Nýtt fjármálakerfi er nauðsynlegt. Vantar frumkvæði ríkisins eins og í öðrum mikilvægum málum.
5.10.2010 | 01:37
Mér líst vel á að komið verði upp betra fjármálakerfi á Íslandi. Það ætti í raun ekki að vera flókið mál, svo afleitt sem núverandi kerfi er. Ég býst við að eini vandinn við að bæta fjármálakerfið sé tregða hjá þeim sem þrífast í núverandi kerfi. Það er nefnilega ekki afleitt fyrir þá þetta kerfi sem leyfir lykilmönnum að sópa að sér fé þegar vel gengur og fá svo skuldir felldar niður þegar illa gengur. Slíkir menn koma alltaf vel út úr vondu kerfi.
En það er eitthvað mikið bogið við Ísland, eða það fjármálerfi sem hér er. Auðlindir landsins eru miklar. Við erum sjálfum okkur nóg um orku aðra en þá sem þarf til samgangna. Við erum sjálfum okkur nóg um helstu matvæli. Við erum vel menntuð. Við byggjum enn úr torfi og grjóti sem við eigum nóg af ennþá. Fyrir hvern einn íbúa landsins fáum við nærri tvo útlendinga í heimsókn til þess á árinu. Við erum dugleg. Og fyrir utan að vera sjálfum okkur nóg um marga hluti höfum við ofgnótt af þeim, þannig að við erum að flytja út sjávarafurðir og orkuafurðir auk annarrar framleiðslu og hugverka fyrir fúlgur fjár á hverju ári. Samt er hér allt í skuld og mínus. Í dag erum við þrælar fjármálastofnana.
Það eru auðvitað skuggahliðar hjá okkur líka sem skýra þessar andstæður. Ónýtir stjórnmálamenn og glæpamafíur sem stýrðu fjármálakerfinu hafa sólundað auðlegð landsins. Það er ekkert reynt til að láta glæpagengin úr bönkunum skila ránsfé sínu. Síðast í kvöld hlustaði ég eftir því hjá forsætisráðherra. Hún minntist ekkert á að neitt slíkt stæði til, ekki Steingrímur heldur. Við erum vitlaus í pólitík, kjósum sama fólkið og sömu flokkana, sama hvað oft kosningaloforðin eru svikin. Við höfum þrælslund gagnvart stjórnmálum.
Aðalmeinið í íslensku efnahagskerfi er bankarnir, fjármálakerfið sjálft. Atvinnuvegirnir búa til fullt af peningum, meira en nóg til að eiga fyrir þeim viðskiptum sem þörf er á út fyrir landið, það sést best nú þegar viðskiptajöfnuður er hagstæður svo um munar þrátt fyrir að atvinnulífið sé allt á heljarþröm og fleiri starfskraftar ónýttir en nokkru sinni fyrr.
En í fjármálakerfinu hefur þessu verið sólundað. Þar hefur verið braskað og sukkað og stolið og logið og svikið og kúlulánað út í eitt út á ekki neitt. Stjórnmálamenn hafa líka verið duglegir að leggjast á árar með fjármálakerfinu, styðja við það með ráðum og ráðleysi hvenær sem færi gefst og fé fæst fyrir. Því er nú svo komið sem komið er, fjármálakerfið hefur verið tekið fram yfir fólkið í landinu. Nú er ónýtu fjármálakerfi leyft að hrifsa til sín eignir fólks og ævistarf. Nú leggur Steingrímur á skatta til að geta dælt peningum í fjármálakerfið. Nú á að opna aðgang að auðlindum landsins svo fjármálakerfið geti líka hrifsað þær til sín. Hvað gerðu Íslendingar af sér til að verðskulda þetta? Ekki neitt, þeir einkavæddu fjármálakerfið. Það er því landsmönnum óviðkomandi ef það er ekki sjálfbært. Það er ekkert sem skikkar Steingrím og Jóhönnu til að standa vörð um þetta kerfi. Nema IMF/AGS sem virðist hafa einhver hreðjatök á þeim báðum.
En fyrir utan þetta sem að ofan er talið er einn hlutur sem er grundvallar hugsanafeill á Íslandi, sem er að kosta okkur of fjár og á eftir að koma okkur enn frekar í koll eftirleiðis en hingað til. Það er að við skulum á hverjum degi vera að flytja inn vörur sem við getum framleitt hér. Vitlaus gengisskráning til margra ára hefur að sjálfsögðu ýtt undir þess vitleysu. En þetta er sérstaklega slæmt vegna þess hve flutningar eru orðnir dýrir og vegna þess hve neikvæð umhverfisáhrif eru af þeim í formi loftmengunar og gróðurhúsaáhrifa. Oft á tíðum erum við jafnvel að flytja út hrávöru sem síðan er framleitt úr erlendis og afurðin eða aðrar sambærilegar síðan aftur fluttar til Íslands. Næst á eftir óráðsíu í fjármálakerfinu þarf að taka á flutningabruðlinu, þ.e. hvað varðar einkageirann í landinu. Auðvitað má ekki gleyma öllu óhagræðinu í yfirbyggingu landsins, stjórnkerfinu, eftirlitsstofnunum, menntakerfinu o.s.frv. En það verður sjálfsagt ekki gert nema landsmenn stofni einhver grasrótarsamtök sem koma með nýjar hugmyndir, rétt eins og nú er að gerast með fjármálakerfið. Eins og InDefense gerði með Icesave, eins og Hagsmunasamtök heimilanna eru að vinna að réttlátum viðskiptum með neytendalán. Ríkisstjórnin og Alþingi hafa ekkert haft til málanna að leggja nema ESB og AGS. Það koma engar hugmyndir eða lausnir þaðan fyrir íbúa landsins. Bara fyrir stjórnmálamenn og fjármálakerfið.
Ég fór og hlustaði á Jón Þór á fundinum í vor þar sem hann viðraði hugmyndir um nýtt fjármálakerfi. Það var fróðlegt erindi en ekki fullhannað kerfi sem þar var rætt um. En góð byrjun og vonandi verða það áhugaverðar hugmyndir sem verða kynntar um þetta á morgun.
Vilja nýtt fjármálakerfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk fyrir góðan pistil.
Guðmundur Ásgeirsson, 5.10.2010 kl. 02:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.