Tökum nú niður styttuna af Jóni Sigurðssyni.

Á þessum þjóðhátíðardegi skulum við Íslendingar krjúpa í lotningu fyrir ESB og þakka fyrir að sambandið ætlar að leyfa okkur að hefja viðræður um aðild að Evrópusambandinu.

Við skulum á þessum merkilegasta þjóðhátíðardegi aldarinnar skilja leiðinlega fortíð eftir að baki okkar. Við skulum fyrirgefa bankaræningjum landsins og hjálpa þeim að komast aftur á lappirnar í rekstri sínum.

Við skulum hætta að ergja okkur á spilltum og vanhæfum stjórnmálamönnum. Þeir munu hvort eð er innan skamms engu ráða þegar hið algóða ESB tekur við völdum á Íslandi allri íslensku þjóðinni til ómetanlegra hagsbóta um alla framtíð.

Við skulum kyngja skuldum okkar og borga þær hvernig sem þær eru tilkomnar og hvort sem við eigum fyrir þeim eða ekki og hvort sem þær eru okkar skuldir eða ekki. Nú eru bjartir tímar framundan og allir vegir færir. Engar skuldir eru Íslandi eða íslenskum heimilum ofviða á svona tímamótum.

Við skulum henda styttunni af Jóni Sigurðssyni og nota stallinn undir fánastöng ESB. Jón Sigurðsson er hvort eð er gagnslaus núna og þar að auki ekki í tísku heldur. Og ef hann væri á lífi þá vildi hann örugglega ekki vera á þessum stalli og horfa upp á það sem er að gerast á Íslandi.

Á þessum tímamótum þegar algóður ESB ætlar að hleypa okkur vesælum Íslendingum inn í musteri sitt til að meðtaka þar hina miklu sælu og vegferð til betra lífs fyrir þjóðina skulum við muna að þetta bætist við önnur gæði sem við Íslendingar erum svo gæfuríkir að njóta í meira mæli en flestir aðrir miðað við höfðatölu. Við höfum hreina loftið og bláa sjóinn og eldfjöllin og hin fjöllin og fjallkonuna og menninguna og íslenskuna og hvort annað. Það breytist ekkert af þessu við inngöngu í ESB. Við munum því engu tapa en allt vinna við inngönguna.

Þökkum því fyrir þá miklu gæfu að ESB skuli í dag ákveða að vilja ræða við okkur um inngönguna. Hættum að velta okkur upp úr hversdagslegum vandamálum eins og atvinnuleysi og skuldum og horfum á björtu hliðna sem nú yfirgnæfir og leysir bráðum öll okkar vandamál.

Ísland, (ekki það lifi, heldur) það gangi í ESB, húrra, húrra, húrra.
Eða er það ekki málið?


mbl.is Opinberar skuldir ofarlega á baugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband