Lengsta og lélegasta - bara eitt gott við þetta þing.

Þetta var lengsta þingið hingað til segir tölfræðin og klukkan. Mér sýnist það líka hafa verið það lélegasta, því miðað við verkefnin og hvernig skautað hefur verið fram hjá því að leysa úr þeim, a.m.k. þeim verkefnum sem snúa að bankaræningjum og almenningi, hefur varla verið hægt að gera verr.

Það sem upp úr stendur er auðvitað að þinginu lauk með því að meirihluti þingmanna tók sig saman um að reyna að koma fyrrverandi forsætisráðherra einum manna í tugthúsið fyrir að standa sig illa í að stýra landinu og Samfylkingunni í forsætisráðherratíð sinni.

Ég tel reyndar engar líkur á að Geir verði sakfelldur, enda kveðst hann ætla að verja sig í málinu og hann virðist alveg fullfær um það.

En það eina góða á þinginu langa og lélega verður sennilega þegar upp er staðið þessi endemis vitleysa, að reyna að koma Geir í grjótið. Það uppátæki veldur því að nú eru reistar víggirðingar milli flokkanna sem sitja á þingi. Persónuleg andúð þingmanna á hvorum öðrum út af þessu máli á eftir að sitja í mörgum þeirra og valda margvíslegum erfiðleikum í pólitíkinni og samstarfi flokkanna í framtíðinni. Alþingi verður bara enn vitlausara hér eftir en hingað til.
Það getur ef vel tekst til orðið stórt skref í þá átt að brjóta upp þetta úrelta fyrirkomulag sem hér er við lýði. Þetta getur orðið skref í átt að beinu lýðræði, meiri áhrifum landsmanna á störf þingsins. Slíkt getur beinlínis orðið óumflýjanlegt ef þjóðin vill ná einhverjum tökum á stjórn landsins. Nú velta þingmenn sér upp úr pólitískri drullu í skotgröfum alþingis á meðan hræætur halda áfram að ræna landið í friði fyrir stjórnvöldum. Hvað ætlar fólk að láta bjóða sér þetta lengi?

Núna þurfa þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem hafa sýnt smá vitglóru að stöðva stjórnina með því að tilkynna um að hún verði felld strax og þing kemur saman aftur, hún hættir ekki nema vera stoppuð innannfrá. Það þarf að mynda neyðarstjórn án aðildar AGS til að koma landinu í var fyrir ræningjum og óhæfum þingmönnum. Það þarf að nýta stjórnlagaþingið sem verður í vetur til að búa til módel af pólitísku stjórnkerfi sem virkar og hentar í nútímaþjóðfélagi. Og það þarf að beina kröftum dómsmálaráðuneytisins og öllu því kerfi sem undir það heyrir til að endurheimta þann ránsfeng sem þegar hefur verið af okkur tekinn.


mbl.is Lengsta þingið hingað til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband