Beint lýðræði 2520 ára á þessu ári. Þótti strax í upphafi of lýðræðislegt fyrir þá sem öllu vildu ráða.

Það var í kring um árið 510 fyrir Krists burð að Aþeningar tóku upp beint lýðræði fyrstir jarðarbúa að talið er. Þetta var að vísu ekki beint lýðræði fyrir alla, það voru bara karlmenn 18 ára og eldri, innfæddir Aþeningar, sem máttu greiða atkvæði. Á þessum árum voru Aþeningar taldir vera um 300 þús alls eða álíka margir og Íslendingar eru núna. Þegar konur, börn, 100 þús. þrælar, innflytjendur og aðrir óatkvæðisbærir voru frátaldir voru það þó um 50-60 þús. menn sem höfðu atkvæðisrétt og tóku þátt í hinu beina lýðræði.

Til að hægt væri að framkvæma beint lýðræði á þessum árum þurfti samfélagið (í þessu tilfelli borgríki) að vera nægjanlega samþjappað til að fólk gæti mætt á fundi og tekið þátt í atkvæðagreiðslum. Og svo þurfti það að vera nægjanlega sjálfstætt og frítt frá vinnu til að geta gefið sér tíma í þessa pólitík. Þar komu þrælarnir að góðum notum. Þeir sáu um vinnuna fyrir húsbændur sína og skópu þeim þannig tíma til að sinna pólitík.

Við innrás Rómverja í Aþenu lagðist lýðveldið af og herveldi Rómar réði ríkjum á svæðinu. Beint lýðræði var að vísu síðar tekið upp í nokkrum borgríkjum í Rómarveldi þar sem aðstæður leyfðu þetta fyrirkomulag. Og á 13. öld var þetta lýðræðisfyrirkomulag notað um skeið í Sviss. En almennt þótti þetta of lýðræðislegt fyrir stjórnvöld, þau vildu stjórna lýðræðinu og gátu það ekki ef allir voru þátttakendur í því. Þess vegna var það meira að segja aflagt þar sem hægt var að stjórna með því.

En lýðræði hefur að mestu þróast í þann farveg á undanförnum árþúsundum að fulltrúar hafa verið kosnir fyrir almenning, kallað fulltrúalýðræði. Þetta er einhvers konar millistig lýðræðis sem varð fyrir valinu af skiljanlegum ástæðum. Alls staðar utan smárra borgríkja var þetta eina leiðin um þúsundir ára til að framkvæma einhvers konar lýðræði. Það gátu ekki allir tekið þátt í stjórnun og ákvörðunum vegna þess að vinna leyfði það ekki, fjarlægðir leyfðu það ekki. Aðstæður hreinlega buðu ekki upp á það. Þá var skástur kostur að kjósa einn mann fyrir hvert hérað eða ætt eða stjórnmálaflokk seinna meir eða hvernig sem þessu var ráðið í hverju landi, til að fylgja eftir málum sinna umbjóðenda og taka þátt í lagasetningu og stjórnun landa.

Nú eru löngu komar aftur forsendur til að praktísera lýðræði eins og það var hugsað í upphafi. Upphaflega hugsunin á bak við lýðræði er beint lýðræði, að allur lýðurinn taki ákvarðanir. Allt annað en það er ekkert lýðræði. Fulltrúalýðræði er ekki það sama og lýðræði. Fulltrúalýðræði er einungis úrelt miðaldafyrirkomulag sem var tekið upp sem málamiðlun milli lýðræðis og einræðis af því aðstæður buðu ekki upp á lýðræði. Í dag er almenningur vel menntaður, vel upplýstur og tæknivæddur til að taka þátt í beinu lýðræði. Það er ekki meiri vandi fyrir almenning á Íslandi að taka þátt í lýðræðislegri stjórnun landsins en að fá sér kaffisopa á morgnana. Samt er ennþá haldið í löngu úrelt miðaldafyrirkomulag á stjórnun landsins og fólki talin trú um að það sé lýðræði.

Því miður þá spilla völd eins og sagt er. Stærsta spillingin á Íslandi er sú að völd eru nú notuð til að taka lýðræðið algerlega af þjóðinni. Þjóðinni er sagt af ólýðræðislegum stjórnvöldum að hún sé bara samsafn hálfvita sem hafi ekkert vit á landsmálum og sé ekki hæf til að taka þátt í að ákveða niðurstöðu mikilvægra mála sem geta varðað hag okkar um langa framtíð. Glæpamenn sem hafa steypt landinu í fjárhagslega glötun hafa keypt upp stjórnmálaflokkana. Þeir sem mótmæla spillingunni og lágkúru Alþingis eru ákærðir og skulu í fangelsi. Þetta er ekkert lýðræði, enda er ekki lýðræði á Íslandi núna. Það er okkur til skammar sem státum af elsta þjóðþingi í heimi að hafa glutrað niður lýðræðinu. Af hverju stöndum við ekki í lappirnar og komum alvöru beinu lýðræði í framkvæmd. Það er eina raunverulega lýðræðið og nú eru kjörskilyrði til þess, eins og fyrir gróður í votri hitabylgju að vori. Nú er til staðar almenn þekking, tækni og tími, að taka upp lýðræði á Íslandi.

Við erum ekkert vitlausari en Aþeningar voru fyrir 2520 árum. Tökum nú forystu í lýðræðisumbótum í heiminum og innleiðum alvöru lýðræði á Íslandi. Ég veit að þetta er of lýðræðislegt fyrir þá sem vilja ekki lýðræðislegt stjórnarfar. Hér eru einræðisherrar til hægri og vinstri í pólitík, kostaðir af alls konar ólýðræðislegum öflum sem munu berjast móti lýðræði. En þetta ólýðræðislega stjórnarfar höfum við haft frá fyrsta degi á Íslandi og nú hefur það komið okkur í þá stöðu sem við erum í. Því ættu menn að hugleiða að uppfæra þetta nærri 1200 ára gamla fyrirkomulag okkar sem nánast ekkert hefur breyst á öllum þessum öldum. Það hefur fyrr þótt ástæða til að endurbæta eða endurnýja 1200 ára gamla hluti. Tökum okkur saman um að koma á beinu lýðræði, hinu raunverulega lýðræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband