X-Æ Kjósum Besta flokkinn - Gefum ruglaða liðinu frí.

Það er tvennt sem er mjög athyglisvert eftir daginn í dag, síðasta dag fyrir kosningar ársins.

Annað er það að skv. fréttum í hádeginu eru flokkarnir ekki að eyða nema frá nokkur hundruð þúsundum króna og upp í ca. 2,5 milljónir í kostnað vegna framboðs í Reykjavík. Nú er hægt að gera út heila kosningabaráttu á svona upphæðum, fyrir nokkrum árum voru einstakir frambjóðendur að þiggja margfaldar þessar fjárhæðir í styrki og framlög vegna sveitarstjórnarkosninga, alþingiskosninga og prófkjara. En það hvað allt í einu er hægt að fara í kosningabaráttu nú fyrir lítið fé styður bara það álit margra að þessir háu styrkir á árum áður hafi einfaldlega verið mútur, eða kaup á stjórnmálamönnum. Þess vegna þarf að gefa þessum flokkum og stjórnmálamönnum sem gerðu út á þennan hátt, frí, svo hægt sé að uppræta þessa spillingu. Það er ekki nóg að einn og einn segi af sér einhvers staðar eða taki sér tímabundið leyfi o.s.frv.

Hitt er það að á framboðsfundum á sjónvarpsstöðvunum í kvöld voru nokkrir frambjóðendur, þar á meðal núverandi borgarstjóri, sem töluðu mikið um að starfa saman óháð flokkum, þverpólitískt og eitthvað á þá leið að sveitarstjórnarmálin eigi að vera hafin yfir flokkspólitík o.s.frv. Samt er þetta fólk að bjóða fram í sitthvorum flokkunum. Væri ekki fyrsta skrefið fyrir þá sem hugsa svona að sameina flokka sína úr því þau eru sammála um að vilja ekki skipa sér í flokka í borgarmálunum? Næsta skrefið væri svo auðvitað að leggja bara alveg niður flokka í Reykjavík og hafa þetta bara þannig eins og lög leyfa að menn kjósi bara þá einstaklinga sem hver vill sjá í borgarstjórn. Það er ekkert sem hamlar því að hafa þann hátt á ef ekki eru boðnir fram framboðslistar. En kannski er þetta bara lýðskrum hjá þeim sem engin meining er á bak við, bara sett fram af því það er talið hljóma vel í eyrum kjósenda.

En reyndar eru svo nokkrir einstaklingar eins og t.d. Dagur B. Eggertsson og VG leiðtoginn sem vilja ekki vinna með hverjum sem er. Flokkakerfið hentar þeim vel því þau geta þannig flokkað út þá sem þau vilja ekki starfa með. En ég skil samt ekki hvað þetta fólk er að gera í pólitík. Fólk sem á í erfiðleikum með að starfa með öðrum á ekkert heima í svoleiðs störfum. Pólitíkus er alla daga í samstarfi og sambandi og samvinnu og samtölum við annað fólk. Hann er að vinna fyrir annað fólk og þarf af bestu getu að gæta jafnræðis og réttlætis gagnvart öllum borgarbúum í störfum sínum. Fólk sem vill vera í skotgrafahernaði og pólitískri mismunun er alveg úrelt í stjórnmálum. Það getur ekki gert neitt gagn í dag, á tímum þegar nóg annað er að gera en að þrasa um hver vill vinna með hverjum.

Og svo er það auðvitað ánægjulegt hvað Jón Gnarr kemur vel og skynsamlega fram í framboðsþáttunum. Það er mikið búið að gera grín að þessu grínframboði, en tilfellið er að þó boðið sé fram í gríni þá er meiri skynsemi í þessu framboði en flestum eða öllum hinum framboðunum til samans.
Það sýnir okkur að grín er ekki = heimska. Frammistaða hinna reyndu stjórnmálamanna sýnir líka að reynsla er ekki endilega = skynsemi.

X-Æ, Bæ.


mbl.is Horfast þarf í augu við ruglið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er alveg svakalega góð gein hjá þér. Ég ætla að reyna að vekja athygli á henni því þetta þurfa sem flestir að lesa.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 28.5.2010 kl. 23:44

2 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll, grefillinn sjálfur, og takk fyrir hólið.

Jón Pétur Líndal, 29.5.2010 kl. 00:02

3 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Það er gott að þið félagar skuluð vera sammála um að vera veruleikafyrtir gagvart pólítík, svo um munar, get með engu móti séð hve málefnalegur Jón Gnarr var í kvöld sem og raunar frá byrjun! Prump og aftur prump hjá grínistanum, þetta skilar sér á morgun, sannið þið til.

Guðmundur Júlíusson, 29.5.2010 kl. 00:17

4 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll aftur Guðmundur, hefurðu starfað í pólitík? Hefurðu kynnst því sjálfur innan flokkanna hvernig þetta virkar?

Jón Pétur Líndal, 29.5.2010 kl. 00:28

5 identicon

Guðmundur þú segir: "þetta skilar sér á morgun, sannið þið til."

Ég er með spurningu: HVERNING viltu meina að þetta "þetta" skili sér?

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 00:38

6 identicon

Sveitarstjórnarmál, eins og önnur pólitík, snúast um peninga. Peninga skattgreiðenda - og hvernig þeim skal varið.

Það er ósköp eðlilegt að fólk deili um ráðstöfun skattpeninga. Hafi sínar áherslur. Gnarrinn heldur svo ekki vera. Hann heldur okkur stödd í Kardimommubæ.

Þar sem allir eiga að vera hamingjusamir og hann fær að leika Bastían bæjó.  

Ybbar gogg (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 02:15

7 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Heyrðu nú Ybbar gogg. Jón Gnarr leggur mikla áherslu á ömmuhagfræði. Þú veist að ömmur eru alltaf að gera allt sem þær geta fyrir barnabörnin sín. Þess vegna er svo skynsamlegt að kjósa Besta flokkinn. Jón Gnarr lítur á sig sem nokkurs konar "ömmu" og borgarbúa sem "barnabörnin" sín.

Og sem amma borgarstjóri ætlar hann að passa að borgarbúar, barnabörnin sín, fái pössun og menntun og heilbrigðisþjónustu og hjálp ef þau eiga bágt.

En hinir flokkarnir eru enn að byggja skýjaborgir með engum ömmum, bara ríkisbubbum og lúxuslífi þar sem eru haldin kokkteilpartí á hverjum degi og bara borgarstjórnarmenn fara í skóla erlendis á fullu kaupi og svoleiðis flottheit. Þeir vilja halda arkitektasamkeppnir fyrir útlenda arkitekta um flugvallarsvæðið og Laugaveginn á 2 ára fresti til að geta boðið hingað erlendum borgarstjórum að sýna þeim hvað hægt sé að gera borgina flotta á meðan hún er að drabbast niður. Þetta er léleg hagfræði sem enginn ætti að kjósa yfir sig aftur.

X-Æ Áfram Besti flokkurinn.

Jón Pétur Líndal, 29.5.2010 kl. 08:50

8 identicon

Ybbar gogg heldur að hann/hún viti hvernig allir hinir hugsa. Forsjárhyggjuönd á villigötum.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 09:06

9 Smámynd: SeeingRed

" Forsjárhyggjuönd á villigötum "

Hlæ mig máttlausan, snilld!

SeeingRed, 29.5.2010 kl. 14:58

10 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sælir og takk fyrir athugasemdirnar. Allar góðar endur ybba gogg eins og þær vilji hafa vit fyrir manni. Eða kannski eru þær bara að hugsa um sjálfar sig og sína hagsmuni. En ég vil hafa fullt af öndum í borginni, líka þó þær ybbi gogg og séu ekki alltaf á tjörninni og hef bara gaman af að fá þeirra sjónarmið í borgarmálefnum í umræðuna. Þannig að Ybbar gogg er velkomið að halda áfram að ybba gogg á mínu bloggi.

Jón Pétur Líndal, 29.5.2010 kl. 19:31

11 identicon

Erum við ekki öll bloggendur? Ybbum við ekki öll gogg? Held það.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband