Vondar fréttir heima og heiman eru góðar fréttir fyrir íslensku bankana.

Útflutningsbann á korni frá Rússlandi eru góðar fréttir fyrir íslensku bankana því þetta ýtir enn frekar undir hækkun á kornverði á heimsmarkaði. Þar með þarf að hækka verð á brauði og kökum og þar með hækkar lánskjaravísitalan á Íslandi og bankarnir auka verðbólgutekjur sínar af útlánum.

Flóð í Pakistan og Póllandi og Þýskalandi og hvar sem er gera alveg sama gagn fyrir íslensku bankana því þau eyðileggja líka uppskeru og auka eftirspurn og hækka verð á matvælum almennt og þar með hækkar lánskjaravísitalan á Íslandi og bankarnir auka gróða sinn.

Frestun á olíuleit á Drekasvæðinu eru líka góðar fréttir fyrir íslensku bankana. Það að fresta olíuleitinni minnkar möguleikana á að á næstu árum verði tilkynnt um nýjar olíulindir og þar með heldur áfram verðhækkun á eldsneyti á heimsmarkaði sem kemur fram í verðlagi á Íslandi og fer inn í lánskjaravísitöluna sem eykur gróða bankanna.

Skógareldarnir í Rússlandi koma íslensku bönkunum ekki bara vel út af verðhækkunum á korni. Þeir hafa líka áhrif á timburmarkaði og ýta undir verðhækkanir á timbri. Það fer svo inn í verðlag á Íslandi og hækkar lánskjaravísitöluna sem eykur verðbólgugróða bankanna.

Og starfsmannaskírteinin sem á að byrja að innleiða á Íslandi í næstu viku stórauka verðbólgugróða bankanna ef þau virka eins og til er ætlast. Þessum skírteinum á að beita til að uppræta svarta vinnu. Svört vinna hefur lengi þrýst niður verðlagningu iðnaðarmanna svo dæmi sé tekið, því ekki nema um þriðjungur af því sem innheimt er fyrir vinnuna fer í vasa iðnaðarmannsins. Hitt fer til annarra aðila, aðallega ríkisins. Þeir sem eru með allt löglegt (hvítu mennirnir) þurfa að selja tímann á um 7-8.000 kr. til að geta greitt starfsmönnum út sambærilegt tímakaup við þann sem selur sig út á 2.000-2.500 kr. svart. Eins og margir vita er algengt útselt tímakaup með öllu á bilinu 3.500 - 5.000 kr, en ekki 7-8.000 kr hjá hvítu mönnunum sem enda eru flestir að berjast í bökkum í sínum rekstri. Ef vel gengur að uppræta svarta vinnu og koma þessari ódýru samkeppni út af borðinu ættu hvítu mennirnir að geta farið að selja sig út á réttu verði. En það fer auðvitað beint í lánskjaravísitöluna og eykur verðbólgugróða bankanna.

En það er alveg merkilegt að þrátt fyrir endalausar ófarir í heiminum sem hafa reiknast inn í lánskjaravísitöluna allar götur síðan hún var tekin upp þá fóru allir bankarnir á hausinn í sömu vikunni.

Og þrátt fyrir að bankarnir geti ekki þrifist með lánskjaravísitöluna sem hækju til að styðjast við og berja á skuldurum um leið, þá má samt ekki leggja niður þessa vitlausu aðferð við að framreikna verðmæti lána.


mbl.is Útflutningsbann á korni tekur gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Helgason

Sem sagt reisum fleiri banka

Sigurður Helgason, 15.8.2010 kl. 21:36

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Nei það er komið nóg af bankamafíunni!

Sigurður Haraldsson, 15.8.2010 kl. 22:01

3 identicon

Kjör og vextir í bankageiranum eru einnig undir samkeppni komin. Lítið land og fáir bankar= háir vextir.

gunnar (IP-tala skráð) 16.8.2010 kl. 07:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband