Heiðarleg svör hjá Jóni Gnarr - það er fátítt fyrir kosningar.
22.5.2010 | 10:16
Þegar Jón Gnarr er spurður um fyrirætlanir Besta flokksins er í raun fátt um svör. Það þykir mér eðlilegt. Maðurinn og flokkurinn standa ennþá alveg utan við stjórnmálin, í þeim skilningi að hafa engar haldbærar upplýsingar eða innanhúss aðgang að borgarmálefnum þannig að þau geti gefið skýr svör. Og í staðinn fyrir að ljúga upp því sem fjölmiðlar og kjósendur vilja heyra, þá er bara svarað heiðarlega. Það er sjaldgæft í íslenskri pólitík og svoleiðis svör þykja auðvitað ekki merkileg m.v. gamalkunnugar skáldsögur fjórflokksins, svokallaðar kosningastefnuskrár.
Það vekur alltaf athygli mína hve svör Besta flokksins eru stutt og hve svör hinna eru oft löng. Það er eins og þeir sem segja satt séu fljótir að því en þeir sem ljúga að kjósendum eru gjarnir á að rökstyðja lygina vel svo hún verði trúverðug og hafa því svarið langt.
Ég tek eftir því að viðbrögðin við velgengni Besta flokksins í skoðankönnunum eru blendin. Sumir fagna heiðarlegu framboði, vilja kjósa allt annað en fjórflokkinn, eða vilja bara sjá ný andlit í borginni, eru búnir að fá nóg af spillingu og hagsmunatengslum stjórnmálamanna o.s.frv. Þetta eru allt góð og gild rök.
En rök andstæðinga framboðsins eru þó mun athyglisverðari en þeirra sem styðja það. Margir tala um að nú íhugi þeir alvarlega að flytja úr landi nái þetta framboð meirihluta í borginni. Það verður að minna fólk á að vegna núverandi stjórnarhátta í landinu og hjá borginni er fólk nú þegar að flytja úr landi í stórum stíl þannig að fólksflótti verður ekki fundinn upp út af þessu framboði.
Þá er talað um að það verði ekkert grín að hafa grínframboð í meirihluta í borginni nái Besti flokkurinn því fylgi sem kannanir benda til. Það er auðvitað alveg rétt en kostirnir eru ekki góðir. Kjósendur hafa um að velja spillta flokkstitti sem ljúga upp trúverðugum rökum til að láta kjósa sig eða grínista sem nálgast kjósendur af heiðarleika og mæta til kosninga með fátæklega en heiðarlega stefnuskrá. Hvorum skyldi nú verða betur treystandi til að standa sig eftir kosningar, þeim heiðarlegu en óhrjálegu Besta flokksmönnum eða uppdubbuðum spilltum tittum fjórflokksins með glansbæklingana?
Þegar menn rökræða um þetta mál þá má ekki gleyma því að það er á ábyrgð þeirra "skynsömu" manna sem hafa valið "ábyrga" (5)fjórflokkana til valda í borginni undanfarin ár að staða borgarinnar og fyrirtækja hennar er orðin hörmuleg. Það eru engin grínframboð sem valda því. Sama er í landsmálunum, hafa verið einhverjar grínríkisstjórnir á Íslandi? Væri landið verr sett en það er nú ef meira grín en minni alvara og spilling hefði verið í stjórnmálunum og atvinnulífinu? Það er nú alveg ljóst á landsstjórninni að það er engu verið að breyta innan fjórflokksins varðandi það að bæta stjórnarfarið og siðferðið í stjórnmálum. Eina leiðin til þess er því að setja fjórflokkinn út á gaddinn og hleypa nýjum framboðum að.
Ég veit að enginn veit hvernig Besti flokkurinn muni standa sig nái hann völdum í borginni. En m.v. aðra flokka og frambjóðendur verður enginn vandi fyrir þennan flokk að standa undir nafni. Hvort það er nóg er svo annað mál.
Jón Gnarr: Ég er stoltur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þegar fólk fær heiðarleg svör líður því betur, Það hefur verið lenska hjá stjórnmálaflokkum að sega eitt en gera annað það kallast að svíkja kjósendur sína það er að sega þjóð sína. Hef ekki kosningarétt í reykjavík því miður gnarrinn fengi mitt atkvæði svo mikið er víst
Jón Sveinsson, 22.5.2010 kl. 16:15
Heiðarleg svör? Er ekki krafa okkar kjósenda að menn hafi lágmarkskunnáttu og hugmyndir um það sem það er að fara úti í ? það hefur Jón ekki
Guðmundur Júlíusson, 22.5.2010 kl. 18:37
Sæll Guðmundur. Ég er sammála þér um að menn þurfa að hafa lágmarkskunnáttu og hugmyndir um það sem verið er að fara út í. Og ég er sammála þér um að Jón hefur þetta nú varla. En það eru heldur engir aðrir í framboði sem hafa þetta til að bera, reynsla undanfarinna ára af þeim sannar það, og þá verður bara að meta menn eftir öðrum kostum eins og t.d. heiðarleika og hreinskilni í svörum. Besti flokkurinn væri auðvitað ekki álitlegur kostur nema vegna þess að hinir eru sýnu verri. Það sem er slæmt fyrir kjósendur í þessu er það að Besti flokkurinn virðist í raun og veru vera bestur. Svo illa hafa hinir staðið sig.
Jón Pétur Líndal, 22.5.2010 kl. 19:54
Það má vel vera að Besti flokkurinn sé ekki af hinu góða, en vandamálið er sjálfsprottið úr óhirtum garði fjórflokkana og tilvist hans þrifst og nærist í jarðvegi "lágmarkskunnáttunar" góðu. Og hún er vissulega í lágmarki, rétt er það.
Jón Sigtryggsson (IP-tala skráð) 23.5.2010 kl. 00:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.