Skera niður í innviðum kerfisins og óþörfum skuldbindingum.

Auðvitað þarf að ná þessum hallarekstri niður. Það geta flestir verið sammála um það. En það þýðir ekkert að gera það með skattahækkunum. Þó lagður yrði 100% skattur á öll útborguð laun í landinu (sem eru ca. 380 milljarðar á ári) þá dygði það varla til þegar búið verður að bæta við hallareksturinn okurvaxtagreiðslum og afborgunum af meintum erlendum skuldum þjóðarinnar vegna útrásarinnar.

Og úr því það þýðir ekki að gera þetta með sköttum þá er einungis um tvennt að ræða.

1. Að forðast allar óþarfa skuldbindingar eins og ESB, Icesave og aðrar persónulegar skuldir útrásarvíkinga og fyrirtækja þeirra. Í þessum málum þarf að verjast af hörku og sækja rétt almennings af krafti.

2. Niðurskurður er nauðsynlegur í ríkiskerfinu. Það er fullt af allskonar kollhúfum og undirtyllum og smákóngum og öðrum bitlingsþegum um allt í þessu kerfi sem má alveg losa frá því án þess að nokkuð þurfi að skerða þjónustu við almenning. Slík dæmi eru stöðugt í umræðunni. Dæmin allt of mörg. Allt frá úrskurðarnefndum sem enginn þarf að fara eftir til samninganefnda eins og Icesave nefndarinnar sem er búin að setja þjóðina í gíslingu með vitlausum samningi sínum.

Það er líka fullt af stofnunum sem eru óhagkvæmar og óþarfar og má ýmist sameina eða leggja niður. Það eru líka til stofnanir sem virðast m.a. hafa það að markmiði að þvælast fyrir almenningi, tefja mál og drepa hugmyndir. Þessar stofnanir hafa gjarnan það einkenni að innheimta himinhá gjöld og þóknanir fyrir alls kyns leyfi og vottorð. Þær hafa stundum tekið sér þann rétt að hafa vit fyrir þeim sem eru skyldaðir til að borga fyrir stimpilþjónustu þeirra. Mér dettur t.d. í hug nýtt dæmi Boga Jónssonar á Álftanesi, sem er búinn að berjast við Útlendingastofnun og fimm félagsmálaráðherra sem hafa brugðið fyrir hann allavega 12 löppum á undanförnum árum, bara til að drepa niður eina litla nuddstofu. Skv. nýjum úrskurði umboðsmanns Alþingis voru aðgerðir þessara aðila margólöglegar. Hvað skyldu nú margar rándýrar vinnustundir lögfræðinga og annarra starfsmanna hafa farið á kostnað skattborgara í þessar ólöglegu aðgerðir allra þessara aðila? Allt svona rugl er óþarfi nú á tímum þegar almenn atvinnustarfsemi er að verða sjálfdauð.

Þannig að ef Jóhanna er búin að átta sig á að það þarf að koma jafnvægi á rekstur ríkisins, þá er af nógu að skera í öllum ráðuneytum og stofnunum og alls konar músarholum í þessu ríkiskerfi okkar.


mbl.is Verður að ná niður hallarekstri ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband