Hafa hinir seku ekki nóga forgjöf?

Það kemur úr hörðustu átt að hópur lögmanna sem nú treður út vasana af illa fengnu fé þeirra manna sem þeir verja og eru sumir nú þegar dæmdir glæpamenn, skuli segja mönnum að hafa hægt um sig og hætta að pönkast á skjólstæðingum sínum.

Forgjöf skjólstæðinga þessara lögmanna er mikil á almenning sem sækir á um, í gegn um embætti sérstaks saksóknara, að þeir standi skil gjörða sinna og skili ránsfeng úr nokkrum af stærstu bankaránum síðari tíma.

Er ekki nóg að menn hafi yfir hundruðum milljóna eða milljörðum af illa fengnu fé að ráða til að verja sig og búi þar að auki við þá einstöku og fáránlegu löggjöf sem er á Íslandi að vart má snerta við illa fengnu fé þessara manna þó fyrir liggi svo sterkar sannanir um ólöglega öflun fjárins að enginn vafi leiki á um kaldrifjaðar og útsmognar vel skipulagðar aðgerðir til að komast yfir sem mest fé á sem stystum tíma með svikum, prettum, lagaklækjum og alls konar flækjum undir huliðshjúp bankaleyndar.

Nú vilja lögmenn að menn hætti að tala um skjólstæðinga sína á opinberum vettvangi. Þessir sakleysingjar þola ekki að sannleikurinn um þá komi fram. Sjálfsagt gæti það komið þeim vel fyrir dómi að úti í þjóðfélaginu væri enginn að fjalla um mál þeirra, þá myndu dómarar álíta sem svo að afbrotin þættu ekki merkileg og dæma skv. því. En það er ekki skoðun fólks, áhyggjuefni flestra er fremur að refsiramminn sé allt of lítill og að menn haldi ávinningi af brotum að miklu leyti.

Það sem þarf að tala um í þessu sambandi er hvort ekki eigi að finna ráð til að ná öllu þýfinu til baka, bæði af þeim sem sáu til þess að bankarnir voru tæmdir og af þeim sem nú njóta þess að taka við því frá bankaræningjunum. Er það sanngjarnt eða eðlilegt að menn geti keypt sér endalausar varnir fyrir dómstólum fyrir illa fengið fé?

Það var ekki efnilegt þegar dómur var upp kveðinn í héraðsdómi um daginn í skattamáli Baugs. Í dómnum mátti sjá að dómarinn vildi dæma Jón Ásgeir og félaga í harða refsingu fyrir brot sín. Hann treysti sér hins vegar ekki til þess þar sem lögmenn voru búnir að tefja og þvæla málið árum saman. Dómarinn virtist öskufúll yfir að málið var eyðilagt með þessum hætti. Þarf ekki að loka þessari undankomuleið sakamanna frá réttlátum dómum? Er það forherðing brotamannsins eða beiðni um betri lögmann að eftir að dómur er kveðinn upp kemur Jón Ásgeir fram og segir að það megi aldrei aftur fara eins með nokkrun mann eins og farið var með hann í þessu máli? Ég er sumpartinn sammála honum. Þetta á bæði að ganga hraðar og það á ekkert að láta menn eins og hann sleppa þegar þeir eru borðleggjandi sekir, bara af því þeir hafa stolið nógu miklu til að geta haldið úti lögmönnum til að tefja málin og þvæla í hið óendanlega.
Meira að segja brotamenn eins og Jón Ásgeir eru ekki ánægðir með varnir sínar. Eigum við ekki að láta það eftir honum að breyta kerfinu þannig að mál geti ekki verið svona lengi að tefjast vegna lagaklækja?

Við ættum að fá í Kastljósið umfjöllun um þetta, hvernig stórglæpamenn nota illa fengið fé til að kaupa sér varnir og komast undan dómum þó þeir séu sekir. Kastljósið ætti að fjalla aðeins um þetta og hvernig illa fengið fé endar að stórum hluta í vasa lögmanna á kostnað almennings. Það ætti líka að fjalla um hvernig má eyðileggja mál með lagaklækjum og töfum og koma þannig í veg fyrir að menn séu dæmdir til eðlilegra refsinga fyrir brot sín. Það mætti fjalla um hvort það er löglegt og siðferðilega rétt að lögmenn komist upp með slíka dómasniðgöngu fyrir skjólstæðinga sína? Er hægt að stefna lögmönnum fyrir að eyðileggja mál? Menn eru dæmdir fyrir þær sakir að spilla sönnunargögnum og bera ljúgvitni, af hverju er það látið óátalið þegar lögmenn spilla dómsuppkvaðningu? Eigum við ekki að fá umræðu um þessa hluti líka? Það vantar alveg pressu á lögmannastéttina.


mbl.is Segja mál að linni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Það eina sem þessir lögmenn eru að segja að þessir aðilar eiga sama rétt og aðrir. Kannski eru skjólstæðingar þessara lögmenn óttaleg skítseiði, ég veit það ekki, en þeir eiga samt ákveðinn rétt.

Fjölmiðlamenn eru þeir síðustu sem eiga að koma nálægt þessum málum enda eru þeir upp til hópa einstaklega slappir. Eru menn annars almennt búnir að gleyma þeim pílum sem rannsóknarnefnd alþingis skaut að fjölmiðlamönnum? Hvernig stóðu fjölmiðlar sig á árunum fyrir hrun?

Þú talar um það að skoða ætti hvernig þessir menn noti illa fengið fé til að kaupa sér varnir og komast undan dómum. Í fyrsta lagi gefur þú þér að þeir greiði með illa fengnu fé. Er sú raunin í tilviki allra þessara manna? Í öðru lagi eru að gefa í skyn að hérlendis ríki tvenns konar réttlæti.

Vel má vera að dómarar hérlendis séu slappir en það er önnur umræða. Sérstakur saksóknari verður að skora sín stig í dómssölum en ekki í fjölmiðlum.

Helgi (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 15:34

2 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Helgi.

Já, ég er fullviss um að menn eru að greiða með illa fengnu fé og að þeir eru beinlínis að nota það til að koma sér undan dómum. Saklausir menn þurfa ekki öfluga og dýra lögmenn til að verja sig, eða hvað? Varla ertu að gefa í skyn að réttarkerfið á Íslandi sé þannig að saklausir menn fái dóma kaupi þeir ekki lögmenn til að verja sig?

Við verðum að átta okkur á að þegar saksóknarar ákæra menn þá er það vegna þess að þeir telja þá seka um afbrot. Það er ekki vegna þess að þeir séu bara að reyna að hafa eitthvað fyrir stafni. Svo fara málin fyrir dóm og dómarar dæma í þeim. Dómarinn er oftar en ekki að finna út hvort hægt sé, út frá sókn og vörn og þróun málsins og tíma sem það tekur, að dæma mönnum refsingar. Málin snúast ekki alltaf um að sanna sekt eða sýknu, heldur einfaldlega um að þvæla málin til að koma sekum mönnum undan dómum og refsingum eða finna einhverjar málsbætur til refsilækkunar.

Ég er ekkert að gefa í skyn að hérlendis ríki tvenns konar réttlæti úr því þú nefnir það. Ég fullyrði að hér ríkir allavega tvenns konar, ef ekki fjölbreyttara, réttlæti. Þú getur alveg verið viss um að hér eru ekki ein lög fyrir alla eða sams konar réttlæti fyrir alla brotaflokka.

Peningar sem menn hafa yfir að ráða skipta að sjálfsögðu mestu um hvaða réttlætis menn njóta. Peningalausir sakamenn njóta ekki sama réttlætis og þeir sem hafa úr digrum sjóðum að spila. Þetta virkar þannig að lögmaður sem tekur mál þitt (vörn) að sér tekur greiðslu fyrir. Ef þú getur bara borgað honum 100 þús. kall þá getur hann gruflað í málinu fyrir þig í 4-5 tíma. Ef þú átt 100 milljónir handa honum getur hann gruflað í málinu fyrir þig í 4-5000 tíma. Eftir því sem þú ert sekari þarftu fleiri lögmannstíma til að koma þér undan því að fá dóm. Þannig virkar þetta nú.

Ef þú ert hins vegar saklaus þarftu ekkert á lögmanni að halda nema einhver sé að reyna að klína á þig sök og þú þurfir aðstoð við að fletta ofan af því.

Það er mikil mótsögn falin í því þegar menn segjast vera saklausir af einhverju og þurfa samt að ráða sér lögmenn með ærnum tilkostnaði til að sýna fram á sakleysið. Saklausir menn eru menn sem hafa ekkert gert af sér sem gefur tilefni til að saksóknarar ákæri þá.

Ég er sammála þér um að fjölmiðlarnir eru slappir og mér finnst líka óþarfi að Sérstakur saksóknari sé að leka í fjölmiðla. Hins vegar er ekkert að því að málin séu uppi á borðum. Hann ætti frekar að en að leka málum að gefa út fréttatilkynningar um hvað er að gerast í málunum.

Lögmennirnir segja að þessir menn eigi að hafa sama rétt og aðrir. Mér finnst þeir nú hafa það og gott betur. Þeir hafa það umfram aðra að hafa nóga peninga til að kaupa sér varnir langt umfram það sem aðrir geta. Þar á meðal þeir sem hafa orðið fyrir ómældu fjártjóni af völdum þessara manna.

Ég gæti skilið það að lögmenn eða aðrir væru að biðja þessum mönnum vægðar á einhvern hátt ef tilefni væri til þess. En það hefur enginn bankamaður eða útrásarvíkingur gengið fram fyrir skjöldu og lagt spilin á borðið, hvað þá skilað neinu af því fé sem hvarf í umsjón þeirra. Einn eða tveir segjast hafa gert einhver mistök og vera sorry yfir því en gerir ekkert til að bæta fyrir mistökin. Þetta fólk er allt samtaka í forherðingunni, neitar öllum sökum og ábyrgð og þekkir ekki auðmýkt. Kannski það skýri nú eitthvað hörð viðbrögð og illt umtal um það. Fólk kallar þetta sjálft yfir sig og sína.

Jón Pétur Líndal, 20.12.2011 kl. 16:44

3 identicon

Níu hrl-ar á sama aldri.

Nú er einhver aldinn kennarinn þeirra, að lesa þetta og minnist nú yfir kókóbolla og flísteppi (frá Kaupþingi gamla) fjörugra kennslustunda á 4. ári. Já, þá var margt skrafað. Þetta hefur verið á áttunda eða níunda áratugnum. "Þeir voru svona og svona þessir strákar, en ég vissi að þeir yrðu nú allir hrl-ar," hugsar sá gamli og fær sér sopa af kókóinu og dregur Kaupþingsteppið upp að höku.

Brandur (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband