Er þetta "réttarkerfi" eða bara "lagabisniss"?

Þetta er nú réttarkerfið sem íslenska ríkisóstjórnin ætlar að sættast á að leggja íslenska hagsmuni undir að nokkru leyti í Icesave deilunni. En ef eitthvað er að marka þessa frétt og fleiri svipaðar undanfarið þá er varla hægt að kalla þetta réttarkerfi. Þetta virðist frekar vera einhvers konar lagabisness og þá á ég nú ekki við tónlist. Þarna virðist vera gert út á það að þeir sem eiga nóga peninga geti komið til Bretlands og höfðað mál út af hverju sem er og fengið sér dæmdar alls konar bætur og greiðslur út af öllu og engu.
Þetta er eflaust atvinnuskapandi og getur skaffað lögmönnum heilmikla vinnu en svei þeim sem halda að þetta sé almennilegt réttarkerfi.
mbl.is Meiðyrðaferðamennska í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bubble economy - Bubble recovery.

Enn eru að falla bankar í USA á sama tíma og ráðamenn þar eru að reyna af öllum mætti að kjafta sig út úr kreppunni.

Fyrir nokkrum vikum hringdi í mig maður sem starfar í Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. Í hans starfsgrein varð mikill samdráttur þegar húsnæðisbólan í USA sprakk, tugþúsundir manna misstu vinnu og fjöldi fyrirtækja lokuðu, ýmist vegna orðinna fjárhagsörðugleika eða til að forðast þá.

Nú er orðið alllangt um liðið síðan þessi bóla sprakk vestra og viðmælanda mínum fannst að ástandið væri ekkert að lagast í USA ennþá, eini munurinn væri sá hvað mikið væri talað um að hlutirnir væru að lagast. En menn sæu ekkert lagast, það væri bara talað um það. Og til vitnis um það að ekkert væri að lagast nefndi hann að atvinnuleysi væri enn að aukast, það væri enn verið að sukka með fé í fjármálafyrirtækjum með bónusgreiðslum í taprekstri, bankar væru enn að fara á hausinn, almenningur væri enn að spara við sig og væri orðinn enn áhyggjufyllri en í upphafi kreppunnar.

Við vorum sammála um að eins og áður var talað um "Bubble economy" eða loftbólu hagkerfi eins og ég held það hafi verið kallað hérlendis, þá mætti núna tala um "Bubble recovery" eða loftbólubata, þ.e. þessi umtalaði efnahagsbati væri bara plat en ekki veruleiki.


mbl.is 9 bandarískir bankar féllu í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi læra menn af þessu.

Borgarbyggð er dæmi um sveitarfélag sem átti sér mikla stórveldisdrauma. Þeir áttu sparisjóð sem óx og dafnaði um árabil og tók svo mikið vaxtarviðbragð og blés ennþá hraðar út í góðærinu þegar þeir voru svo heppnir að eiga í skúffu sinni hlutabréf í Exista. Það virtist vera góðar aukatekjur fólgnar í þessari bankastarfsemi sveitarfélagsins. Sveitarstjórnarmenn létu fara vel um sig og ákváðu að taka nokkur hundruð milljóna lán til að auka hlutafé í sparisjóðnum svo enn meira mætti græða á honum. Það þurfti að byggja menntaskóla í sveitarfélaginu, enda leikskólar, grunnskólar og háskólar á hverju strái, en enginn menntaskóli. Þar sem ljóst var að meiri gróði var tryggður með því að taka lán fyrir meira stofnfé í sparisjóðnum var ekkert verið að bíða með menntaskólaframkvæmdir. Þær voru drifnar í gang svo hægt yrði að koma sparisjóðshagnaðinum í lóg þegar hann færi að skila sér. Menntaskólinn var byggður með hraði og til að slá tvær flugur í höggi var hann allur koparsleginn að utan, þannig að menntaskólahúsið er í heild sinni stærsta bronsstytta sveitarfélagsins ásamt því að vera skólahús.

En nú eru breyttir tímar og allt skólahald í vörn í sveitarfélaginu. Ríkið ætlar að draga úr útgjöldum til menntaskóla og háskóla og sveitarfélagið er að skera niður leikskóla og grunnskóla. Sparisjóðurinn er farinn á hausinn, lán sem voru tekin til að kaupa meiri gróða hafa bara verið tómt tjón. Lán sem voru tekin til að borga fyrir byggingu menntaskólans á meðan beðið var eftir gróðanum af hinu láninu, hafa snarhækkað, byggingarkostnaður menntaskólans var auðvitað miklu meiri en átti að vera í upphafi. Sveitarfélagið er á hvínandi hausnum. Stærsta fyrirtækið í sveitarfélaginu fór á hausinn og fleiri eiga mjög erfitt. Útlitið í atvinnumálum er dökkt.

Það er ekki svo langt síðan þetta sveitarfélag varð til úr nokkrum minni sveitarfélögum sem þar áður höfðu nýlega orðið til úr fleiri enni minni sveitarfélögum. Allar þessar sameiningar áttu að skila bættri þjónustu, ódýrari og betri stjórnsýslu, lægri sköttum o.s.frv. Sveitarstjórnarmenn virðast ekki hafa borið gæfu til að nýta þessa stækkun sveitarfélagsins til hagræðis og hagkvæmiauka og annars sem lofað var, heldur hafa þeir frekar nýtt tækifærið til að svala einhverjum stórmennskufýsnum sem eru að koma þeim og íbúunum í koll núna.

Ég vil bara minna sveitarstjórnarmenn á að þeirra hlutverk er að tryggja að íbúar sveitarfélaga fái þá þjónustu sem þeim ber skv. sveitarstjórnarlögum. Allt sem er umfram það á ekki, og má í raun ekki skv. lögunum, vera til útgjalda fyrir sveitarfélögin. Það hefur lengi verið algengur ósiður að fara lítt eftir sveitarstjórnarlögum í þessu, heldur snúa út úr þeim og túlka þau eins vítt og hverjum hentar þegar kemur að því að spreða peningum í gæluverkefni og ævintýri. Vonandi fara menn nú læra eitthvað af þessu.


mbl.is Þrír skólar lagðir niður?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það væri gaman að fá fleiri sjónarmið og úttekt á strandveiðarnar.

Auðvitað finnst LÍÚ þetta vitlaust og misheppnað, enda henta strandveiðar alls ekki þeirra útgerðum.

En það væri gaman að heyra fleiri sjónarmið og kannski að fá faglega úttekt á þessu. Nokkrar spurningar sem væri öllum hollt að fá vitneskju um gætu t.d. verið.

Hver er olíunotkun á aflaeiningu?
Hvaða veiðarfæri eru notuð?
Hvernig fara þessi veiðarfæri með lífríkið neðansjávar?
Hvað skila strandveiðarnar miklum tekjum?
Hvað mörgum störfum?
Hversu hagkvæmar eru strandveiðar?
Hvað hefur verið fjárfest mikið vegna strandveiða?
Hver er skuldsetning sjávarútvegs vegna strandveiða?
Er þetta útgerðarfyrirkomulag þjóðhagslega hagkvæmt samanborið við önnur kerfi?
O.s.frv.

Og bera þetta kannski saman við útgerðarfyrirkomulag LÍÚ félaga.

Mér finnst alveg nauðsynlegt að þetta sé skoðað og reiknað út á faglegum nótum og er fyrirfram sannfærður um að strandveiðar eigi að auka á næstu árum og að þetta sé hagkvæmt útgerðarfyrirkomulag. En ég vil samt síður láta eigin sleggjudóma eða annarra ráða för um framhaldið. Fagleg úttekt á þessu öllu saman væri auðvitað bráðskynsamleg.


mbl.is Misheppnaðar strandveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðnýting, ónýting eða stofufangelsi?

Þetta er auðvitað bara ein leið til að hækka skatta, að leggja vegatolla á umferð um helstu þjóðvegi.

En það mundi bara miklu meira sparast með því að hætta bara alveg vegagerð og vegaviðhaldi, þá verða vegirnir ónýtir og þá hættir fólk líka að ferðast um þá eins og hlýtur að verða með vegatollum út um allt.

Svo væri auðvitað bara hægt að setja menn í stofufangelsi eða koma á útgöngubanni, banna þjóðinni bara að vera á ferðinni. Þessa aðferð mætti útfæra þannig að um gæti verið að ræða algjört bann, eða banna umferð á ákveðnum dögum eða setja á stofn sérstaka nefnd sem gefur ferðaleyfi. Þetta er alþekkt úr gamla Sovétinu og gekk þannig í áratugi. Og af því að almenningur mundi spara sér gríðarlegar fjárhæðir með því að vera ekkert á ferðinni má hækka tekjuskattinn um 20-30% a.m.k. og spara þar að auki fullt í útgjöldum. Já, það er örstutt í íslenska Sovétið, það lifir undir niðri í Jó Steini.


mbl.is Þjóðnýting blasir við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1-0 fyrir útrásarvíkingum.

Þetta er nú bara akkúrat það sem maður hefur verið að óttast, að það takist að þvæla og snúa þannig út úr málum að lítið verði um sakfellingar og dóma þegar málin frá sérstökum saksóknara fara fyrir dómstóla. Þetta er að vísu einkamál, en ekki opinbert mál, og frekar smátt í sniðum m.v. það sem búist er við að eigi eftir að fara í dómskerfið. En þetta leggur vissar línur. Þannig að þetta mál fór 1-0 fyrir útrásarvíkingana og þeir eru greinilega með dómgæsluna á sínu bandi.
mbl.is Skelfileg skilaboð frá Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn á síðasta snúningi.

Nú er að koma að ögurstundu fyrir ríkisstjórnina. Það er búið að segja svo mikið og lofa svo miklu að ef Alþingi gerir Steingrím og Jóhönnu að ómerkingum þá er þetta stjórnarsamstarf að sjálfsögðu búið spil. Þá má líka sjá það af þessum fréttaflutningi í Noregi að fólk utan Íslands er farið að skilja að þetta er engin ofurstjórn, heldur bara "rétt hangir á horriminni stjórn" sem enginn skynsamur maður vill treysta eitt hænufet. En hvort þau komast samt hænufet í viðbót fer að koma í ljós bráðum.
mbl.is „Hneyksli á Íslandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð skín sem sólin.

Davíð er eins og sólin, menn gleyma henni ekki, allir vilja hafa sól, hún er alltaf áberandi þegar hún skín, allt snýst í kring um hana. Allir vilja baða sig í geislum hennar. Hún veitir birtu og yl. Það er ekki auðvelt að breiða yfir hana eða fela hana eða slökkva á henni, það þýðir ekkert að vera á móti henni. Hún kemur reglulega upp. Þegar hún kemur upp sést hvað menn hafa verið að aðhafast í myrkrinu. Þó menn fái stundum nóg af henni er það bara um stundarsakir, menn sækja alltaf í sólina aftur. Það er auðvitað hægt að brenna sig á henni líka og dýr næturinnar skríða í skjól þegar hún kemur upp. En þegar sólin skín þá komast menn leiðar sinnar, skynsamir menn fara erfiðar leiðir þegar sól er á lofti því þá sjá menn fótum sínum forráð, en ekki þegar myrkur er yfir öllu. Allir valdamenn vilja vera eins og sólin, varpa birtu og yl til borgaranna. En það eru ekki margir af þessu kalíberi í stjórnmálum, allavega ekki á Íslandi.
mbl.is Treysta Davíð til að leiða landið út úr kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru 5 ár ekki nógur tími til að þvæla málum eða fyrna sakir?

Ég óttast að þessi rannsókn taki svo langan tíma að út úr henni komi aldrei neitt sem máli skiptir. Sennilega verða flestar sakir fyrndar þegar mál fara fyrir dómstóla. Allavega hafa menn nægan tíma til að finna leiðir til að þvæla málum svo að flestu verði vísað frá dómi án efnislegrar meðferðar. Þannig fór m.a. í Baugsmálunum svokölluðu, en á heimasíðu Hæstaréttar er auðvelt að skoða þróun þeirra mála fyrir dómstólum. Ég skora á menn að fara þangað inn og lesa sér til sjálfir svo menn átti sig á hvernig þetta gengur fyrir sig.

Það er sífellt hamrað á að menn séu saklausir þar til sekt er sönnuð í réttarríki eins og Íslandi. En staðreyndin er sú að margir eru líka jafn saklausir þó sekt sé sönnuð, því ef menn geta þvælt málunum nógu lengi með lagakrækjum og lögfræðingageri eru sakirnar fyrndar þegar loks tekst að sanna þær fyrir dómi eða ákærum er vísað frá þannig að þær fái aldrei efnislega meðferð. Við slíkar aðstæður eru engar refsingar dæmdar, hvorki sektir, upptaka illa fengins fjár, fangavist eða svo mikið sem smá blettur í sakavottorð.

Þar með verður nú þetta réttarríki að teljast ansi þunnt á köflum, þegar hægt er að komast hjá sakfellingum með útúrsnúningum, töfum og öðrum klækjum. Maður skyldi ætla að dómskerfið ætti frekar að dæma eftir efnislegum rökum en því hvernig menn geta þvælt málin og snúið út úr þeim.

Hinir ákærðu munu flestir skála að leikslokum við öldugjálfur á suðrænum ströndum en ekki éta súpu og brauð á Kvíabryggju spái ég. Það er frekar að það verði hinn frjálsi almenningur sem hefur ekki efni á meiru en súpu og brauði næstu áratugina.


mbl.is Rannsókn á bankahruni í 5 ár?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er nú líklega ástæðan fyrir því hvaða leiðir eru valdar hér til að koma okkur dýpra í kreppunni.

Ég hef svo sem sagt það áður hér á blogginu að ég óttast að þessar endalausu undirskriftir undir óráðssamninga og endalausir vinargreiðar ríkisstjórnarinnar við útrásarliðið sé allt vísvitandi til að koma Íslandi í svo afleita stöðu að hægt verði að kjafta þjóðina inn á að aulast inn í Evrópusambandið. Meira að segja Samfylkingin og Össur virðast hafa áttað sig á að þessa þjóð langar ekkert þangað inn og á ekkert erindi þangað inn þannig að eina leiðin til að troða okkur inn er að koma okkur í svo vonda stöðu að við hreinlega gefumst upp og játum hvað sem er eins og fangarnir í Guantanamo.

Mér finnst það auðvitað ekki mikil hollusta við land og þjóð þegar stjórnmálaflokkur getur staðið í svona bolabrögðum til að koma þjóð sinni í svona bandalag þegar hún er í svona stöðu eins og við erum nú. Þetta er eins og versta heimilisofbeldi, það er ekki verið að berja á öðrum þjóðum heldur sinni eigin þjóð. Þetta er ótrúlegt lið sem Íslendingar hafa kosið til valda fyrir sig.


mbl.is Á methraða inn í ESB?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er því miður raunsætt mat.

Ég tek undir þessa skoðun prófessors Galbraith. Við getum aldrei borgað skuldir af þessari stærðargráðu. Eins og ég hef upplýst um áður hér í mínu bloggi þá t.d. eru útborguð laun á Íslandi ekki nema um 374 milljarðar á ári. En skuldirnar eru allavega á milli 3-4 þúsund milljarðar, jafnvel eitthvað á fimmta þúsund milljarðar eða ca. 8-13 sinnum hærri en útborguð laun í landinu alls á ári. Þannig að þó allir landsmenn afsöluðu sér launum sínum til ríkissjóðs, þá dygði það ekki til að standa undir vöxtum af þessu ásamt fjárlagahallanum sem líka á að stoppa, hvað þá að borga eitthvað niður. Og meira er varla hægt að borga en að borga allt sem menn afla, hvað er hægt að borga meira? Og nú er fyrirséð að það dugir ekki til. Það er því tilgangslaust að taka þessar skuldir á sig, það er bara verið að velta vandanum á undan sér með því og velta honum á næstu kynslóð eða þangað til einhver maður með viti sest hér við stjórnvölinn og tekur á þessu. Eða þangað til mest öll þjóðin verður flúin úr landi og enginn eftir til að borga þetta.

Ekki á ég samt von á að viðsemjendur okkar fatti þetta ekki, þannig að fyrir þeim vakir væntanlega að taka ríkisfyrirtæki upp í skuldirnar eins og þeim mun verða heimilt skv. fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar, og hirða af okkur fiskimið og orkulindirnar sem við höfum í jarðvarma og fallvötnum og olíulindir ef þær finnast einhverjar nýtilegar. Verði kröfuharkan sú sama áfram og verið hefur undanfarið hjá viðsemjendum okkar er ballið ekkert að verða búið ennþá.


mbl.is „Skrípaleikur“ að leggja á slíka byrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misvægi í verðþróun, hvað verður um peningana?

Þessi þróun í Frakklandi, að verðið sem bændur fá fyrir afurðirnar stendur nánast í stað á sama tíma og það hefur hækkað um 20% til neytenda er keimlík því sem orðið hefur víða annars staðar, m.a. á Íslandi.

Mér sýnist að hjá okkur sé verslunin búin að taka í sinn vasa bæði aukna álagningu sem kemur fram í að verðþróun í verslunum til neytenda er allt önnur en til framleiðenda og svo sýnist mér í fljótu bragði að virðisaukaskattslækkunin á matvöru sé líka öll gengin til baka í formi hærri álagningar í matvöruverslunum.

Af hverju gerist þetta? Hlýtur að vera fákeppni, hvernig ætli Bónusfeðgar skýri þetta ef þeir yrðu spurðir? Af hverju eru þeir ekki spurðir?
Af hverju er ekkert gert í þessu? Eiga ekki bæði framleiðendur og neytendur rétt á að milliliðurinn á milli þeirra, smásöluverslunin fái það aðhald að verðmyndum verði eðlileg? Af hverju er ekki svo. Er það ekki fákeppnin og hagsmunatengslin við stjórnmálamenn, gjaldþrota banka, útrásina o.fl.? Ég býst við því. Þarna er verið að mjólka almenning til að fá pening upp í hrunið.


mbl.is Sarkozy veitir bændum 1,65 milljarða evra aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, þetta er röng fullyrðing og rangtúlkaður misskilningur.

Breyttur hagvaxtarfyrirvari getur ekkert valdið hærri greiðslum í sjálfu sér. En hann getur valdið því að við verðum krafin um hærri greiðslur á hverjum gjalddaga.

Hins vegar er sjénslaust að hægt verði að borga nokkuð af þessu nema með nýjum lántökum aftur og enn. Þess vegna eru það einungis nýjar lántökur þegar kemur að afborgunum sem geta valdið hærri greiðslum. Það verður fróðlegt að sjá hvort menn verða ennþá sólgnir í ný lán þegar að gjalddögunum kemur.


mbl.is Breyttur hagvaxtarfyrirvari getur valdið hærri greiðslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um heimilisaðstoðarfrumvarpið sem er nýorðið að lögum.

Eftir að hlusta á umfjöllun um þetta frumvarp sem er nýorðið að lögum virðist mér það hafa yfir sér þann blæ að vera hannað til að ríkisbankarnir geti sparað sér lögfræðikostnaðinn þegar þeir hirða eignir fólks af því. Þessi "aðstoð" felst í því að skuldir verða afskrifaðar, nema skuldir vegna hóflegrar íbúðar og hóflegs bíls, og allar aðrar eignir en hóflega íbúðin og hóflegur bíll ganga á móti afskrifuðum skuldum til bankans. Þetta virðist nú aðallega vera gert til þess að bankarnir geti afgreitt málin einhliða og eins og þeir vilja með hóflegum kostnaði og hóflegri fyrirhöfn þannig að menn geti líka bara viðhaft hófleg mótmæli á meðan þetta gengur yfir. Ætli menn verði svo ekki bara að búa í hesthúsum og ferðast á hestum á eftir. Þá verður svo hóflegt hjá fólki með alla þessa gömlu góðu hófa og hóflega hófaskelli.

Hvaða vesen er á þessu liði, aðilum vinnumarkaðarins?

Af hverju ætti stöðugleikasáttmálinn að vera í uppnámi? Er það af því að ekkert af því sem var samið um hefur staðist? Ef svo er þá er það eðlilegt. Ríkisóstjórnin ræður engu, hvorki sjálfri sér eða landsmálum. Það er AGS sem ræður hér ferðinni, allavega um stýrivexti, gengismál, erlendar skuldir, gjaldeyrishöft, skattahækkanir, launalækkanir og annan niðurskurð. Þessi sáttmáli er því auðvitað ólöglegur, því aðilar vinnumarkaðarins sömdu ekki við raunverulega valdhafa í landinu. Og þá þýðir ekkert að vera að röfla núna og þykjast hissa á að viðsemjandinn standi ekki við sitt. Menn geta bara sjálfum sér um kennt, að semja við umboðslausar undirtyllur. Ég segi umboðslausar undirtyllur, því ríkisóstjórnin hefur bara umboð frá þjóðinni til að fara eftir fyrirskipunum AGS. Og svo skiptir heldur engu þó samningnum verði sagt upp eða boðað til verkfalla. AGS mun koma og siða ykkur til eins og þarf svo að þeir fái borgað, þeir hirða allt kjötið af beinunum en aðilar vinnumarkaðarins geta svo gelt eins og hundar og slegist um beinin.

Á einfaldara máli þýðir þetta að AGS, með skilaboðum í gegn um ríkisóstjórnina, mun upplýsa aðila vinnumarkaðarins fljótlega um hve mikið þarf að lækka launin og hækka skattana, svo þurfið þið að koma ykkur saman um hvernig verður farið að því.

En svo er líka spurning um hvort nokkuð þarf að segja þessum stöðugleikasáttmála upp. Hér ríkir stöðugur óstöðugleiki og er það ekki stöðugleiki í sjálfu sér? Stöðugleiki er væntanlega rauði þráðurinn í stöðugleikasáttmálanum. Verið nú jákvæð og horfið á björtu hliðarnar á þessu þó fáar séu!


mbl.is Stöðugleikasáttmálinn í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband