Þarf þá að rífa blokkirnar á Bifröst og stækka bílastæðin við HR?
6.11.2010 | 20:35
Verða þessir skólar sameinaðir eða ekki, það er spurningin. Og hún er borin upp vegna þess að þá vantar báða peninga í reksturinn. Þannig á að finna hagkvæmni og spara einhver útgjöld með sameiningu skólanna.
En ef meginkennslan úr báðum flyst inn í HR og einungis verða stutt námskeið á Bifröst þá er augljóst að það verður að stækka bílastæðin við HR verulega, því þau duga skólanum naumlega eins og nú er, þó nýbyggð séu og með allra stærstu bílastæðum landsins. Að sama skapi verður sjálfsagt ódýrast fyrir sameinaðan skóla að rífa nýlegar blokkir á Bifröst svo ekki þurfa að greiða rekstur á þeim áfram. Sennilega mun það spara stórfé að rífa blokkirnar jafnvel þó haldið verði áfram að borga af þeim lánin vegna byggingar þeirra. Svo verður hægt að loka leikskóla, skera niður grunnskóla o.fl. í Borgarfirði.
Annað kyndugt er að nemendur á Bifröst nota einkabíla líklega mun minna en þeir sem stunda nám í HR. Á Bifröst búa flestir á skólasvæðinu og labba í skólann. Á höfuðborgarsvæðinu búa flestir þeir sem nema við HR og keyra sinn bíl í skólann og heim aftur að kvöldi.
Þannig að helstu áhrif þess að sameina skólana verða líklega þessi:
- Meiri fjárfesting í bílastæðum og meiri umferð og mengun í Reykjavík.
- Óþarfar blokkir sem borgar sig að rífa á Bifröst.
- Betri nýting á nýbyggingu HR sem stendur að hluta ónotuð vegna peningaleysis.
- Samlegðaráhrifasparnaður í yfirstjórn skólanna.
- Efnahagskreppa í Borgarfirði.
- Þyngri umferð í Reykjavík.
Og þá er lokaspurningin bara sú hvort opinberir aðilar þurfa að bera kostnað af bílastæðum, umferðaraukningu, atvinnumissi og öðru tjóni vegna hagræðingarinnar. Og verður þá einhver hagræðing þegar upp er staðið?
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu.
Ósammála áformum um sameiningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.