Þetta er á réttri leið - Förum næst til London.
6.3.2010 | 16:38
Samtökin Nýtt Ísland standa sig vel. Þau mótmæla af krafti og hógværð í senn. Mótmælin virðast bæði markviss og friðsamleg. Ég vona að þessi samtök eigi eftir að halda áfram á þessari leið og finna upp á fleiri aðferðum í þessum dúr til að koma sínum sanngjörnu sjónarmiðum á framfæri.
Ég hef séð að sumir eru að kvarta undan því að ekki sé verið að virða friðhelgi heimilanna þegar þar er bankað upp á af Nýju Íslandi til að bjóða upp. Þetta eru nú léttvæg rök, þarna er bara verið að kynna áhrifavöldum hrunsins afleiðingar þess fyrir almenning. Eini munurinn er sá að þetta var í plati hjá Björgólfi, en almenningur lendir í þessu á hverjum degi í fúlustu alvöru.
Og það er verið að hafa áhyggjur af börnum á þessum heimilum sem Nýtt Ísland er að bjóða upp í plati. Auðvitað bitnar allt ástandið á börnum. Og það er ekki gott, en ég hef samt meiri áhyggjur af þeim börnum sem eru rekin út af heimilum sínum í alvöru af uppboðshöldurum, en þeim sem fá þessa sviðsetningu á húströppurnar hjá sér. En hefðu þessir útrásarvíkingar svokallaðir hugsað málið til enda hefðu þeir etv. velt því fyrir sér hvernig það bitnaði á börnum þeirra þegar svikin og prettirnir kæmust upp. Nú er alveg ljóst að starfsemin var með þeim hætti að hún hlaut að hrynja að lokum. En heimskreppan flýtti fyrir endalokunum. Ósvífnin og græðgin virðist bara hafa verið slík að þeim var alveg saman á hverjum þetta bitnaði, þeirra börnum eða öðrum. En þó vont sé að vandamálin bitni á börnum, þá hafna ég því alveg sem rökum fyrir því að hlífa þessum mönnum við mótmælum. Ef menn eru ekki kjarklausir aumingjar þá koma þeir bara sjálfir út á tröppurnar til að svara fyrir sínar syndir og hlífa þannig sjálfir börnum sínum.
Að mínu mati þarf að þróa þetta starf Nýja Íslands lengra. Það þarf að koma á laggirnar hópi sem getur mætt fyrir utan hjá þessu útrásarliði í London og farið að bjóða upp eða mótmæla þar. Það hefði miklu meiri áhrif að taka til aðgerða í hverfum efnafólks í London. Það mundi vekja heimsathygli og gera miklu meira gagn en að mótmæla hér á höfuðborgarsvæðinu. Það mætti líka mótmæla í fyrirtækjum sem þeir starfrækja í Bretlandi og annars staðar. Það þarf að vinna að því að þessir menn sem allir vita hverjir eru, séu teknir úr umferð í viðskiptalífinu, þar til þeir hafa bætt fyrir tjónið sem þeir hafa valdið og skilað illa fengnu fé. Slæmt umtal á réttum stöðum er vel til þess fallið að ná því markmiði.
Fóru að heimili Björgólfs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Karlfjandinn er svo mikill aumingi að hann þorir ekki að gangast við eigin verkum. Kennir alltaf öðrum um, bæði nú og áður fyrr.
Þessir drullusokkar hafa ansi margt á sinni samvisku, en verst er það að ég held að þeir hafi enga samvisku.
Hamarinn, 6.3.2010 kl. 17:01
Auðvitað ættum við að efna til hópferðar til London, út að morgni, heim að kveldi. Og mótmæla fyrir utan heimili þessara snillinga. Um leið myndum við vekja athygli á, að margir af þeim lifa í vellystingum í London, á meðan fjölskyldur, sem treystu og trúðu þeim, eru bornar út og hafa tapað öllu.
Það er ekki víst að Bretar geri sér grein fyrir hverslags fólk býr í landinu þeirra.
Börkur Hrólfsson, 6.3.2010 kl. 20:09
Það er ekki mögulegt að líða svona svik. Vonast til að heimurinn sjái þessa helgina hverskonar klíku-fjölmiðla-svik viðgangast hér á landi! M.b.kv. Anna
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.3.2010 kl. 23:18
Takk fyrir athugasemdirnar öll. Ég er sammála ykkur öllum. Kannski við getum fengið hagstætt tilboð í hópferðir frá FLugleiðum og Iceland Express? Eða líklega verðum við að leigja vélar frá erlendum félögum? Ef það er málið þá er ég í tengslum við menn sem kunna á svoleiðis viðskipti og er alveg til í að leita til þeirra með hópferðasamninga til London ef góð þáttaka fæst í þetta verkefni.
Jón Pétur Líndal, 7.3.2010 kl. 01:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.