Færsluflokkur: Bloggar

Verið að kaupa upp órólegu deildina í VG?

Það hefði nú verið nær að stokka þannig upp í þessari ríkisstjórn að hún hætti öll. Það væri líka í takti við t.d. Avant sem sagði upp öllu sínu starfsfólki og Jóhannes í Bónus sem er ekki lengur í Bónus. Og þannig mætti lengi áfram telja.

En líklega er ráðabrugg ríkisstjórnarforystunnar frekar það að koma einhverjum úr órólegu deild VG á ráðherrastóla svo sú órólega deild verði ekki lengur óróleg. Þannig segir mér svo hugur að flokkadraslið sem nú ræður ríkjum ætli að styrkja stöðu sína svo þjóðfélagið geti haldið áfram veginn til glötunar út kjörtímabilið, án þess að nokkur hætta verði á að stakir skynsemistaktar örfárra stjórnarþingmanna verði til að stytta líf ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Gylfi og Ragna hætta í stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánskjaravísitalan er sjálfvirkur verðhækkanaspírall.

Er það ekki alveg frábært kerfi sem við búum við hér á Íslandi?
Við erum með neysluvísitölu til verðtryggingar lána sem er búin að hækka gríðarlega undanfarið vegna skattahækkana, erlendra verðhækkana og gengisbreytinga. Nú hafa erlend lán Orkuveitunnar hækkað svo mikið að veitan þarf að hækka gjaldskrána um hátt í 30% til að skrimta næsta bókhaldsár. Þessi verðhækkun fer út í verðlagið og hækkar vísitöluna og þar með lánin sem eru bundin henni. Orkuveitan er ekki eina fyrirtækið sem þarf að hækka gjaldskrár upp úr öllu valdi til að skrimta næstu misserin, fjöldi fyrirtækja og sveitarfélaga eru í þessari stöðu. Það þýðir að fljótlega þurfa ýmsir aðrir að hækka sínar gjaldskrár til að eiga fyrir þessum vísitöluhækkunum lána og svo gengur þetta svona sitt á hvað um ókomna tíð á meðan þessi vísitala verður notuð, að hún verður sjálfvirkur verðhækkana- og verðbólguhvati á allt í þessu landi - nema launin.

Í gamla daga var alltaf talað um víxlhækkanir launa og verðlags. Þá var samið um launahækkanir sem fóru út í verðlagið sem varð til þess að aftur þurfti að semja um hærri laun. Þannig gekk þetta árum saman. En með lánskjaravísitölunni er þetta óþarfi, nú hækkar allt sjálfvirkt - nema launin. Það þarf ekki lengur að semja um neitt, því allt gengur nú sjálfvirkt fyrir sig, nema verkalýðshreyfingin sem tók sjálfa sig úr sambandi þegar VG og Samfylking tóku við landsstjórninni.

En almenningur bíður spenntur eftir að lánskjaravísitalan verði aflögð. Fyrr en hún hefur verið aflögð næst enginn stöðugleiki í efnahagslíf þessa lands.

Annað dæmi um okkar frábæra land er sú hugmynd sem var til umræðu í fréttum í dag, að lækka aðflutningsgjöld á nýjum bílum og kaupa upp gamla bíla 10 ára og eldri til að bílgreinarnar fái innspýtingu í sína starfsemi.

Ég á nú eftir að sjá að fólk sem í dag ekur um á 100-300 þús. kr. bílum hlaupi upp til handa og fóta að kaupa 3-4 milljóna bíla, jafnvel þó einhver afsláttur verði veittur af aðflutningsjöldum af þeim og gamli bíllinn keyptur eða tekinn upp í!

Fyrir utan það fáránlega rugl að ætla að búa til eitthvað eyðsluprógramm í kring um viðskipti með bíla hjá gjaldþrota þjóð sem býr við óstjórn í ríkisfjármálum og hagstjórn, þá má ekki gleyma því að það er örugglega ekki verð nýrra bíla sem veldur því að neytendur láta það eiga sig að kaupa þá. Það er miklu frekar siðferði þeirra sem lána fyrir nýjum bílum sem fólk er búið að fá nóg af. Þegar menn kaupa bíl á láni sem fljótlega tvöfaldast, bíllinn svo hirtur af því og verðfelldur niður í partasöluprís fyrir að þvo hann og yfirfara eins og fjölmörg dæmi eru víst um núna, þá verða bílakaup ekki lengur freistandi.

Þarna þarf auðvitað að taka á ruglinu í fjármálakerfinu sem enn á að fá að mergsjúga almenning. Það má ekkert hrófla við þessu kerfi sem er sem krabbamein á þjóðinni.

Þess í stað á að reyna að koma fólki út í óráðsíuviðskipti í bílakaupum á nýjan leik. Það er nýjasta bjargræðið!
Fólk er sem betur fer ekki svo vitlaust að gleypa við þessu, það þarf að bíða eftir næstu kynslóð til þess.


mbl.is Hækkun OR hægir á hjöðnun verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskveiðistefna ESB - snýst hún núna um að Íslendingar fóðri makríl fyrir þá?

Nú verður fróðlegt að fylgjast með aðgerðum ESB út af makrílveiðum Íslendinga og Færeyinga.

Það er allt vitlaust yfir því að Íslendingar og Færeyingar séu að veiða makríl annarra þjóða í óleyfi. Þetta er mjög skrýtin afstaða. Það virðist sem menn gleymi því að makríllinn er nú á beit á íslensku hafsvæði, étur frá okkar stofnum og hamlar fiskveiðum okkar verulega ef við megum ekki veiða þar sem hætta er á að makríllinn slæðist með í of miklu magni. Sumir segja að makríllinn éti allt sem að kjafti kemur og í hann kemst, þannig tekur hann æti frá öðrum stofnum og étur seiði annarra stofna. Þess vegna verðum við auðvitað að veiða makrílinn. Að öðrum kosti værum við bara að fóðra hann fyrir aðra á okkar kostnað. Og hvað ætla menn að borga fyrir það?

Þangað til semst um greiðslur fyrir fóðrun á makríl í íslenskri lögsögu verðum við bara að veiða hann. En auðvitað mætti hætta þessum veiðum ef þeir sem telja sig eiga tilkall til veiðanna eftir að makríllinn hefur verið stríðalinn á Íslandsmiðum, eru til í að greiða sanngjarnt verð fyrir fóðrið.

Og skyldi þessi afstaða ESB breytast eitthvað þó Ísland gangi í ESB? Eða verðum við bara skikkaðir til að láta lögsöguna undir makríleldi fyrir aðrar þjóðir?


mbl.is Bretar undirbúa makrílstríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlausu Greyin í kjánaflokknum VG plötuð einu sinni enn.

VG (Vitlausu Greyin) eins og samstarfsflokkurinn lítur á þá, hefur látið plata sig einu sinni enn. Þeir eru loksins að byrja að fatta að Samfylkingin er á hraðferð inn í ESB. Það er ekki bara verið að skoða hvernig landið liggur svo hægt sé að upplýsa Íslendinga um kosti þess og galla að ganga í ESB. Samfylkingin er að troða Íslandi þarna inn og almenningur fær ekkert að skipta sér af neinu fyrr en honum verður kynnt að málið sé komið svo langt að ekki sé hægt að hætta við eða að afstaða þjóðarinnar skipti engu máli. Þetta er það plan sem Samfylkingin hefur í þessu máli, enda þýddi ekkert að eyða í þetta tíma og fé ef eitthvað ætti að taka mark á vilja þjóðarinnar, sem er að langstærstum hluta algjörlega á móti þessu ESB brölti.

En vitlausu greyin í VG eru nú að fatta að þau hafa veitt Samfylkingunni gott skjól til að vinna að þessu máli eins og þeir vilja vinna það, ekki eins og ríkisstjórnin talaði um á sínum tíma.

Þó vitlausu greyin í VG séu búin að fatta þetta og sumir þar komnir í fýlu út af þessari málsmeðferð Samfylkingarinnar þá breytir það engu. Þeir eru hlýðnir og verða fljótir að jafna sig á þessu og gerast sjálfsagt meðvirkir í málinu og koma með einhverjar afsakanir fyrir því fljótlega að svona verði þetta auðvitað að ganga fyrir sig.


mbl.is Ólga í grasrót vinstri-grænna vegna aðlögunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gölluð biblía?

Ég skil vel rök Geirs Waage. Hann rökstyður afstöðu sína vel og erfitt að mæla móti þeirri afstöðu. Eins og hann segir þá kæmu menn einfaldlega ekki til presta að játa þeim syndir sínar ef alltaf yrði hlaupið með vitneskjun til lögreglu þegar prestum þykir menn fara langt yfir strikið í gerðum sínum.

Geir segir hins vegar líka að prestar séu að hlusta fyrir hönd Guðs á menn og leiðbeina þeim á rétta braut.

Þetta vekur því upp spurninguna um hvort Guð er góður, eða ekki? Er það góður Guð sem hlustar á menn játa á sig barnaníð en gerir svo ekkert frekar í því en að segja þeim að gera þetta ekki aftur?

Er þetta vilji Guðs? Ég er ekki svo vel að mér í biblíunni og trúarfræðunum að ég geti svarað því hvað Guð mundi gera ef t.d. biskup segði honum frá því að hann væri að níðast á sóknarbörnunum. En mig minnir að eitthvað sé talað í biblíunni um rétt og rangt og muninn á þessu tvennu. Kirkjunnar menn þurfa að kafa vandlega í sín fræði og athuga hvort ekki má finna aðra leið þegar alvarlegar syndir eru játaðar en þá að þegja yfir þeim. Kannski þarf líka að leita betur í gömlum hellum í mið austurlöndum og athuga hvort eitthvað hefur gleymst þar af guðs orði sem ætti að vera í biblíunni. Ég trúi ekki að þöggun sé eina leiðin sem kirkjan hefur í þessum málum. Guð er slappur ef hann getur ekki leyst betur úr þessu með sínum fulltrúum.


mbl.is Þagnarskyldan er algjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítalykt af þessu.

Ég hélt að maðurinn væri bara grunaður um að ætla að draga fram í dagsljósið 15000 leyniskjöl frá Bandaríkjaher og birta þau á Wikileaks. Enda hefur hann sagt að hann ætli að gera það. Það þykir nú víða góð ástæða til að koma honum bak við lás og slá að ætla að upplýsa um starfshætti stjórnvalda sem greinilega þolir ekki dagsljósið. En það er kannski hluti af starfsháttum sumra ríkisstjórna og stjórnarstofnana að klína á menn nauðgunum til að koma þeim í steininn þegar birting óþægilegra upplýsinga er í farvatninu.

Þetta er nú ljóti heimurinn sem við búum í. Verstu glæpamennirnir eru ekki þeir sem nauðga og drepa stöku sinnum heldur þeir sem stýra ríkjum sem bera ábyrgð á nauðgunum og drápum í þúsunda og tugþúsundavís.


mbl.is Ekki lengur eftirlýstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill tími sem fer forgörðum.

Miklu af þeim tíma sem er varið í sjónvarpsgláp og síma og tölvunotkun er illa varið. Mér þykja það heldur slæmar fréttir að tæknin sé búin að ná þvílíkum tökum á fólki að nærri helmingur þess tíma sem það er vakandi fari í að handfjatla og horfa á þetta dót sem er kallað samskiptabúnaður. Og með öllum þessum samskiptabúnaði verða samskiptin samt ópersónulegri og á margan hátt rýrari en áður.

Og þetta er ótrúlegur tími sem er varið í þessa gerð samskipta. Ef við gerum ráð fyrir að menn sofi að jafnaði 8 tíma þá eru eftir 16 tímar af sólarhringnum. Af þessum 16 fara þá um 7 tímar og 12 mínútur í þessa nýju samskiptatækni. Þá eru það tímarnir sem eftir eru 8 tímar og 48 mínútur sem fólk hefur til að vinna, borða, fara á fætur, í bað, hátta sig, lesa, og stunda gamaldags samskipti eins og t.d. að tala við annað fólk maður á mann.

Það er orðið ansi mikið að nota rúma 7 tíma í sjónvarp, tölvu og síma á dag pr. einstakling finnst mér. Ef þessi þróun heldur áfram mun tæknin að lokum leiða til afturfarar og draga úr hagvexti.


mbl.is Eyða helmingi vökustunda í samskiptabúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar Jóns Ásgeirs eru allir ríkisreknir en ritstýrt af Jóni.

Ég skil nú ekki að það sé verið að búa til fréttir um fullyrðingar Páls Magnússonar um peningamál Jóns Ásgeirs varðandi fjölmiðla hans. Þetta sem Páll heldur fram hélt ég að allir hefðu vitað lengi. Sem er í meginatriðum að þessir fjölmiðlar eru allir ríkisreknir með reglulegum gjaldþrotum þar sem skuldir eru afskrifaðar og færðar almenningi í landinu til greiðslu. En Jón að sjálfsögðu ritstýrir fjölmiðlum sínum, ýmist beint eða með strengjabrúðum sínum, þó rekstrarkostnaðurinn sé reglulega færður yfir á almenning. Þá virðist það skína í gegn um þetta rekstrarmódel að Jóni sé fjandans sama um eignarhaldið á þessum fjölmiðlum í sjálfu sér, enda aldrei nein eign í neinu af þessu. Það sem hann sækist eftir er bara ritstjórnarvaldið, að ráða því hvernig þessi áróðursmaskína er notuð í hans þágu til að fegra stríðsrekstur hans gegn efnahag almennings á Íslandi.

Þetta er í fáum orðum það sem fjölmiðlarekstur JÁJ snýst um og er altalað í landinu.


mbl.is Óska Páli velfarnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hélt í augnablik að hann hefði reynt að gera gagn á síðustu stundu.

En það var ekki svo ef mark á að taka á honum sjálfum. Þegar maður las eftir því sem Björgólfur segir, að Ólafur hefði hringt í hann og sagt honum að koma heim til að reyna að redda málum, þá hélt ég að Ólafur hefði ákveðið að hjálpa til. Reynt að gera smá gagn eftir öll partíin og bréfaskriftirnar, með því að segja Bjögga að koma heim og reyna að laga til í bankanum og hjálpa til við að bjarga honum.

Ólafur segir hins vegar að ekkert sé til sem styðji þær fullyrðingar að hann hafi átt þetta símtal við Bjögga. Þannig að svo virðist sem Ólafur hafi ekki séð tilefni til að ýta við honum að redda málunum. Þar með virðist Ólafur ekki hafa reynt að gera þetta litla gagn sem etv. var í þessu símtali sem hann telur Bjögga vera að ljúga upp á sig.

Það vekur reyndar eftirtekt við lestur svars Ólafs að hann orðar svarið á þá leið að engin gögn finnist sem staðfesti það að hann hafi hringt í Bjögga á hrundögunum. Þetta virðist hafa verið svo ómerkilegt mál, það sem var að gerast í bönkunum, að hann man ekki hvort hann hringdi í einhvern eða ekki út af þessu og þarf að leita í gögnum til að svara því hvort Bjöggi er að segja rétt frá eða ekki.

Einhver annar þjóðarleiðtogi hefði nú kannski munað það án þess að fletta upp í skjalasafni sínu hvort hann aðhafðist eitthvað eða ekki dagana sem þjóð hans setti heimsmet í bankahruni m.v. höfðatölu. Dagana sem mörkuðu upphaf stórfellds atvinnuleysis í landinu og fólksflótta frá því. Dagana sem Íslendingar, vopnlausa friðelskandi þjóðin, var með beitingu laga í Bretlandi lýst hryðjuverkaríki.

Nei, forsetinn man ekkert hvað hann var að gera þessa daga og þarf að fletta því upp. Ég sé ágætlega fyrir mér aulasvipinn á honum núna.


mbl.is Hringdi ekki til Björgólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessi Wessman er nú sjálfur rugludallur.

Þessi Róbert Wessman er nú meiri rugludallurinn sjálfur. Ég held að hann viti sjaldnast hvort hann er að meina það sem hann segir eða ekki.

Fyrir nokkrum árum skreytti hann sig með því loforði að gefa Háskólanum í Reykjavík einn milljarð sem átti m.a. að nota í að reisa nýja háskólabyggingu út undir Nauthólsvík. Nú fyrir nokkrum vikum tilkynnti hann að hann væri hættur við að gefa 500 milljónir af þessum milljarði. Ekki veit ég hvort hann var búinn að greiða út hinn helminginn af loforðinu eða ekki. Hann ákvað allavega að taka ekki mikið mark á sjálfum sér varðandi þetta loforð um milljarðinn.

Á sumum fréttamiðlum er haft eftir Wessman að hann hafi hætt skv. samkomulagi við Bjögga til að einbeita sér að rekstri Salt Investment. Það er eitthvað félag sem hann notaði við fjárfestingar og þá aðallega fjárfestingar í Actavis. Þannig að þegar hann var rekinn frá Actavis hafði hann það mikla trú á Bjögga að hann ákvað að einbeita sér að því að fjárfesti í stærsta fyrirtæki hans. Auðvitað er þetta Salt Investment handónýtt félag í dag. En engu að síður sýnir þetta vel hvað Róbert Wessmann er mikill rugludallur. Eða hvað segir það um hann sjálfan að þegar hann er rekinn frá Actavis þá ákveður hann að einbeita sér að því að fjárfesta í þeim sem rak hann þó hann segi nú að sá maður sé rugludallur sem ekkert er að marka.

Nú er ég ekkert að verja Björgólf. Auðvitað reynir að fegra eigin gerðir eins og mest hann má á sinni bloggsíðu. Það er mjög skiljanlegt og nauðsynlegt fyrir hann að fá syndaaflausn hjá þjóðinni sem fyrst því hann stendur í ríkisstyrktum stórfjárfestingum í félagi við innstu koppa í búri Samfylkingarinnar. Auðvitað verður að láta þetta allt líta sem best út eftir á sem aflaga fór í viðskiptum Björgólfs. Og hann verður auðvitað að berja það inn í hausinn á okkur vitleysingunum sem gagnrýnum hann að hann sé alsaklaus af Icesave og öllu sem aflaga fór í Landsbankanum. Það var ekkert honum að kenna, hann átti bankann bara á pappírnum, borgaði aldrei kaupverðið að fullu og því ekkert hægt að kenna honum um eitt eða neitt, eða hvað?

En þessi gagnrýni frá Wessman, og skiptir þá engu máli hvort hún er rættmæt eða ekki, er svo vitlaus og kjánaleg að hún vekur upp spurninguna um hvort þessir viðskiptamógúlar þurfa ekki að ná allavega 80 stigum á greindarprófi áður en bankarnir lána þeim milljarða og tugmilljarða til að nota í viðskiptum við menn sem þeir halda fram að ekkert mark sé takandi á?

Eða hvernig fór Wessman að því að ná í fjármagn til að fjárfesta í Actavis eftir brottreksturinn fyrst honum þykir Bjöggi svona vitlaus eins og hann segir.

Kannski labbaði hann inn í einhvern banka og viðtalið var á þessa leið.

Wessman: - "Hæ, ég var rekinn frá Actavis í gær og Bjöggi sagði að ég hefði klúðrar rekstraráætluninni. Allavega þarf ég að finna mér eitthvað annað til að græða á fyrst hann var með þessa stæla við mig.

Bankamaður: - Æ, varstu rekinn, það var leiðinlegt. Ertu með einhverja sniðuga hugmynd til að fjárfesta í?

Wessman: - Ég er eiginlega að hugsa um að fjárfesta bara í Actavis. Ég var að vísu rekinn þaðan og það er svosem ekkert að marka Bjögga aðaleiganda. Hann segir eitt í dag og annað á morgun og kennir mér um allt sem fer illa. En ég er samt viss um að Actavis á eftir að stórgræða á næstu árum. Bjöggi segir það allavega. Ég er alveg viss um að þetta er besta fyrirtæki í heimi.

Bankamaður: - Já, við verðum nú að taka mark á Bjögga. Hann hefur líka ekkert meint með því þegar hann var að reka þig og skamma þig fyrir eitthvað klúður. Hann hefur bara misstigið sig þegar hann fór á fætur í gær. Já, þetta er líklega bara bráðsniðugt hjá þér að fjárfesta í Bjögga - eða Actavis sem sagt. - Hvað þarftu mikið, er nóg að byrja með 2-3 milljarða?

Wessman: - 2-3 milljarðar er nú ekki mikið, en það dugir kannski til að byrja með. Ég þarf að athuga hvað ég get keypt mikið af bréfum þarna. Það er svo mikill gróði framundan í þessu að menn eru nú ekkert spenntir fyrir að selja bréfin hvort sem er. Settu þetta þá bara á reikninginn hjá mér á eftir. Þarf ég einhvers staðar að kvitta?

Gekk þetta einhvern veginn svona fyrir sig?


mbl.is Segir Björgólf fara með rangt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband