Íslenskan er tímaskekkja.

Ég er oft búinn að blogga um það hvað íslenskan er mikil tímaskekkja. Við eigum að leggja þetta tungumál til hliðar. Taka upp eitthvað tungumál sem aðrir skilja. Það má vera enska, þýska, franska, rússneska, kínverska. Þetta eru allt mál sem væri gott að taka upp.

Að skipta um tungumál myndi skila miklu fleiri tækifærum fyrir landsmenn en að ganga í ESB og að gera aðrar þvílíkar vitleysur, enda koma svoleiðis hugmyndir m.a. fram vegna þess að okkar ráðamenn skilja ekkert um hvað þær snúast vegna tungumálaerfiðleika.

Fyrir utan þetta hrun sem við erum á kafi í núna er íslenskan okkar mesta bruðl. Endalausar þýðingar, nýyrðasmíði, átthagafjötrar og endalaus kostnaður sem fylgir þessu tungumáli eru almestu þjóðrembingsmistök okkar frá upphafi landnáms.

Ég er hér með smá skoðanakönnun á blogginu um þetta. Kíkið á hana og látið álit ykkar í ljós.


mbl.is Framburðarglíman við Aye-ya-fyah-dla-jow-kudl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Viltu þá ekki bara taka fyrsta skrefið, hætta að blogga á íslensku, og snúa þér að málefnum sem koma íslensku mannlífi og menningu ekki við?  Eða hvernig ætlarðu annars að skilja á milli málsins og menningarinnar? 

Bergþóra Jónsdóttir, 16.4.2010 kl. 21:43

2 identicon

Kínverska er hagnýtt mál. Það er þjóðþrifamál að gera staðarnöfn á Íslandi framburðarhæf á Mandarin!

Ari Fróði (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 21:55

3 identicon

Mer finst a við gedöm bara tekgð upp sama mal o talað er i Reigæg. Akki sadd?

Tel dames, é e faddör i Gjebblæg o é e svaga stoltör av öpröna minöm. So fenst mer svaga gaman a hetta gamla vene o fa mer i glas !

Þedda lið údálande sem bara talar eikkað gamalt rugl eða þanneg og hlöstar bara a gömlö guuvuna, - ka e það a riva kjaft ? Eða vottever

Þórhallur Pálsson (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 23:34

4 Smámynd: Benóný Jónsson Oddaverji

Þegar ég las fyrstu línur þínar var ég staðráðinn í því að skrifa þér eitthvað vont og skammarlegt. En reiðin var gripin af hugsun. Sennilega er pistillinn þinn skrifaður í svipaðri reiði og mér varð í huga við lesturinn. Íslenskan er þvílíkur fjársjóður að engu tekur. Tungumálið er sennilega mesti fjársjóður okkar íslendinga. Ég ætla ekki að eyða mikilli orku í að rökstyðja þá sannfæringu mína, þar sem þín viðhorf eru svo ólík.

Benóný Jónsson Oddaverji, 17.4.2010 kl. 01:19

5 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæl verið þið og takk fyrir athugasemdirnar.

Ég er nú stundum að blogga eða gefa comment á öðrum málum. En geri það nú eingöngu í erlendum fjölmiðlum. Enda hefur ekki veitt af að reyna að koma okkar sjónarmiðum fram þar. Íslensk stjórnvöld hafa nú verið hálf mállaus á köflum.

Auðvitað er íslenskan fjársjóður í vissum skilningi. En alla aðra fjársjóði okkar geymum við uppi í hillu í þjóðminjasafninu og á öðrum viðlíka stöðum. Þar finnst mér nú íslenska alveg eins eiga heima.

Það sem hvetur mig nú helst til að blogga svona um íslenskuna er nú einmitt það hvað það er mikið tabú að láta sér detta í hug að taka upp annað tungumál, hvað þá að tala um það. Viðbrögðin eru yfirleitt þannig að mér líður svipað og þeim svo voru að gagnrýna bankana fram yfir 2007. Maður er úthrópaður sem erkihálfviti fyrir að láta sér detta þetta í hug. En þetta er nú samt eitthvað sem við ættum að staldra við og vega og meta til framtíðar. Hvort íslenskan er kostnaðarsöm byrði og þjóðrembingur, eða hvort okkur er nauðsynlegt að tala hana áfram af góðum og gildum ástæðum.

Jón Pétur Líndal, 17.4.2010 kl. 07:45

6 identicon

Í dag er enskan orðið að einhverskonar alþjóðatungumáli. Þannig ef íslendingar myndi taka ákvörðun í dag um að skipta um tungumál væri enskan að öllum líkindum fyrir valinu. En enskan var ekki alþjóðamál fyrir 200 árum þá var það franska og þar áður latína. Eiga þá íslendingar að skipta tungumál reglulega um tungumál til þess eins að spara?

Ástríður Anna (IP-tala skráð) 17.4.2010 kl. 16:35

7 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Það var nú engin alheimsvæðing fyrir 200 árum líkt og nú er. Og þó latína hafi verið töluð mikið fyrir löngu síðan þá heyri ég ekki nokkurn mann tala um að það hafi verið misráðið að hætta því.

En það væri ákaflega skynsamlegt að fara yfir kosti þess og galla að taka upp annað mál í staðinn fyrir íslenskuna.

Þetta snýst ekki bara um peninga þó kostnaðurinn við íslenskuna hlaupi á tugum milljarða á hverju ári.

Aðalatriðið er það að í þessum heimi þar sem allar þjóðir eru að tengjast miklu meira en áður hefur þekkst og fólksfjöldinn er meiri en nokkru sinni, er bara lífsnauðsynlegt að við skiljum hvort annað betur. Það er því óhjákvæmilegt að tungumálum fækki hratt. Mér finnst einfaldlega að við Íslendingar eigum að sýna dálitla framsýni og frumkvæði í þessu og fara að skoða málið strax.

Það gerist ekki á einni nóttu að skipta um tungumál. Þetta tekur áratugi. Þess vegna er nauðsynlegt að fara að undirbúa þetta. Ekki viljum við bara bíða þangað til ESB leggur íslenskuna niður hjá okkur eða hvað?

Jón Pétur Líndal, 17.4.2010 kl. 20:34

8 Smámynd: Vendetta

Ég er alveg á öndverðum meiði við þig. Enda þótt ég tali nokkur tungumál reiprennandi, m.a. ensku vil ég fara hina leiðina, að koma í veg fyrir að tungumál deyi út. Það deyja út árlega fleiri hundruð tungumála og mállýzkna í heiminum ýmist vegna ágangs yfirvalda/ýlenduherra eða þá (sjaldnar) að þjóðflokkur hefur dáið út. Bezta dæmið er einmitt Bretlandseyjar og Írland, þar sem enskan hefur gegnum aldirnar ýtt öllum keltneskum tungumálum til hliðar.

Svo að önnur dæmi séu nefnd, þá útrýmdu tungumál nýlenduherranna (aðallega enska, franska og afrikaans) að öllu eða miklu leyti tungumálum og mállýzkum í víðsvegar í löndum Afríku og spænskan og portúgalskan í löndum Suður-Ameríku. Það varer sorglegt. Því að tungumálið er alltaf sterkasta sameiningarafl þjóðar og stærsti hluti af menningunni (þess vegna geta verið tvær eða fleiri þjóðir í sama landinu, t.d. er ekki til nein belgísk þjóð, því að í Belgíu búa tvær aðskildar þjóðir, sem tala hvort sitt tungumál, flaams og vallónsku). Og eina menningin sem er til á Íslandi, bókmenntir og þ.m.t. ljóðagerð, byggist eingöngu á tungumálinu.

Allar tilraunir áhangenda ólýðræðislegrar miðstýringar (ESB-sinnar og marxistar) til að sameina ólíkar þjóðir er aumkvunarvert. Sovétmennið var ekki annað en blekking af hálfu soézkra valdhafa eins og kom í ljós fyrir 20 árum og eins mun Evró-mennið vera dæmt til að mistakast.

Enda þótt enskan sé eina raunhæfa alþjóðamálið (de facto), þá er alveg út í hött að vilja leggja niður þjóðtungumálin. Þvert á móti á að styrkja þau og allar mállýzkur í hvívetna.

Hins vegar er ég á móti því að farið sé út í öfgar. Það er rétt að mörg íslenzk nýyrði af tæknilegum toga eru hjákátleg og ónothæf, en það sem fer mest í taugarnar á mér er þegar er verið að skrifa landanöfn með íslenzkri stafsetningu, eins og Paragvæ, Nikaragva, Úrúgvæ, Havæ og Tævan í staðinn fyrir Paraguay, Nicaragua, Uruguay, Hawaii og Taiwan. Mér verður óglatt þegar ég sé svona stafavillur. Fyrir utan það að það eru engin v-hljóð í þessum landanöfnum, þá er þetta hrein móðgum. Sama má segja um orðskrípið Mexíkóar í staðinn fyrir Mexíkanar, eins og mexíkanskir innbyggjendur vilja láta kalla sig.  

Vendetta, 18.4.2010 kl. 12:32

9 Smámynd: Vendetta

Ég biðst afsökunar á eftirfarandi innsláttarvillum:

varer á að vera er  ;  soézkra á að vera sovézkra  ;  móðgum á að vera móðgun

Svona er að vera með gigt í fingrunum. Þótt ég sé perfektionisti, þá er ég ekki alveg perfekt.

Vendetta, 18.4.2010 kl. 12:42

10 Smámynd: Sigurjón

Sælir.

Tungan er okkar dýrasti arfur og má alls ekki leggja af, heldur styrkja og vernda.  Því miður dynja áhrifin á málinu og við því þarf að sporna, rétt eins og Þjóðverjar eru að gera með sína þýzku.

Kv. Sigurjón

Sigurjón, 19.4.2010 kl. 00:13

11 identicon

Hugsum aðeins um framkvæmdina á þessu. Hvernig myndir þú "skipta um" tungumál? Leggja viðurlög við því að tala íslensku á almannafæri? Skikka menn til að gefa bara út opinbert efni á ensku? Bara sú staðreynd að okkur þyki flestum svona vænt um að tala málið okkar þýðir það að þú getur ekki framkvæmt þessa hugmynd á valds, og slík valdbeiting væri það skaðlegasta sem þú gætir gert íslensku þjóðinni. Fyrir utan að vera ólíklegt til að takast yfir höfuð.

Og guð minn almáttugur ekki bera þetta saman við bankahrunið. Að minnsta kosti ættir þú að færa rök fyrir því af hverju þú hefur rétt á þessum samanburði.

Danni (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 16:42

12 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæl verið þið öll og takk fyrir athugasemdirnar.

Hluti af rökunum fyrir þvi að skipta um tungumál er beinn kostnaðurinn sem fylgir því að halda úti þessu máli. Það eru þýðingar á öllu mögulegu, bæklingar, lög, sjónvarpsefni, bækur, námsefni, hugbúnaður o.s.frv. Sumt af þessu er beinlínis varnarkostnaður til að verjast áhrifum af öðrum tungumálum. Þessi kostnaður tikkar á hverjum degi og hverju ári, nokkrir milljarðar á ári. Nokkur hundruð milljarðar á hverri öld. Þetta safnast þegar saman kemur.

Svo er eflaust meira í óbeinum kostnaði, glötuð tækifæri vegna tungumálaerfiðleika o.s.frv.

Ég er alveg sammála því að það eru menningarverðmæti í tungumálinu. Líka í torfbæjum og árabátum og hestvögnum og lýsislömpum og rímum og þjóðbúningum. En það þýðir ekki að það megi ekki skoða aðra möguleika. Mér finnst það svoldið hjákátlegt að t.d. þegar tónlist er annars vegar þá þykir alveg sjálfsagt að okkar helstu menningarfulltrúar á því sviði hendi íslenskunni fyrir róða. Af hverju syngur Björk ekki alltaf á íslensku? Af hverju nota Kristinn Sigmundusson og Kristján Jóhannsson ekki íslenska texta þegar þeir syngja í óperuhúsum heimsins. Við erum stolt af þeim tónlistarmönnum sem sjá okkur fyrir tónlist á íslensku hér heima fyrir en enn meira þykir okkur koma til hinna sem eru löngu hættir að nota íslenskuna. Er þetta ekki undarlegt sjónarmið?

Ég held að það eina sem í raun heldur aftur af okkur að taka upp annað tungumál sé hræðslan við hvað það er erfitt verkefni. Það gerist ekki á einni nóttu. Það tekur allavega heila kynslóð að framkvæma þetta. Eflaust eru margar leiðir til að framkvæma þetta. Boð og bönn geta eflaust haft eitthvað að segja í þessu. En ég býst við að leggja þurfi áherslu á menntun og hvatningu til að koma þessu í kring. Þeir Íslendingar sem fóru vestur um haf á næst síðustu öld töluðu allir íslensku. Afkomendur þeirra tala sumir íslensku í dag, rétt eins og þeir rækta sambandið við gamla landið og menninguna. En það var samt býsna fljótt sem vestur Íslendingar voru farnir að tala annað tungumál. Það þótti sjálfsagður hlutur að gera það. Nú er heimurinn svo nátengdur að okkur er jafn nauðsynlegt að skipta um tungumál og vesturförunum og afkomendum þeirra á sínum tíma. Kannski getum við leitað til þeirra um hvernig mætti koma þessum breytingum á og varðveita menninguna sem í íslenskunni felst, um leið.

Jón Pétur Líndal, 22.4.2010 kl. 11:16

13 Smámynd: Vendetta

Jón Pétur: Ég er ekki stoltur af Kristjáni Jóhannssyni. Ég þoli ekki það sjálfumglaða fífl.

Vendetta, 22.4.2010 kl. 21:22

14 Smámynd: Björn Emilsson

Ég held ekki að menn þurfi að hafa áhyggjur af ´nýju máli í stað íslensku´. Eins og Philip Bretaprins sagði, alþjóðamálið er nú þegar ´léleg enska!´ Enskan er sennilega orðin allráðandi á Islandi, sem og öðrum löndúm. Öll Norðurlandamálin eru nú þegar orðin snarbrengluð af enskuslettum. Vefurinn, sjónvarp, kvikmyndir,hljómlist og yfirleitt öll menntun og samskipti fólks eru á ensku nú orðið. Svo við bætist síaukinn straumur innflytjenda til landsins, sem að mestu bjarga sér á ´lélegri´ensku.

En í guðanna bænum verndum íslenskuna og allt sem íslenskt er, meðan tími er til.

Björn Emilsson, 28.4.2010 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband