Nokkrir góðir punktar, kannski fróðlegt að lesa bókina.
6.12.2009 | 15:39
Mér fannst vera góðir punktar í þessu viðtali við Roger Boyes. Sérstaklega það að breskur leyniþjónustumaður hafi komið hingað til að leita að uppsprettum fjármagns. Vonandi að rannsóknarnefndir og saksóknarar hafi tekið eftir þessu. Það þarf að upplýsa sannleiksgildi þessara þvottapeningasagna í eitt skipti fyrir öll svo við vitum hvar við stöndum í því efni.
En líka fannst mér vanta betri yfirsýn yfir fjárstreymi almennt í hruninu og síðustu 2-3 árin á undan. Boyes fellur í þá gryfju eins og aðrir að segja að Íslendingar geti bara sjálfum sér um kennt og Davíð Oddssyni varðandi þetta hrun. Telur þó reyndar líka að um 150 manns beri langmesta ábyrgð á því hvernig fór eftir að Davíð opnaði kerfið. En það sem vantar hjá öllum þessum hrunskrifahöfundum er að greina fjármagnsferlana. Ég held því fram fullum fetum að um 98-99% af íslensku fjármálabólunni hafi eingöngu verið bankaforkólfum og útrásarvíkingum að kenna. En um 1-2% af þessari bólu má skrifa á almenna þáttöku Íslendinga í bólunni. Það fæ ég út þannig að offjárfesting í fasteignum og tengdri mannvirkjagerð hafi verið um 100-110 milljarðar, sem er staðfest verðmæti óseldra mannvirkja á lager núna, og annað bruðl í einkaneyslu almennings, bílar, utanferðir og annar lúxus hafi á þessari öld numið 100-200 milljörðum til viðbótar. Þetta gerir samtals að hámarki um 300 milljarða sem er aðeins um 2% af þeirri bólu sem sprakk í fyrra og var af stærðargráðunni 14-17.000 milljarðar.
Þess vegna hlýtur mismunurinn, eða 98-99% að hafa farið í eitthvað annað sem bankaforkólfar og útrásarvíkingar bera einir ábyrgð á. Og þetta þarf að greina betur. Það þarf að rekja fjármagnið og það er ekki hægt að viðurkenna að þetta sé bara okkar vandamál þegar allt bendir til að um 70-80% af starfsemi bankanna hafi verið erlendis og bólan falist í því að inn í erlend útibú eða dótturfélög voru færðir peningar, teknir að láni, innlán eða dirty money. Þessi peningar svo lánaðir eigendum bankanna eða tengdum aðilum eða erlendum viðskiptavinum til einhverra "fjárfestinga" erlendis. Þessir aurar hafa yfirleitt aldrei til Íslands komið, aðeins farið um banka með íslenskri kennitölu eða undir stjórn Íslendinga án þess að hafa nokkurn tíma verið nýttir á Íslandi. Þetta er grundvallaratriði í því hvernig á að vinna úr hruninu og hver á að bera ábyrgð á hverju. Og þó það sé sárt fyrir Breta o.fl. að hafa tapað innlánum sínum í stórum fúlgum þá verða þeir bara að líta sér nær. Ef peningarnir hafa aldrei farið úr breskri lögsögu þá er engin glóra í að kúga þá út úr Íslendingum. Þó einn Breti steli af öðrum með aðstoð íslenskra glæpafélaga eða -manna þá þýðir það ekki að sá sem stolið var frá geti komið og stolið sínu tapi af íslenskum almenningi. Það má aldrei gerast, jafnvel þó við höfum svo vitlausa ríkisstjórn að hún geti fallist á það.
Boyes: Of mikil áhersla á ál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.