Það vantar valkost við bílana. Byggjum yfirbyggða hjólastíga.
19.6.2010 | 17:32
Göturnar verða fullar af bílum á meðan fólk býr í Reykjavík ef engir almennilegir valkostir eru í boði gegn bílunum til að koma fólki milli staða.
Mín tillaga í þessu er að lagðir verði yfirbyggðir hjólastígar um alla borg svo fólk geti hjólað sem mest og oftast og sparað sér bílaeign og bílaakstur. Þó það sé hægt á góðum sumardögum að hjóla eitthvað um Reykjavík, þá eru sárafáir sem nýta sér það. Það hefur sést vel undanfarið á þessu einstakalega veðurblíða sumri það sem af er. Hjólamennska er einfaldlega ekki raunhæfur valkostur við þægindi einkabílsins þegar aðstæður hjólafólks eru eins ömurlegar og þær eru mest allt árið. Í bíl er þægilegt loftslag, öryggi og góð vörn gegn veðrum. Á hjóli er þetta allt annað. Það er oftast skítkalt eða rennblautt, fólk er ekkert varið fyrir roki og hálku og snjó á vetrum auk þess sem hjólaumferð þarf að fara um eða yfir umferðargötur.
Ef alvöru áhugi er á vistvænum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu þá er lang besta leiðin sú að leggja net af yfirbyggðum hjólastígum um allt svæðið. Nota á tækifærið til að leggja stígana líka í skurði og á brýr til að minnka brekkurnar.
Þetta er vissulega rándýrt og sumir hafa talið þetta tóma vitleysu í mér þegar ég hef bloggað um þetta áður, aðallega út af kostnaði. En það sem sparast á móti er fljótt að skila þessum kostnaði til baka. Það mætti t.d. draga verulega úr akstri tómra strætisvagna um alla borg með því að fækka ferðum þeirra og spara þannig milljarða á ári. Það sparast fullt af peningum í gatnaviðhaldi ef boðinn er valkostur sem virkilega fækkar bílum á götunum. Þá má nú sleppa því að mestu að ryðja snjó af hjólastígum og hálkuverja þá ef þeir eru yfirbyggðir. Einhverjir tugir milljóna geta sparast í þessu á hverju ári.
En auðvitað verður sparnaður borgarbúanna mestur ef þeir geta fækkað við sig einkabílum og sparað sér bílakaupin, bílareksturinn og eldsneytisbrunann sem mengar svo mikið. Og í kaupbæti við allan sparnaðinn fá menn betri heilsu sem kemur með hreyfingunni sem fylgir hjólreiðunum.
Án þess að ég hafi nennt að leggjast yfir útreikninga á þessu þá er ég þess fullviss að með því að byggja upp góðan valkost við einkabílinn með yfirbyggðum hjólastígum má spara borgarbúum 10-20 milljarða á ári.
2006 voru rúmlega 110 þús. bílar í Reykjavík. Skv. tölum FÍB kostar rekstur ódýrs einkabíls upp undir milljón á ári. Ef hægt er að fækka bílum um 10% má því spara um 10 milljarða á ári og ef hægt er að fækka þeim um 20% þá sparast um 20 milljarðar á ári. Þessi sparnaður er bara sparnaður bíleigendanna sjálfra af því að fækka einkabílum, gatnaviðhaldið og reksturinn og strætósparnaðurinn bætist svo þar við. Það eru kannski 1-3 milljarðar í viðbót árlega.
Hvernig líta göturnar út án bíla? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála þér, þetta er ótrúlega góð hugmynd, svo góð að það tekur líklega kerfið mörg ár ef ekki tugi ára að fatta þetta. Yfirbyggingin verður að vera gegnsæ, einföld í framleiðslu og byggingu. Sé þetta vel fyrir mér :)
Halli (IP-tala skráð) 19.6.2010 kl. 23:34
Í öllum þessum niðurskurði, hvað ætli þetta gæluverkefni hafi kostað? Ljósmyndarinn og kranabíllinn og svo launin hans Gísla Marteins.
Tómas Waagfjörð, 19.6.2010 kl. 23:49
En jarðgöng? Nei án djóks. Samgönguyfirvöld og sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu hafa í fullri alvöru talað um Sundagöng, jarðgöng undir Öskjuhlíð, undir Kópavogsháls, undir miðborgina og sjálfsagt eitthvað fleira. Á vef vegagerðarinnar má finna skýrslu um "framtíðarsýn" sem byggir á því að bílajarðgöng liggi þvers og kruss um allt höfuðborgarsvæðið eftir 50 ár vegna þess að það er eina leiðin til þess að halda bílunum á ferð á þeim tíma miðað við að höfðuborgarsvæðið haldi áfram að vaxa að umfangi. Bílastefnan er einfaldlega löngu búin að rekast á vegg en fæstir pólitíkusar og kerfiskallar eru búnir að átta sig á því ennþá.
Þessi bílajarðgöng myndu kosta nokkur hundruð milljarða að grafa. Með það til hliðsjónar finnst mér alls ekki óraunhæft að tala um sérstök jarðgöng vegna reiðhjóla. Slík göng gætu komist af með 15 fermetra þversnið en nútíma bílajarðgöng með eina akrein í hvora átt eru með allavega 50 fermetra þversnið. Það þýðir að það þarf aðeins að grafa út tæplega einn þriðja af því efni per kílómetra sem þarf þegar um bílagöng er að ræða auk þess sem allur frágangur og búnaður í reiðhjólagöngum myndi kosta brot af því sem þyrfti til í bílagöngum enda um enga mengun að ræða og hverfandi litla slysahættu. „Gatnamót“ í göngunum væru einnig hræódýr í framkvæmd miðað við mislægar slaufulausnir sem bílar krefjast.
Ég vildi gjarnan sjá einhverja faglega úttekt á kostnaðinum við jarðgöng af þessu tagi. Ef það er t.d. hægt að leggja 20 km of svona göngum víða um höfðuborgarsvæðið á sama verði og það kostar að grafa 5 km löng bílagöng til að þjóna 900 manna þorpi á Vestfjörðum þá hefði það alveg gríðarlegan þjóðhagslegan sparnað í för með sér.
Besti flokkurinn þarf að skoða þetta.
Bjarki (IP-tala skráð) 19.6.2010 kl. 23:51
Sæll Halli og takk fyrir athugasemdina. Þú ert nú sá fyrsti sem tekur undir þetta hjá mér af einhverri alvöru. Ég sé þetta líka vel fyrir mér. Held þetta sé alveg nauðsynlegt. En það er rétt að kerfið verður lengi að fatta. Nú snýst allt um rafmagnsbíla, það er víst það sem menn halda í augnablikinu að sé umhverfisvænn kostur. Þó þeir auki nú í reynd bara heilmikið á mengunina og kostnaðinn. En menn horfa fram hjá því af því mengunin kemur í því tilviki ekki úr púströrinu heldur úr orkuverinu sem framleiðir rafmagnið á þá.
Jón Pétur Líndal, 19.6.2010 kl. 23:52
Sæll Bjarki og takk fyrir athugasemdina. Ég er oft búinn að blogga um þetta og alltaf fengið frekar eða mjög neikvæðar undirtektir. Nú ert þú eins og Halli bara jákvæður fyrir þessu. Það finnst mér gaman að sjá. Ég held að það sé miklu gáfulegra að grafa jarðgöng fyrir reiðhjólaumferð heldur en að setja bílaumferð í jarðgöng. Það er alveg fáránlegt í raun. En hins vegar held ég að það sé ódýrara og betra að flestu leyti að hafa þessa yfirbyggðu hjólastíga á yfirborði jarðar. En á stöku stað gæti það hentað að setja þetta í jarðgöng. Láttu endilega Besta flokkinn vita af þessu. Ég var nú búinn að setja hugmyndina inn á vefinn betrireykjavik.is en þar fær hún ekki góða einkunn. Fólk er oft seint að skilja góðar hugmyndir.
Jón Pétur Líndal, 20.6.2010 kl. 00:00
Ég held að jafnvel sumir reiðhjólamenn séu lítt hrifnir af þeirri hugmynd að ferðast mikið í jarðgöngum en ég held að það sé aðallega vegna þess að menn átti sig ekki á því hvað er um að ræða hérna. Upplifun flestra íslendinga af jarðgöngum takmarkast við dimm, dökk og blaut Hvalfjarðargöngin og þeir sjá eflaust eitthvað álíka lítt heillandi umhverfi fyrir sér þegar rætt er um reiðhjólagöng. Ég sé hinsvegar eitthvað svona: http://2.bp.blogspot.com/_kSNVKrktKUQ/SnvRRJsIWzI/AAAAAAAADyk/oxIrlTWbS8M/s400/tunnel6.jpg
Góð lýsing og ljósir veggir (og gott loft og ekkert svifryk). Ég myndi vija sjá aðeins víðara á milli veggja á kostnað lofthæðarinnar en þessi göng þar sem myndin er tekin eru gömul járnbrautargöng sem útskýrir hlutföllin.
Ég lít ekki á þessa hugmynd sem andstæða yfirbyggðum hjólastígum, ég held að báðar nálganirnar eigi rétt á sér á ólíkum svæðum borgarlandsins.
Bjarki (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 00:26
Sæll aftur og takk fyrir þetta innlegg. Ég er sammála þér. En kannski er meginvandinn í þessu öllu sá að það er í gangi einhver "hjólamenning" sem gengur út á að það megi ekki vera þægilegt að hjóla. Þetta þarf að vera eitthvað puð sem bara þeir alhörðustu nenna að standa í allt árið. Menn sem klæða sig í sérstaka galla og komast varla á milli húsa nema með vatnsbrúsa með sér og eru orðnir kófsveittir af öllu puðinu við veðrið og brekkurnar eftir nokkrar mínútur. Það er þessi hjólamenning sem fælir fólk frá þessu. Einkabíllin er vinsæll af því hann er hraðvirkur og þægilegur. Þrátt fyrir að vera kostnaðarsamasti samgöngumátinn þá vinnur hann allt annað á þægindunum. Fáir nota strætó þó það sé ódýrt. Það er vegna þess að það er hægvirkur og óþægilegur samgöngumáti nema í undantekningartilfellum.
Fáir hjóla vegna þess að það er óþægilegur, hættulegur og erfiður samgöngumáti.
En hjólin geta orðið raunhæfur kostur ef byggt er gott net hjólaleiða svo þessi samgöngumáti verði þægilegur og fljótvirkur.
Til að af þessu geti orðið þarf að breyta hugsanahætti svo menn hætti að forðast það að gera hjólamennsku þægilega. Þægindi og hraði er það sem hlutirnir snúast um þegar samgöngur eru annars vegar.
Jón Pétur Líndal, 20.6.2010 kl. 01:28
Hjólreiða-jarðgöng hefðu þann kost að einfalt og þægilegt væri að nota þau jafnvel þegar vont væri veðrið. Ég heillast mikið af hugmyndinni, vegna þess hversu erfitt og leiðinlegt það er að hjóla í roki, rigningu, slabbi og hálku.
Ég vona það að eitthvað verði gert í þessum hugmyndum á næstunni.
Karl Neptúnus Hirt (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 08:30
Ég er hjólreiðamaður og hef hjólað á höfuðborgarsvæðinu frá 1987. Ég get ekki tekið undir þessa meintu erfiðleika við að hjóla. Það er ekkert erfiðara eða verra að hjóla hér á höfuðborgarsvæðinu heldur en í öðrum sambærilegum stórum borgum á norðurlöndum. Þó er hjólað þar í mun ríkari mæli og þótt hjólreiðar minnki þar yfir veturinn líkt og hér er veðrið þar ekki skárra með slyddu, slabbi og meira frosti en hér þekkist.
Það er auðvitað margt sem má bæta en ég verð nú að segja að mér finnst hugmyndirnar um sérstök hjólreiðagöng vera nokkuð langsótt og draumórakennd og ólíklegt að ráðist verði í gerð þeirra á næstunni. Hinsvegar þarf ekki að útiloka jarðgöng fyrir reiðhjólaumferð (og gangandi umferð) ef þau henta til að leysa einhverja hnúta einhverstaðar eða þá brýr yfir t.d. Fossvog eða Elliðárvog.
Fyrir áhugasama má benda á stefnumál Landssamtaka hjólreiðamanna.
Árni Davíðsson, 21.6.2010 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.