Hvað hafa Íslendingar gert Spánverjum í sjávarútvegsmálum?

Þetta er nú kannski ekki merkileg spurning, en svarið við henni má sjá á upplýstum vegg í sjóminjasafninu í Vigo á Spáni, stærstu löndunarhöfn í Evrópu.

Og hvað skyldi svarið vera? Jú, svarið er að í þriðja þorskastríði Íslendinga og Englendinga, sem Íslendingar unnu eins og við vitum, þá var komið á nokkurs konar eignarhaldi á úthöfunum, 200 mílna lögsögu. Og þar með er það Íslendingum að kenna að Spánverjar hafa ekki lengur ótakmarkaðan aðgang að heimshöfunum til fiskveiða að eigin geðþótta. Eigendur úthafanna hafa að sjálfsögðu fært út sína landhelgi hver fyrir sig og rekið Spánverja burt. Og vandamál Spánverja er að þeir eiga ekki lögsögu yfir neinum fiskimiðum sem verulegu máli skipta. Smá blettir á Atlantshafinu, norðan og sunnan Portúgals tilheyra Spáni, sem og hafsvæðið austan við Spán, en það er því miður bara Miðjarðarhafið sem er ekki sérstklega gjöfult fiskihaf.

Og skv. því sem fram kemur á sjóminjasafninu í Vigo þá er það þannig að þær fiskveiðar sem gerðu Spán að mestu fiskveiðiþjóð Evrópu voru einkum stundaðar á eftirtöldum hafsvæðum:

Vestur af Sahara í Afríku.
Vestur af Suður Afríku.
Austur af Argentínu.
Á Nýfundnalandsmiðum.
Á Reykjaneshrygg.
Austur af Boston í Bandaríkjunum.
Vestur af Írlandi.

Spánverjar hafa því aldrei byggt sínar fiskveiðar á eigin fiskistofnum eða fiskimiðum við eigin strendur, heldur á því að fara og moka upp fiski langt að heiman. En Íslendingar bundu enda á þetta með því að vinna þriðja þorskastríðið við Englendinga og nú er það bara spurning hvort það er ekki það gáfulegasta sem við getum gert að ganga í Evrópusambandið og leyfa Spánverjum að fara að ráðskast með fiskveiðar í íslenskri lögsögu. Það er okkur að kenna að þeir fá ekki lengur að veiða eins og þeim sýnist á öllum sínum gömlu fiskimiðum. Það er okkur að kenna að Spánski flotinn er ekki lengur ráðandi á Atlantshafinu, heimskautanna á milli. En flotinn er enn til og liggur bundinn við bryggju og bíður færis. Hvað skyldu Spánverjar vera að hugsa í þessum málum núna? Er það brilljant hugmynd hjá Samfylkingunni að ganga í ESB og skála við Spánverja um samstarf í fiskveiðimálum? Ég held varla, enda hefur enginn sýnt fram á að nokkurn tíma hafi komið góð hugmynd eða góð lausn á einhverju frá Samfylkingunni.


Icesave og afturfararríkisstjórn IMF-AGS

Ég hlustaði á Silfur Egils áðan og spjall hans við Guðmund Franklín Jónsson. Þarna tókst Agli að ná viðtali við enn einn manninn sem greinilega skilur ágætlega hvað er í gangi í þessu landi hér.

Það er líka alveg víst að það verður ekkert gert með hans ráð og ábendingar frekar en annarra sem hafa haft eitthvað gagnlegt til málanna að leggja, enda engin ástæða til því hér hefur verið tekin ákvörðun um að stefna í aðra átt, afturábak en ekki áfram.

Og við Íslendingar eigum ekkert að vera að kvarta. Við kusum okkur þing og ríkisstjórn sem hafði um skamma hríð starfað hér fyrir IMF-AGS og hafði það að markmiði að gera það áfram eftir kosningar. Þjóðinni var gerð ágæt grein fyrir þessu fyrir síðustu kosningar og hún kaus þessa leið. Því er það eina rétta leiðin að klára það 15-20 ára afturfararprógramm sem þjóðin hefur kosið sér.

Þess vegna er það mín skoðun að ríkisstjórnarflokkarnir eigi að taka upphaflegan Icesave samning aftur til atkvæðagreiðslu og samþykkja hann undanbragðalaust án allra fyrirvara eins og þeir hafa lofað IMF-AGS svo lýðveldið Ísland geti nú þegar hafið sína löngu afturför inn í framtíðina.


Myndlíkingaraumingjar.

Nú er það líklega næsta verkefni kommúnista á Íslandi að koma einhverjum myndlíkingaraumingja í ritstjórastólinn á Morgunblaðinu. Davíð er kominn þangað og alls staðar þar sem hann hefur starfað hafa kommúnistarnir komið fljótlega á eftir með góða myndlíkingarauminga.

Ingibjörg Sólrún í borgarstjórastól Reykjavíkur o.fl, Dagur B. Eggertsson í sama starf, Jóhanna Sigurðardóttir í forsætisráðuneyti, Össur Skarphéðinsson í utanríkisráðuneyti, Már Guðmundsson í Seðlabankann. Allt eru þetta glögg dæmi um myndlíkingaraumingja sem hafa tyllt sér í stólana á eftir Davíð, fólk sem á auðvelt með að myndgera vandamál, líkja þeim við bruna, skipbrot, slökkvistarf o.s.frv.

En það er ekki hægt að gefa þessu fólki betra heiti en að vera myndlíkingaraumingjar, því miður. Þau hafa ekki getu til að leysa nokkurn hlut, það sanna þau á hverjum degi. Það eina sem þau eiga sameiginlegt fyrir utan það að vera myndlíkingaraumingjar er að hafa komist til umtalsverðra valda á Íslandi. Það hlýtur þá að þýða að við Íslendingar séum myndlíkingaraumingjadýrkendur, þ.e. við aðhyllumst mjög vinstri sinnaða myndlíkingaraumingjastefnu.

Skv. framkvæmd þessarar pólitísku stefnu felst hún í því að gera fullt af engu nema að tala um vandamál en láta þau um leið reka á reiðanum og vona að þau leysist eða hverfi þannig af sjálfu sér. Svo er þetta skreytt dálítið með blautum draumförum um ESB.


Hvað finnst útlendingum um Ísland núna?

Ég er búinn að hitta margt fólk frá ýmsum löndum hér á Spáni undanfarið. Ég hitti Indverja sem hafði mikinn áhuga á að ræða þjóðmálin þegar hann fann út að ég væri frá Íslandi. "Oh, you are from Iceland! You must trow out the president" Þetta var það fyrsta sem hann sagði, orðrétt eftir honum haft. Eftir smá umræður var það ljóst að honum fannst ekki sæma í nútímaríki að þjóðhöfðingi sæti eins og aldrei hefðu verið betri tímar, á tímum þegar efnahagslífið hefur hrunið til grunna að stórum hluta. Til að sýna að við Íslendingar viljum ekki hafa þetta svona á að byrja tiltektina efst í valdapýramídanum og þar sem Ólafur Ragnar hefur kynnt sig sem toppstykki íslenska valdapýramýdans og valdamesta mann landsins á ferðum sínum um Indland finnst Indverjum það algjört lágmark að Íslendingar skipti um þetta toppstykki sem er greinilega handónýtt. Ég gat auðvitað ekki annað en verið sammála manninum. Annars var hann ótrúlega vel upplýstur um hvað hér hefur gerst undanfarið, bankahrunið sjálft, fall krónunnar og gjaldeyrishöft og spillingu. Það er greinilega ekki hægt að fela ósómann á þessari upplýsingaöld.

Ég hitti líka í gær nokkra kínverja sem ætluðu að heimsækja Ísland í nóvember s.l. en hættu við og fóru eitthvað annað. Þeir vissu lika talsvert um okkar mál og klúður. Það að þeir hættu við íslandsferð í fyrra þýðir ekki að þeir ætli aldrei til Íslands, þvert á móti þá eru þeir að hugsa um að koma í heimsókn í vetur, en þótti ástandið bara of ótryggt síðasta vetur til að standa í heimsóknum.

Auk þessara tveggja hef ég spjallað við fólk frá Kanada, USA, Bretlandi, Skotland, Norðurlöndunum, Hollandi og Spáni auðvitað. Yfirleitt sýnir þetta fólk samúð og vorkunn nema Norðmenn sem hlæja auðvitað dáldið að okkur og stríða manni líka á þessu. Það veit ótrúlega mikið um Íslenska efnahagsundrahrunið. Og það er alveg ljóst að við vinnum aldrei neitt traust í útlöndum með einhverjum vaxtaákvörðunum og svoleiðis bulli. Það sem allir spyrja um eða ræða á einhvern hátt er hvort það fari ekki fullt af bankamönnum og stjórnmálamönnum í steininn. Þetta er greinilega það sem þarf til að vinna traust erlendis aftur, enda skiljanlegt, það treystir okkur enginn framar ef við erum ekki menn til að gera upp klúðrið með þeim hætti að umheimurinn sjái að við höfum einhver lög í landinu til að fara eftir um þessi mál, og beitum þeim, líka þegar það kemur einhverjum illa.


60 verkefnalausir togarar tilbúnir til Íslandsveiða ESB frá Vigo á Spáni.

Ég er núna staddur í Vigo á Spáni sem er stærsta verstöð þess lands. Í dag labbaði ég niður á höfn til að skoða hvernig Spánverjar eru útbúnir til fiskveiða. Hafnarsvæðið er að stórum hluta nýlega upp byggt, búið að gera mikla umferðargötu fyrir framan gömlu fiskvinnsluhúsin og byggja upp mikla fiskihöfn á fyllingum fyrir neðan gamla hafnarsvæðið. Þarna eru frystihús og fiskvinnsluhús í tugatali á hafnarsvæðinu og á þeim hluta þess sem ég fór um voru a.m.k. 58 skuttogarar sem lágu bundir við bryggju á þessum góðviðrisdegi auk fjölda smærri skipa og báta. Það var samt heilmikið líf við höfnina. Smærri bátar á leið út og að koma inn með afla. Einnig var eitthvað smáhveli í höfninni að elta makríl sem synti þar um í litlum torfum.

Í beinu framhaldi af fiskihöfninni er langt svæði þéttskipað skipasmíðastöðvum. Það er víst heilmikil stálframleiðsla á Spáni og þeir hafa vit á að smíða eitthvað úr því sjálfir eins og t.d. skip. Annað en við Íslendingar sem græðum alveg nóg á að flytja álið út óunnið. Það er takmarkaður aðgangur um skipasmíðasvæðið í öryggisskyni þannig að ég fór ekki þangað inn en það var allavega verið að smíða stór skip í tugatali þarna.

Það er strax ljóst af þessari stuttu heimsókn á höfnina í Vigo að það er mikill hagur af því fyrir Spán að Ísland gangi í ESB svo Spánverjar geti nýtt ónotaðan skipaflota sinn betur. Þeir hafa greinilega afkastagetu á við allan íslenska togaraflotann í ónotuðum skipum sem bíða aðgangs að nýjum fiskimiðum. Og miðað við atvinnuleysið hér á Spáni sem er víst það mesta í Evrópu, ætti ekki að verða erfitt að fá menn í áhafnir á þessa togara.
Svo er allt til alls hér á hafnarsvæðinu til að smíða ný skip og laga gömul ef þarf, enda hagsýni að nýta heimafengið stálið í skipsskrokka þegar færi gefst á því.

Maður hefur oft heyrt ýmsar tröllasögur um togaraflota Spánverja sem geti ryksugað upp allan fisk af Íslandsmiðum fái þeir aðgang að fiskimiðum okkar. Nú þarf ég ekki lengur að hlusta á þetta sem tröllasögur, búinn að fara niður á höfn og telja sjálfur og taka myndir af öllu saman. Og allur þessi floti bara í fyrstu höfn sem ég skoða hér. Það eru nokkrar hafnir í viðbót hér í Galiciu og örugglega fleiri togarar þar.

Nú þarf fólk á Íslandi bara að styðja sína ríkisstjórn í að koma okkur í ESB, svo við þurfum ekki sjálf að senda menn á sjó í framtíðinni og standa í slori og slabbi við að verka fisk. Látum Spánverja um þetta, þeir geta það alveg.
Við getum örugglega fengið endalaus lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum til að lifa af í skiptum fyrir ESB aðild. Þessi lán ættu allavega að duga okkur eitthvað fram yfir inngöngu. Með því að samþykkja ESB aðild getum við alveg losnað við slor og ýldulykt í framtíðinni og endurreist góðæri í nokkur ár í viðbót.


Vitleysingar við stjórn.

Það er búið að vera fróðlegt að hlutsta á Gunnar Tómasson og Joseph Stiglitz og heyra þeirra álit á efnahagsmálum á Íslandi. Í stuttu máli virðast þeir alveg sammála um að það er aðalvandi okkar að stjórnmálamennirnir eru vitleysingar. Þetta er svo sem auðvelt að skilja þegar horft er til baka og sagan skoðuð. Stöðugt fall krónunnar, samningar um orkusölu undir kostnaðarverði, dekur við bankana þar sem allt er látið eftir þeim sem þeir hafa beðið um, kvótakerfið og útbrunnir stjórnmálamenn sem fara um stjórnkerfið eins og krabbamein eru allt stórmál sem varða þessa sögu og skýra það eflaust að menn segja það bara afdráttarlaust að hér stjórni vitleysingar.
Og nú eru sömu vitleysingarnir að semja um aðild okkar að ESB. Það yrði merkilegt ef Össur og félagar fara nú að brjóta upp gamla hefð og semja af viti um ESB. Nei, ég á ekki von að svo verði. Því miður skiptir það engu máli hvort við getum haft gagn af að ganga í ESB eða ekki. Það eina sem er klárt í samningaviðræðum okkar við ESB er að það eru vitleysingar sem eru að semja þar fyrir okkar hönd og samningurinn mun verða eftir því.

Sorry félagar, við erum enn á sömu braut og áður. Næsta hrun hér verður sjálfsagt kennt við ESB. Við erum enn að kjósa yfir okkur sömu flokkana og sama fólkið og hefur rutt öllu um koll hér á undanförnum árum. Það eina sem hefur breyst er að nú hafa vitleysingarnir stuðning af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, því sívinsæla framfarafélagi heimsins.


Dómur fallinn, há sektargreiðsla.

Jæja, þá er dómur fallinn í Icesave málinu. Þjóðin dæmd til að borga 750 milljarða, eða tvær og hálfa milljón á hvern landsmann. Kannski fæst einhver afsláttur af sektinni ef eitthvað fæst upp í tjónið frá tjónvaldi.

Það er ljós punktur í þessu að dómurinn felur í sér að það er hægt að pakka saman dómskerfinu í landinu og spara þar eitthvað upp í þetta. Þessi stóra sekt var allavega dæmd á þjóðina án þess að nokkuð væri farið með málið fyrir dómstólana. Það var bara dómstóll alþingis sem dæmdi. Þetta er flott réttarkerfi, sami aðilinn sem setur reglurnar, ákveður hverjir eru glæpamennirnir og hver glæpurinn er og fellir svo dóm án þess að nokkur hinna dæmdu sé leiddur fyrir dóminn til að verja sig.

Og svo skilst manni að það geti enginn áfrýjað nema sá sem felldi dóminn.

Mikið vildi ég óska að við hefðum jafn gott stjórnarfar og t.d. Nígería. Ég held við ættum að leita okkur ráðgjafar þar ef okkur langar að taka á þessum málum af einhverju viti.

Með þessum dómi eru heildarsektargreiðslur dæmdar á þjóðina af alþingi orðnar um 2.350 milljarðar eða yfir 7,5 milljónir á hvern landsmann.

Er nú ekki kominn tími til að viðurkenna að það hafi verið framdir einhverjir glæpir í þessu bulli öllu saman?


Project Ice rice group.

Nú þegar loksins er að ljúka öllu bullinu um Ice save samninginn með þeirri vitlausu ákvörðun að skrifa undir hann þá veltir maður fyrir sér hvað sé næsta skref í framtíð þjóðarinnar þegar búið er að ráðstafa öllum framtíðarpeningum í þennan samning.

Mér dettur í hug áætlun sem við getum kallað Ice rice group.
Ice stendur auðvitað fyrir Ísland, rice getur staðið fyrir hrísgrjón, eða ris eða ræsi og jafnvel fleiri orð eða hugtök. Og þá stendur group auðvitað fyrir það hvað hægt er að túlka rice á marga vegu í þessu prógrammi.

Ice rice group projectið er sem sagt hugmynd um að hefja stórfellda hrísgrjónarækt á Íslandi. Hrísgrjón eru hollur og góður og vinsæll matur sem er á borðum í flestum löndum heims. Þess vegna er líka enginn vandi að markaðssetja þessa vöru hvar sem er í heiminum ef vel tekst með ræktun. Við höfum nóg vatn og jarðveg og jarðhita til að ylja hrísgrjónaplöntunum ef við viljum prófa þetta.

Ice ris group projectið er líka ákv. hugmyndafræði um að efla gamlar atvinnugreinar og finna nýjar sem geta búið til gjaldeyri eða sparað gjaldeyri. T.d. Íslensk einokun í stað Danskrar einokunnar eins og Jón Bjarnason vill. Það mætti sem sagt hugleiða framtíð sementsframleiðslu á Íslandi. Líka mætti aftur skoða áburðarframleiðslu á Íslandi. Þegar áburðarverksmiðjan var einkavædd var hún einfaldlega lögð niður þegar búið var að selja lagerinn sem fylgdi með í einkavæðingunni. Svo eru það skipasmíðar, þær eru kannski orðnar hagstæðar sem heimaframleiðsla núna og svona má eflaust lengi telja. Svo er auðvitað fullt af fólki og félögum með hugmyndir sem eflaust má gera margt gott úr og þarf að virkja núna þegar nóg er af fólki til nýrra starfa.

Ice rising group projectið er líka í anda þjóðfrelsisbaráttunnar og myndbands Kaupþings sem hvort tveggja blæs fólki byr í seglin, bjartsýni og baráttuhug, vonandi undir forystu framsýnna manna sem hugsa um hvað þeir geta gert fyrir þá sem kusu þá til valda í stað þess að hugsa bara um hvað þeir geta grætt á að fíflin sem búa hér skuli enn einu sinni hafa kosið þá.

Ice ræs group projectið er svo að lokum líka yfirlýsing um það að ef við ekki finnum leiðir til að bjarga okkur sjálf þá fer þjóðin öll að lokum í ræsið, í þeim skilningi allavega að hér endar þá allt í nútíma þrælahaldi erlendra stórfyrirtækja og snekkjueigenda.


Andfélagslegur félagsmálaráðherra.

Blessaður maðurinn hann Árni Páll skilur greinilega ekkert í því sem er á seiði hjá skuldurum þessa lands. Hann hefur greinilega kynnt sér hvað allskonar dópsalar og undirheimamenn eiga sameiginlegt með íslensku bönkunum. En það er einmitt að þegar þú borgar þessum aðilum af skuldum eða inn á þær, þá hækka þær, en lækka ekki og að þessir aðilar allir reyna að plokka sína kúnna endalaust. Og honum virðist líka þetta kerfi vel, því hann vill láta fólk borga eins og það getur. Hann er til í að fella niður skuldir ef þær eru alveg örugglega tapaðar hvort sem er, en annars skipta upphaflegar áætlanir og greiðsluáætlanir og greiðslugeta engu, bara að fólk sé látið borga það sem það getur. Málið er sem sagt að plokka af fólki allt sem hægt er, ég býst við að svo sé meiningin að hækka skatta líka þannig að auðvitað skiptir engu hvort greiðslubyrði lækkar eða ekki, það verða búnar til leiðir til að hirða hverja einustu krónu.

Hann fattar ekki, annaðhvort vegna heimsku eða þvermóðsku, að það sem fólk vill og á skilið er að viðskipti með peninga lúti sanngjörnum reglum og skilmálum eins og önnur viðskipti. Til þess þarf t.d. að lækka vexti þangað til þeir eru sanngjarnir. Ég held að það sé nú ekki ósanngjarnt að þeir sem fengu 1600 milljarða gefins með neyðarlögum s.l. vetur opni aðeins augun fyrir því að fleiri kunni að vera í þörf fyrir gjafir. Ég er nú samt ekki að fara fram á annað en að skuldurum verði gefnir sanngjarnir lánasamningar og að ráðherrum verði gefnar sanngjarnar gáfur til að sjá sanngjarnar lausnir.


Öl á Alþingi.

Ég held það væri ágætt að hafa á bilinu einn til þrjú hundruð sextíu og fimm daga á ári þar sem þingmenn mega vera fullir í ræðustól án þess að verða fyrir áreiti út af því. Þá tjá þeir sig kannski frá hjartanu og sýna sitt rétta andlit. Eða eins og máltækið segir. Öl er innri maður. Held að þjóðin hefði bara gott af að fá að kafa í þingmannssálirnar með þessum hætti. Og svona dagur þarf auðvitað að vera fyrir allar kosningar.

Það er líka löngu komið nóg af þessum tvískinnungshætti í sambandi við áfengi, að það þurfi helst allir að geta keypt það alls staðar, en enginn megi koma fram opinberlega eftir að hafa drukkið það. Af hverju þarf að fela sig eftir áfengisdrykkju, hvaða skömm er að drykkjuskap ef vínið er löglega keypt? Áfengissala og -drykkja er fullkomlega löglegt athæfi og ekkert athugavert þó það sjáist á fólki að það stundi þessa fullkomlega löglegu iðju.


Falleinkun á Icesave samninginn.

Heyrði áðan ágæta vísu sem lýsir vel Icesave samningnum og þeim lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum okkar sem finnst svo nauðsynlegt að gera þennan samning.

Skítlegt eðli, skítlegt geð,
skítleg orð á bleðli.
Skítlegt öðlumst, skítlegt veð,
skítleg not á seðli.

Vísan var víst ort í orðastað forseta Íslands og er u.þ.b. 50% af textanum tekinn upp úr nýyrðasmíði forsetans frá liðnum árum.


Nýtt Íslandsmet - verslum í Bónus - setjum heimsmet.

Það voru 20 ár í vor síðan Jón Ásgeir byrjaði viðskiptaferil sinn þegar fyrsta Bónusbúðin var opnuð. Síðan hefur viðskiptablokk hans blásið út eins og blaðra í bókstaflegri merkingu. Viðskiptaveldið er bara loft eða í mesta lagi froða. Lýstar kröfur í þrotabú Baugs eru 316,6 milljarðar. Eignir eru kannski einhverjar, varla þó miklar. Það jafngildir því að uppsafnað tap frá fyrsta degi hafi að jafnaði verið rúmar 40 milljónir á dag, alla daga allra 20 áranna.
Samt bara á þessari viðskiptablokk sem er kölluð Baugur. Maðurinn er svo snjall að það eru fleiri viðskiptablokkir í gangi á hans snærum. Þessi upphæð er svona eins og á þessum hluta af hans bisniess hafi tekist að tapa eða ná af einhverjum verðmætum sem svarar einu litlu einbýlishúsi á dag í 20 ár eða um 7.300 einbýlishúsum alls. Það voru 4-5 náungar settir í varðhald nýlega fyrir að svíkja út úr Íbúðalánasjóði 40 milljónir vegna tveggja íbúða með svipuðum hætti. En sá sem er búinn að krækja í 7.300 einbýlishús og lætur nú aðra borga fyrir er enn að en fær kannski ókeypis málningu á eitt húsanna í "bónus" fyrir snilldina.

En ég vil vera sanngjarn og jákvæður eins og hægt er. Þetta er ekki alslæmt. Með þessu gjaldþroti stefnir í nýtt glæsilegt Íslandsmet í tapi fyrirtækja utan fjármálageirans, en þar var Jón Ásgeir í sveit Íslands í glæsilegu heimsmeti íslensku bankahrunssveitarinnar. Með þessu nýja Íslandsmeti ætti Jón Ásgeir aftur að verða einn dáðasti sonur þjóðarinnar, búinn að setja bæði Íslandsmet og heimsmet á heimsmeistaramótinu í tapi og hengja á sig margar medalíur fyrir viðskiptamálefni sín á leið sinni að þessum einstæða árangri. Undanfarið hefur mörgum íþróttaáhugamönnum þótt mikið koma til heimsmeta Usain Bolts í 100 og 200 metra spretthlaupum. En það er ljóst að Bolt getur ekki hlaupið mikið hraðar en hann er búinn að gera. Ég hef hins vegar fulla trú á að okkar maður, Jón Ásgeir, geti bætt sín met verulega ef við styðjum hann áfram eins og hingað til.

Ég vil því hvetja almenning til að versla sem aldrei fyrr í Bónus til að afla okkar manni fjár til að fara af stað með nýtt viðskiptaplan sem gæti leitt til enn stærra tapmets en þegar er orðið. Stefnum á heimsmet í einstaklingstapi. Látum ekki kreppuna stoppa okkur, verum ekki nísk í Bónus, styðjum okkar mann til að hann nái sem lengst á sínum einstæða ferli.
Ég vil líka hvetja ríkisstjórnina og bankastjórnir og sveitarstjórnir og orkustjórnir til að styðja okkar mann. Seljum honum fyrirtæki og auðlindir fyrir lítið á góðum kjörum og styðjum hann til dáða. Gleymum því þó hann hafi einhvern tíma troðið einhverjum um tær. Allir afreksmenn þurfa á stuðningi að halda. Samfylkingin hefur um árabil sýnt Jóni Ásgeiri stuðning í verki og hefur mína þökk fyrir en nú þarf meira til. Gerum betur.

Við gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar besta
og aðeins betur ef það er það sem þarf.

Þessi söngur hefur aldrei átt betur við en núna.


Yfirbyggða reiðhjólastíga um höfuðborgarsvæðið.

Ég hef stundum furðað mig á síendurteknum hugmyndum um allskonar jarðgöng í Reykjavík fyrir bílaumferð. Það hefur verið talað um að setja Miklubraut að hluta í stokk og moka yfir, jarðgöng undir Öskjuhlíð, neðansjávargöng við Sundahöfn og etv. eitthvað fleira. Mér finnst þetta nú arfavitlaust, bílar voru hannaðir til að fara eftir yfirborði jarðar. Mengun frá þeim, eldhætta, hávaði o.fl. gerir það aldrei góðan kost að troða þeim í þúsundavís í jarðgöng og láta þá standa þar á rauðum ljósum í þéttri borgarumferð. En nóg um það.

Það er hins vegar annað sem gæti verið hagkvæmt og skynsamlegt að gera í samgöngumálum á Höfuðborgarsvæðinu. Það er að byggja sérstaka yfirbyggða reiðhjólastíga um allt svæðið og jafnvel grafa eitthvað af göngum fyrir þessa stíga líka. Það er nefnilega þannig að mannskepnan er þannig hönnuð að hún þarf skjól fyrir veðri og vindum og íslenskt veðurfar er aðal hemillinn á að íbúar hér geti nýtt sér hjólreiðar að einhverju marki og þar með talið tekið hjólreiðar upp sem samgöngumáta allan ársins hring.

Í dag eru hjólreiðar fyrst og fremst viðbót við einkabílinn sem menn geta notað sér þegar vel viðrar. Í fáum tilvikum duga reiðhjól til þess að fólk geti alveg losað sig við bílinn, jafnvel þó það fegið vildi. Það eru a.m.k. 8 mánuðir á ári sem koma í veg fyrir það, þeir heita september, október, nóvember, desember, janúar, febrúar, mars og apríl. Það sem heldur fólki frá hjólreiðum þessa mánuði eru regn, kuldi, snjór, hálka, vindur, slysahætta, ófærð og landslag.

Það væri vel athugandi að leggja net yfirbyggðra hjólastíga um allt höfuðborgarsvæðið. 150-200 km. af þessum stígum þyrfti til að mynda net sem dygði til að þessi samgöngumáti yrði þægilegur og aðgengilegur fyrir alla íbúa svæðisins allt árið. Það er auðvitað ómögulegt að spá um kostnaðinn við þetta. Opinberum aðilum er lagið að láta hlutina kosta sem mest, samanber tónlistarhúsið í Reykjavík sem upphaflega átti víst að kosta um 3 milljarða en stefnir víst í tuttugu og eitthvað núna. Ég held að það væri reyndar hægt að byggja stóran hluta af þessu hjólastíga kerfi fyrir upphæð af þessari stærðargráðu, að tuttugu og eitthvað milljörðum, þannig að þess samgöngubót myndi kannski kosta eins og garganið á höfninni.
En það er auðvelt að sjá þetta borgar sig fljótt. Eins og bílaeldsneytið og bílarekstur allur kostar í dag og mun gera í fyrirsjáanlegri framtíð yrði varla erfitt að fá góða nýtingu á þetta samgöngukerfi. Og þar með sést fljótt gjaldeyrissparnaður, malbikssparnaður, minni mengun, bætt fjárhagsstaða íbúanna, minni þörf fyrir önnur ný umferðarmannvirki o.fl. sem skilar þessu fljótt til baka. Þannig sparar þetta fljótt fyrir einstaklingana, sveitarfélögin og ríkið. Um leið skapast einhver atvinna við að byggja þetta og það verður til gjaldeyrir til að borga fyrir Icesave og ESB aðildina. Hvernig er hægt að láta svona góða hugmynd ónotaða.

Og úr hverju ætti að byggja þessa stíga. Það væri gaman að smíða þetta sem mest úr innlendu áli, það er nóg til af því, en kannski er það ekki hagkvæmt fyrir okkur, líklega of dýrt hráefni.

En nú er þessari góðu hugmynd minni hér með formlega komið á framfæri.


Það þarf ekkert að afskrifa skuldir heimila og fyrirtækja.

Það er skrýtin nálgun þegar sagt er að það þurfi að afskrifa skuldir svo heimilunum blæði ekki út og atvinnulífið fari ekki í þrot.

Með þessu orðalagi er verið að gefa það til kynna að a.m.k. helmingi heimila í landinu og langflestum fyrirtækjum og sveitarfélögum stjórni fólk sem er svo dæmalaust vitlaust að það hafi alls ekkert fjármálavit og hafi allt saman spilað rassinn úr buxunum á undanförnum árum.

Að mínu mati er verið að senda kolvitlaus skilaboð með þessari hugmyndafræði. Aðalástæðan fyrir því að allir þeir sem skulda eitthvað á annað borð eru í raun á hausnum skv. bókhaldinu er einfaldlega sú að þeir eru skikkaðir til að borga það sem lánveitandinn setur upp, hvað og hvenær sem honum sýnist á lánstímanum og óháð upphaflegum forsendum. Lánveitendur þurfa ekkert að fara eftir forsendum sem þeir sjálfir gefa við lántöku, heldur mega þeir í raun rukka það sem þeim sýnist, þegar þeim sýnist.

Þetta virkar í praxís þannig að fyrirtæki t.d. kaupir húsnæði yfir starfsemina.
Kaupverð 2004 var skulum við segja um 10 millj. Útborgun 3,5 og tekið lán 6,5 millj. á 6,5% vöxtum. til 15 ára. Forsendur við töku lánsins þegar greiðslubyrði og greiðslugeta er metin eru lánsfjárhæðin, vextirnir og að verðbólga á lánstímanum verði 2,5% á ári að jafnaði sem lánveitandi telur raunhæft markmið og lántakandi er sáttur við, enda yfirlýst verðbólgumarkmið stjórnvalda.

Fjórum og hálfi ári seinna eru vextirnir löngu komnir í 9,5% og verðbólgan búin að vera 10-20% á ári allan tímann. Mánaðarleg afborgun af láninu hefur nærri tvöfaldast þó búið sé að borga um 1/4 af láninu og eftirstöðvar eru samt orðnar nærri tvöfalt hærri en upphaflegt lán. Þetta er allt á skakk og skjön við forsendur í upphafi. En lántakandinn ber einn ábyrgð á því að bankinn hækkaði vextina um 50% og að verðbólgan hefur verið 500% hærri en verðbólgumarkmiðið sem hefur bara verið bull og skal því nauðugur viljugur borga allt sem krafist hefur verið með blekkingum og vitlausri áætlanagerð, eða missa eignina á uppboði ella.

Svo er sagt að lántakandinn sé vitleysingur og óreiðumaður þegar hann getur ekki borgað en lánveitandinn sé traust stofnun (sem reyndar er verið að endurreisa frá "ground zero" eftir að algjört tómarúm myndaðist í öllum hvelfingum í skjóli viðskiptasnillinga, sérfræðinga, bankaleyndar og mikils trausts).

Þegar maður er búinn að sjá hvernig þetta er að virka í raun og betur er rýnt í tölurnar er það augljóst að það þarf sáralítið ef nokkuð að afskrifa. Það sem þarf að gera er einfaldlega að lánveitandi verði að sýna þá ábyrgð að standa við þær forsendur sem hann sjálfur setur fram þegar samið er um lánin.

Þess vegna legg ég til að lánveitingar undanfarinna ára verði uppreiknaðar m.v. upphafleg kjör og forsendur þannig að t.d. breytilegir vextir verði afnumdir en upphaflegir vextir standi og að lántakendur greiði verðbætur að fullu upp að því verðbólgumarkmiði sem lagt hefur verið til grundvallar. Þá held ég að flestir lántakendur geti staðið við sitt, svo fremi að þeir hafi enn atvinnu, meira að segja núna í kreppunni. Og með þessu er ekki verið að mismuna neinum með flötum skuldaleiðréttingum, bara standa við upphafleg samningskjör og forsendur. Og fjármálafyrirtækjum er í leiðinni kennt að gera það líka. Ég held það sé nú nauðsynlegur þáttur í endurreisninni að kenna þeim að standa við sitt. Það er ekki nóg að gefa þeim aftur lausann tauminn og treysta því svo að þau hagi sér eins og þeim sýnist.

Og með þessu er ekki verið að láta líta svo út sem það sé verið að reisa fólk upp úr fjárhagslegum aumingjaskap, það er aðallega verið að laga siðferði í fjármálaviðskiptum, sem aftur gæti leitt til þess að það verði einhvern tíma aftur til smá traust á fjármálafyrirtækjum.


Skrítin þessi blogg um Icesave og skarpskyggni þjóðarinnar almennt.

Ég er að furða mig á hvað fólk endist til að blogga um Icesave og koma með tillögur og ábendingar og áhyggjur og ótta um að ekki sé hægt að borga þetta eða það sé verið að semja vitlaust, menntamenn í námi erlendis komi ekki aftur heim, fagmenntað fólk muni flýja land, skuldugt fólk muni flýja land, fólk sem kann tungumál muni flýja land og hér muni bráðum enginn lengur búa nema gamalmenni og aumingjar og þeir sem naga nú beinin af einkavæðingunni, lífeyrissjóðunum, heimilunum og hinu opinbera.

Auðvitað er þetta það sem gerist, sama hvað við bloggum og sama hvort við eigum yfirleitt að borga þetta eða ekki.

Það hefur enn ekkert breyst frá því einkavæðingin hófst með kvótakerfinu og húsbréfakerfi Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem tvennt var gert, helsta auðlind þjóðarinnar var einkavædd og stefnan mörkuð um allsherjar einkagræðgisvæðingu og gefið æfingaleyfi á allsherjarbrask og gervigróða. Um svipað leyti stóð þáverandi félagsmálaráðherra sem er núverandi forsætisráðherra fyrir því að færa örlög húsnæðseigenda á fáar hendur þegar hún kom á húsnæðislánakerfi þar sem bankarnir fengu sjálfdæmi um að klípa af fasteignalánum það sem þá langaði til að hirða á hverjum tíma. Síðan hafa þeir alltaf staðið með pálmann í höndunum, þökk sé frumkvæði og eftirfylgni Jóhönnu. Afföll, breytilegir vextir, dráttarvextir, vaxtavextir, okurvextir, gengismunur, gengistrygging, verðbætur, þóknanir, gjöld, kúlulán, verðtrygging, verðbólguforsendur, bónusgreiðslur, gullmatur, markaðsmisnotkun, skuldatryggingarálag, vitlaus efnahagsstjórn og upplogin óraunhæf áætlanagerð hafa síðan verið daglegt brauð sem nú hefur endanlega sogað þjóðina inn í bankasvartholið, rétt eins og stóllinn sem sogaðist að segulómtækinu í gær og situr þar nú kolfastur.

Enn hefur ekkert breyst því þjóðin vill engu breyta. Sama Jóhanna og ýtti þessu úr vör á sínum tíma ásamt fleirum er nú forsætisráðherra.
Og rétt eins og með stólinn og segulómtækið í gær, þar sem slökkva þarf á tækinu til að losa stólinn, þarf að slökkva á þessari óstjórn hér sem þjóðin kýs alltaf yfir sig möglunarlaust, þó uppskriftin sé stundum hrærð í örlítið breytilegum hlutföllum. Öðruvísi er ekki möguleiki að laga eitt né neitt.

Það er tilgangslaust að kjósa alltaf sama liðið og sama kerfið með sömu óráðsgjafana og sömu vinina og sömu sponsorana og sama forsetann og sama liðið aftur í Seðlabankann og ráða sömu spekingana og lögræðingana og hagræðingana og víxla bara stólum í öllu saman. Þetta er ennþá sami grauturinn sem við erum að éta.

Þó að gamla einkavæðingin sé hrunin og allt draslið fallið á ríkið aftur er enn verið að einkavæða. Nú er það orkugeirinn, blákalt og án þess nokkur kunni að skammast sín, enda virðist þetta ætla að renna nokkuð létt í gegn.
Ef þetta gengur fyrir sig eins og það sem á undan er gengið ættu menn að sitja sveittir við að semja um tjónið af þessu um svipað leyti og byrjað verður að feisa það að ekki verður til fyrir fyrstu afborgun af Icesave.

Þó að fjármálakerfið sé hrunið vilja ráðamenn halda verðbólgunni. Hún er keyrð upp núna með skattahækkunum og vaxtahækkunum og öðrum tiltækum aðgerðum.
Fyrir hrun var talað um að mikið erlent fjármagn í umferð, stundum kallað þensla, héldi verðbólgunni uppi. Núna er sagt að það þurfi að taka gríðarstór erlend lán á okurvöxtum til að að ná verðbólgunni niður. Þetta er mjög trúverðugt ekki satt. Í flestum löndum hins vestræna heims eru stýrivextir á bilinu 0-2% því hærri vextir munu annars dýpka kreppuna í þeim löndum, hér gildir aldeilis annað. Hagræðingarnir hér segja að stýrivextir verði að vera 10 sinnum hærri, annars verði kreppan hér miklu verri.

Ég legg til að Íslendingar hætti að haga sér eins og geitungar, að flögra alltaf í kring um sömu drottingarnar. Geitungabú eru leiðindaplága sem við virðumst hafa gert að okkar fyrirmynd í þjónkun okkar við nokkur fyrirtæki, flokka og persónur. Við flögrum í kring um þetta lið eins og geitungar helga líf sitt drottningunni og búinu. Það er ekki furða þó ekkert breytist til batnaðar.

Ef einhvern langar raunverulega til að breyta einhverju er smá möguleiki að gera það í kosningum. En til þess þarf fólk þá líklega að vera miklu meira kvalið og barið og verr hlunnfarið svo það vakni almennilega og skoði möguleikana til að kjósa eitthvað annað en sama liðið og hefur logið að þjóðinni öldum saman.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband