Vísitölurnar ennþá alltof háar - leikritið á enda.

Það er skemmtilegt að fylgjast aðeins með þessum hlutabréfamörkuðum, því þeir eru svo mikið leikrit og glórulausar spekúlasjónir manna sem í örvæntingu sinni eru að reyna að halda áfram að græða á tímum þegar bréfin falla í verði.

En það er einmitt ljóst að hlutabréf eru í alltof háu verði ennþá. Það getur ekkert annað gerst í heiminum en að skuldir ríkja verði ekki greiddar í stórum stíl. Það getur gerst með tvennum hætti, afskriftum, sem þýða skyndilegt tap lánveitenda, eða með óðaverðbólgu sem rýrir skuldirnar fljótt þar til þær verða viðráðanlegar. Hvor leiðin sem farin verður mun verðfella hlutabréfamarkaði gríðarlega, sennilega um allavega 50%. Þó er spurning hvort á að tala um verðfellingu eða leiðréttingu. Leiðrétting er líklega réttara.

Annað í þessu skemmtilega leikriti er hve vel leikendum hefur tekist að sannfæra stjórnmálamenn um mikilvægi leikritsins, að það verði haldið áfram að leika þennan skrípaleik um ókomna daga í óbreyttri mynd. Kannski eru það samtvinnaðir hagsmunir og sameiginlegur leiklistaráhugi stjórnmálamanna og mannanna á hlutabréfamarkaði sem veldur þessu. En staðreyndin er sú að einhvern tíma þarf leiksýningunni að ljúka. Það gerist af sjálfu sér þegar áhorfendur ganga úr salnum og finna sér annað þarfara að gera en að taka mark á þessu bulli og stjórnmálamenn og markaðurinn leika fyrir tómu húsi.

Nú eru einmitt þessir tímar að renna upp. Leikritið er orðið þreytt og bæði í Evrópu og Ameríku er fólk búið að fá nóg. Suðan er að koma upp, fólk vill fá endurgreitt fyrir þessa lélegu leiksýningu. Þegar almenningur í hinum vestræna heimi er meira og minna að verða atvinnulaus og gjaldþrota út af þessum "markaði" og "stjórnmálamönnum" er augljóst að eitthvað mikið mun gerast. Fólk brýst alltaf undan kúgun að lokum. Nú fer það að gerast hvað þessa alþjóðlegu skuldakúgun varðar. Það getur ekki gengið lengur að flestir íbúar flestra þjóða séu orðnir kúgaðir af fjármálamarkaðnum eins og nú er raunin.


mbl.is Bandarísk hlutabréf lækkuðu mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hversu stórt hlutfall af verðinu ætli sé hrein óskhyggja? Ef það væri þekkt þá yrði hægt að verðleggja óskhyggjuna. Þegar bankamennirnir verða svo búnir að því þá verður þeirra fyrsta verk að veðsetja hana fyrir nýjum pappírum til að braska með.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.5.2010 kl. 03:45

2 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Ætli það komi ekki bráðum í ljós, þegar verðið fellur, þá afskrifa menn fyrst óskhyggjuna, en verðið nær svo einhverju jafnvægi þegar verðmætið hlutafjár kemst á par við raunveruleg verðmæti fyrirtækjanna. Áþreifanleg verðmæti sem hægt er að hafa eitthvað raunverulegt gagn af eru stöðugri í verði en gróðavonin ein og sér.

Jón Pétur Líndal, 21.5.2010 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband