Matreiðsluþáttur Jóhönnu Vigdísar.
15.10.2009 | 20:34
Ég var að horfa á Jóhönnu Vigdísi að kenna matreiðslu í sjónvarpinu áðan. Þá rifjaðist upp vísa sem einhver orti í tilefni af þessum þætti.
Hvað skiptir mestu við eldhúsverkin:
Vatn á laukinn, salt í staukinn,
fréttaaukinn, krydd í baukinn,
Góður hnífur, gömul panna,
karl sem þrífur, topplaus Jóhanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina.
13.10.2009 | 15:47
Eftirfarandi sem ég fann í gamalli lesbók Morgunblaðsins sýnir glögglega að það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Samt má segja að stundum heppnist að spá ákveðinni þróun tiltekinna hluta í tiltekna átt, en ómögulegt að spá með verulegri nákvæmni langt fram í tímann. Þá er greinilegt að mönnum hættir til að vera óhóflega bjartsýnir í spám þegar spáð er um framtíð þeirrar tækni og hluta sem þegar eru til og svo virðist mönnum alls ekki heppnast að spá neitt um það sem ekki er til þegar spáin er gerð.
Með þetta í huga þá spái ég því að Íslendingum takist aldrei að greiða þær skuldir sem ríkið er að hlaða á sig núna, hvort sem þær eru vegna Icesave eða einhvers annars skuldabréfs sem skrifað hefur verið undir. Og ég spái því að það muni reynast betra að viðurkenna staðreyndir í þessum málum strax en að bíða með það fram að fyrstu afborgunum að viðurkenna að þetta gengur ekki upp.
En hér á eftir er gamla bjartsýnisspáin. Ég rauðletraði það sem ég tel að hafi ekki gengið eftir, grænletraði það sem virðist hafa gengið eftir og minnist ekkert á það sem ekki var spáð fyrir um eins og sjónvarp, internet, heimsstyrjaldir og hörmungar, kreppur og fjármál, ferðir út í geiminn misskiptingu o.s.frv.
Tekið úr LESBÓK MORGUNBLAÐSINS í janúar 1943.Hvað 20. öldin átti að færa mannkyninuSpádómar um síðustu aldamót. Eitt af stórblöðum Ameríku spurði marga vísindamenn um síðustu aldamót (1900-1901) hverjar yrðu helstu breytingar á kjörum manna og daglegu lífi á 20. öldinni. Birti blaðið síðan yfirlit yfir spádóma þessa. Útdráttur úr þeim var svohljóðandi:Vísindamennirnir spáðu mörgum og miklum breytingum.
Árið 2000 á mannfjöldinn í Bandaríkjunum að vera orðinn 500 miljónir og af því heilsufræðinni og læknavísindunum hefir þá farið svo fram, verður meðal mannsaldurinn þá 50 ár, í stað þess sem nú er 35 ár, og meðalhæð karlmanns verður þá 12 þuml. meiri en nú. Meiri hluti mannkynsins mun þá tala ensku; næst verður þá rússneska. Þá munu reykháfar ekki verða á húsum, heldur munu öll hús hituð með miðstöðvarhitun. Ekki þarf annað en snúa krana, þá streymir hitinn inn. Heimilin fá tilbúinn matinn frá stórum matgerðarhúsum, eins ogmenn fá nú brauð frá baksturshúsum. Þessi matreiðsluhús kaupa matvælin í stórkaupum, og tilbúningurinn verður svo ódýr, fyrir aðstoð rafmagns ogýmissa vjela, að maturinn verður þannig langtum ódýrari, en væri hann búinn til á heimilunum. Maturinn er sendur í loftreyrum (loftpípum) eða sjálfhreyfivögnum á heimilin, og borðbúnaðurinn er síðan sóttur og hreinsaður með vjelum. Það þykir ókleifur kostnaður, að hafa eldhús heima hjá sjer. Kol verða ekki höfð til suðu eða hitunar. Kolanámur verða nálega tæmdar, og það sem til verður af kolum verður afar dýrt. Rafkraftur, sem fenginn verður með vatnsafli, verður langtum ódýrari. Allar ár og lækir, sem hafa nægan halla, munu ganga í þjónustu mannanna. Með ströndum fram verða safnvjelar, sem safna flóðöldunum, og verða þær á þann hátt notaðar til að hreyfa hjól. Á járnbrautum má þá fara 200 kílómetra á klukkustundinni (yfir 26 mílur). Þá má fara á sólarhring þvert yfir Ameríku frá New York til San Francisco. Eimvagnarnir verða eins og tóbaksvindlar í laginu, til þess að loftið veiti þeim sem minsta mótstöðu. Hestar verða ekki hafðir til aksturs, en í stað þeirra koma sjálfhreyfivagnar. Á þeim verða bæði fluttir menn og vörur. Jafnt plógurinn sem líkvagninn verður knúður með sjálfhreyflum. Úthafsskipin verða knúð áfram af rafskrúfum, sem vinna bæði í sjónum og loftinu. Skipinliggja á einskonar hreyfilegum hlunnum, eða meiðum, á sjónum, sem valda því, að núningsfyrirstaðan verður mjög lítil. Þá má fara milli Englands og Ameríku á tveimur dögum. Loftskipin verða þá algeng og verða þau mjög hættuleg, eftil ófriðar kemur landa í milli. Þau byrgja sig í reyk, ef þörf þykir, svo að þau verða ósýnileg og koma að öllum óvörum, og geta þá steypt stórhríð afsprengikúlum yfir heri og borgir. Telefónar og telegrafar verða um allan heim og þráðlausir. Þá getur sá sem staddur er á miðju Atlantshafinu talað við konu sína heima hjá sjer, hvar sem er í Evrópu eða Ameríku. Villidýr munu þá verða útdauð og ekki finnast annarsstaðar en í dýragörðum. Búfjenaður verður alinn á vísindalegan hátt og allur fjenaður verður þá kollóttur, því menn munu sjá svo um, að skepnurnar framleiði ekki neitt að óþörfu. Garðávextir verða ræktaðir með rafmagni og verða afar stórir. Menn hætta að takainn" læknislyf á þann hátt, sem nú er gert. Menn eiga ekki að láta í magann annað en matinn,eða það sem eingöngu er til að styrkja magann. Ef önnur hininnri líffæri eru veik, verður lyfinu veitt gegnum skinnið og vöðvana með rafstraumum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um gjaldeyrisforða - Bullið í Vilhjálmi Þorsteinssyni.
11.10.2009 | 12:15
Vilhjálmur Þorsteinsson útskýrði ágætlega í bloggfærslu til hvers hér þarf að hafa gjaldeyrisforða og bað um hagfræðilegar skýringar á öðrum sjónarmiðum og bauð hálft í hvoru Nóbelsverðlaun fyrir þær.
Ég ætla nú að ræða þetta aðeins dýpra en hann Vilhjálmur gerði. Málið er það að þörfin á gjaldeyrisforða hangir bara saman við skuldsetningu. Í skuldlausu landi er engin þörf á gjaldeyrisforða því þar yrði gengisfelling krónunnar alltaf af hinu góða. En gengisfall eykur á skuldir, lækkar lánstraust og setur þá skuldugu í vanda því þeir eiga erfiðara en áður með að greiða skuldirnar.
Eins og ég sagði þá vex þörfin fyrir gjaldeyrisforða í samhengi við skuldir. Þegar skuldsetning íslenska fjármálakerfisins jókst gríðarlega eftir einkavæðingu bankanna margfaldaði Seðlabankinn gjaldeyrisforðann til að verja krónuna, alveg í samræmi við kenningu Vilhjálms. Við hrunið í fyrra var gjaldeyrisforðinn orðinn um 300 milljarðar minnir mig (hef ekki flett því upp), hafði nokkrum árum áður verið nokkrir tugir milljarða. Þessi aukning var einungis nauðsynleg vegna þess hvað skuldsetning jókst mikið, hún kom ekki til af neinu öðru.
Það er því algjört bull að gjaldeyrisforðinn þurfi að vera stór af því að gjaldmiðillinn er lítill. Gjaldeyrisforðinn þarf bara að vera stór hér af því að skuldir eru stórastar í heimi. Stórar skuldir þýða líka að skuldareigendur geta haft mikinn hag af að veðja á móti krónunni og því eykst pressan á gjaldmiðilinn við mikla skuldsetningu.
En bullið í Vilhjálmi er sem sagt það að hann áttar sig ekki á að það er skuldsetning en ekki gjaldmiðillinn sem er raunverulega verið að verja með gjaldeyrisvaraforða.
Í landi sem ekki er skuldsett virkar gengisfall gjaldmiðils einfaldlega þannig að það eykur útflutningstekjur og samkeppnishæfni á öllum sviðum og dregur úr innflutningi og hvetur til aukinnar framleiðslu innanlands á öllu því sem viðkomandi þjóð getur framleitt og þarf á að halda. Þetta skapar jákvæðan viðskiptajöfnuð og tryggir almenna velsæld í viðkomandi landi.
Þess vegna þarf hér að huga að aðalatriðinu sem er skuldsetning. Við eigum að einbeita okkur með öllum tiltækum ráðum að því að losna undan skuldum, ekki bæta á okkur skuldum. Það er eitt það mikilvægasta sem við getum gert af viti í okkar efnahagsmálum.
Og Vilhjálmur, ég býst nú við að þú komir þessum útskýringum mínum á framfæri við Nóbelsnefndina eins og þú ýjaðir að í þínu bloggi. Ég hlýt að fá einhver verðlaun frá þeim ef ég er virkilega fyrsti Íslendingurinn sem skilur þessa einföldu hluti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Krónan að styrkjast og stöðugleiki að aukast.
8.10.2009 | 08:46
Og aflandsgengið gagnvart USD er núna 124,53 sem er það sama og Seðlabankinn gefur upp sem miðgengi. Þarna er þetta orðið alveg á pari. Og þar sem þetta aflandsgengi hefur verið að styrkjast talsvert undanfarið og virðist enn vera að því er rökrétt að reikna með styrkingu hér heima líka. Stöðugleiki krónunnar hefur líka aukist að mun núna þegar hún er aftur skráð á sama gengi hér heima og erlendis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Höfum við efni á að tala íslensku?
6.10.2009 | 16:17
Já, maður spyr sig þessarar spurningar þegar það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að á næstunni þarf að eyða 427 milljónum í þýðingar fyrir Össur Skarhéðinsson út af ESB. Það á víst að þýða um 50000 blaðsíður af texta. Sennilega reynir aldrei á að Össur eða nokkur annar maður lesi allar þessar síður en samt þarf víst að gera þetta og þær kosta sitt.
En þetta er ekki eini fórnarkostnaður okkar við að tala íslensku. Það að halda úti þessu tungumáli er eitt það dýrasta og erfiðasta sem þjóðin stendur í. Samt er þetta ekki mikið umtalað eða rætt, þetta er bara eins og hver annar fortíðardraugur sem fylgir okkur og enginn virðist vilja breyta þessu.
Þessu tungumáli fylgir endalaus kostnaður. Það er verið að íslenska hugbúnað fyrir síma og tölvur, sjónvarpsefni, kennslubækur, handbækur, aðrar bækur og þess háttar hluti með ærnum kostnaði.
Það er líka verið að eyða stórfé í tungumálakennslu í skólum svo við getum öll talað eitthvert mál sem umheimurinn skilur. Það er nefnilega þannig að það skilur ekki nokkur heilvita maður í heiminum utan Íslands, íslensku, nema hann sé brottfluttur Íslendingur. Að þessu leyti höfum við talsverða sérstöðu. Flestir deila móðurmáli sínu með milljónum annarra einstaklinga og oft með fleiri en einni þjóð. Þannig að víða um heim geta menn verið eins og á heimavelli hvað tungumálaskilning og almenn samskipti varðar.
Í viðskiptum við önnur lönd fylgir mikill kostnaður því að það skilur okkur enginn, allt þarf að túlka og þýða og menn fá á sig stimpilinn "skrýtin þjóð" fyrir að halda áfram að tala þetta mál sem enginn skilur.
Í pólitíkinni er þó kannski mest áberandi hvað þetta tungumál okkar er mikil fötlun. Sumir stjórnmálamenn okkar geta ekkert tjáð sig þar sem það skiptir mestu máli því þeir tala bara íslenskuna sem enginn skilur. Okkur tekst illa að halda fram okkar sjónarmiðum á erlendum vettvangi því það er vandfundið hér fólk sem getur tjáð sig vel á erlenda tungu og nennir að standa í þessu.
Á Íslandi er ekki bara misskipting eftir efnhag, það er ekki bara annars vegar efnað fólk hér og hins vegar fátækt fólk. Það er líka fólk hér sem er bundið í fjötra tungumálsins annars vegar og svo hinir sem eiga auðvelt með að læra önnur tungumál. Þeir eru frjálsir menn, því þeir geta átt samskipti út fyrir landsteinana. Þeir þurfa ekki að hanga aftan í fararstjóra þegar þeir koma út úr flugvél á erlendum flugvelli. Þeir geta flutt úr landi og sótt vinnu í öðrum löndum þegar aðstæður heima fyrir krefjast þess. Þeir hafa miklu fleiri tækifæri á öllum sviðum en hinir sem eru bundnir í fjötra tungumálsins. En þessa fjötra er erfitt að slíta, fólki reynist mislétt að læra tungumál.
Við þurfum að taka upp nýtt móðurmál. Það er hægt að þýða menningararfinn yfir á nýtt móðurmál svo menn geti viðhaldið honum. Það er engin ástæða til að 300 þús manna þjóð haldi út sérstöku tungumáli til þess. Við þurfum að taka upp eitthvert mál sem nýtist okkur vel, t.d. ensku, spænsku, rússnesku eða mandarín svo nokkur álitleg tungumál séu nefnd.
Með þessu má spara ómældar fjárhæðir í allskyns útgjöldum, auka samkeppnishæfni landsins, fjölga tækifærum fyrir íbúana, gera Ísland alþjóðlegra. Í þessu felast miklu meiri möguleikar en nokkru sinni í ESB aðild, að ekki sé nú talað um ef við förum þangað inn hálf málllaus eins og við í raun erum á þeim vettvangi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stefnuræðan í gær - það sem ekki gerðist?
6.10.2009 | 14:23
Ég hlustaði á stefnuræðu forsætisráðherra í gær og umræður um hana. Það var aðallega tvennt sem þarna kom á óvart. Annað var það að Össur Skarphéðinsson sagði ekki orð, sat bara þögull á bekknum aldrei þessu vant. Hitt var það að enginn talaði um það hvernig ESB aðild muni bjarga þjóðinni margfaldlega úr þessum ógöngum okkar nú og tryggja okkur óendanlega velsæld í framtíðinni eins og mátt hefur skilja hingað til.
Þannig að nú veltir maður fyrir sér hvað er að gerast í Samfylkingunni fyrst Össur fær ekki að segja orð, búið að sussa á hann, og fyrst ekki er minnst á ESB aðild lengur. Jóhanna talaði raunar eitthvað um ónýtt regluverk ESB sem hluta af okkar vanda núna. Kannski er hún búin að fá nóg af ESB bullinu? Er Samfylkingin að breyta um stefnu? Er klofningur í Samfylkingunni út af Össuri og ESB? Hvað er í gangi? Fyrir nokkrum vikum síðan var ESB aðild og upptaka Evru það eina sem gat bjargað Íslandi að mati Samfylkingarinnar. Nú er ekki minnst á þetta einu orði lengur? Eru komnar einhverjar sérfylkingar í Samfylkinguna út af þessu? Það virðist vera órói í fleiri stjórnarflokkum en VG.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvernig má ljúka heimskreppunni og íslensku kreppunni?
3.10.2009 | 20:18
Það er mjög auðvelt að svara þessari spurningu og það eru allavega tvö svör í boði en fyrst koma hér nokkrar sögulegar staðreyndir til útskýringar á þessu.
Í heimskreppunni miklu sem hófst 1929 gekk hvorki né rak að koma hlutunum aftur í gang af alvöru fyrr en Adolf Hitler fór í stríð 1939. Og í Bandaríkjunum var það ekki fyrr en 5 mánuðum eftir árás Japana á Pearl Harbour í desember 1941 sem kreppunni lauk þar í landi. Enda héldu Bandaríkjamenn sér utan við styrjöldina þangað til eftir árásina á Pearl Harbour. Í lok apríl 1942 var Dow Jones vísitalan ennþá ekki nema um 96 stig, hafði fyrir kreppu farið hæst í rúm 380 stig um mitt ár 1929. En frá lokum apríl 1942, 5 mánuðum eftir að Bandaríkjamenn hófu þáttöku í heimsstyrjöldinni hækkaði vísitalan nánast viðstöðulaust í rúm 20 ár fram til 1965 og má því með sanni segja að í apríl 1942 hafi kreppunni lokið í Bandaríkjunum.
Það er mjög einfalt að útskýra hvernig heimsstyrjöld Hitlers kom þjóðum heims út úr kreppunni miklu. Skýringin er sú að skyndilega fengu allir vinnu. Ekki var öll vinnan mjög áhugaverð, síður en svo, að senda karlana út um allar jarðir til að skjóta óvinina eða að senda konurnar í verksmiðjur að búa til sprengur og stríðstól er ekki áhugaverð vinna. En það var borgað fyrir þetta og það kom hagkerfunum í gang. Þó fjármálakerfið hefði hrunið og efnahagslífið allt farið til fjandans, rétt eins og núna, þá var enginn vandi að búa til peninga í stríðsrekstur og þegar allir voru skyndilega komnir í vinnu og með peninga milli handanna og farnir að eyða peningum þá blómstraði efnahagslífið og hagkerfi heimsins. Og það fylgdi svo í kaupbæti að styrjöldin var á heimsvísu og langdregin þannig að eyðileggingin var mikil og eftir stríð tók við margra ára efnahagsbati sem að mestu leyti byggðist á að það voru prentaðir peningar til að endurbyggja þau lönd sem tóku þátt í stríðinu og voru meira og minna í rúst eftir stríð.
Í þessu öllu saman skiptu bankar í sjálfu sér engu máli, efnhagslífið komst ekki í lag vegna þess að peningum væri dælt endalaust í að endurreisa þá. Þeir hins vegar nutu góðs af stríðinu eins og aðrir þegar þeir peningar sem voru settir í umferð vegna stríðsins fóru að safnast inn í bankana aftur og fjármálafyrirtækin fóru þá að styrkjast á ný.
Þetta sögulega yfirlit segir okkur það að það eru tvær leiðir út úr kreppu.
Annars vegar að fara í stríð til að búa til störf, hins vegar að búa til störf með öðrum hætti en stríðsrekstri.
Það er ekki leið út úr kreppu að hækka skatta og spara allt sem hugsast getur, það eykur bara á kreppu. Það er heldur ekki leið út úr kreppu að sólunda peningum í að endurreisa fjármálafyrirtæki.
Besta leiðin út úr kreppu er að tryggja öllum næga peninga með því að þeir hafi vinnu og það miklar tekjur að þeir séu aflögufærir til að bruðla í óþarfa auk þeirra lífsnauðsynja sem þarf til að þrauka áfram. Og nú er bara spurningin hvort þjóðarleiðtogar átta sig á þessu og leysa kreppuna á skynsamlegan hátt eða hvort þetta leysist aftur með styrjöld eða hvort menn eiga eftir að dýpka kreppuna með vitlausum (röngum) aðgerðum eins og að dæla peningum í óendanlegt svarthol fjármálakerfisins eins og mér sýnist að okkar íslensku stjórnmálamenn vilji gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrirgefning Álfheiðar.
2.10.2009 | 18:01
Nú hafa baráttuglaðir mótmælendur eignast ráðherra úr sínum röðum. Álfheiður ráðherra var í miklum ham í vetur áður en hún varð ráðherra og þegar hún fylkti liði með mótmælendum og heimtaði að útrásarvíkingar færu í steininn og eignir þeirra yrðu frystar og að þeir skiluðu illa fengnu fé til bankanna aftur. En nú hefur Álfheiður fengið sinn ráðherrastól og getur gleymt þessu og fyrirgefið þeim allt það sem hún barðist fyrir í fyrravetur. Nú vill hún bara fá vinnufrið fyrir mótmælendum svo hún geti skorið helbrigðiskerfið niður hægri vinstri, eins og sagt er. Hún segist treysta sér vel í það verk og þannig ætlar hún að láta sjúklinga og starfsfólk helbrigðiskerfisins borga vel inn á þessa fyrirgefningu sína. Þeim má blæða hratt út sem í það kerfi leita ef það er það sem þarf peninganna vegna.
Álfheiður er að fara að endurhanna helbrigðiskerfið í anda hinna norrænu velferðarkerfanna, ef marka má stefnu ríkisstjórnarinnar eins og forystumenn hennar hafa marglýst henni. Í þessu endurhannaða íslenska heilbrigðiskerfi að norræni fyrirmynd hefur Álfheiður ekki efni á að fyrirgefa fólki þó það verði veikt, eða þó að þeir sem eiga að lækna það þurfi laun, hún hefur ákveðið að fyrirgefa útrásarvíkingum svo rausnarlega að hún hefur ekki efni á meiri fyrirgefningu. Hún ætlar bara að standa sig í að skera allt svo hressilega niður að hún hafi efni á að fyrirgefa útrásarvíkingum þeirra flopp.
Fyrirgefðu Álfheiður, en ég get ekki fyrirgefið þér þessa fyrirgefningu þína gagnvart útrásarvíkingunum svokölluðu. Og fyrirgefðu Álfheiður en ég get ekki fyrirgefið þér viðsnúninginn frá því í vetur og hvernig þú hefur koðnað niður fyrir algjöra meðalmennsku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af hverju ekki má taka norska lánið.
1.10.2009 | 08:11
Skv. fréttum gærdagsins eru Norðmenn til í að semja um lán handa Íslendingum sem myndi svala öllum okkar lánaþorsta í bili. En þetta lán munum við ekki taka og það skiptir engu máli hvort vextir á því eru háir eða lágir eða hvort því fylgja einhver skilyrði vegna Icesave eða ekki. Ástæðan fyrir því að við tökum örugglega ekki þetta lán er sú að ef við tökum það missir Samfylkingin alla pressu á að koma okkur inn í ESB. Kannski er ESB líka ástæðan fyrir því að Norðmenn vilja lána okkur þetta. Þeir vilja líklega gera það til að bjarga okkur og sjálfum sér frá ESB.
Á meðan Samfylkingin getur logið því að þjóðinni að hér sé engin framtíð nema við borgum Icesave, hlýðum AGS og göngum í ESB þá heldur þessi vandræðagangur áfram hér heima. Það er greinilegt að þetta er það sem Samfylkingin er að gera því hún gerir ekkert annað, það er ekki tekið á neinum málum sem varða almannahag eða atvinnulífið í landinu. Það er greinilega verið að viðhalda neyðarástandi í landinu undir því yfirskyni að engu sé hægt að breyta nema menn geri eins og AGS vill, borgi Icesave og gangi í ESB.
Það er ótrúlegt að það skuli vera til fólk og flokkur sem beinlínis vill neyða þjóðina inn í ESB með lygum, blekkingum og aðgerðaleysi. Þetta er mansal af verstu gerð. Reynt að selja heila þjóð á einu bretti fyrir slikk og 15 mínútna frægð nokkurra einstaklinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mikil styrking krónunnar undanfarið
30.9.2009 | 18:02
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ögmundur forðar sér úr vitleysisstjórninni.
30.9.2009 | 12:57
Þá er Ögmundur búinn að forða sér úr ríkisstjórninni rétt áður en hún fellur yfir hann, rétt eins og Björgvin gerði í næst síðustu ríkisstjórn rétt áður en hún féll.
Ég held að Jóhanna og Samfylkingin verði að fara að opna aðeins augun og skoða betur hvað hefur verið að gerast í landinu. Þessi flokkur er orðinn aðalhemillinn á að hér sé hægt að taka á hruninu sem varð fyrir ári síðan. Vesalings fólkið í Samfylkingunni verður að fara að skilja m.a. eftirfarandi:
Við eigum ekki að borga Icesave.
Það á að frysta allar eigur eigenda og stjórnenda bankanna.
Það á að láta sömu menn axla ábyrgð á hruninu.
Það þarf að sækja peningana sem hurfu og hafa samvinnu við aðrar þjóðir um það.
Það þarf að afnema verðtrygginguna.
Það þarf að lögfesta siðleg viðskiptakjör í peningastofnanir afturvirkt.
Það þarf að skilja að allar innistæður í bönkunum töpuðust.
Það þarf að skilja að AGS er ekki algóður peningalánaguð.
Það þarf að skilja að Gordon Brown er ekki maður sem á að taka til fyrirmyndar.
Það þarf að skilja að bankar þurfa ekki að vera ríki í ríkinu.
Það þarf að skilja að það gerir aldrei gagn að hneppa þjóð í fjötra.
Það þarf að skilja að það eru mikilvægari mál ókláruð hér en ESB umsókn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spáir Íslandsbanki hraðri styrkingu krónunnar?
30.9.2009 | 08:04
Umræðan um að Íslandsbanki ætli að bjóða skuldurum að breyta lánum í óverðtryggð lán með 7,5% óverðtryggðum vöxtum er áhugaverð. Ástæðan fyrir þessu kjaraboði er skemmtileg, þeir segja að þetta þjóni hagsmunum bankans.
Og þá hugsar maður eins og allir hinir tala, "já, þeir eru búnir að skilja að eins og ástandið er í landinu þá geta menn bara ekki borgað meira en þetta og ætla bara að vera svona sanngjarnir, húrra fyrir Íslandsbanka."
En kannski er önnur ástæða fyrir þessu kjaraboði, kannski er bara verið að spá verðhjöðnun og styrkingu krónunnar í Íslandsbanka. Út frá svoleiðis spá væri hagstætt fyrir bankann að taka verðtryggingu af lánunum áður en verðlag fer að hjaðna og koma þeim á fasta vexti og breyta erlendum lánum í íslenskar krónur áður en gengið fer að styrkjast aftur.
Ég hef ekki meira traust á bönkunum en svo að ég freistast til að velta því fyrir mér hvað býr að baki, það væri alveg nýtt ef verið er að bjóða upp á breytingar á lánum að fyrra bragði af eintómri góðsemi við viðskiptavinina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um gengi gjaldmiðla.
29.9.2009 | 18:54
Það er nú fróðlegt að velta fyrir sér gengi gjaldmiðla.
Um þessar mundir er Bandaríkjadalur svo veikur gagnvart Evru að bandarísk fyrirtæki hafa varla efni á að kaupa tæki og tól frá Evrópu, jafnvel þó þá bæði vanti tækin og dauðlangi í þau. Hins vegar er hægt að gera ódýr viðskipti í hina áttina, þ.e. flytja út frá Bandaríkjunum til Evrópu, eða ferðast ódýrt um Bandaríkin ef þú býrð á Evrusvæðinu.
Íslenska krónan er svo veik gagnvart flestum gjaldmiðlum að það er aftur hægt eftir margra ára hlé að flytja út frá Íslandi eitthvað fleira en fisk. Um leið er krónan svo veik að Íslendingar á ferðalögum erlendis eru aðeins byrjaðir að spá í hvað þeir eru að fá fyrir gjaldeyrinn sem þeir spreða á báðar hendur. Sumir eru jafnvel farnir að versla aðeins minna af óþarfa en áður. Útlendingar sem hingað koma gera hins vegar kjarakaup í öllu sem þeir gera, liggur við að þeir fari með meira peninga úr landi í ferðalok en þegar þeir koma.
Og gengi Evru gagnvart Sterlingspundi er svo breytilegt í London að á einum og sama degi í þessari borg hleypur það frá því að vera 1 evra á móti 1 pundi og yfir í 2 evrur fyrir pundið.
Þrátt fyrir þennan mikla mun á gengi punds gagnvart evru hefur gengi pundsins lækkað svo mikið gagnvart evrunni að það þykir mörgum á evrusvæðinu orðið ódýrt að ferðast til Englands og gera það sem aldrei fyrr þó maturinn sé enn jafn óætur þar og áður. Matargæðin haldast alveg stöðug í Englandi óháð óstöðugleika gjaldmiðla.
Hver er svo niðurstaðan af þessu. Hún er einföld, evran er nú svo sterk að það er framundan aukið atvinnuleysi á evrusvæðinu en atvinnulíf landanna utan evrusvæðisins mun á sama tíma styrkjast eitthvað. Og þau lönd sem enn hafa sjálfstæðan gjaldmiðil hafa auðvitað meira svigrúm til að stjórna sinni efnahagsþróun en hin löndin sem eru bundin í myntbandalagi.
Og svo sýnir þetta ágætlega að það eru ekki til neinir stöðugir gjaldmiðlar. Að halda því fram að það sé til "stöðugur" gjaldmiðill er bara aulaleg lygi. Gengi allra gjaldmiðla sveiflast eins og flagg í vindi gagnvart öðrum gjaldmiðlum. En við gætum auðvitað kastað okkar gjaldmiðli og tekið upp annan ef við viljum frekar sveifla genginu einhvern veginn öðruvísi en það gerir í dag. En gengi okkar gjaldmiðils hættir ekkert að sveiflast samt sem áður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Merki vinstri grænna í Portúgal.
28.9.2009 | 22:19
Ég var í nokkra daga í Porto í Portúgal í síðustu viku. Það mátti sjá að kosningar voru í nánd, talsvert um auglýsingar og veggspjöld og mikil umfjöllun í sjónvarpi um þessar kosningar.
Það var áberandi að meirihluti kosningaauglýsinga var merktur flokki sem kallast CDU og er systurflokkur VG á Íslandi. CDU er upprunninn úr þremur eldri flokkum, kommúnistum, grænum og hluta af krötum. Fyrir þessar kosningar var þetta þriðji stærsti flokkur Portúgal. Þó ég sé ekkert sérstaklega vinstri sinnaður fær þessi flokkur sérstaka aðdáun mína fyrir það að hann notar hamar og sigð í merki sínu og þarna er ekkert verið að fela kommúnismann. Kannski vita þeir ekki kommarnir í Portúgal að það sé hægt að tala um norrænt velferðarkerfi til að beina athygli frá kommúnisma eða að þeir hafa ekki fengið Alþjóða gjaldeyrissjóðinn eins og hjálparstofnun upp í hendurnar til að vingast við til að geta þóst vera kapítalismar. Enda voru vinstri grænir í Portúgal bara með um 7,6% atkvæða í kosningunum 2005. Ég hef ekki gáð hvernig þessar kosningar fóru í Portúgal núna, held þeir hafi byrjað að telja atkvæði í gær, en það skiptir líka litlu, það lá vel á öllum þarna, veðrið gott og bankar á hverju götuhorni. Sennilega enginn jarðvegur fyrir pólistískar breytingar í því landi.
Hér á Íslandi eru vinstri grænir bæði heppnari og klárari, hafa norrænt velferðarkerfi að tala um og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn að vingast við og svo er það náttúrulega "bónus" vinningur að hinn vinstri flokkurinn er svo vitlaus að voða fáir geta kosið hann nema afneita því á eftir. Og svo náttúrulega tókst eftir bankahrunið að böðlast í gegn um kosningar áður en fólkið skildi að VG á Íslandi er ekkert skárri eða öðruvísi flokkur en hinir þrír í fjórflokkakerfinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stærsta bankarán Íslandssögunnar sagði Jón Ásgeir fyrir ári síðan.
28.9.2009 | 20:43
Já, þetta sagði víst Jón Ásgeir Jóhannesson fyrir ári síðan. Einhvern veginn vissi hann alveg að hér hafði verið framið bankarán. Af hverju er nú ekki búið að spyrja hann betur út úr um þetta. Hann vissi greinilega að bankinn var tómur. Hann var sjálfur alllengi búinn að vera viðriðinn stjórn og eignarhald bankans. Mér skilst að með þessum tilvitnuðu orðum hans í fyrra hafi hann verið að gefa í skyn að það að taka bankann af honum hafi verið bankaránið sem hann talaði um en það er löngu komið í ljós að bankinn var galtómur eins og brotinn sparigrís og innihaldið úr bankanum/sparigrísnum horfið. Það hlýtur Jón Ásgeir að hafa vitað.
Og þá er nú stóra spurningin. Af hverju er ekki búið að taka á hans þætti í þessu bankaráni sem hann talaði um?? Maðurinn sama sem játaði á sig þáttöku í stærsta bankaráni Íslandsssögunnar sama dag og síðustu krónurnar hurfu úr bankanum og samt fattar löggan ekki að spyrja hann nánar um þetta. Hvað er eiginlega að hér??
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)