Góð úrslit í Reykjavík ef fyrstu tölur ganga eftir.

Nú er ég búinn að hlusta á formenn framboðanna í Reykjavík ræða fyrstu tölur í Reykjavík í kosningasjónvarpinu. Mér sýnist bara að þessi úrslit, ef þetta verður svona, séu ljómandi góð fyrir borgina.

Borgarbúar eru lausir við öll framboð nema 3. Það eru Besti flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin. Að bara 3 framboð eigi menn í borgarstjórn er til þess fallið að auðvelda stjórn borgarinnar aðeins frá því sem verið hefur. Það út af fyrir sig eru jákvæð úrslit.

Það er ljóst af orðum Hönnu Birnu að hún skilur skilaboð kjósenda, hún áttar sig á að það þarf að taka til og breyta heilmiklu í pólitíkinni. Mér líst ágætlega á hana, og það eru líka jákvæð úrslit hve vel hún áttar sig á stöðunni núna og kröfum kjósenda. Hún skilur m.a. að ef menn taka sig ekki á í stjórnmálum þá heldur fólk áfram að bylta stjórnmálunum með sambærilegum hætti í kosningum og nú er að gerast. Viðbrögð Hönnu Birnu eru því mjög jákvæð.

Jón Gnarr heldur sínu striki og er vissulega torskilinn, eða kannski bara sjálfur svo hissa að hann veit ekki alveg hvað hann á að segja. En nú þarf hann að huga að fleiru en gríni, hann þarf að meta hvort hann ætlar að vinna með Sjálfstæðisflokki eða Samfylkingu eða báðum eða vera einn í minnihluta.
Besti flokkurinn er ótvírætt sigurvegari kosninganna, en ekki er endilega sopið kálið þó í ausuna sé komið. Nú eru kaflaskil hjá honum og nú þarf að standa sig og standa við grínið og stóru sem litlu orðin. En kjósendur stóðu allavega með Besta flokknum og það eru jákvæð úrslit.

Samfylkingin er stóra spurningin núna. Dagur B. Eggertsson vill helst ekkert vinna með Hönnu Birnu þó flokkar þeirra hafi nóg fylgi til að mynda sterkan meirihluta ef þau vilja. Þess vegna lítur út fyrir að hann ætli að tryggja að Besti flokkurinn komist til valda í borginni, annaðhvort með því að taka sjálfur upp samstarf við hann eða biðja Hönnu Birnu um að starfa með Besta flokknum svo hann geti sjálfur verið í minnihluta í friði fyrir öðrum.
Fyrir þá kjósendur sem vilja breytingar er þetta besta mál, Dagur tryggir þeim að Besti flokkurinn komist til valda. Fyrir þá sem eru smeykir um að Besti flokkurinn sé bara grín og óhæfur til valda er það auðvitað umhugsunarefni að Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar og leiðtogi hennar í Reykjavík, ætli að tryggja slíkum flokki völd í borginni með afstöðu sinni. Kannski vekur þetta efasemdir um pólitískan þroska varaformanns Samfylkingarinnar. En að mínu mati er þetta alveg eðlilegt og í fullu samræmi við annað sem Samfylkingin stendur fyrir. Réttnefni á þann flokk væri að mínu mati "Versti flokkurinn".
En þetta er þó jákvætt að því leitinu til að nú opinberast vel tilgangsleysi Samfylkingarinnar fyrir almenning og sjálfhverfa flokksforystunnar. Það eru líka góð úrslit.

Nú er bara að bíða og sjá hvað gerist á næstu dögum.


mbl.is „Glaður og sáttur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Þessi færsla var byggð á fyrstu tölum úr Reykjavík, á seinni stigum talningar kom í ljós að VG komu einum manni að á kostnað Samfylkingarinnar, en það breytir í sjálfu sér engu. Sá maður hefur engan tilgang og breytir engu um mögulegar meirihlutamyndanir eða raunveruleg úrslit kosninganna. Nefni þetta bara hér til að endanlegar niðurstöður komi fram í tengslum við færsluna.

Jón Pétur Líndal, 30.5.2010 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband