Færsluflokkur: Bloggar
Evrópa að fara á hausinn í heild sinni.
11.3.2010 | 23:43
Ef þessar tölur eru nærri lagi þá er bara þessi endurfjármögnun Evrópu á þessu ári samsvarandi því að Ísland eitt og sér þyrfti um 60 milljarða endurfjármögnun ef þessari upphæð yrði deilt jafnt á allar þjóðir Evrópu m.v. höfðatölu.
60 milljarða lánsfjárþörf ríkissjóðs og versnandi framtíðarhorfur hefði nú þótt ansi slæm staða fyrir fáum árum síðan. 2007 og í mörg ár þar á undan hefði slík fjárvöntun valdið pólitískum uppþotum á Alþingi.
Sem betur fer höfum við Íslendingar nú ríkisstjórn sem lætur sig lítið muna um miklu stærri upphæðir og telur vel hægt að greiða úr erfiðri skuldastöðu með því einfaldlega að taka ný lán.
En ég sé að það stefnir óðfluga í óleysanleg peningavandræði í Evrópu ef skuldirnar vaxa nú á þessum hraða. Hætt er við að vaxandi skuldir og okurvextir á þeim eigi eftir að leiða til mikillar afturfarar, verðbólgu, atvinnuleysis og stríðsátaka í Evrópu innan fárra ára.
Íslandshrunið hefur nú valdið talsverðum vandræðum og áhyggjum í nokkrum Evrópulöndum, en árleg lánsfjárþörf Evrópu er skv. þessu af stærðargráðunni 15 Íslandshrun á ári m.v. efnahagsreikninga bankanna þegar þeir féllu. Þetta er meira en eitt Íslandshrun á mánuði í skuldasöfnun fyrir ríkissjóði Evrópu. Það líða ekki mörg ár áður en það verður allt vitlaust út af svoleiðis skuldasöfnun.
Ég er farinn að hallast að því að Nostradamus eigi enn eftir að hitta í mark með nokkra óheillaspádóma ef svo heldur fram sem horfir, hvort sem það er nú tilviljun hjá honum eða ekki.
![]() |
Aldrei meiri þörf fyrir lánsfé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Djöfullinn er óvinur, óvinurinn er djöfullinn.
11.3.2010 | 21:25
Er það ekki þannig að það er alltaf hægt að gera allt mögulegt ef menn hafa einhvern óvin að glíma við. Óvinurinn getur þjappað mönnum saman til ótrúlegustu hluta. Nú í dag er t.d. helsti óvinur ríkisstjórnar Íslands flugumferðarstjórar. Þeir eru svo slæmur óvinur að ríkisstjórnin var tilbúin til að setja lög á réttmætar aðgerðir þeirra. Svo slæman óvin hefur þessi ríkisstjórn ekki átt hér áður, og eru þó vandamálin hér margvísleg og erfið.
En óvinir sumra geta verið vinir annarra. T.d. sýnist mér að helstu óvinir íslenskrar þjóðar undanfarin ár hafi verið útrásarvíkingarnir svokölluðu. En þeir eru vinir ríkisstjórnarinnar og þess vegna er ekki verið að berjast við þá. Og reyndar eru vinirnir, útrásarvíkingarnir og ríkisstjórnin, orðnir óvinir þjóðarinnar í dag, bæði saman og sitt í hvoru lagi. Báðir aðilar vinna saman að því að koma öllum fjárglæfrunum og klúðrinu yfir á þjóðina. Hvorugur þykist hafa gert neitt af sér, en þeir sem var haldið í fjarlægð og talin trú um hvað allt var sniðugt, almenningur, eiga nú að borga.
Eins og fram kom í Kastljósi í kvöld áleit forseti Bandaríkjanna endur fyrir löngu að meiri hætta stafaði af fjármálakerfinu en öllum herafla heimsins. Hann sá djöfulinn í fjármálakerfinu. Mér sýnist að forsetinn hafi haft rétt fyrir sér og að djöfullinn sé enn í fjármálakerfinu.
Fjármálakerfið virðist vera hinn gráðugasti og vægðarlausasti alheimsdjöfull. Ríkisstjórnin og útrásarvíkingarnir eru okkar djöflar. Páfagarður hefur svo sinn djöful. Kannski við ættum að berjast við okkar djöfla eins og Páfagarður við sína, með særingamönnum. Skyldi það gera gagn?
![]() |
Segir djöfulinn hafa hreiðrað um sig í Páfagarði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áfram flugumferðarstjórar.
11.3.2010 | 20:50
Það er furðulegt að ef einhver fámenn stétt manna í þjóðfélaginu stendur í kjarabaráttu og fer greinilega fram á launahækkanir sem eru innan eðlilegra marka, þá er ríkisstjórnin til í að setja bráðabirgðalög til að koma í veg fyrir verkföll í tengslum við þessa kjarabaráttu.
Þetta er hámark aumingaskapar þessarar ríkisstjórnar. Það hefði verið nær að Steingrímur J. Sigfússon hefði hótað bráðabirgðalögum til að draga úr verðhækkunum, t.d. til að setja vaxtastig í landinu í 0% eins og það ætti með réttu að vera núna og til að aftengja verðtryggingu lána. Eða til að takmarka 25.000 kr. + tímakaup skilanefndarmanna og tengdra aðila. Það er ekkert sagt við því þó slíkur taxti sé rukkaður þar. Eða til að koma böndum á útrásarvíkinga og fjárglæframenn, og lengi má áfram telja, eða til að banna afskriftar fyrir fjárglæframennina nema öll önnur ráð séu fullreynd fyrst.
Nei, um leið og fólk sem vinnur samviskusamlega fyrir launum sínum fer í réttmæta kjarabaráttu, þá er hægt að hóta bráðabirgðalögum með afgerandi hætti.
Svo heyrir maður stöðugt suðið um að nú séu þannig tímar að ekki sé rétti tíminn til að hækka laun. En það eru víst þannig tímar að það má hækka allt annað um 100% eða meira. Þetta er nú meiri undirlægjuhátturinn og aumingjaskapurinn. Ég hvet flugumferðarstjóra til að hvika hvergi. Þó þeir hafi eitthvað hærri laun en margir aðrir í landinu er það engin ástæða til að þeir þurfi að þegja og hlýða eins og hundar. Betur væri að aðrar stéttir tækju þá sér til fyrirmyndar og færu í harða kjarabaráttu sem fyrst. Það eru allar forsendur til þess, einmitt núna.
![]() |
Lög leysa engan vanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Langbest að fara bara í nauðasamning strax.
11.3.2010 | 13:18
Ég er ánægður með þessa afstöðu Hollendingsins. Ég er á móti lánum frá AGS og ég vil ekki ganga í ESB.
Við verðum að vinna okkur út úr vandanum án þess að taka ný lán, það er eina mögulega leiðin í stöðunni. Ef það þýðir að við getum ekki borgað það sem við skuldum núna þá þarf bara að semja um það strax, hvort sem það verða afskriftir eða greiðsluaðlögun eins og ríkisstjórnin kallar það. Ef við getum ekki borgað það sem við skuldum núna þá getum við enn síður borgað af nýjum lánum frá AGS. Þannig að þau leysa engan vanda. Og með því að fást bara við það sem við skuldum núna án þess að taka ný lán til að borga þau gömlu þá stillum við líka núverandi lánardrottnum upp við vegg þannig að þeir verða bara að sættast á það sem hægt er að ráða við og þýðir ekki að prútta um eitthvað annað. Hvað er að því?
Ef þetta þýðir að gengið fellur, þá er það líka gott, því það styrkir samkeppnisstöðu atvinnulífsins, eykur gjaldeyristekjur og dregur úr atvinnuleysi.
Og það er enginn hagur í því fyrir lánardrottnana að gengið falli, því þá vita þeir að það verður erfiðara að fá lánin endurgreidd, þegar þau hækka vegna gengisbreytinga. Þannig að þeim verður umhugað um að gengið verði stöðugt.
Ef þetta þýðir að ríkisstjórnin falli, þá er það gott því engin leið virðist vera að losna við hana.
Ég get því ekki séð að það sé neitt að óttast, nema óttann sjálfan og aumingjaskap ráðamanna þjóðarinnar.
Og þessi ESB löngun sumra, grasið er grænna í ESB hugsunin, er óskiljanlegt bull. Ég kannast við fullt af útlendingum frá Póllandi, Lettlandi og Litháen sem vilja miklu fremur vera hér í því ástandi sem er hér núna en að flytja aftur heim til föðurlandsins. Samt eru öll þessi lönd í ESB. Og mér finnst undarlega mikið af þeim Íslendingum sem hafa flutt til ESB landa hafa ákveðið að búa þar einungis um skamman tíma og koma svo hingað aftur. Einhverra hluta vegna gerist þetta aftur og aftur. Og ekki er það veðurblíðan sem dregur fólk til landsins aftur. Það er eitthvað annað. Þannig að ég skil ekki þessa ESB stefnu. Enda koma aldrei nein haldbær rök fyrir inngöngu í ESB. Þar hefur í flestum löndum verið viðvarandi atvinnuleysi sem er miklu hærra en hér í kreppunni þegar það er verra en nokkru sinni. Þar er matarreikningurinn hærra hlutfall af tekjum íbúa flestra landanna en hér. Þar er löng hefð fyrir mikilli misskiptingu auðs, sem er tiltölulega nýtt hér, þar standa öll lönd í stríðsrekstri ein eða með öðrum sem hefur ekki þekkst hér um árhundruð þar til við gengum í Nató og fengum hér herstöð. Nú er hún aflögð. ESB hefur ryksugað og eyðlagt flest sín fiskimið. Það vilja þeir gera hér líka. Hvað höfum við í þetta samband að gera. Þetta nýja SÍS sem gín yfir öllu.
Ég er því ánægður með að Hollendingar vilja halda okkur í fjarlægð. Fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott. Óafvitandi eru þeir að gera okkur mikinn greiða sem við munum seint geta þakkað þeim, standi þeir við yfirlýsingarnar.
![]() |
Hyggjast beita sér gegn samvinnunni við AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er Össur tekinn alvarlega?
11.3.2010 | 12:46
Ég hef nú miklar efasemdir um að Össur Skarphéðinsson sé nokkurs staðar tekinn alvarlega á erlendum vettvangi. Það er kannski ástæðan fyrir því að margir útlendingar botna ekkert í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hlýtur að vera sá sem ber mesta ábyrgð á að okkar málstaður sé vel kynntur erlendis. En Össur er líka fulltrúi þeirra sem heima sátu og vildu ekki taka þátt af hvaða ástæðum sem það var nú. Hann er því kannski ekki tekinn mjög trúanlegur í útskýringum sínum. Og ekki þekki ég nokkurn mann á Íslandi sem tekur Össur alvarlega, en ég þekki auðvitað ekki alla hér.
Mikið vildi ég að við gætum haft menn eins og t.d. Örn Árnason í stað Össurar. Honum hefur tekist vel að túlka Össur og einnig að setja fram á einfaldan og skiljanlegan hátt um hvað hrunið hér snýst og flest allt því tengt. Þegar Örn og félagar lýsa hlutunum eins og þeim er lagið verða þeir auðskildir. Þessir menn eru teknir alvarlega. Mikið væri gott ef utanríkisráðherran væri svona auðskilinn og trúverðugur.
![]() |
Gagnrýnir harðlega sænskan ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þetta hefur legið fyrir lengi.
11.3.2010 | 09:54
Þetta eru engar nýjar fréttir. Skynsamir menn eru löngu búnir að sjá þetta. En ýmsir málsmetandi menn, t.d. ríkisstjórn íslands, er í afneitun og telur sig vita betur. Það er bara spurning hve langt við þurfum að sökkva áður en ríkisstjórnin og áhangendur hennar átta sig. Sem betur far taka efnahagsleg morð og sjálfsmorð talsverðan tíma og ýmsar lækningar sem hægt er að nota til að afstýra slíkum hlutum, þannig að vonandi er enn ekki of seint að snúa til baka af þessari braut.
En af hverju er ekkert gert í að koma lögum yfir þá sem komu okkur í þessa stöðu? Af hverju eru þeir ekki í gæsluvarðhaldi og eignir frystar á meðan málin eru rannsökuð? Það hefur aldrei fyrr gerst í siðuðu ríki að svo alvarlegir og víðtækir fjármálaglæpir hafi verið framdir eins og hér án þess að nokkuð sé gert í því.
![]() |
Sérfræðingar segja að ríkið þurfi að leita til Parísarklúbbsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Stokkhólmseinkenni ríkisstjórnarinnar
11.3.2010 | 09:46
Það er alveg sama hvar maður skoðar viðtöl og viðhorf fólks um vanda Íslands, sem hlaust af útrásarvíkingunum og vinum þeirra í íslenskri pólitík. Sami rauði þráðurinn liggur orðið í gegn um alla þessa umfjöllun. Við erum fórnarlömb glæpamanna. Svo einfalt er það. Þetta má lesa úr grein um Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði í Mbl í dag þar sem hann fjallar um nútímahagfræði. Þetta má lesa úr þjóðaratkvæðagreiðslu Íslendinga um síðustu helgi. Þetta hafa fjölmargir hæfir menn, innlendir og erlendir, sagt okkur í sjónvarpi, t.d. í viðtölum Egils Helgasonar í Silfri Egils og svo má lengi halda áfram.
En það er líka þekkt að fórnarlömb glæpamanna bera stundum blak af glæpamönnunum, þetta tengist víst sérstaklega gíslatökum og er kennt við Stokkhólm, kallað "Stockholms syndrome". Og þetta virðist vera það sem kom fyrir ríkisstjórn okkar. Við Íslendingar erum sannarlega í efnahagslegri gíslingu AGS af völdum útrásarglæpamannanna og gjörða þeirra. Ríkisstjórnin hefur gert allt sem henni er mögulegt til að þóknast AGS og til að hrófla alls ekki við útrásarliðinu. Hún hefur varið heilu ári í að koma í gegn samningum vegna Icesave sem eru í þessum anda, til að gera rausnarlega upp sumar skuldir glæpamannanna, þó öllum megi vera ljóst að engar forsendur séu fyrir slíkum samningi og engin geta til að standa við hann heldur. Þá hefur verið haldið hér uppi himinháum okurvöxtum til að gera það fýsilegt fyrir önnur glæpagengi að lána okkur fé og til að verjast því að krónan veikist svo við getum aftur orðið samkeppnishæf og aflað okkur tekna með raunverulegri verðmætasköpun. Þetta er gert að skipun AGS sem eru vel þekktir fyrir að vera handrukkarar fjármálaglæpasamtaka. Ríkisstjórn okkar hefur sýnt þeim mikla samúð og vorkunnsemi og viljað láta allt eftir þeim fram að þessu.
Í ljósi þessa þá gladdi það mig mikið að heyra í útvarpi í morgun að Pétur Blöndal og Atli Gíslason eru farnir að átta sig þessu hættulega hugarfari ríkisstjórnarinnar. Þeir eru farnir að sjá að kannski er best að við förum að hugsa um okkar hagsmuni, hættum að hugsa um hagsmuni gíslatökumannanna.
Þetta viðhorf hefur lítið heyrst frá því fyrir síðustu alþingiskosningar, þegar ég talaði sjálfur fyrir því á framboðsfundum í sjónvarpi og víðar að við tækjum á útrásarvíkingum og afþökkuðum samstarf við AGS.
Þessi síðbúna uppgötvun Péturs og Atla gefur vísbendingu um að kannski verði loksins farið að taka skynsamlega á efnahagsmálunum hér, að útrásarvíkingar verði teknir á beinið, að vextir lækki, að verðtrygging verði afnumin, að ríkisstjórnin setji skjaldborgina aftur á dagskrá, að hætt verði að aðstoða illa rekin fyrirtæki til að drepa þau sem betur eru rekin. Vonandi eru ráðamenn okkar að átta sig á stöðunni sem við erum í.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bestu fréttir í langan tíma.
7.3.2010 | 15:12
Þessi ummæli Alistair Darling eru bara bestu fréttir af Icesave sem maður hefur séð lengi. Hann er farinn að skilja að það verður að semja um þetta í bróðerni og af sanngirni. Ég get ekki lesið út úr ummælum hans neina fýlu eða reiði út af niðurstöðu þjóðaratvæðagreiðslunnar. Það væri gaman ef Jóhanna og Steingrímur væru eins jákvæð og Darling.
Og það eru líka mjög góðar fréttir ef Hollendingar eru að herðast í afstöðu sinni til málsins upp að því marki að neita okkur um aðildarviðræður vegna ESB inngöngu. Með því eru þeir nú að fylgja meirihluta Íslendinga að málum og hafa vit fyrir okkar eigin ríkisstjórn. Það eru líka góðar fréttir. Þannig að það er ljóst að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla hefur bara komið góðu til leiðar. Hún er ekki marklaus eins og Jóhanna og Steingrímur héldu fram.
![]() |
Bretar vilja sýna sveigjanleika |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ríkisstjórnin á ennþá eitt tromp eftir.
7.3.2010 | 14:39
Þetta er nú ekki alveg búið spil fyrir ríkisstjórnina. Þó vissulega sé búið að rassskella hana vandlega. Augljósast er að hún fari frá fljótlega og ef þau ætla bara að hjakka í sama farinu áfram er best að þau fari frá strax.
En þau hafa samt eina góða leið til að bjarga sér. Leið sem kemur þjóðinni að gagni, hjálpar upp á fjármálin og vekur traust á ný.
Það er að grípa til alvöru aðgerða.
Ef þeim tækist nú í vikunni að koma sér saman um neyðarlög til að kyrrsetja eignir útrásarvíkinga og aðrar aðgerðir með það að markmiði að endurheimta horfið fé. Þá vinna þau strax mikið traust hjá þjóðinni, um leið og farin er rétt leið til að gera upp við sparifjáreigendur.
Hluti af þessu er krafa á Bresk stjórnvöld og stjórnvöld fleiri ríkja um sameiginlegar aðgerðir til að rekja horfið fé og endurheimta það. Þetta styrkir stjórnina og landið líka mikið út á við í því áróðursstríði sem geisar um það hvort Íslendingar eigi að borga eða ætli að borga o.s.frv.
Svo þarf samhliða þessu að koma fram með alvöru aðgerðaráætlun um endurreisn Íslands fyrir almenning og skjaldborgina frægu sem beðið hefur verið eftir í 13 mánuði. Ísland kemst aldrei á snúning aftur ef hagsmunum fjöldans er fórnað fyrir hagsmuni örfárra.
Einnig þarf að lækka vexti strax niður í 0% og afnema verðtryggingu. Ekki í áföngum heldur með einni kerfisbreytingu, strax.
Að lokum þarf að endurskoða og lagfæra það sem búið er að gera undanfarið ár í fjármálakerfinu og fyrirtækjum útrásarinnar. Eitt af því sem mun koma okkur illa í framtíðinni er ef þessi fyrirtæki fá ekki að fara á hausinn vegna einhverra hagsmunatengsla eigenda þeirra og stjórnmálamanna. Illa rekin fyrirtæki methafa í gjaldþrotum eiga ekki að fá að vaða uppi á markaði áfram til þess eins að eyðileggja rekstrarumhverfi þeirra sem hafa staðið sig sæmilega eða vel.
Þessi þjóðaratkvæðagreiðsla setur stjórnina upp að vegg. Nú ætla ég bara að vona að hún sé nógu þaulsetin og valdasjúk, eins og ummæli Þórunnar benda til, til að gera það sem þarf til að verma ráðherrastólana áfram. Ef ekki verður farið í þessar aðgerðir sem ég legg hér til er augljóst að stjórnin gefst alveg upp á næstu vikum. Það eru engir aðrir kostir en þessir í stöðunni.
Þau þurfa að snúa sér að því að gera það sem rétt er að gera, hætta að gera það sem Bretar og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn segja þeim að gera.
![]() |
Staðan breytt frá því í janúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hreinn meirihluti kosningabærra manna sagði - NEI! -
7.3.2010 | 01:03
Ef þær tölur sem koma fram í fréttinni að a.m.k. 55% kjörsókn hafi verið í dag og um 93,6% af þeim sem kusu hafi sagt nei. Þá sagði hreinn meirihluti kosningabærra manna (um 51%) NEI við lögum ríkisstjórnarinnar.
Það er alveg einstakt að þjóðin sýni svona samstöðu. Þetta gerðist þrátt fyrir að málið væri löngu orðið farsi, veðrið leiðinlegt, ríkisstjórnarforystan gerði lítið úr kosningunni og tæki ekki þátt í kosningunni því þau vissu ekki hvernig þau ætluðu að kjósa og þó þáttakan í kosningum væri aðeins 55-60% af kjósendum á kjörskrá. Þetta er því stórmerkileg niðurstaða. JÁ sögðu aðeins 1-2% af þeim sem kusu sem bendir til að landsmenn séu mun greindari en sumir þingmenn álíta. Eða þá að mjög hár hluti af þessum 1-2% þjóðarinnar starfar á Alþingi, það gæti skýrt þetta mikla frávik frá ætluðum greindarskorti landsmanna.
Nú er næsta spurning á greindarprófi alþingismanna sú, hvort ríkisstjórnin hefur vit á að segja af sér eftir þennan rassskell og boða til kosninga í maí n.k. samhliða sveitarstjórnarkosningum. Ég er algjörlega ósammála þeim sem finnst allt í lagi að þessi ríkisstjórn starfi áfram þegar þjóðin er búin að senda henni til baka með skömm eina málið sem hún hefur lagt einhverja vinnu í á því ári sem hún hefur verið við völd. Þessi ríkisstjórn hefur ekkert gagn gert á sinni valdatíð og gerir ekkert gagn fyrir okkur í framtíðinni heldur. Forystusveit ríkisstjórnarinnar ber heldur ekki með sér að þar sé nægilega öflugt fólk til að búast við einhverjum viðsnúningi í betri átt af þeirra hálfu. Það er algjörlega tilgangslaust að þetta fólk spóli áfram í sama farinu. Við höfum engan tíma fyrir svona ríkisstjórn og ekkert gagn af henni. Við verðum því að losna við þessa ríkisstjórn og boða til kosninga aftur.
![]() |
Úrslit ekki fyrr en á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)