Spilling, leynd og þagnarskylda.
10.12.2009 | 17:40
Ekki ætla ég að gagnrýna Hæstarétt mikið fyrir þennan dóm þó ekki sé ég hrifinn af því að dómstóllinn sé um leið að hjálpa þeim að verja sig sem eitthvað hafa að fela með vafasömum athöfnum í fjármálafyrirtækjum. En dómurinn er vafalaust vel grundaður á lögum þeim sem eiga við í þessu máli þannig að ekki er við Hæstarétt að sakast þó hann fari að lögum.
Hins vegar ætla ég að hvetja ríkisstjórnina til að endurskoða nú rækilega lagasetningu sem snýr að hvers konar leynd og þagnarskyldu. Við höfum lært það á hverjum degi undanfarið ár að spilling og vondir og ólöglegir viðskiptahættir á ýmsum sviðum þrífast vel í skjóli leyndar og þagnarskyldu.
Það hlýtur að vera hægt að byggja hér upp viðskiptaumhverfi af því tagi að það þoli dagsljósið og þurfi ekki að vera varið með leynd og þagnarskyldu af ýmsu tagi, ég legg allavega til að þetta verði haft að leiðarljósi á Alþingi nú þegar til stendur að endurskoða ýmis lög og lagaákvæði á þessu sviði.
Sekt fyrir að afhenda trúnaðarupplýsingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ertu að leggja til að birgjum og smásölum sé gert skylt að segja frá álagningu sinni opinberlega? Það væri nú rosalega gott fyrir samkeppnina. Staðreyndin er sú að bankaleynd er góð, hana er hins vegar hægt að misnota. Sá möguleiki að hún hafi verið misnotuð eru ekki nógu góð rök fyrir að leggja hana niður, heldur mun frekar rök fyrir því að bæta kerfið.
Blahh (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 19:27
Það er einhver " ólykt " af þessu .
Jafet er strangheiðarlegur maður .
Kristín (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 19:45
Sæl verið þið Blahh og Kristín og takk fyrir athugasemdirnar.
Ég er nú reyndar nokkuð sammála þér Kristín um Jafet að því leyti að ég hef nú ekki haft þá tilfinningu fyrir honum að hann sé óheiðarlegur. En Hæstiréttur hefur nú samt komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi brotið lög. Þannig að Jafet hefur allavega stigið feilspor, hvort sem því veldur nú óheiðarleiki, rangt mat á því sem hann var að gera eða eitthvað annað.
Blahh. Ég sé nú í raun ekki hvað er gott við bankaleynd, en ef hægt er að færa rök fyrir því eða benda á dæmi þá væri það gott innlegg í umræðuna.
Og ekki sé ég hvað það gerði til þó birgjum og smásölum væri gert að segja frá álagningu sinni opinberlega, þó ég hafi nú ekki haft það í huga þegar ég setti inn þessa færslu.
Það sem ég hef aðallega í huga varðandi leynd og þagnarskyldu er þetta:
Þessar reglur eru notaðar til að stunda markaðsmisnotkun.
Þessar reglur eru notaðar til að halda upplýsingum frá almenningi sem þó er látinn bera fulla ábyrgð á rekstri banka og ríkis.
Þessar reglur eru notaðar af opinberum aðilum til að fela orkusölusamninga vegna stóriðju.
Þessar reglur eru notaðar í bönkum til að mismuna fyrirtækjum í viðskiptum við bankana.
Þessar reglur eru notaðar til að loka af upplýsingar um aðkomu stjórnmálamanna að ýmsum málum.
Svona má eflaust lengi áfram telja.
En þetta gengur því miður ekki, því ef almenningur á alltaf að bera hina endanlegu ábyrgð á fjármálakerfinu og stjórmálunum verður hann að hafa upplýsingar til að geta lagt rétt mat á málin. Það þýðir ekkert að segja að menn geti gert upp sakirnar við ráðamenn í kosningum ef leynd og þagnarskylda veldur því að almenningur hefur aldrei neinar staðreyndir fyrirliggjandi til að kjósa eftir. Þess vegna er þessi leynd og þagnarskylda bein ógn við lýðræði og þannig líklega andstæð stjórnarskránni.
Jón Pétur Líndal, 10.12.2009 kl. 20:09
Jahh punkturinn með birgja ag smásala var nú aðallega til að benda á hvaða áhrif fullkomlega frjálsar upplýsingar hafa, ég var greinilega ekki nógu skýr. Við sem samfélag, höfum Samkeppnisstofnun sem á að koma í veg fyrir að viðkvæmar upplýsingar fyrirtækja fari ekki á milli til annarra fyrirtækja í sama geira. Takir þú fyrir alla bankaleynd hefurðu gefið öllum fyrirtækjum landsins miklar upplýsingar um keppinauta sína, þetta skapar ástand þar sem allir geta fullkomlega spáð fyrir um viðbrögð keppinauta sinna við t.d. verðsamkeppni. Ef þú veist fyrirfram hvað þú getur búist við að tala miklu á verðsamkeppni, og þú sérð að þú átt eftir að tapa miklu, þá ferðu ekki út í verðsamkeppni. Það sem ég er að segja er að óvissa er í sumum tilfellum góð fyrir samfélagið.
Augljóslega vilt þú sjálfur heldur ekki að þínar persónulegu debetkortafærslur séu aðgengilegar hverjum sem er. Það sama gildir um fyrirtæki.
En eins og ég sagði, vissulega eru vandamál við leyndina en vandamálin við fullkomnar upplýsingar er enn stærra.
Blahh (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 00:35
Sæll Blahh. Takk fyrir þessa athugasemd. Það er nú hægt að komast nokkuð langt í upplýsingaöflun um ýmsan rekstur með því að skoða ársreikninga félaga sem öllum eru aðgengilegir hjá Ríkisskattstjóra í styttri útgáfu, veðbókarvottorð frá sýslumönnum og fleiri gögn. En ég get líka fallist á að óþarfi sé að allt sé öllum aðgengilegt, niður í stakar færslur, enda er ég nú ekki beinlínis að segja það í minni færslu. Aðalatriði er að það sem almenningur ber ábyrgð á sé honum nægilega opið til að alltaf sé hægt að skoða þar allt sem máli skiptir. Þar er bankaleynd og þagnarskylda notuð til að fela margt misjafnt og ógna þeim sem vilja leka upplýsingum um ólögleg viðskipti.
Jón Pétur Líndal, 11.12.2009 kl. 07:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.