Raunverulegar hagstærðir - Ríkissjóður er gjaldþrota skv. meðf. útreikningum.

Það er mikið talað um hvernig Íslendingar geti borgað Icesave og allt hitt sem ríkisóstjórnin er að skrifa undir fyrir vini sína í útrásinni og bönkunum.

Þegar skuldabagginn stækkar er þolmörkum stöðugt breytt.
T.d. var fyrir nærri ári síðan talið að skuldaþol ríkisins gæti numið um 160% af landsframleiðslu, svo hækkaði þetta viðmið í um 200% og síðan í um 240% og nú stefnir í að skuldirnar stefni í yfir 300% af landsframleiðslu og enn er skuldaþolinu breytt þannig að þetta verði í lagi, allt til að menn haldi áfram að skrifa undir.

Nú er það líka svo að landsframleiðslan, hvort sem hún er verg, eða ekki, er hugtak sem oft er notað, en fáir vita almennilega hvað er, þetta er sem sagt frekar loðið hugtak og flestir geta sætt sig við þessar tölur af því þeir skilja hvort sem er ekki hvað þær þýða.

Þess vegna ætla ég að reyna að skýra betur skuldabaggann og setja hann í samhengi við auðskiljanlegar hagstærðir.

Skv. umræðunni undanfarið virðast skuldir og skuldbindingar ríkisins stefna í a.m.k. þrjú þúsund milljarða króna og kannski nær 4 þúsund eða jafnvel enn meira. Þetta fer aðallega eftir því hvenær víxileyðublöðin verða búin og ekki hægt að skrifa undir meira.

En allavega 3 þúsund milljarðar, það er varlega áætlað.

Svo má bera þetta saman við öll útborguð laun í landinu. Skv. upplýsingum Vinnumálastofnunar eru nú 155644 einstaklingar á vinnumarkið á Íslandi með vinnu. Skv. lauslegri athugun á netinu virðast útborguð meðallaun vera eitthvað um eða rétt yfir 200 þús. kr. á mánuði eða um 2,4 milljónir á ári.

Sé þetta margfaldað saman má sjá að greidd heildarlaun í landinu eru um 374 milljarðar á ári. Og þetta er það sem hægt er að taka af fólki með skattahækkunum. Meira er ekki hægt að taka, og nóta bene, þá er líka ekki verið að tala um að borga út nein laun. Ef bara væru tekin 50% af útborguðum launum, þá væru það um 187 milljarðar, sem dugir ekki einu sinni til að loka fjárlagagatinu, hvað þá til að borga meiri vexti og afborganir af Icesave og öðrum víxlum sem er verið að fjölfalda um þessar mundir.

Skuldir ríkisins eru sem sagt a.m.k. 8 sinnum meiri en landsmenn fá útborgað í vasa sína á ári.

Og eins og ég sagði er ekki hægt að ná meiru inn. Það þýðir ekki að skattleggja gjaldþrota fyrirtæki, og það virðist ekki vera vilji til að sækja neitt til landflótta bankaræningja. Staðan er því vonlaus og hvað sem öllum fullyrðingum hagfræðinga og stjórnmálamanna líður þá er ríkissjóður nú þegar gjaldþrota. Þessa staðreynd þarf að viðurkenna og hætta að óska sér annars, því þetta er veruleikinn. Þegar öll verðmætasköpun landsins dugir ekki, þó allir vinnandi menn afsöluðu sér öllum launum sínum til ríkissjóðs og það dugir ekki til að standa undir víxlafylleríinu, þá er ríkissjóður gjaldþrota.

Og þetta er staðan nú þegar. Ríkið er gjaldþrota. Það getur aldrei borgað allt sem búið er að skrifa undir. 2007 bankahagfræðin og AGS hafa tekið völdin af ríkisstjórninni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband