni að fjármálalífi landsins. Ríkið er svo skuldugt að vaxtagreiðslur þess á næstu árum munu einar og sér nema hærri fjárhæðum en framkvæmdafé undanfarinna ára hefur verið. Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun eru svo skuldug fyrirtæki að óvíst er að þeim takist að greiða af skuldum mikið lengur og endurfjármagna sig, hvað þá að þau geti fengið lán til nýframkvæmda til að tryggja orkusölu til gagnavers.

Það er eins og forsvarsmenn SI séu með bæði augun blind í þessu máli. Ég legg til að þeir lesi sínar fyrri yfirlýsingar og setji sig inn í orsakir og afleiðingar hlutanna áður en þeir gerast sendisveinar klíkuhópa gegn almannahagsmunum. Það rifjast upp í þessu sambandi gamla máltækið "Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur".


mbl.is „Grátleg umræða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nú ekki kæruleysi að hafa ekki áhyggjur af þessu Lúðvík?

Eigið fé uppurið og tugmilljaraða skuldir bæjarsjóðs. Er það ekkert til að hafa áhyggjur af? Bæjarstjórinn segir einhverjar eignir vantaldar í bókhaldinu sem muni stórbæta stöðuna. Þetta minnir nú á bókhaldsbrellur útrásarfyrirtækjanna og bankanna undanfarin ár. Þar voru efnahagsreikningar stöðugt fegraðir til að búa til hagnað og góða eiginfjárstöðu með því að "búa til" eignir á pappír sem hvergi hafa fundist þegar á reyndi. Loftbólubókhald má kalla þetta. Það er ekki til eftirbreytni að nota þessar aðferðir áfram. Síst til að bæta fjárhag sveitarfélaga. Miklu nær væri að bæjarstjórinn lýsti því yfir að hann hefði áhyggjur og ynni skv. því að því að laga stöðuna. Ef hann hefur engar áhyggjur og gerir ekkert raunhæft í málinu fer allt á versta veg hjá honum áður en langt um líður.
mbl.is Ekki áhyggjur af fjárhag Hafnarfjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður fróðlegt að skoða þessa skýrslu.

Gaman verður að sjá hvers konar skýrsla kemur frá Alþingi um hrunið. Þetta er nú svo "óháður" aðili að maður verður náttúrulega að taka öllu í skýrslunni bókstaflega. En burtséð frá öllu gamni þá verður fróðlegt að skoða þessa skýrslu. Það gæti hugsast að eitthvað nýtt og upplýsandi komi fram í henni ef þetta er heiðarlega gerð skýrsla. Allavega ættu að vera hæg heimatökin að upplýsa um tengsl alþingismanna og viðskiftajöfra.

mbl.is Fjölluðu um rannsóknarskýrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki seinna vænna að árangur náist.

Mér finnst alveg vera kominn tími á að einhver alvöru árangur fari að sjást af starfi sérstaks saksóknara. Útrásarvíkingarnir virðast vera að egna fyrir stjórnmálamenn með alls konar gylliboðum, Bjórgólfur Thor langt kominn með sérsamning um skattfríðindi fyrir sína nýjustu viðskiptahugmynd og glæpamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson hefur enn ekki misst Haga og þar með Bónus þó Hagar séu í raun gjaldþrota. Það má víst alveg kalla Jón Ásgeir glæpamann því hann var nú í dag að fá sinn annan dóm vegna ólöglegra viðskiptagerninga. Sá dómur var kveðinn upp vegna máls sem höfðað var fyrir nærri 2 árum. Það er því enn langur vegur eftir þó einhverjar kærur fari að sjást, málarekstur og bið eftir endanlegum niðurstöðum getur tekið mörg ár, jafnvel þó sannanir séu sterkar og brotin stór.

Þá er landkynning Íslands þannig erlendis um þessar mundir að ef flett er upp í dagblöðum á netinu eins og t.d. Times Online svo dæmi sé tekið þá er óvenju mikiill fréttaflutningur um íslenska útrásarvíkinga, og flestar fréttirnar fjalla um hrunin viðskiptaveldi, markaðmisnotkun, grun um fjársvik, illa fengið fé, óeðlilegar lánveitingar til vina og viðskiptafélaga, litlar tryggingar fyrir lánum, sukkpartí o.s.frv.

Það er því tímabært að fara að fletta ofan af hlutum og sýna menn í réttu ljósi, sérstkalega menn sem eru í raun þjóðhættulegir séu þær vangaveltur réttar sem stöðugt eru í fréttum erlendis og hérlendis. Vonandi reynast einhverjir þessara manna heiðarlegir og vandaðir menn þegar málin eru krufin til mergjar. Það er gott fyrir heiðarlega menn að fjallað sé um málin sem fyrst, þá verða þeir bara hreinsaðir af óréttmætum áburði fyrr en seinna. Séu menn sekir má hins vegar reikna með að þeir þvæli málum og tefji eins og mögulegt er. Leiti allra undanbragða til að sannleikurinn þurfi ekki að koma í ljós.


mbl.is Árangurs að vænta fljótlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband