Fjölmiðlar hér ábyrgðarlausir og of frjálsir.
20.10.2010 | 10:47
Ég er ekki hissa þó fjölmiðlar séu taldir hafa mikið frelsi á Íslandi. Hér komast þeir upp með afar slök vinnubrögð oftast nær. Sumir fjölmiðlar eru beinlínis áróðursmaskínur ákveðinna afla og á sumum fjölmiðlum eru ákveðnar umfjallanir yfirleitt í takt við geðþótta ráðamanna landsins.
Hér eru fjölmiðlar lítt gagnrýnir á þjóðfélagsmál hvers tíma, kjósa frekar að fljóta með straumnum og hampa þeim sem gera sig breiða á hverjum tíma frekar en að grafast fyrir menn og fyrirætlanir þeirra á gagnrýninn hátt.
Á Íslandi eru ekki finnanlegir stórir fjölmiðlar sem hægt er að segja að séu óháðir, flytji almenningi hlutlausar og vandaðar fréttir, upplýsi þjóðina um hvað er að gerast hjá henni á hverjum tíma. Því miður eru allir helstu fjölmiðlar landsins litaðir á einhvern hátt. Þess vegna m.a. héldum við flest öll að á Íslandi ríkti heimsins mesta góðæri þegar allt var flæðandi í lánsfé bankanna. Þess vegna kom hrunið okkur flestum gríðarlega á óvart. Þess vegna höldum við mörg að ríkisstjórnin sé að gera rétt núna með því að láta almenning borga skuldir óreiðumannanna í bönkunum og útrásinni. Þess vegna eru fjölmiðlar ekkert að gagnrýna það að helstu bankaræningjar landsins gangi lausir. Þvert á móti þá er frekar að fjölmiðlarnir verji bankaræningjana og taki stöðu með þeim gegn almenningi. Rétt eins og að fyrir kosningar þá hampa fjölmiðlar þeim sem þeir vilja styðja til valda í stað þess að koma jafnt á framfæri öllum sjónarmiðum og framboðum svo kjósendur geti valið hlutlaust hverja þeir kjósa til að stjórna landinu.
Er þetta það fjölmiðlaumhverfi sem við viljum? Er þetta það rétta? Höfum við gott af þessu kæruleysi og misnotkun fjölmiðlanna?
Ég held við þurfum að búa til smá umgjörð um fjölmiðlana á stjórnlagaþinginu í vetur. Þó frelsi af öllu tagi sé gott að vissu marki þá höfum við skaðbrennt okkur á allt of miklu frelsi alls staðar. Hjá fjölmiðlum, fjármálastofnunum, stjórnmálamönnum, alls staðar hafa menn misst sig í óheftu frelsi.
Þegar kýrnar koma út á vorin fagna þær frelsinu sem þær finna í náttúrunni og víðáttunni í sveitum landsins. Þær eru á veturnar bundar á bása í fjósum landsins og kunna sér ekki hóf þegar þær eru settar út á vorin, þær fagna frelsinu með mikill kæti og látum, gleyma sér alveg í gleði sinni yfir frelsinu. Ef túnin og beitarlöndin væru ekki afgirt myndu þær drepast í stórum stíl á þjóðvegum landsins, ám og vötnum eða falla fyrir björg þar sem þannig hagar til. Þær þurfa og hafa girðingar til að njóta frelsins og lifa það af.
Sama á við um landsmenn alla. Við þurfum einhver takmörk, girðingar, til að fara ekki of geyst í öllu frelsinu sem hér er. Það ættum við að vera búin að læra núna. Þessi takmörk þarf að setja í stjórnarskrána. Stjórnlagaþingið í vetur er vettvangurinn til þess.
Frelsi fjölmiðla mest hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fáranleg frétt og kemur engu við, því
hvað gagnast frelsi í fréttamennsku þegar það er svo ekki nýtt til að auka þekkingu landsmanna á raunveruleikanum, og sjónarmiðum sem eru í brennideplinum?
Hver er tilgangurinn með þessu svokallaða frelsi þegar hér á landi finnst ekki óháður fréttamiðill, óbjagaður af einhverjum einkahagsmunasamtökum. Einn stærsti gallin hér er hvernig fjölmiðlar eru blindaðir af sínu eigin þjóðerni og sjá ekki út fyrir landsteinana frekar en Ólafur Ragnar Grímsson.
Jonsi (IP-tala skráð) 20.10.2010 kl. 11:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.