#6791 - Hátíðahöld í Háskólanum í dag, þrátt fyrir að eigandinn sé að fara á hausinn.
11.11.2010 | 09:19
Kl. 17.00 í dag á að leggja hornstein í nýbyggingu Háskólans í Reykjavík við hátíðlega athöfn, sama dag og fréttir eru fluttar af því að eigandi háskólabyggingarinnar, eignarhaldsfélagið Fasteign, hafi sagt upp öllum starfsmönnum vegna fjárhagsvandræða. Á sama tíma hefur HR mistekist að ná samkomulagi við Háskólann á Bifröst um hagræðingu sem þó er báðum skólunum lífsnauðsynleg. Eru hátíðahöld í dag viðeigandi?
Það er ljóst að mikill vandi steðjar að eignarhaldsfélaginu Fasteign, það mun annað hvort fara í þrot eða eigendur þess koma því til bjargar með einhvers konar fjárhagsaðstoð, hvernig sem farið verður að því nú þegar allir eigendurnir hafa við ærinn vanda að glíma nú þegar.
Í gær heyrði ég að Landsvirkjun fái ekki enn lán vegna Búðarhálsvirkjunar. Það er ljóst að kreppan er enn að versna á sumum sviðum, a.m.k. hjá félögum og fólki í fasteignarekstri og mannvirkjagerð. Þau glíma við vaxandi skuldir og verkefnaleysi. Það er spurning hvort tekst að klára Hörpuna næsta vor eins og stefnt er að, eða hvort kreppan kemur meira þar við sögu.
Þessar fréttir af uppsögnum og fjárhagsvandræðum sem enn berast flesta daga eru þvert á fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um að botni kreppunnar sé náð og hagkerfið á vendipunkti eða kreppunni lokið. Ofan á allt þetta bætist svo að niðurskurður ríkisins sjálfs er varla byrjaður ennþá, hann kemur fyrst til sögunnar að ráði á næsta ári. Verður það þá fyrsta uppgangsárið eftir kreppu?
Það er eitthvað í þessu öllu sem gengur ekki upp. Það er einhver að ljúga þegar því er haldið fram að kreppu sé lokið á sama tíma og staða fyrirtækja versnar stöðugt, fleiri missa atvinnu og ríkið þarf að skera meira niður.
Á að setja skýrari reglur um upplýsingaskyldu og sannleiksgildi opinberra upplýsinga í stjórnarskrá?
Þeir sem hafa skoðun á því eru beðnir um að setja hana inn á:
www.austurvollur.is/lindal
www.almannathing.is
Starfsfólki Fasteignar sagt upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.