Verður þetta svona næstu 2-3 ár?

Þegar horft er til þeirra eldgosa sem þekkt eru í Eyjafjallajökli og Kötlu í framhaldinu má búast við að í hönd fari allt að 2-3 ára tímabil þar sem flugsamgöngur í Evrópu og jafnvel víðar verða fyrir verulegum truflunum vegna eldgosa á Íslandi.

Spekúlantar á fjármálamörkuðum voru að spá því að þar sem þetta gos geti truflað þyrluflug til olíuborpalla Norðmanna þá geti það dregið úr olíframleiðslu og þar með hækki olíuverðið. Ég vil nú reyndar spá þveröfugum áhrifum. Ég held að gosið, jafnvel þó það trufli olíuframleiðslu, muni frekar stuðla að lækkandi verði á olíu. Það má ekki gleyma því að flugvélar sem standa kjurrar á flugvöllum eyða ekki miklu eldsneyti á meðan.

Ég vil nú ekki vera með þau stærilæti að túlka áhrif þessa eldgoss sem mátt Íslendinga, en vissulega talar náttúra landsins þarna fyrir sig. Náttúra Íslands er stórbrotin, ekki bara þegar horft er á hana á góðum degi, heldur líka þegar náttúruöflin sýna heiminum hvernig þau bjuggu landið til og drulla svo yfir Evrópu í leiðinni.

Í gær var ég að hugsa um það hvað það er nú á margan hátt stórkostlegt að búa í þessu landi okkar þrátt fyrir allt bankaklúðrið og aðra ógæfu sem við höfum ratað í. Ef maður vill fylgjast með einhverju krassandi þá kveikir maður á fréttatímum og fréttaskýringaþáttum og fylgist með fréttum af athafnamönnum landsins og pólítíkusum, eða horfir á myndir af eldgosum og flóðum. Ef maður vill eiga rólegt og afslappað kvöld heima er fínt að horfa á venjulega hasarmynd, þar sem allt er í plati hvort sem er.
Fimm mest seldu bækurnar þessa vikuna skv. fréttum í morgun eru fjórir reyfarar og 9 binda skýrsla Rannsóknanefndar Alþingis. Ég skil reyndar ekki af hverju hún var ekki talin vera fimmti reyfarinn. Hér vorar nú með heimsmetstilraun í afsökunum ráðamanna fyrir að segja ekki af sér á sama tíma og þeir ásamt útrásarvíkingunum leitast nú við að endurreisa Ísland í óbreyttri mynd í þeirri trú að þeim takist að stinga hausum almennings í sand svo við sjáum ekki að það er enginn munur á gamla Íslandi og því nýja.

En í þessu stórkostlega landi þar sem lífið snýst nú um sögur af reyfarkenndri fjármálastarfsemi sem maður hlustar á undir gosdrunum og myndum af daglegum náttúruhamförum sem hafa orðið meiri áhrif á flugsamgöngur heimsins en óttinn við hryðjuverk, hefur þó enginn verið drepinn ennþá. Svo siðað er þetta samfélag háþróaðrar glæpastarfsemi að ennþá eru virt sum boðorðin. Það er meira en margar aðrar þjóðir geta sagt sem vaða um heiminn með manndrápum í friðsamlegum tilgangi. Vonandi tekst okkur að halda áfram sérstöðu okkar að þessu leyti.


mbl.is Aldrei áður jafn mikil röskun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband