Óskiljanlegir viðskiptahættir símafyrirtækja.
18.11.2009 | 18:14
Ég hef oft furðað mig á því hvað gjaldskrár símafyrirtækja eru flóknar og furðulegar. Viðskiptavinir geta t.d. hringt "frítt" í hina og þessa. En þessa þjónustu þarf að kaupa. Og hvað er þá "frítt" ef þú þarft fyrst að kaupa það.
Svo eru aðrar útgáfur af þjónustunni þannig að þú hringir á mismunandi taxta eftir því hvort það er virkur dagur eða helgi eða kvöld eða nótt eða hvort símafyrirtækinu dettur í hug að hafa þjónustuna fría einhvern daginn upp úr þurru.
Alkunna er einnig að það er mjög misdýrt að hringja í síma sem eru skráðir hjá öðru símafyrirtæki en því sem þú skiptir sjálfur við, ég tala nú ekki um ef það á að hringja milli mismunandi kerfa, t.d. fastlína og farsími eða ef hringt er milli mismunandi kerfa og fyrirtækja. Þá rjúka reikningar upp. Og ef menn nota nú símann í útlöndum þá er hægt að eyða mánaðarlaunum í símakostnað á nokkrum mínútum. Og enn versnar þetta ef verið er að nota símann til að vafra um netið eða senda myndir, þá hækkar flækjustig gjaldskránna enn. Samt er það alltaf þannig að þú færð aldrei viðvörun þegar þú velur eitthvað númer eða þjónustu, um að þetta kosti t.d. x krónur mínútan. Öll þessi þjónusta er þannig óverðmerkt, þó takmarkaðir verðlistar séu kannski einhver staðar á lítt áberandi stað á vefsíðu. Það eru engar upplýsingar um hjá hvaða símafyrirtæki númerin eru sem þú ert að hringja í og því getur þú aldrei vitað fyrirfram hvaða taxta þú þarft að borga fyrir símtalið. Þetta er fáránlegt.
Það þyrfti að skikka þessi fyrirtæki til að taka upp betri viðskiptahætti, einfalda gjaldskrár og verðmerkja þjónustuna þannig að fólk geti vitað fyrirfram hvað það kostar að hringja í tiltekið númer eða nota ákveðna þjónustu. Símafyrirtæki eru alveg aðhaldslaus fyrirbæri í dag. Verst er að markaðssetningin gengur mikið út á að plokka fé af börnum og unglingum sem fá smá útrás fyrir tækjadellu með því að eiga og nota flottan farsíma.
Alflottast væri auðvitað ef þessi fyrirtæki hefðu sjálf manndóm í sér til að stunda sanngjörn viðskipti með eðlilegum viðskiptaháttum. En þetta eru nú allt fyrirtæki tengd útrásinni, hlekkur í þeirri keðju sem skrapar botninn í sparibaukum barnanna og annarra landsmanna. Þannig að það er kannski bið á breytingum þarna.
Vefsíðum lokað vegna hringitónasvindls | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gæti ekki verið meira sammála þér með þetta. Er alveg búin að fá upp í kok af þessari þjónustu. Svo getur maður ekki einu sinni valið um neitt því það er sama flækjan hjá þeim öllum. Er búin að prófa bæði símann og vodafone og það er ekki nokkur munur á lélegri þjónustu hjá þeim, alveg skelfileg bæði tvö.
(IP-tala skráð) 19.11.2009 kl. 11:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.