Vona að þetta gangi eftir - Kannski er nýr Davíð í Jóni Gnarr?

Ég vona svo sannarlega að Besti flokkurinn fái gott fylgi í kosningunum eins og skoðanakannanir benda til. Ég er ekki að vona þetta af ég eigi svo marga vini og kunningja í þeim flokki, eða vegna þess að frambjóðendur flokksins hafi komið með einhverjar snilldarlausnir fyrir gjaldþrota borgarfyrirtæki eða atvinnulausa borgarbúa. Nei, ég er að vona þetta vegna þess að það þarf að setja af þá sem hafa sannað að þeir valda ekki verkefnum sínum hjá borginni. Það eru þeir sem hafa verið þar við völd undanfarin ár. Það þarf að fara í pólitíska tiltekt í borginni.

Það eina sem getur verið meira grín í sveitarstjórnarkosningunum en að grínframboð Besta flokksins nái meirihluta í Reykjavík, er ef gömlu flokkarnir sem eru búnir að gera borgina gjaldþrota, yrðu kosnir áfram til valda í borginni.

Ég man að þegar Davíð Oddson lét af starfi borgarstjóra á sínum tíma voru heildarskuldir borgarinnar og borgarfyrirtækja taldar vera 3-4 milljarðar króna og hafði Davíð þó spanderað í bæði ráðhús og Perlu. Nú eru heildarskuldirnar orðnar um 300 milljarðar króna, nærri 100 sinnum hærri en þegar Davíð lét af starfi borgarstjóra. Þó hefur ekkert verið spanderað í óþarfa eins og Davíð gerði.

Það hefur verið mikil alvara í borgarpólitíkinni undanfarin ár, þessar miklu skuldir eru ekki tilkomnar út af neinu gríni. Þær eru vegna virkjana, risarækjueldis, alls konar fjarskiptatilrauna, skynsamlegrar lánastefnu, uppbyggingar nýrra borgarhverfa, framkvæmda í miðborginni, nýrra höfuðstöðva fyrir OR, útþenslu OR til annarra landshluta og ótal annarra bráðnauðsynlegra verkefna.

Svona uppbyggileg og alvarleg borgarpólitík er alltof dýr, það sanna skuldirnar, sem eru nú ca. fjórum sinnum meiri en tekjur samsteypunnar. Ég tel það alveg augljóst að borgarbúar hafi ekki efni á svona alvarlegri og dýrri borgarpólitík lengur. Nú blasir ekkert við annað en gjaldþrot eða verulegar hækkanir á sköttum og þjónustugjöldum samfara minni þjónustu eigi borgarsamsteypan að vera rekstrarfær áfram.

Það er fullreynt að þessi pólitík sem fjórflokkurinn stendur fyrir er ekki að virka. Og í Reykjavík verður að viðurkenna að enginn borgarstjóri hefur náð tökum á starfi sínu frá því Davíð hætti. Enda hefur hallað samfellt undan fæti hjá borginni og fyrirtækjum hennar síðan hann stóð upp úr stól borgarstjóra.

Núverandi "stjórnmálamenn" hafa komið fram alvarlegir á svip og haft áhyggjur af afleiðingum þess ef þetta grínframboð nái umtalsverðu fylgi. Þeir hafa talað til kjósenda í umvöndunartón út af þessu. Ég verð nú að viðurkenna að ég eygi frekar von fyrir Reykjavíkinga í hinum nýju Bestaflokks frambjóðendum en í þeim gamalreyndu fjórflokka frambjóðendum sem hafa fullsannað getuleysi sitt á undanförnum árum. Því ætti nokkur maður að kjósa þá sem hann veit að geta ekki staðið sig? Og því ætti ekki að gefa þeim tækifæri til að spreyta sig sem hafa ekki gefið neitt tilefni til vantrausts?

Raunar gæti leynst nýr Davíð í Jóni Gnarr. Þeir hafa nú báðir húmor og grínistabakgrunn. Og Davíð tók borgina með trompi á sínum tíma. Jón Gnarr virðist líka vera að því. Davið var að mestu óskrifað blað í pólitík þegar hann var kosinn í borgarstjórn og varð borgarstjóri. Samt stóð hann sig ljómandi vel. Allt þetta sama á við um Jón Gnarr, hingað til.

Áfram Besti flokkur, áfram Reykvíkingar!!


mbl.is Besti flokkurinn með 8 fulltrúa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk!

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 02:51

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Kannski nýr Davíð?

Ertu genginn í lið með þeim sem vilja framboðið feigt?

Ég vona að enginn taki mark á svona hrakspám, mér sýnist Jón Gnarr vera normal.

Árni Gunnarsson, 22.5.2010 kl. 09:12

3 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sælir og takk fyrir athugasemdirnar.

Davíð stóð sig ljómandi vel í borginni. Það þarf ekkert að gera lítið úr því. Og það veitir víst ekki af öðrum góðum manni þangað eftir alla vælukjóana sem hafa setið í borgarstjórastólnum undanfarin ár. Mér finnst Jón Gnarr bara mjög efnilegur í þetta starf.

Jón Pétur Líndal, 22.5.2010 kl. 09:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband